Færsluflokkur: Bloggar
23.11.2011 | 23:22
Miðvikudagur 23. nóvember 2011 - Standup, kjólar og Kárahnjúkavirkjun
Helstu fréttir héðan eru þær að sonur minn er farinn að standa upp einn og óstuddur í rúminu sínu ... þeir dagar að maður geti bara hent honum inn í rúm og málið er afgreidd eru liðnir.
GHPL er í miklu "nei-stuði" þessa dagana ... kannski ekkert nýtt ... en það er hér um bil nákvæmlega sama hvað maður segir svarið er ávallt og eilíflega "nei". Það er samt ekki svo að hún fáist ekki til að gera hlutina ef maður fylgir fast á eftir. Þetta er einhvern veginn meira í nösunum á henni.
Sokkabuxur og kjóll eru aðalmálið og þegar stungið er upp á buxum fær maður eitt stórt "NEI" í andlitið. En málið er að sjálfsögðu ekki það einfalt að hægt sé að færa stúlkunni hvaða kjól og hvaða sokkabuxur sem er. Ónei ... það eru bara tveir kjólar og tvennar sokkabuxur sem koma til greina. Þessi þvermóðska í dótturinni fer brátt að verða til vandræða, því kjólarnir eru orðnir svo stuttir að þeir eru meira að verða eins og blússur og sokkabuxurnar svo snjáðar að þær eru orðnar gagnsæjar.
En dóttirin gefur sig bara ekki með þetta.
Í dag og síðustu daga hef ég mikið verið að spá í streitu, enda verið að taka sama efni um það merkilega fyrirbæri, sem af náttúrunnar hendi er varnarmekanismi til að auka lífslíkur fólks en hefur svo ærlega snúist upp í andhverfu sína að hún er orðin ein helsta heilsufarsógn nútímasamfélaga.
Já, og svo annað ... ég hef svolítið verið að fylgjast með umræðunni um Kárahnjúkavirkjun. Um arðsemi virkjunarinnar eða öllu heldur ekki arðsemi virkjunarinnar. Ég verð bara að segja það fyrir mig að þessi framkvæmd er örugglega sú brjálaðasta sem átt hefur stað á Íslandi og þó víðar væri leitað.
Og nú blasir ískaldur veruleikinn við ... eftir að búið er rústa stærsta óraskaða víðerni Evrópu er niðurstaðan sú að þetta er ömurleg fjárfesting. Málið snerist, eins og raunar hefur alltaf verið vitað, ekki um neitt annað en vinsældir arfaslakra stjórnmálamanna, undir þeim formerkjum að halda þyrfti hjólum atvinnulífsins gangandi ... þvílíkir sökkerar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2011 | 23:30
Mánudagur 21. nóvember 2011 - Allir undir borðum
Var á frábærri hljómsveitaræfingu í kvöld. Hrikalega gaman ... af hverju er maður ekki bara tónlistarmaður í stað þess að vera í þessu sálfræðidæmi ... ?!?
Gæti alveg vanist því að vera bara að vesenast í einhverju músikdæmi.
Jæja ...
---
Ég ræddi um að GHPL væri að taka stökk þessa dagana. PJPL er líka að taka stökk þessa dagana og dagurinn í dag er dagurinn sem hann fór að hreyfa sig eitthvað af viti um stofugólfið. Af viti segi ég? Það var nú reyndar ekkert af viti sem hann hreyfði sig því hann reyndi sér undir allt sam hann gat komið sér undir.
Hann tók sumsé systur sína til fyrirmyndar með því að vera að hnoðast undir borðum (sjá í þessu samhengi færslu gærdagsins).
Í kvöldmatnum sagðist Guðrún ekki ætla að borða neitt, greip þess í stað smjördolluna og fór með hana inn í stofu þar sem hún settist til að fara að horfa á sjónvarpið. Svo var smjörhnífnum dýpt á kaf í smjörið og vænn smjörhlunkur fór þvínæst upp í þá stuttu.
Svo var bakað í kaffitímanum ... já og öllum bestu vinunum raðað upp á borðbrúnina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2011 | 23:01
Sunnudagur 20. nóvember 2011 - Íbúð fundin!!
Jæja, þar kom að því ... loksins fengum við íbúð hér í Uppsala. Loksins!!
Það bara mjög fína, hér um bil tvölfalt stærri en sú sem við búum í núna eða tæplega 90 m2. Þannig að maður getur núna bara slegið um sig ...
Áður en við fengum þessa vorum við reyndar komin með annað húsnæði. 25 m2 á tveimur hæðum. Ég verð bara að segja það fyrir mig að mér fannst nú húsakosturinn vera að stefna í að verða ansi þröngur.
Tilfellið er bara að það er ótrúlega erfitt að fá húsnæði hér í Uppsala.
Það eru að vísu tveir mínusar við þetta. Sá fyrri er að við höfum húsnæðið bara í 7 mánuði og hinn er að staðsetningin er í hinum enda bæjarins miðað við núverandi staðsetningu, sem þýðir dálítil ferðalög með GHPL á leikskólann. En skítt með þetta!
Við erum afar sátt við þetta.
---
Þristurinn er kvefaður þessa dagana. Ofan á þau ósköp kemur svo tanntaka. Já, PJPL er að fá þriðju tönnina þessa dagana, þá fyrstu í efri góm.
Gengur mikið á af þessum sökum. T.d. var lítill svefnfriður gefinn í nótt. Hann var því svæfður með klóróformi í kvöld.
---
GHPL fer töluvert mikinn þessa dagana. Mér finnst vera eitthvað stökk núna í gangi hjá henni. Svona vitsmunalegt stökk. Hún er allt í einu farin að skilja svo miklu meira en hún gerði bara fyrir nokkrum dögum.
Hún er líka farin að taka upp á ýmsu sem ekki hefur sést áður. Eitt af því að vera alltaf að skríða undir borð. Það má varla sjást borð öðruvísi en undir það sé skriðið. Undir borðum er svo ýmislegt brallað, s.s. að láta Strumpa éta epli eða skrifa á gólfið, nú eða slökkva á rafmagnsmillistykkjum eins og hún gerði í dag þegar Lauga var að tala við ömmuna á Sauðárkróki. Allt í einu slokknaði bara á öllum heila "sýsteminu". GHPL hafði þá verið að prófa að slökkva appelsínugula ljósið.
---
Læt þetta duga í bili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2011 | 23:37
Laugardagur 19. nóvember 2011 - Bullið á landsfundi
Ég slysaðist inn á útsendingu frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar ég var að kíkja á fréttirnar á mbl.is síðdegis í dag
Af einhverri óskiljanlegri ástæðu lagði ég við hlustir í smástund. Meðal efnis voru einhverjar mínúturæður frá landsfundarfulltrúum þegar þeir sögðu skoðun sína á því hvort ætti að senda einhverja tillögu frá framtíðarnefnd flokksins í frekari vinnslu eða greiða um hana atkvæði á fundinum. Þar töluðu menn hver um annan þveran.
Jæja, svo þegar þessum "umræðum" lauk, gekk í púltið Hanna nokkur Birna Kristjánsdóttir frambjóðandi í formannssæti. Hún talaði í dágóða stund og ég hlustaði.
Ég veit eiginlega ekki hvað á að segja um þessa ræðu hennar. Það er bara eins og Hanna Birna, já og aðrir sjálfstæðismenn séu bara alveg búnir að gleyma því hverjir stjórnuðu landinu á árunum 1991 - 2008.
Hún talaði eins og öll þjóðin stæði alveg á öndinni yfir því að fá Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Fólk gæti bara varla beðið. Hún nefndi einnig að margir segðu að flokkurinn væri í sókn en sjálf sæi hún það ekki því allar skoðanakannanir síðastliðna 15 mánuði sýndu 36% fylgi. Því miður láðist henni alveg að nefna hvert svarhlutfallið var í þessum könnunum. Var það 50%, 60% eða 70%? Það hlýtur að skipta höfuðmáli þegar rætt er um þessi 36%.
Svo ræddi hún um að hvað ríkisstjórnin væri ömurleg og aðeins 14% þjóðarinnar treystu henni til góðra verka. Það verður þó að segja Hönnu Birnu til hróss að hún tók það fram að traustið til stjórnarandstöðunnar væri nú svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir. Eða 13%.
Mér er það hulin ráðgáta hvernig Hanna Birna fær það reikningsdæmi til að ganga upp að þjóðin sé að bíða eftir að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda en aðeins 13% treysti honum þó til þess (já og gleymum því ekki að Framsóknarflokkurinn og Hreyfingin eiga sjálfsagt nokkrar kommur í þessum 13%).
Eftir þessa þversagnarkenndu ræðu Hönnu Birnu steig formaðurinn í ræðustól. Hann var ekki búinn að tala lengi þegar reiknikúnstirnar byrjuðu.
Árið 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 33% á landsvísu og árið 2007 fékk hann 36% á landsvísu. Stórglæsilegt? Já vissulega. Svo bætti formaðurinn við að hann hefði haft það á stefnuskrá sinni sem formaður að endurreisa fylgi flokksins eftir háðuglega útreið árið 2009. Og já, þá kom rúsínan í pylsuendanum ... hann sagði að nú þegar væri því takmarki náð?!?
Það var á þessum tímapunkti í ræðu formannsins sem ég slökkti. Ég gat ekki hlustað á meira rugl.
Hvernig hann fær það út að búið sé að ná takmarkinu á nýjan leik? Hefur verið kosið aftur til alþingis á Íslandi síðan 2009? Svarið við því er nei.
Hvernig getur hann þá sagt að búið sé að ná aftur sama kjörfylgi og árið 2007? Sennilega með því að líta til sömu skoðanakannana og Hanna Birna vísaði til. Þessara sem segja Sjálfstæðisflokkinn með 36% fylgi.
Í gamni kíkti ég á Þjóðarpúls Gallup frá 8. nóvember sl. Viti menn, Sjálfstæðisflokkurinn er með 36% en þó aðeins meðal þeirra sem tóku afstöðu sem voru 61,5%. Það er eitthvað um 25% kjörfylgi sem er litlu betra en niðurstöður kosninga 2009 sýndu. Það er nú öll sóknin og allur árangurinn.
Svo ákvað ég að hlusta aðeins á ræðu Davíðs Oddssonar. Mér, eins og mörgum öðrum, finnst Davíð Oddsson dálítið skemmtilegur. Á því var engin breyting í dag, ólíkt hrútleiðinlegum ræðum þeirra sem standa í formannsslagnum.
Á máli Davíðs mátti skilja það að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert haft með hrunið að gera og björgun Íslands frá því að fara ekki lóðrétt til helvítis hefði fyrst og fremst verið vegna fumlausra vinnubragða og skynsamlegra ákvarðana Sjálfstæðisflokksins. Frá því að sú neyðarbjörgun, sem heppnaðist fullkomlega að mati DO, fór fram, hefði ekkert verið gert af viti af hálfu ríkisstjórnarinnar og mikilvæg tækifæri farið í súginn.
Þessi stjórnmálaflokkar eru eins og trúarhópar. Þarna í Laugardalshöll sitja 1000 manns eða fleiri og það virðist bara vera hægt að segja blákalt hvaða bull sem er. Höfuðið er á kafi ofan í sandinum og veruleikinn skrumskældur. Öllu þessu lýkur svo með dúndrandi lófataki og fólk klappar á bak og óskar hvort öðru til hamingju með að hvað allir á samkundunni og flokknum séu frábærir og hvað það sé nú frábært að vera hluti af þessari æðislegu fjölskyldu ... og blabla ...
... og Sjálfstæðisflokkurinn er lagt frá því eini flokkurinn sem svona er komið fyrir ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.11.2011 | 23:30
Fimmtudagur 17. nóvember 2011 - Tvær Stokkhólmsferðir í dag
Þessi dagur hefur liðið alveg sérdeildis hratt ...
Lauga skrapp til Stokkhólms með Þristinn til að redda honum vegabréfi. Það gekk að sögn, bara alveg bærilega ... og mun vegabréfið berast eftir viku.
Og um leið og hún kom aftur heim, fór hún aftur út með dótturina í danstíma. "Strákarnir eru alltaf að slást" er megininntakið í því hvað sé að gerast í danstímunum. GHPL er farin að taka þátt en þó með því skilyrði að Lauga sé inni í dansherberginu og standi mjög nærri henni.
"Ég veit ekki hvernig þessi sýning verður", sagði hún þegar hún kom til baka. "Kennarinn ræddi um það að kannski þyrfti ég bara að dansa með á sýningunni ... æi ég veit það ekki".
Í kvöld skrapp ég á hljómsveitaræfingu í Stokkhólmi. Sú æfing var vægast sagt ekki upp á marga fiska og ég er að spá í að segja skilið við þessa ágætu snillinga og einbeita mér bara að hljómsveitinni sem ég að vinna með á mánudagskvöldið ... þeir eru ansi góðir ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2011 | 00:02
Miðvikudagur 16. nóvember 2011 - Fréttastund af GHPL og PJPL
Guddan stóð sig frábærlega í leikfimitímanum í dag. Hljóp eins og fálki í stórfiskaleiknum og fór mikinn í stöðvaþjálfuninni.
Þess á milli var hún í að stríða hinum með því að taka einhver bönd sem voru á gólfinu, sem meiningin var að hoppa yfir, og draga þau út á mitt gólf. Við það fór allt "systemið" í kerfi ... og GHPL hló að öllu saman.
Hún var hinsvegar ekki jafnhress þegar við vöktum hana í morgun. "Rugl, rugl, rugl" sagði hún aftur og aftur á meðan hún barðist við að opna augun. "Æææaaaaahhhhh" endurtók hún svo í sífellu þar sem hún sat við eldhúsborðið með hönd undir kinn.
Já þetta var erfiður morgun fyrir fröken Guðrúnu.
Annars er hún mikið í hlutverkaleik ... hér á heimilinu hafa allir sitt hlutverk og verið löngum stundum er að berjast við dreka. Þess á milli leikur móðir hennar við hana í Strumpaleik, þar sem hún og þrjár Strympur eiga við móðurina, Kjartan galdrakarl og köttinn Brand.
Og svo er það kisukjóllinn. Það fyrsta sem gert er þegar komið er heim af leikskólanum er að rífa sig úr öllum fötunum og fara í kisukjólinn ... en kisukjóllinn er bleikur náttkjóll með glöðum ketti á framhliðinni.
---
Af bróðurnum er það að frétta að hann er afar hress og á sífelldu iði þegar hann er vakandi. Annars vekur það mesta furðu hversu tíð bleyjuskipti þarf að hafa á blessuðu barninu. En kannski er það ekki svo skrýtið þegar litið er til þess magns sem etið er ... þetta er bara einhvern veginn alveg glæný reynsla fyrir okkur Laugu, enda hemasætan hér afar létt á fóðrum og hefur alltaf verið, eins og frægt er orðið.
Þar er annað sem skilur blessuð börnin að en það ólík afstaða þeirra til þess að láta klæða sig. Þegar GHPL var á svipuðum aldri og PJPL er nú, var leikur einn að klæða hana. Fötin gjörsamlega runnu bara á hana. Jafnvel var haft á orði að hún gæti næstum klætt sig sjálf.
En nafni er algjörlega á öndverðum meiði ... og verður afar óhress þegar verið er að færa hann í föt og slæst um á hæl og hnakka og öskrar helst samtímis.
Ég hef reynt að koma honum í skilning um það, án árangurs ennþá í það minnsta, að hann sé hvorki að gera sitt líf né mitt eða móður sinnar auðveldara með þessum fjárans djöfulgangi. Ég vona að það skiljist einhvern tímann.
Hans helsta dægradvöl að er eiga við svona tæki sem er með mörgum tökkum og spilar alls konar lög þegar stutt er á takkana. Á þessu tæki djöflast hann, lafmóður af ákafa, þangað til ég er orðinn lafmóður af leiðindum að hlusta á þetta spilerí.
Áður en ég gríp þó inn í, er hann iðulega búinn að koma sér í vandræði og óhætt að segja að kostulegt geti verið að fylgjast með honum reyna að koma sér úr vandræðunum með tilheyrandi stunum og barningi, á sama tíma og glaður leikur "spiladósarinnar" hljómar enda pat piltsins svo mikið og tilviljanakennt að hann kemst ekki hjá því að styðja endrum og eins og takka "dósarinnar", sem þá tekur til óspilltra málanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2011 | 23:16
Mánudagur 14. nóvember 2011 - Andleysi á blogginu
Jæja ... þá gæti verið að eitthvað sé að rætast úr þessum hljómsveitarmálum hjá mér. Eftir um 6 mánaða leit.
Reyndar er það svo að þrjár hljómsveitir hafa sett sig í samband við mig. Ég fór á æfingu hjá einni í kvöld. Fín æfing. Bara frumsamið efni á dagskrá. Bara þrusugott efni að mínu mati. Rokk og ról að sjálfsögðu með "seventies"-yfirbragði.
Ég ætla að taka vikuna í að læra eins og fimm lög og mæta næsta mánudag og negla þetta. Það verður gaman.
---
Í dag var boðað til foreldrafundar við okkur Laugu vegna Guðrúnar. Tilefnið er að hún er að segja svo margt á leikskólanum sem enginn þar skilur, og nú eigum við að mæta og útskýra það sem sagt er. Það verður vægast sagt fróðlegt, vænti ég.
---
Svo var einhver stórleikur sem GHPL átti í dag. En því miður er mér gjörsamlega fyrirmunað að rifja atvikið upp. Og Lauga er farin að sofa þannig að það er engin hjálp í henni.
Ég verð bara að segja að ég er gjörsamlega andlaus til bloggskrifa eins og er ...
...
Stundum er þetta bara svona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2011 | 23:48
Sunnudagur 13. nóvember 2011 - Fínn sunnudagur
Þetta er búið að vera ögn annasamur dagur ... jæja og þó ... varla kallast það annir að fara í heimsókn og láta stjana við sig eins og við gerðum í morgun þegar við heimsóttum Gunnar og Ingu Sif.
Góð heimsókn.
Skruppum í göngutúr í Sunnerstabacken á eftir. Þar brugðum við feðginin undir okkur betri fætinum og fórum í "fjallgöngu".
Við komum við á kaffihúsi á leiðinni heim ... smá kakó og með'í ...
Þá var skroppið í bað ... og lögn á eftir ...
Meðan ormarnir sváfu unnum við í hinum ýmsu verkefnum. T.d. uppfærði ég heimasíðuna mína og heimasíðu teiknistofunnar hennar mömmu.
Ég veit ekki alveg hvað Lauga var að gera á meðan ... sennilega að búa til túnfiskssalat ...
Og þegar allir voru farnir að sofa eða svona um það bil, lagðist ég í skriftir og skilaði af mér einni síðu til birtingar í Sumarhúsinu og garðinum. Grein um sálfræðileg áhrif vatns og fiskabúra. Bara fín grein held ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2011 | 22:39
Laugardagur 12. nóvember 2011 - Smá myndasúpa
Þessi dagur hefur að mestu leyti farið í vinnu hjá mér. Skrifa, skrifa og skrifa.
Lauga, Þristurinn og Guddan skruppu niður í bæ í dag að hitta vini. Mér skilst að það hafi bara verið mjög skemmtilegt.
Ég ætla að redda mér í kvöld með smá myndasúpu ... þetta eru myndir sem teknar hafa verið á allra síðustu dögum.
Þær eru pínu óskýrar vegna þess að ekki var haft fyrir því að þurrka fingraför dótturinnar af linsunni ... ekki fyrr en síðasta myndin var tekin (enda má sjá ofurlítinn gæðamun á þeirri mynd í samanburði við hinar) ...
GHPL rifjar upp gamla takta
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2011 | 00:13
Föstudagur 11. nóvember 2011 - Vísur og standup
Eftirfarandi vísu söng GHPL grafalvarleg í kaffinu í dag:
Afi minn og amma mín
keyra kassabíl
þau eru bæði sykur og brauð
þangað vil ég fljúga
Það er eins og textinn hafi eitthvað skolast pínu til í höfðinu á henni, en flutningurinn var mjög glæsilegur í alla staði.
Eftir þennan kveðskap söng hún "Adam átti syni sjö" ... óhætt er að segja að textinn hafi skolast allverulega til í þeim flutningi. Svo mikið að ógerlegt er að hafa það eftir af einhverju viti.
Á meðan GHPL þvælir út og suður með íslenska texta, reynir bróðir hennar herra PJPL að brölta við að komast upp á lappirnar með sæmilegum árangri. Hann er samt engan veginn búinn að átta sig á hversu ofurvaltur hann er, því hann eftir að hafa halað sig upp með dyggri aðstoð hinna ýmsu hluta, hikar ekki við að sleppa haldreipinu án þess að velta mikið fyrir sér afleiðingunum.
---
Að öðru leyti er allir við hestaheilsu og bara glaðir og fjörugir.
Engin stórkostlega kraftaverk áttu sér stað á þessum merkisdegi 11.11.11 en þó get ég sagt að kl. 11:11:11 lá ég í stutta stofustófanum með fartölvuna í fanginu og vann við endurbætur á grein sem ég er að leggja lokahönd á.
Alveg nauðsynlegt að hafa þetta "dokjumenterað".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)