5.3.2008 | 12:04
Smá um myndir
Múrenan ætlar með bloggfærslu þessari að vekja athygli á myndasíðu sinni á www.flickr.com, sem er hreint mögnuð.
Myndasíðuna bar á góma hér á blogginu fyrir ekki svo löngu síðan, en það er aldrei of oft minnst á góða hluti ... það er tengill hérna vinstra megin á síðunni.
Og af þessu tilefni langar Múrenuna til að segja lesendum sínum það að mest skoðaða myndin á myndasíðunni er þessi ...
Myndin var tekin á jazz-hátíð sem haldin var við Darling Harbour hér í Sydney þann 11. júní sl., en þá var, eins og svo oft, margt um manninn. Tvær stúlkur voru að stilla sér upp fyrir myndatöku með gosbrunna í baksýn, þegar Múrenan laumulega smellti þessari af. Myndin hefur verið skoðuð 68 sinnum samkvæmt bókhaldi www.flickr.com, sem er kannski ekki mjög oft, ja ... og þó??
Svo má geta þess að hann Aidan Grey, sem Múrenan þekkir hvorki haus né sporð á, óskaði eftir að fá mynd hjá henni fyrir vefsíðuna www.homeandabroad.com. Að sjálfsögðu tók Múrenan vel í erindi Aidan og nú er myndin notuð í auglýsingaskyni fyrir golfnámskeið á golfvellinum í Moore Park og má sjá herlegheitin hér.
En nóg að sinni ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2008 | 11:40
Hjólakaupin
Í dag eignaðist Múrenan langþráðan grip, grip sem hún náði loks að skrapa saman fyrir ... hér er verið að tala um hjól.
Og þvílíkur munur!!
Í stað þess að þurfa að ganga út um allar trissur, sem getur vissulega verið mjög tímafrekt hér í Sydney, getur Múrenan vippað sér á hjólhestinn og brunað eins og eldibrandur á milli staða.
Samt sem áður er sá galli á gjöf Njarðar að umferðin hér í Sydney, er ekki alveg hefðbundin, að minnsta kosti ekki samanborðið við það sem Múrenan er vön í þeim efnum.
Já, það er rétt hjá þér kæri lesandi ... Ástralir keyra á öfugum vegarhelmingi. Kannski ekki skrýtið, þar sem Bretar lögðu Ástralíu undir sig, undir lok 18. aldar þegar Arthur Philip stýrði Fyrsta flotanum örugglega til "hafnar" í þessari fjarlægu heimsálfu, og Bretar hafa aldrei almennilega skilið umferðarreglurnar ...
En jæja, aftur að hjólinu, sem er 21 gíra fjallahjól ... það verður guðdómlegt að þeysa um á því bæjarhlutana á milli, láta hárið flaksast í hlýrri golunni og sólin bakar handleggi og andlit, eins og henni er einni lagið ... Múrenan verður sólbrún og sælleg ... og þvengmjó!!
Nú má reikna með að ferðin frá Bourke Street niður í skóla og til baka styttist allverulega, það er í mínútum talið, kannski úr 30 mínútum aðra leiðina í 12. Hver veit?? Múrenan á eftir að mæla það með vísindalegum hætti ... en það verður gert við fyrsta tækifæri!!
En tilgangur hjólakaupanna var nú samt ekki sá að stytta leiðina í skólann, heldur til að skapa möguleika á því að hjóla frá skólanum á fótboltaæfingar, en þær eru í Magdala, sem er í norðurhluta Sydney. Leiðin þangað er um 13-14 km, þannig að hjól er ekki slæmur kostur, betri að mati Múrenunnar en að þiggja bílfar hjá Gary þjálfara. Gary er hinsvegar ekki jafn sannfærður og Múrenan um ágæti þess "að hjóla alla þessa leið, fram og til baka", eins og hann kýs að orða það. En Múrenan lætur orð Garys sem vind um eyru þjóta ... en maðurinn er kanadískur!!! Hann þekkir ekki þann íslenska eiginleika að gera bara hlutina í stað þess að vera að velta fyrir sér hvort þeir séu framkvæmanlegir eða skynsamlegir!!
Múrenan í Sydney biður lesendur sína um að skila eftir í athugasemdaboxinu góðar kveðjur og óska þess að henni fatist ekki flugið í umferðinni og verði straujuð niður af rútu, bara vegna þess að hún leit til vinstri þegar heppilegra hefði verið að líta til hægri ...
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.3.2008 | 10:57
Spennusagan Megong - 3. kafli Pakistaninn
5. febrúar 2008 - Dubai. Hygginn maður reisir hús sitt á kletti en ekki á sandi. Sé það rétt, virðist fyrirhyggja og gáfnafar í Dubai, næststærstu borg Sameinuðu arabísku furstadæmanna, vera í lágmarki meðal húsbyggjenda þar. Hún er reist á sandi, og engu öðru.
Síminn hringdi á herbergi 504 á Eureka-hótelinu. Múrenan vaknaði af værum blundi og ansaði þreytulega í símann.
Eruð þið komin til Dubai??" B. Brjánsson var á hinum endanum, undrandi í röddinni. Að gera hvern fjandann??! Eruð þið í einhverjum skítamálum eða hvað ... ??
Frú Agentauer sagði diskinn vera djinser" disk og til að fá aðgang að honum var nauðsynlegt að fara hingað og hitta náunga sem kallar sig Future. Hann er hátt settur innan þjónustunnar."
Hefurðu eitthvað heyrt í Stjóra?", spurði B. Brjánsson.
Nei, bara í Sauma. En ég sendi áðan sms til Ungfrúar Austurbæjar og hafnfirska sjúkraþjálfarans."
Og hefurðu ekkert heyrt ... ? Heyrðu, ég er annars með eina góða gátu handa þér?"
Nei ... ég er ekkert að fara svara ... "
Jú, gerðu það! Hvað dregur mús jafn auðveldlega og fíll?"
Múrenan skellti á. Alltaf sama andskotans ruglið í þessum dreng!!"
Múrenan og spúsan höfðu sofið lungann úr deginum og ákváðu að skreppa í ofurlitla kynnisverð um nágrenni. Spúsan skellti sér í lopapeysu og þau röltu út úr herberginu. Í anddyri hótelsins mættu þau vikadrengnum, glaðlegum manni á sextugsaldri. Hann óskaði þeim góðs gengis.
Spúsan í lopapeysunni við Clock Tower hringtorgið
Þung og kaotísk umferð var á öllum akreinum hringtorgsins við Clock Tower, og bílstjórarnir flautu hver í kapp við annan. Þvílíkur hávaði. Stefnan hjá Múrenunni og spúsunni var sett á Dubai Creek, ána sem skilur að elsta borgarhluta Dubai, Bur Dubai og Deira. Dubai Creek er sagður fallegsti staðurinn í Dubai. Múrenan sá nú samt ekki alveg fegurðina þar.
Á árbakkanum var varla hægt að þverfóta fyrir alls kyns varningi, kössum af öllum stærðum og gerðum, ísskápum, snúrum, hjólalegum, húsgögnum og olíutunnum. Þennan varning allan voru heimamenn að ferma yfir í báta sína. Hvert þeir sigldu svo með öll herlegheitin, áttaði Múrenan sig ekki á.
Mikil athafnasemi er einkennismerki þeirra sem vinna við uppskipun á bakkanum við Dubai Creek
Það var farið að rökkva. Búið var að kveikja á ljósastaurunum á vesturbakka Dubai Creek og í fjarska mátti sjá skýjakljúfana við Sheikir Zayed Road. Í enn meiri fjarlægð trónuðu tveir kranar í toppi Burj Dubai, hæstu byggingu veraldar, sem enn var í byggingu. National Bank of Dubai teygði sig tignarlega til himins.
Háhýsin við Sheikir Zayed Road og Burj Dubai í ljósaskiptunum
Húsnæði National Bank of Dubai
Hefurðu tekið eftir Pakistananum í bláa bolnum, sem er fyrir aftan okkur ... ?", spurði spúsan Múrenuna, allt í einu.
Já, auðvitað!!"
Bíddu aðeins, ég ætla að reima skóinn minn ... við skulum sjá hvað hann gerir!" Hún beygði sig niður.
Pakistaninn hélt áfram göngu sinni framhjá Múrenunni og spúsunni. Hann gaf þeim grunsamlegt auga. En eftir að hafa gengið spölkorn beygði hann til vinstri og hvarf milli kassa sem staflað hafði verið snyrtilega upp.
Múrenan tók upp myndavélina. Hún hafði tekið eftir augnaráðinu og ætlaði ekki að láta þennan Pakistana sleppa svona auðveldlega. Hún veitti honum eftirför. En þegar hún beygði inn á milli kassana gekk hún beint í flasið á honum.
Það var gott að þú eltir mig, það sér okkur enginn hérna. Ég þarf að koma mikilvægum skilaboðum til þín", sagði Pakistaninn á bjagari ensku.
Future bað mig um að láta þig vita, að hann getur ekki hitt ykkur á fimmtudaginn, þannig að hann ætlar að koma og ná í ykkur á Eureka-hótelið kl. 10 á miðvikudaginn."
Múrenan horfði stíft í augun á Pakistananum. Átti hún að trúa honum eða ekki?? Hún tók mynd af honum, áður en hún gekk í burtu.
Spúsan var orðin verulega svöng þegar þau gengu inn í verslunarmiðstöðina í Twin Tower-byggingunni, sem stóð við Baniyas Road.
Það hlýtur að vera eitthvað hægt að fá að borða hérna ... ", sagði hún og gekk ákveðið að kaffisölu einni, sem virtist líkleg til stórræðanna.
Indverskur afgreiðslumaður í appelsínugulu vesti varð fyrir svörum.
Því miður, við seljum ekki heitan mat hérna ... en hérna, ... við erum með alveg dýrindis kökur og frábærar samlokur ...??"
Nei, takk!" svaraði spúsan. En er ekki veitingastaður þarna uppi?" Spúsan horfði þráðbeint upp.
Það er búið að loka öllu þarna uppi", fullyrti indverski afgreiðslumaðurinn og horfði hundtryggum augum á spúsuna.
Spúsan hlustaði ekki á hann. Hún gekk að rúllustiganum.
Koma svo ... ég er að drepast úr hungri."
Framhald ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2008 | 23:02
Spennusagan Megong - 2. kafli A-in tvö í Frankfurt
4. febrúar 2008 - Frankfurt, fimmta stærsta borg sameinaðs Þýskalands, er ein helsta viðskipta- og fjármálaborg þessa volduga ríkis og stendur á bökkum árinnar Main.
Flugvél Icelandair svífur yfir úthverfum Frankfurt
Flugvallarrútan ók eftir hlykkjóttu gatnakerfi Frankfurt Am Main. Það var greinilegt að íslenska flugfélagið Icelandair var ekki meðal þeirra hæstskrifuðu á þessum flugvelli. Múrenunni fannst hálf niðurlægjandi að þurfa að stíga frá borði, ganga niður tröppur og inn í rútu, sem síðan þeystist með farþega óravegalengd áður en hægt var að stíga fæti inn í sjálfa flugstöðvarbygginguna. Rútan nam staðar við dyr þar sem stóð Termial 2.
Nokia-farsíminn í vasa Múrenunnar pípti. Múrenan tók hann upp og las eftirfarandi smáskilaboð frá Sauma: Þið verðið að hafa strax upp á Fritz Altman, skrifstofu hans er að finna á Zeit 34, 4. hæð."
Við getum ekki verið lengi hér", sagði spúsan, þegar hún hafði rennt niður síðasta pizzubitanum á Pizza Hut-veitingastaðnum, í nágrenni við dýragarðinn, sem er tiltölulega miðsvæðis í borginni. Sko ... klukkan er að detta í hálfþrjú og ég veit að Altman yfirgefur skrifstofu sína alltaf um hálffjögurleytið. Þeir segja að eftir að hann veiktist, verði hann hafa hlutina með þeim hætti, samkvæmt læknisráði. Forstjóri Leitz hefur ítrekað það aftur og aftur að fyrirtækið muni gera allt sem í þess valdi stendur til að Altman nái sér og málið upplýsist."
Hvernig stóð á því að hann var allt í einu hundeltur ... "
Nú, Altman komst að því hvernig málum hafði verið háttað, hvernig frú Agentauer hafði auðgast af tölvubraskinu í Póllandi ... þú veist að Tölvuvinnslustofan er rækilega flækt í málið!"
Spúsan fékk sér sopa af vatninu. Það er meðal annars þess vegna sem þeir segjast ekki geta gert neitt fyrir diskinn ... en nú fer ég á klósettið og þegar ég kem aftur verður þú búinn að borga og við förum."
Múrenan fyrir utan skrifstofu Altmans við Zeit, skömmu fyrir fundinn.
Á skrifstofu Fritz Altman var regla og snyrtileg umgengni í fyrirrúmi. Pennahylkið á skrifborðinu var í nákvæmlega beinni línu við ferhyrnda stækkunarglerið, sem var hornréttri stefnu við hornið á glasamottunni. Á mottunni stóð glas og í því var vatn. Á veggnum hékk smekklega upphengd mynd af gamalli konu í svörtum kufli, með stóran gylltan hring á höfðinu og í vinstri höndinni hélt hún á eldspýtustokki. Altmann sagði þetta vera ömmu sína, ... flóttakonu í seinna stríði.
Ég get í raun ekki sagt ykkur meira", sagði Altman lágum rómi og rétti Múrenunni harða diskinn. Þetta samtal við Altman hafði verið allt annað en þægilegt, hann hafði bæði verið aggressífur" og ýtinn, allt að því dónalegur að mati Múrenunnar.
Þið verðið að fara niður í Hauptwache, ganga svo niður Breite Gasse og áfram niður að ánni. Frú Agentauer er þar oft síðdegis að gefa fuglunum. En sé hún ekki þar, þá finnið þið hana sennilega á Willy Brandt torgi í námunda við upplýsta evrumerkið. Hún er í brúnum jakka og með húfu ... en komið ykkur nú af stað." Altman brýndi raustina undir það síðasta og fékk í kjölfarið hóstakast, þar sem hann sat í stólnum.

Beygt var niður Breite Gasse
Á leiðinni niður að Alte Brücke var Múrenan hugsi. Gat verið að Altman leyndi þeim mikilvægum upplýsingum? Hann hafði verið svo allt öðruvísi en þegar þeir höfðu hittst í Sofiu árið 2004, þegar Múrenan var þar ásamt Raddbandafélagi Reykjavíkur. Múrenan sagði samt ekkert.
Spúsan virtist hafa litlar áhyggjur þessa stundina og nam til dæmis staðar við vegg einn.
Spúsan og veggurinn
Við verðum að halda áfram ...", sagði Múrenan höstuglega.
Bíddu rólegur, hér gætu leynst verðmætar upplýsingar ... þú verður að læra að lesa umhverfið maður!!" Spúsan hélt áfram að horfa á vegginn.
Ég gef ykkur kóðann ... og það verður að duga að svo stöddu." Frú Agentauer stóð andspænis Múrenunni og spúsunni. Þessi harði diskur er svokallaður djinser" diskur, sem þýðir að kóði, lykilorð, uppfærsla og aðgangur er aldrei aðgengilegur hjá sama aðila á sama tíma. Sagði Altman ykkur það ekki?"
Þegar Múrenan og spúsan komu niður að ánni var frú Agentauer að gefa fuglunum
Múrenan horfði grunsamlega á hana. Ég ætla hringja í Future ... " Frú Agentauer vék sér frá parinu.
Óvænt tíðindi ... Future er í Dubai", tilkynnti Agentauer stuttu síðar og hann getur hitt ykkur þar á fimmtudaginn ... ég veit að Condor flýgur til Dubai í kvöld. Tékkið á því hvort það er laust með vélinni ... "
Múrenan og spúsan yfirgáfu frú Agentauer. Áin Main rann silkimjúk undir Alte Brücke, Múrenan sá fugla í fjarska. Þetta voru nokkuð snotrir fuglar, sem svifu létt og lipurlega fram og aftur ...
Þau gengu upp að Willy Brandt torginu til að skoða hið margrómaða upplýsta evrumerki, en því næst héldu tóku þau lestina út á flugvöll.
Spúsan við evrumerkið
Framhald ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2008 | 13:07
Mardi Gras & myndir
Jæja, Múrenan og spúsan voru rétt í þessu að koma heim frá því að horfa á Mardi Gras, en svo kallast Gay Pride-ið hér í Sydney. Þetta var í 30. skiptið sem hátíðin er haldin hér og óhætt er að segja að stuðið hafi verið mikið. Vagnarnir eða atriðin eða hvað á eiginlega að kalla þetta, voru ekki færri en 400, samkvæmt heimildum Fréttastofu Múrenunnar í Sydney (FMS) og áhorfendur skiptu hundruðum þúsunda.
Múrenan átti einn kandidat í göngunni, en það var Crighton sálufélagi Múrenunnar í hlutverki Yfirstrumps eða Papa-Smurf, eins og hann sjálfur kýs að kalla þessa ágætu teiknimyndafígúru. Auk þess veit Múrenan að hin þýska Nadalia, var líka meðal göngumanna, en hana hitti Múrenan í fyrsta skipti í gær á Herman´s barnum. Múrenan, vegna mjög stuttra kynna, ákvað hins vegar að líta ekki á Nadaliu sem kandidat sinn í göngunni.
Þess má geta að Múrenan sá Papa-Smurf hvergi í göngunni ...
Svo er hægt að minnast á það fyrir áhugasama að Múrenan hefur sett nokkrar myndir inn á flickr.com-heimasíðuna sína. Linkur inn á myndasíðuna er hérna vinstra megin á síðunni en það er hægt að smella hér, svona í þetta skiptið.
Þar sem Múrenan þarf að vakna eldsnemma í fyrramálið eða upp úr klukkan 20 að íslenskum tíma, hefur hún ákveðið að láta staðar numið nú. Fyrir liggur leikur við Hakoah á sjálfum Vetrarleikvanginum í Sydney, kl. 10.15 að staðartíma. Allir eiga að vera mættir kl. 9.00. Býður einhver betur en það?
Góðar stundir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2008 | 23:45
Spennusagan Megong - 1. kafli. Fundurinn
30. janúar 2008 - Reykjavík, gjarnan kölluð borgin við sundin. Handan þeirra rís Esjan, með sinn hæsta punkt í 909 metrum yfir sjávarmáli og í norðri blasa Skarðsheiðin og Akrafjall við.
Í borginni er Alþingi Íslendinga en einnig mjög mörg tölvufyrirtæki. Í götu einni austarlega í borginni er húsnæði Tölvuvinnslustofunnar að finna en fyrirtækið sérhæfir sig í margvíslegri þjónustu varðandi tölvur. Uppi á annarri hæð höfðu átt sér stað grafalvarlegar samræður.
Harði diskurinn hefur verið blokkaður að hluta til og við höfum ekki aðgang að þeim upplýsingum sem þar eru að finna". Múrenan beit í neðri vörina og þagði.
Svitadropi lak niður enni tölvusérfræðingsins og hann hélt áfram: Það er ekki annað í stöðunni en að taka aðra tölvu, annars ... " Múrenan stóð upp og gekk út að glugganum. Rimlagluggatjöldin voru dregin fyrir. Múrenan skaut vísifingri og löngutöng inn á milli tveggja rimla og glennti þá varlega í sundur. Ofurlítil ljósglæta skein inn í rökkvað herbergið.
Hún sneri sér við. Ertu að segja mér að diskurinn geti hrunið á hverri stundu og upplýsingar á honum glatast??" Hún horfði þráðbeint í augu sérfræðingsins.
Já ... ég er að segja það."
Fjórum klukkustundum síðar var stemningin heldur rafmögnuð á kaffistofu ráðgjafafyrirtækisins G.J. Lausna, þar sem Múrenan sat og át dýrinds sveppasúpu.
Múrenan ýtti súpuskálinni frá sér. Hún staðnæmist úti miðju borði og svolítið af súpunni skvettist út á borðið.
Herrann vill ómögulega meira?", spurði frú Guðlaug, um leið og hún greip skálina.
Hvar er spúsan?" hreytti Múrenan hranalega út úr sér.
Hún er úti með fyrrum samstarfsfólki sínu, þér ætti að vera um það kunnugt! Það er nú ekki svo lítið búið að ræða það." Frú Guðlaug bar súpuskálina yfir að vaskinum.
Hafðu upp á henni fyrir mig! Strax!!"
Hvað segirðu, er diskurinn að hrynja??! Hvað er ég búin að segja þér það oft að við þurfum flakkara??" Múrenan gat ekki haft símtólið nærri eyranu, þegar spúsan var í þessum ham. Það hlutu allir á kaffihúsinu Uppsölur, þar sem hún var stödd, að heyra hvað þeim fór á milli.
Má ég biðja þig um að tala ekki svona hátt?!?" Múrenan varð ergileg. Til að geta keypt flakkara þarf peninga og þá höfum við ekki."
Nei, en við höfum heldur ekki efni á að tapa öllum gögnunum ... hvað heldur þú að G.J. segi þá??!?"
Enn einu sinni notaði hún þessi rök, Múrenan vissi það alveg að gögnin voru ómetanleg en hvað átti svo sem að gera? Peningarnir voru ekki til.
Tala við þig seinna." Spúsan skellti á.
1. febrúar 2008. Í húsi í Þingholtunum var verið að undirbúa samkomu.
Ertu búinn að kaupa gosið??", spurði G.J forstýra G.J. lausna, Múrenuna. Nú er fólkið að koma eftir hálftíma ... ?!?"
Ég skal bara sjá um þetta ... vertu ekki að hafa þessar endalausu áhyggjur." Múrenan reyndi að sýnast sjálfsörugg og hæfilega kærulaus.
G.J. var ekki skemmt. Hún þreif þéttingsfast í jakka Múrenunnar.
Heyrðu nú, karlinn minn?? Er það ekki alveg á hreinu hver gefur fyrirskipanirnar hérna??!! Eitt svona svar í viðbót og þú veist næst af þér úti á gangstétt!!!"
Múrenan þornaði í munninum.
Haa?!? Jú, jú ... ég ætla að hringja í Stjóra og biðja hann um að koma við í búð á leiðinni hingað ... " G.J. kinkaði kolli því til samþykkis, leysti takið rólega og gekk í burtu.
Svona var Múrenan þegar G.J. spurði hana um hvort gosið væri á leiðinni
G.J. leit yfir herbergið. Liðsmenn voru að týnast inn.
Djöfullinn ... fimm agentar hafa boðað forföll ... !!" hvíslaði hún hvasst í eyra Múrenunnar, ... og það er ekki nógu gott!! Og svo kemur Blómasalinn ekki."
En hvað með þá Glitnismenn??"
Þeir eru meðal hinna fimm sem koma ekki."
Þannig að við komumst þá ekkert áfram með það mál í kvöld ...??" Múrenan spurði hikandi.
Af hverju ekki?? Strúna og Messíana koma!!"
Nújá?!?"
G.J. reyndi að sjá hverja vantaði enn. Þarna voru Saumi og Vandráður, Dísa, B. Brjánsson, Króksgellan, hafnfirski sjúkraþjálfarinn, Dexter og Melissa. Þar að auki vissi G.J. af spúsunni og ungfrú Austurbæ í öðru herbergi.
Saumi var tilbúinn í að taka að sér mikilvæg verkefni
Mínúturnar liðu. Loks kom Strúna og stuttu síðar Messíana. Með í för voru Fúfú og Frauti. Ekkert bólaði á Stjóra og Miss Dawkins.
Messíana og Frauti mættu loks á fundinn
Hvar í andskotanum eru þau??" G.J. beindi orðum sínum til Múrenunnar. Forstýran hafði áhyggjur af því að liðsmennirnir yrðu viðþolslausir ef þeir þyrftu að bíða mikið lengur í hinu reykfyllta bakherbergi. Augljós merki farin að koma fram, Vandráður að sofna, B. Brjánsson að sýna spilagaldra og Króksgellan að tékka mannskapinn af.
Króksgellan tékkar hvort Fúfú sé ekki að einbeita sér að verkefni kvöldsins
En loks birtist parið, sem beðið var eftir.
Og það er þá niðurstaða fundarins í kvöld, í ljósi þeirra aðstæðna sem komnar eru upp, að Múrenan og spúsan fari strax í fyrramálið að leita lausna. Saumi, Dísa, Stjóri og Miss Dawkins útvega þau gögn sem nauðsynleg eru, hafi samráð við Dodgerinn og gögnin verði tilbúin í síðasta lagi á sunnudagskvöld. Skilið??"
Já."
Stjóri, Miss Dawkins og spúsan hlusta einbeitt á ræðu G.J.
By the way ... hvar er Dodgerinn í kvöld?", spurði G.J.
Var hann boðaður?", spurði Saumi á móti, ég heyrði í honum í dag og hann minntist ekkert á það ... "
Hvaða klúður er þetta eiginlega??!?" Múrenan fékk ill augnaráð frá G.J. Hún hélt svo áfram: Króksgellan fer norður svo fljótt sem auðið er og sér til þess að bækistöðvar þar séu tilbúnar. Skilið??"
Það verður allt undir kontról", svaraði Króksgellan yfirvegað og hallaði sér aftur í stólnum, sneri höfðinu lítillega og blés hnausþykkum vindlareyk framan í Múrenuna, sem sat næst henni. Náðu í malt!" skipaði hún, Múrenunni.
G.J. hélt áfram. Aðrir koma aftur hér til fundar á sunnudaginn kl. 11. Þá er mikilvægt að Glitnissamsuðan mæti ásamt Vertinum. Dexter mætir fyrir hönd Blómasalans ... er það skilið Dexter?!?"
Já."
Svo þarf að tryggja að Lena unga verði hér ... ég sé um það!"
Í lok fundar, G.J. Vandráður, Stjóri og Miss Dawkins
Framhald ...
Bloggar | Breytt 1.3.2008 kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2008 | 12:13
Margt í mörgu
Það hefur rignt alveg feiknin öll í Sydney í dag, Múrenan hefur ekki nákvæmar tölur á hreinu ... núna til dæmis er alveg hellirigning.
Sydney-búar kvarta í einu orðinu um að það hafi ekkert sumar komið þetta árið, en segjast svo eiginlega vera hálffegnir í hinu orðinu. Af hverju? Af því að eðlilegt sumar hér í Sydney er með afbrigðum sólríkt, heitt, rakt en samt þurrt(!?!). En í sumar hefur þetta allt saman verið öfugsnúið, það hefur rignt mikið (sem er gott fyrir vatnsbúskapinn), það hefur ekki verið heitt (bara svona 25°C að meðaltali), alls ekkert rakt og sól hófleg.
Þar að auki komst Múrenan að því í dag, að fólk sem les yfir vísindagreinar er furðulegur þjóðflokkur. Fyrir nokkru sendi Múrenan inn grein, sem hún vonaði að hlyti náð fyrir augum ráðstefnuhaldara 39. ráðstefnu EDRA, sem halda á í Mexíkó í maí. Svona til að gera langa sögu stutta, smaug greinin í gegnum nálaraugað og var samþykkt. Hinsvegar fylgdu með samþykki ráðstefnuhaldara, þrjú bréf frá ónafngreindum yfirlesurum. Einn þeirra réð sér varla fyrir kæti vegna greinarinnar, sagði hana hreina snilld. Næsti sagði greinina í meðallagi en sá þriðji sá bara rautt, sagði greinina hörmulega!!
Múrenan myndi skilja ólík viðhorf yfirlesara ef um væri að ræða skáldsögu eða eitthvað því um líkt ... en hvernig í ósköpunum hægt er að vera svona hræðilega ósammála um vísindagrein, er Múrenunni illskiljanlegt. Þessi grein var svokölluð "review"-grein, þar sem Múrenan reifaði hvað hefur verið gert fram til dagsins í dag innan þess fræðasviðs sem hún hefur áhuga á. Þetta voru engar rannsóknarniðurstöður eða þess háttar ...
Í ljósi þessa má skilja það betur en fyrr af hverju stríð og óöld er í veröldinni. Úr því menn hafa svona ótrúlega ólíka sýn á einni, lítilli, sætri grein, sem gerir engum mein, hvernig er þá hægt að ætlast til þess að menn séu sammála um hver og hvernig eigi að stjórna í Kenýa eða Pakistan?
En jæja, ... greinin fór í gegn og það er það sem skiptir máli!!
Svo komst Múrenan að því einnig í dag að hún er fyrsti doktorsneminn innan arkitektardeildar Háskólans í Sydney frá upphafi, til að ljúka svokölluðu "research proposal" á fyrstu önn doktorsnáms. En þess má geta að Múrenan náði þessum áfanga 7. desember síðastliðinn.
Þetta hlýtur því óhjákvæmilega að gefa til kynna að Múrenan er bara andskoti snjöll ... fyrsti neminn frá upphafi!!! Ekki slæmt hlutskipti það!! Það er nú ekki eins og deildin hafi verið stofnuð í gær!!
Að lokum ... Múrenan ætlar að "treina" það svolítið lengur að setja ferðasöguna inn á netið ... í alvöru talað, hún bara nennir því ekki núna enda klukkan orðin eitthvað yfir 11. Múrenan býður því bara góða nótt ...
... ferðasagan (fyrsti kafli) kemur líklega á morgun!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2008 | 11:25
Miðvikudagur
Það er alveg ljóst að líf Múrenunnar er farið að taka stakkaskiptum hér í Sydney, eftir daufa daga til að byrja með ... þessi dagur hefur til dæmis verið alveg feykilega góður ...
Til dæmis slapp Múrenan alveg við að éta grillaða hamborgara í boði skólans í hádeginu í dag, einungis vegna þess að hún áttaði sig ekki á grillpartýinu, fyrr en hún hafði borðað nestið sitt að upp til agna.
Málið var að í morgun útbjó Múrenan besta nestispakka ævinnar, það var pasta með sveppum og góðri sósu, hvítlauksbrauð, grískt salat og æðislegar ólífur. Í hádeginu meðan hún át þetta, hlustaði hún á torkennilegt hljóð sem barst inn um opinn gluggann, en af einhverjum ástæðum taldi Múrenan að hljóðið kæmi frá loftræstikerfinu ... en allavegana ... til að gera langa sögu stutta barst hljóðið frá grilli sem var úti á veröndinni.
Þegar Crighton félagi Múrenunnar spurði hana hvort hún ætlaði ekki að tékka á BBQ-inu, gat Múrenan ekki hugsað sér það ... pakkfull af góðgætinu sem áður hefur verið nefnt. En eftir að Chumporn og Crighton óskuðu heitt og innilega eftir kompaníi, gaf Múrenan eftir og mætti á staðinn. Hún borðaði samt ekkert, eins og áður hefur komið fram.
Upp úr kaffileytinu fóru Múrenan og Crighton svo á "orientation week", en svo kallast kynningarvika nýnema hér í Háskólanum í Sydney. Í "o-week" eru hin ýmsu félög að kynna starfssemi sína og vægast sagt margt í boði. Að minnsta kosti kom Múrenan til baka með fulla vasa af bæklingum og öðru "stöffi". Þarna var til dæmis kafaranámskeið, surf-námskeið, fótbolti, kórar, sjálfboðaliðastarf fyrir Sameinuðu þjóðirnar, Camping Safari, skylminganámskeið, Búdda-félag og fleira og fleira. Múrenan ætlar nú að hella sér út í eitthvað skemmtilegt meðfram náminu ... svo mikið er ljóst!!
Í kvöld var svo æfing hjá Gladesville Ryde Magic FC U-14, þar sem Múrenan ku ráða ríkjum upp að ákveðnu marki. Æfingin gekk mjög vel, en meðan á henni stóð gerði þrumuveður, með tilheyrandi rigningu. Á T-skyrtu og stuttbuxum varð Múrenan holdvot á mjög stuttum tíma ... sem var æðislegt!!
Strákarnir spurðu hvort þetta veður væri verra eða betra en á Íslandi ... það er auðljóst að þeir hafa aldrei komið til Íslands!!!
En jæja, á morgun mun fyrsti hluti ferðasögunnar birtast hér á bloggsíðunni ... og eins og áður hefur komið fram verður hún dimm, drungaleg og dýrsleg, jafnvel hættuleg viðkvæmum sálum, en ... hún verður fagurlega myndskreytt!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2008 | 11:17
Internet á Bourke!!
Jæja, þá hafa í dag gerst stórkostlegir hlutir ... spúsan rölti sig í dag út í búð og keypti módem og allt í einu eins og hendi sé veifað hafa heimilismenn á Bourke Street komist í samband við umheiminn, en eins og einhverjir vita hefur Bourke verið sambandslaust eftir að rányrkjufyrirtækið Three gekk berserksgang í innheimtu fyrir netnotkun, fyrir nokkrum mánuðum.
Lítið fallegt, hvítt tæki blasir nú við Múrenunni þegar hún lítur upp af tölvulyklaborðinu ... það er módemið!!
Og hvað þýðir það??
Það þýðir að brátt kemur ferðasagan inn á bloggið ... en hún er þessa dagana í smíðum og verður dimm, drungaleg og óhugnalega spennandi þegar hún mun líta dagsins ljós. Í öðru lagi mun verða "megauppfæring" á myndasíðunni, en af nógu er að taka, þegar myndefni er annars vegar. Lesendur Múrenunnar í Sydney verða nefnilega að skilja það að það er tvennt, eða jafnvel þrennt ólíkt að blogga í ró og næði heima fyrir, eða að blogga á skrifstofunni síðla kvöld, svangur og þreyttur, eigandi eftir að labba í 30 mínútur, eftir að bloggskrifum lýkur!!
Múrenan boðar því núna breytta blogghegðun ... og myndasíðuhegðun ...
... verið því stillt á rétt blogg!!!
Múrenan lætur það svo fylgja að internet-tenging heima fyrir, gerir spúsunni líka kleift að blogga ... tékkið á www.123.is/lauga við tækifæri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.2.2008 | 01:34
Súrir dagar!!
Múrenan sárvorkennir sér þessa dagana ... því það er bara ekkert gaman núna!!
Eftir allt ferðabröltið, til Dubai og Singapore, lagðist Múrenan í rúmið síðastliðinn mánudag, ... isss ... hélt að slenið myndi bara rátlast af henni á nokkrum klukkutímum, en það var nú ekki aldeilis svo ... !!!
Múrenan lá sem örend í rúminu í marga daga, eða allt til hún skreið á fætur á laugardaginn. En það var bara í mýflugumynd og í gær sunnudag, bauð hún spúsunni upp á leiðinlegasta félagsskap í heimi, með því að vera hvorttveggja í senn grjótfúl og afundin í tilsvörum. Svo heiftarleg voru leiðindin að spúsan sagði að Múrenan hefði verið miklu skemmtilegri þegar hún var sem veikust í vikunni.
Til að bæta gráu ofan á svart drifu Múrenan og spúsan sig í Powerhouse Museum í gær, í þeirri meiningu að það væri eitthvað skemmtilegt. Jesús!!! Þvílík leiðindi!! Pottþétt leiðinlegasta safn sem Múrenan hefur nokkurn tímann komið á ... samansafn af öllu og engu!! Múrenan telur að það áhugaverðasta sem hún fann þarna inni, hafi verið einhvers konar hjöruliður, sem var betrumbætt útgáfa af hefðbundnum hjörulið í drifskafti. Múrenan reiknar ekki með að nokkur hafi áhuga á þessu, þannig að hún ætlar ekki að lýsa þessu neitt nánar.
Og hvað gerðist á meðan Múrenan vafraði um ganga Powerhouse Museum ... tvö frægustu skemmtiferðarskip heimsins mættu hvort öðru í Sydney höfninni ... annað á jómfrúarferð sinni um heiminn, hitt á sinni síðustu ferð!!! "Stórkostlegt móment" segja þeir sem á horfðu.
Svo er gengið að falla ... ástralski dalurinn búinn að lækka um einhver lifandis ósköp ... er núna tæpar 62 krónur, var 52 þegar Múrenan steig fyrst fæti sínum á ástralska jörð í maí á síðasta ári. Hver borgar það??? Múrenan hefur verið tiltölulega hliðholl krónunni allt til þessa, líklega af þjóðrembingsástæðum, en stundum er sagt að menn læri ekki neitt nema prófa það sjálfir ... svo mikið er víst að Múrenunni finnst sjálfsagt að ræða það hvort ekki skuli tekin upp önnur mynt. Sem dæmi hefur Uncle Toby´s hafragrauturinn hækkað um 60 krónur án þess nokkur einasta hækkun hafi átt sér stað hjá verslunarrisanum Coles.
Jæja, það hlýtur að fara að birta yfir aftur ... en eins og mál standa nú, er Múrenan bara súr hérna í Sydney!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)