21.3.2008 | 08:18
Melbourne - Dagur 1
Ferðin til Melbourne síðustu helgi var góð.
Eftir fremur svefnlausa ferð með næturlestinni frá Sydney til Melbourne, rann lestin í mark um kl. 7.30 að staðartíma.
Án frekari bollalegginga var hringt í móðursystur Crightons, sem ber hið góða nafn Beverly. Hún sagðist vera reiðubúin að ná í okkur á lestarstöðina Mount Waverly, sem er í 40 mínútna fjarlægð frá miðbæ Melbourne.
Það voru ekki dónalegar móttökurnar sem við fengum hjá Bev, eins og hún er kölluð. Uppábúin rúm og góður morgunverður, jógúrt, egg og brauð.
Eftir að hafa sporðrennt því öllu saman og spjallað við húsráðanda, heimtaði Lauga að fá að leggja sig í klukkutíma ... sem var náttúrulega auðsótt mál ... hvað annað??
Upp úr hádegi var haldið aftur af stað með lestinni niður í bæ. Við hoppuðum út á Flinders- brautarstöðinni, fullkomlega tilbúin að takast á við verkefnið.
Við gengum svo í hægðum okkar niður að Yarra-ánni, sem rennur ljúflega um miðbæ Melbourne, og austur með árbakkanum. Það má svo geta þess hér að Melbourne varð til á bökkum þessarar ár fyrir ekki svo mörgum árum. Ekki svo að skilja að þar hafði verið mannlaust þegar bresku landnemarnir komu, því frumbyggjar höfðu búið við ána og í næsta nágrenni hennar í meira en 50.000 ár!!
Frá bökkum Yarra-árinnar
En jæja, engir sáust nú frumbyggjarnir á þessu rölti okkar, enda löngu búið að flæma þá í burtu. Það sem hinsvegar sást var nánast segilslétt á, töluvert af gróðri og háar byggingar til beggja handa. Andrúmsloftið var fremur rólegt, og mjög ólíkt því sem gerist í Sydney, þar sem maður hefur einhvern veginn alltaf á tilfinningunni að rosalegir hlutir séu um það bil að fara að gerast.
Hitinn var vel þolanlegur, líklega um 30°C, og við ákváðum að fá okkur sæti og svolítið í gogginn. Við völdum stað í skugga undir trjánum til að verjast sterkri sólinni. Allt svo undurfriðsælt og notalegt.
Adam var þó ekki lengi í Paradís, því fljótlega flugu yfir tvær orustuflugvélar með slíkum ógnargný, að manni var varla vært. Í töluverða stund sveimuðu þær yfir hausamótunum á okkur.
Reynt að hafa það notalegt þrátt fyrir hávaðann
Og þegar þær höfðu lokið sér af, tók varla betra við. Tímataka í Melbourne-kappakstrinum, hinni sívinsælu Formúlu 1. Ég leit á kortið og sá að Albert Park, þar sem kappaksturinn fór fram, var í meira en 2 km beinni loftlínu frá viðkomustað okkar við Yarra-ána. Hljóðin voru samt slík að maður hefði vel getað verið með eyrað upp við púströrið á einhverjum kappakstursbílnum.
Samt var eitthvað heillandi við þetta. Mér fannst ég svo sannarlega vera staddur þar sem hlutirnir voru að gerast ... og allur heimurinn að horfa.
Við ákváðum því að setja stefnuna á Albert Park, en til þess að komast þangað þurftum við að þvera grasagarð Melbourne-borgar. Það var gert í fljótheitum ... þessi grasagarður er mjög fínn ... en nóg um það.
Úr grasagarðinum
Við flýttum okkur sem mest við máttum ... eins og gefur að skilja var það kannski ekkert rosalega hratt, þar sem vanfærar konur verða að fara varlega ... og þó, það var nú bara góður gangur á þessu hjá okkur!!
Hávaðinn glumdi og bergmálaði, þyrlur sveimuðu yfir, lögreglan stjórnaði umferð, sporvagnar gengu fram og aftur og leiðbeiningaskilti voru við hvert fótmál. Augljóslega vorum við að nálgast Albert Park.
Og þarna var hann. Háar girðingar umluktu keppnissvæðið og hindruðu útsýni. Það gerði þetta allt saman bara meira spennandi. En í sömu mund og við gengum yfir Albert Road þagnaði allt.
Í þögninni við Albert Park
Þyrlurnar hurfu. Fólk tók að tínast í burtu. Ballið var klárlega búið. Ohhh ... alveg ótrúlega týpískt!!
Við héldum niður Kerferd Road, sem er mjög skemmtileg gata. Hún er mjög breið og lágreistar byggingar sitthvoru megin, en í miðju hennar er stórt og mikið grænt svæði með trjám, sem skilur að gagnstæðar akstursstefnur. Brátt komum við að Port Phillip Bay. Þar eru meðal annars sólarstrendur Melbirninga ... bara nokkuð huggulegt þar.
Við áttum alveg ágæta stund á stöndinni, allt þar til tími var kominn að taka sporvagn niður í bæ, í þeim tilgangi að taka annan sporvagn til St. Kilda, en á Espy Hotel hafði aðdáendaklúbbur KISS í Ástralíu "KISS Army Australia" skipulagt KISS-partý, svona til að hita upp fyrir tónleikana daginn eftir.
Það var margt um manninn í KISS-partýinu ... þar sem leikin voru KISS-lög fram í rauðan dauðann, ýmist lifandi eða af geisladiskum. Þetta var mjög skemmtilegt!!
Þarna mátti sjá að KISS-aðdáendur eru fjarri því að vera bara síðhærðir karlmenn á aldrinum 25-45 ára. Konur voru jafnt sem karlar og aldursdreifingin meiri en ég átti von á. Sú sem gjörsamlega átti kvöldið, var kona sem ... tja, segjum að hún hafi ekki verið á unglingsaldri. Hún fílaði KISS það var nokkuð ljóst, þar sem hún dansaði og lét öllum illum látum. Og til að toppa allt fór hún upp á svið og söng "Rock and roll all nite" af mikilli innlifun!! Snilld!!
Kona kvöldsins á sviðinu í Espy Hotel
Við ákváðum að fara heim upp úr klukkan 23, enda afkomandinn orðinn snarruglaður, berjandi og sparkandi af miklum móð ... persónulega held ég að hann hafi einfaldlega viljað komast út. Hvað er eiginlega gaman að vera á kafi í einhverjum vatnsbelg, allur samanvöðlaður á sama tíma og fjörið er sem mest???
Yfirlit yfir yfirferð á degi eitt í Melbourne
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2008 | 03:26
KISS í Albert Park í Melbourne
Jæja, þá er Múrenan mætt aftur til Sydney eftir ævintýralega ferð til Melbourne ...
... þar sem KISS-tónleikarnir stóðu náttúrulega upp úr öllu.
Fyrir þá sem hafa áhuga, þá er hægt að sjá myndir Múrenunnar af tónleikunum í Albert Park í Sydney hér.
Það má svo sem vel vera að einhverjum finnist nú vera komið gott af umfjöllun Múrenunnar um KISS ... en við þá segir Múrenan bara ... skoðið myndirnar og sjáið hvað Múrenan er efnilegur ljósmyndari. Margar myndir bara þrælgóðar!! Til dæmis þessi hér að neðan ... ekki dónalegt!!!
Ferðasögunni frá Melbourne verður svo gerð betri skil í máli og myndum ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2008 | 07:03
Melbourne bíður ...
Múrenan er farin til Melbourne, ásamt spúsunni ... lítilla frétta verður að vænta á síðunni næstu daga ...
Þess vegna hvetur Múrenan lesendur sína til að kíkja yfir á síðu spúsunnar www.123.is/lauga, því þar hafa farið fram þónokkrar breytingar, því nú skal blásið til sóknar ...
Annars bara ...
KISS loves you, rock and roll (og Múrenan gerir það líka ... )
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2008 | 13:02
Um hækkandi olíuverð
Sydneybúar eru að fara á límingunum þessa dagana vegna hækkana á bensíni, sem olíufélögin hafa verið að lauma út í samfélagið. Ef til vill er orðið lauma ekki rétta orðið því bensínið hefur hækkað um 5 krónur á síðustu tveimur dögum.
Olíufélögin hér reyna, líkt og systurfélög þeirra á Íslandi, að sannfæra fólk að þau gætu hækkað vörur sínar miklu meira, en vegna einskærrar hjartagæsku geri þau það ekki. Þau halda því statt og stöðugt fram að þeim þyki bara svo vænt um viðskiptavini sína að þau séu tilbúin að nánast greiða með bensíninu ...
Múrenan, líkt og aðrir, er nú ekki beinlínis að kaupa þetta leikrit ... og er það með hreinum ólíkindum hvað menn halda að hægt sé að bulla í fólki.
Hækkandi bensínverð hefur afar lítil bein áhrif á hina hjólandi og gangandi Múrenu, hins vegar er alveg ljóst að það hefur óbein áhrif á hana. Staðreyndin virðist nefnilega vera sú að hækkandi olíuverð í Bandaríkjunum hefur alveg ótrúleg áhrif á öll hagkerfi, að minnsta kosti hins vestræna heims, því olíufélögin eru alltaf fljótir að velta þeim út í verðlagið.
Samt finnst Múrenunni Sydneybúar ekki eiga mjög bágt þó bensínverð sé á uppleið. Lítraverð er tæpur einnoghálfur ástralskur dollari, sem er eitthvað um 100 kall íslenskar, en það er svipað lítraverð og var á Íslandi fyrir um 2 árum eða svo ...
Þar að auki er veðrið hér gott og engum manni vorkunn að ganga eða hjóla milli staða, sér til heilsubótar.
Jæja, Múrenan slær botninn í þennan ömurlega pistil sinn í dag ... líklega er þetta leiðinlegasti pistillinn sem skrifaður hefur verið á þetta blogg, enda er Múrenan að fjalla um viðfangsefni, sem hún hefur ekki hundsvit á.
Góðar stundir!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2008 | 12:38
Yfirlit yfir næstu daga
Það er óhætt að það séu spennandi tímar framundan hjá Múrenunni og spúsunni.
Fyrir liggur að fara suður til Melbourne næstu helgi og vera þar laugardag, sunnudag og mánudag.
Planið er þannig að Múrenan og spúsan taka næturlestina til Melbourne á föstudagskvöldið og munu því mæta úthvíld til leiks á laugardaginn. Á laugardeginum verður borgin skoðuð hátt og lágt, og til að mínúta fari ekki til spillis, keypti spúsan bók um Melbourne í dag. Á næstu dögum verður rýnt í hana til að átta sig á því hvað skemmtilegast er að sjá og gera.
Um kvöldið munu Múrenan og spúsan svo gista hjá móðursystur Crightons, sem á einmitt heima í Melbourne. Hversu heppilegt er það nú eiginlega?
Á sunnudagsmorgninum verður, eins og áður hefur verið tilkynnt um á þessari síðu, stefnan sett á Albert Park í þeim tilgangi að horfa á 2008 Formula 1 ING Australian Grand Prix. Deginum verður sjálfsagt varið í að glápa á kappaksturinn og eitthvað honum viðkomandi (Múrenan hefur ekki hugmynd um hvernig á eiginlega að horfa á kappakstur ... en jæja ... ), en hápunktur dagsins og ferðarinnar verður um kvöldið þegar KISS stígur á stokk.
Einhvern tímann eftir tónleikanna verður svo aftur farið að sofa, en í þetta skiptið verður það á einhverju forkunnarfögru hóteli.
Mánudagurinn verður notaður til frekari skoðunarferða, alveg þangað til næturlestin til Sydney sígur af stað um kl. 19.30 það kvöld. Um 11 klukkustundum síðar mun hún renna í hlað á aðaljárnbrautarstöðinni í Sydney.
Þá tekur við undirbúningur á næstu tónleikum sem verða í Acer Arena í Sydney á fimmtudagskvöldið, það kemur sjálfsagt engum á óvart að þeir tónleikar eru líka með KISS!! G.J. móðir Múrenunnar á einmitt afmæli þennan dag og Múrenan veit varla um betri leið til að fagna þeim áfanga, sérstaklega vegna þess að afmælisbarnið er 16.000 km í burtu!!
En allavegana stefna næstu dagar í að verða "Rock and roll all nite, and party every day"!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.3.2008 | 11:12
Spennusagan Megong - 5. kafli Í Jumeirah
6. febrúar 2008.
Múrenan gekk út að glugganum í herbergi 504 á Eureka hótelinu. Bakvið þykkar gardínurnar voru litaðar rúður. Múrenan leit út. Niðri á 42. stræti var engann bíl að sjá.
Hvenær sagði Pakistaninn að Future ætlaði að koma?" spurði hún spúsuna. Í sömu mund hringdi síminn, sem stóð á náttborðinu. Múrenan þaut til og ansaði.
Herra minn, það er beðið eftir þér niðri í anddyri" tilkynnti starfsmaður hótelsins. Múrenan gaf spúsunni merki um að yfirgefa herbergið.
Takk fyrir" sagði Múrenan og lagði á. Hún greip bláu flíspeysuna, sem merkt var San Francisco og fylgdi spúsunni eftir.
Niðri í anddyrinu opnaði léttadrengurinn dyrnar fyrir Múrenunni og spúsunni, og benti á drapplitaða Toyotu Camry. Hann bíður þarna, herra." Léttadrengurinn kinkaði kolli.
Út úr bílnum steig Future, maður á fertugsaldri, ættaður frá Indlandi. Future", sagði hann um leið og hann tók í höndina á Múrenunni. Þau settust inn í bílinn og óku af stað.
Bifreiðin þeystist gegnum Bur Dubai og niður Port Rashid, þar sem Future nam staðar. Fimm mínútur" sagði hann og stökk út úr bílnum.
Horft yfir Port Rashid
Á Port Rashid var mikið um að vera, enda um að ræða eina af umskipunarhöfnum Dubai. Lyftarar þeystust um hafnarsvæðið. Stórkarlalegir gámakranar gíndu fyrir öllu og 80 feta gámar voru eins og legokubbar í greipum þeirra.
Þau biðu lengi, en loks kom Future aftur.
Við verðum að fara niður á Burj Al Arab ... " sagði hann móður og másandi. Hann rykti bílnum af stað.
Í bílnum með Future á leiðinni niður að Burj Al Arab
Þið bíðið hérna!!" Future var skipandi í röddinni.
Hérna??" spurði spúsan.
Já ... ég hringi eftir hálftíma til klukkutíma."
Múrenan og spúsan stigu út út bílnum. Þau voru stödd á Jumeirah ströndinni, það er að segja þeim hluta hennar sem var opinn almenningi.
Ja ... þetta er dálaglegt ástand!!" stundi Múrenan, þegar þau gengu niður að flæðarmálinu.
Múrenan á Jumeirah ströndinni, Burj Al Arab í baksýn
Síminn hringdi hjá spúsunni.
Þetta var Messíana ... og þetta er alvarlegt ..."
Hvað??!"
Hún segir að Future hafi engann aðgang að djinser"-disknum ... þetta eru mistök! Sko ... Dodgerinn varð alveg æfur þegar hann heyrði að við hefðum farið til Dubai að hitta Future ... Future er vafasamur pappír og hefur verið í samkrulli við frú Agentauer um nokkurt skeið. Dodgerinn segir það liggja í augum uppi að það eigi að ráða okkur af dögum hér í Dubai!!!"
Komum okkur héðan!!" Þau hlupu af stað.
Það var ekki fyrr en inn í Madiat Jumeirah verslunarmiðstöðinni, að þau námu staðar. Við ættum að vera hult hérna" sagði spúsan. Við verðum að ná í blómasalann á Akureyri ... hann hlýtur að hafa einhver svör við því hvað við getum gert í stöðunni", bætti hún svo við.
Spúsan reyndi að sýnast ekki áhyggjufull í Jumeirah verslunarmiðstöðinni, skömmu áður en hún hringdi í blómasalann á Akureyri til að leita eftir aðstoð
Al Fayed og Mohammed ætla að hitta ykkur eftir fimm mínútur ... farið þið á kaffihúsið sem er í álmu C í Jumeirah verslunarmiðstöðinni og pantið ykkur kók, samloku og franskar ... skilið??"
Blómasalinn hafði sambönd víða og var öllum hnútum kunnugur í Dubai eftir að hann landaði gríðarlegum viðskiptasamningi þar fyrir nokkrum árum.
Eitthvað fleira, blómi?" Múrenan reyndi að slá á létta strengi ... en blómasölumanninum var ekki skemmt.
Nei, er þetta ekki alveg nóg??!" Hann lagði á.
Múrenan var með fullan munninn af frönskum kartöflum, þegar Al Fayed og Mohammed bar að. Þeir settust niður og pöntuðu sér kaffi. Þeir ræddu saman á arabísku áður áður en Mohammed hringdi eitt símtal. Að því loknu sneri hann sér að Múrenunni og spúsunni.
Þið farið út þennan gang og út baka til" sagði hann. Þar er manngert síki ... hálfgert hallarsíki, og ef þið gangið meðfram bakka þess, þá komið þið að viðlegubakka, þar sem abra-bátar leggjast að. Takið einn slíkan yfir á Al Qasr hótelið, þar spyrjið þið eftir Winston og hann mun keyra ykkur út í Jumeirah pálmaeyjuna. Hann þekkir mann sem veit allt um djinser"-diska."
Múrenan ásamt Mohammed og Al Fayed á kaffihúsinu í C álmu Jumeirah verslunarmiðstöðvarinnar
Múrenan stóð upp og tók í höndina á þeim kumpánum. Spúsan gerði hið sama.
Þau gengu hratt eftir álmu C og út um bakdyrnar.
Spúsan í bakgarði Jumeirah verslunarmiðstöðvarinnar
Síkið var grænblátt og abra-bátar sigldu fram og aftur með gesti Al Qasr hótelsins og Mina a´ Salam hótelsins. Á hægri hönd trónaði hið 321 metra háa Burj Al Arab, næsthæsta hótel veraldar og hið eina í flokki sjö stjörnu hótela.
Þau gengu eftir bakka síkisins uns þau komu að viðlegubakka bátanna. Þau biðu eftir næsta abra.
Beðið eftir næsta abra
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2008 | 11:36
Hjólakaupin eru helber sannleikur!
Því til sönnunar að Múrenan keypti sér hjól um daginn, eru í færslu þessari, birtar myndir af umræddu hjóli og eiganda.
En til að halda því til haga, má geta þess að hjólið var vígt í dag með formlegum hætti, þegar 40 km voru lagðir af baki ... geri aðrir betur!!!
Rennt í hlað eftir 40 km hjólatúr
Múrenan hefur hér numið staðar fyrir utan Bourke Street. Takið eftir hversu hjálmurinn fer henni vel!!!
Sigrinum endanlega fagnað og búið að taka hjálminn ofan.
Múrenan vonar nú að efasemdaraddir þagni ... þessar þrjár myndir sýna allt sem sýna þarf í þessu máli!
Bloggar | Breytt 9.3.2008 kl. 04:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.3.2008 | 14:43
Föstudagur í Sydney
Jæja, þá er afmæli spúsunnar á enda runnið ... en í kvöld hittust vinir og vandamenn á Belgian Beer Café hér í Sydney, til að fagna afmælinu.
Allt gengið sem einu sinni bjó á 50 Davies Street mætti, en auk þess Steve og Zoe. Þá var Crighton á svæðinu, en tveir vinir hans voru að fagna afmælum sínum frá því í vikunni. Það er óhætt að segja að mætingin hafi því verið með besta móti.
Afmælisbarnið í faðmi vina, núna í kvöld, á Belgian Beer Café
Spúsan fékk rosafínar gjafir frá Fjólu og Neil, dagbók og kerti, og eitthvað eitt enn sem Múrenan á ennþá eftir að skilja almennilega hvað er ...
Neil hafði skreytt kortið af miklu listfengi og fallegum skrifum, sem vafalaust yljuðu afmælisbarninu um hjartarætur.
Eftir gönguna frá Belgian Beer Café heim á Bourke Street, sem tók um 45 mínútur, vildi afmælisbarnið kaupa sér eitthvað að borða ... keypti tyrneskt brauð fyllt með lambakjöti og lauk, en þverneitaði svo að borða það, eftir að hafa tekið fyrsta bitann!! Of mikið ullarbragð af kjötinu ... Múrenan afgreiddi málið. Því næst lagðist spúsan fyrir og sofnaði svefni hinna réttlátu.

Spúsan sofnaði á mettíma þetta kvöldið, u.þ.b. 30 sekúndum!!
Annað er lítið að frétta þennan daginn ..., góður dagur en tiltölulega tíðindalaus, nema Múrenan víki talinu að doktorsverkefninu sínu. Það ætlar hún hins vegar ekki að gera nú, einfaldlega vegna þess að hún nennir því ekki!!!
Öll umræða um doktorsverkefnið verður að bíða betri tíma, og lesendur verða bara að bíða þolinmóðir þangað til Múrenan verður í stuði, eins og það er gjarnan kallað!!
Svo verður Múrenan að koma því að, af gefnu tilefni, að hún hefur bara ekki náð að láta taka mynd af sér með eða á nýja hjólinu. Hún lofar því statt og stöðugt að mynd, til sönnunar því að hjólakaupin hafi raunverulega átt sér stað, mun koma á bloggið á morgun ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.3.2008 | 08:41
Spennusagan Megong - 4. kafli Á Al Mussallah Street
Þessi andskotans indverski afgreiðslumaður gengur bara um ljúgandi hérna!!" Spúsunni var mikið niðri fyrir, meðan hún hreinlega mokaði matnum yfir á diskinn hjá sér.
En þetta var kórrétt hjá henni. Indverski afgreiðslumaðurinn á kaffisölunni á neðstu hæðinni hafði logið, þegar hann sagði engann mat að fá uppi, því hér á 5. hæð var boðið upp á hlaðborð. Yfir 20 heitir réttir, alls kyns salöt, ávextir, baunir og flest það sem hugurinn girndist.
Það er ekki fráleitt að ímynda sér að þessi maður sé eitthvað innviklaður í málið", sagði Múrenan þegar þau voru sest.
Nei, nei ... þessi maður hefur ekkert að gera með málið ... hann er bara fégráðugur!! Á góðri íslensku mætti kalla hann drullusokk!! En ég sá við honum!" Spúsan hló.
Múrenan pakksödd eftir hlaðborðið á 5. hæðinni.
Á heimleiðinni komu þau við á aðalverslunargötu Dubai, Al Mussallah Street. Mikill mannfjöldi þeystist fram og aftur á gangstéttunum, bílaumferðin var þétt og tilviljanakennd, en inn á milli skutust bifhjól og reiðhjól, jafnvel menn með kerrur í eftirdragi. Bílflaut hljómuðu eins og morgundagurinn væri enginn. Allir þurftu umsvifalaust að komast leiðar sinnar, þrátt fyrir að augljóst væri að slíkar væntingar ættu ekki við rök að styðjast.
Kaótísk umferð og mannfjöldi á Al Mussallah Street
Spúsan rýnir í kort af Dubai
Múrenan veitti því einnig athygli að ljósaperubúðir voru óvenju margar, greinilega engin venjuleg eftirspurn eftir ljósaperum í þessari borg. Osram hér og Osram þar. Augljóslega var samkeppnin svo hörð að margir ljósaperusalar höfðu gripið til róttækra aðgerða til að vekja á sér athygli. Til dæmis hafði einn þeirra brugðið á það ráð að slökkva öll ljós í búðinni hjá sér. Því sat hann einn í rökkrinu og beið eftir væntanlegum ljósaperukaupendum.
Múrenan velti því fyrir sér hvort eitthvert ólag gæti verið á rafmagninu, þannig að ljósaperur væru að springa í tíma og ótíma. Kannski stæði Osram á bakvið þetta allt saman? Gæti það verið?
C'mon sir, have a look ... special price for you my friend" hljómaði hvarvetna í eyrum Múrenunnar. Múrenan bandaði frá sér. Kaupmennirnir hlóu og skemmtu sér.
Skyndilega vék Arabi einn, klæddur hvítum kufli og með rauðan klút á höfði, sér að spúsunni. Kæra fröken", mælti hann lágri röddu. Ég var beðinn um að koma þessu til þín." Hann laumaði upprúlluðum miða í lófa spúsunnar. Hann hvarf óðara aftur í mannþröngina.
Spúsan reyndi að fylgja honum eftir, en það var tilgangslaust. Það var engu líkara en jörðin hefði gleypt hann.
Spúsan las á miðann.
Hassan verður tilbúinn á föstudaginn, hann verður á hvítum Nissan Patrol. Hann vill hitta ykkur fyrir utan Eureka. Hef verið í sambandi við G.J. vegna málsins. Allt unnið samkvæmt áætlun. Læt vita um framhaldið. Kveðja, Króksgellan. Ps. Eyðileggðu miðann."
Miðinn frá Króksgellunni, sem Múrenan át í öryggisskyni eftir að þessi mynd hafði verið tekin
Ok, gott mál", sagði hún svo við Múrenuna. Sérðu að upphafsstafur hverrar setningar er feitleitraður hjá henni. H-H-H-A-L-K-P-E ... ??" Spúsan horfði út í loftið. Hún var greinilega að hugsa.
H-H-H-A-L-K-P-E?? ... Já, auðvitað ... Króksgellan er að spyrja okkur: Hefur Hassan Heimild Að Leigja Klassíkan Patrol Eða?" Hún er greinilega hrædd um að hann sé að aka um réttindalaus!!"
Spúsan tók um símann sinn og rétti Múrenunni.
Sendu henni sms fyrir mig ... skrifaðu bara Já, heimild er til staðar!" Hún er alveg ótrúlega sniðug!!"
Augun í spúsunni leiftruðu.
Það verður alveg nóg að gera á næstu dögum!! Förum upp á hótel!"
Hún beygði inn Al Maktoum Hospital Road, áleiðis til að hótelinu. Múrenan fylgdi í humátt á eftir.
Framhald ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2008 | 06:58
Spúsan bætir við sig ári
Jæja, þá á spúsan afmæli í dag og það er fernt, sem er sérlega merkilegt við þennan afmælisdag hennar hér í Sydney.
Spúsan var glaðbeitt í afmæliskaffinu í dag
Í fyrsta lagi hefur veðrið aldrei verið nánda nærri jafn gott og það er nú þennan afmælisdaginn. Venjulegt veður er snjór, rigning, rok og/eða slydda en nú er verið að tala um 27°C, sól og golu ... afskaplega huggulegt.
Í öðru lagi getur hún haldið upp á afmælið í 35 klukkutíma eða allt frá því klukkan sló miðnætti hér í Sydney, sem gerðist fyrir um 18 klukkutímum, þar til hún slær næst miðnætti á Íslandi sem verður eftir um 17 klukkutíma. Þetta hlýtur að teljast til talsverðra forréttinda!!
Í þriðja lagi hefur spúsan heldur aldrei fyrr verið ólétt á afmælisdaginn sinn. Slíkt hlýtur að teljast mjög eftirsóknarvert og þess má geta að Miss Dawkins frænka spúsunnar, sem einmitt er líka ólétt þessa dagana, mun til dæmis ekki fá að njóta þeirrar ánægju, nema hún fari 15 vikur framyfir eða eitthvað álíka.
Í fjórða lagi hefur spúsan aldrei fyrr orðið 34 ára og þegar þetta er skrifað eru enn rúmar 3 klukkustundir í að 34 árum séð, svona strangt tiltekið ... hún ku vera fædd kl. 10.20 ... Múrenan ætlar svo sem ekki að draga orð Króksgellunnar, móður spúsunnar, í efa. Króksgellan var náttúrulega á staðnum, en það sama verður ekki sagt um Múrenuna, sem var ómálga reifabarn suður í Reykjavík, þegar umrædd athöfn átti sér stað norður á Sauðárkróki.
En endilega sendið spúsunni heillaskeyti á heimasíðunni hennar www.123.is/lauga, og kannski fáið þið jólakort í þakklætisskyni ... hver slær nú eiginlega höndinni á móti slíku???
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)