20.4.2008 | 22:50
Meiri teppi og fermingarafmæli
Teppamál voru ofarlega á baugi hjá okkur Laugu í dag. Eftir að hafa hreinsað teppið á íbúðinni vel og vandlega í gær, var kominn tími til frekari aðgerða í dag.
Við skruppum til Rhodes, nánar tiltekið í IKEA, og keyptum okkur þar ódýrt teppi. Gripum einnig með nýjar gardínur fyrir stofugluggann.
Ég verð að viðurkenna að gardínurnar sem leigusalar okkar útveguðu okkur í fyrra, voru farnar að leggjast dálítið á sálina á mér, sökum ljótleika. Um er ræða röndóttar gardínur, sem minna helst á skinn af tígrísdýri, og svona til að lífga upp á allt saman datt hönnuðinum í hug að setja nokkra bleika tígla.
Ofan á það voru komin göt á gardínurnar, sem skýrast sennilega af því að sólin er búin að skína á þær meira og minna í 30 ár ... held ég.
Núna er stofan sumsé orðin hvít. Hvítt teppi og hvítar gardínur. Að ganga inn í stofuna er kannski ekki svo ólíkt því, sem maður ímyndar sér, að ganga inn í himnaríki. En ég get þó ekki fullyrt um það, því ég man ekki hvernig himnaríki leit út síðast þegar ég fór þar um, það er að segja ef ég hef farið þar um.
Á morgun verður málið klárað, farið aftur í IKEA og tvö teppi keypt til viðbótar.
Í dag á ég 21 árs fermingarafmæli ... já, já ... dagurinn mikli var þann 20. apríl 1987. En þann dag blótaði ég upp við altarið í Hallgrímskirkju, þegar að oblátan sogaðist föst upp í góminn. Eftir að hafa viðhaft slíkan munnsöfnuð við fótskör almættisins, taldi ég öruggt að leið mín lægi þráðbeint til helvítis að þessu jarðlífi loknu. Eins og sönnu fermingarbarni sæmir, brást ég við með áköfu bænahaldi og afsökunum á gjörðum mínum ... og ég vona að það hafi verið tekið gilt!!
Þess má svo einnig geta, að Stebbi bróðir á, í dag, 27 ára fermingarafmæli. Persónulega man ég lítið eftir því, nema athöfnin fór fram í Háteigskirkju og prestur var séra Tómas Sveinsson.
Hins vegar man ég það að núverandi blómasala á Akureyri leiddist fermingarundirbúningurinn afskaplega mikið. Bókin "Líf með Jesú" fékk ekki mikla lesningu, enda sagðist fermingarbarnið vera að gera þetta meira fyrir ömmu, en amma var ákafur hvatamaður þess að ungir drengir gengju á guðs vegum.
Svona var það nú ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2008 | 16:02
Doktor, teppi, afmæli
Þessa dags 19. apríl 2008 verður sérstaklega minnst fyrir þrennt ...
Þetta er dagurinn sem ég gat óskað Halldóri vini mínum til hamingju með útskriftina. Hann lauk í gær doktorsprófi frá Háskóla Íslands, en tók ekki við símatali frá Ástralíu þann daginn, heldur beið með það þar til í dag.
En hvað sem því líður, þá getur hann með réttu kallast Dr. Dóri og það er ekki lítill áfangi.
Ég sendi honum hér með opinberlegar hamingjuóskir með árangurinn: Til hamingju, Dr. Dóri!!
Í dag voru ermarnar líka brettar upp heima fyrir, því við Lauga röltuðum út í Coles og leigðum þar teppahreinsivél, alveg eldhressa.
Við vörðum stórum hluta dagsins í að hreinsa teppin í íbúðinni, og það verður að segjast eins og er að ekki var nú vanþörf á því. Sjaldan hefur maður séð jafn grútskítugt vatn og það sem safnast fyrir í affallstanki vélarinnar.
Og það sem betra var ... árangurinn var eins og í auglýsingunum, sem auglýsa hreinsiefni og þvottalög. Maður renndi bara eina ferð yfir og dökkbrúni liturinn varð ljósbrúnn ... hreint ótrúlegt!
Við höldum að loftið í íbúðinni sé líka allt annað en áður, en getum ekki verið alveg viss, því við erum bæði með stíflaðar nasir, ... svona létta útgáfu af kvefi ... sennilega það besta sem hefði mögulega getað hent okkur, geri ég ráð fyrir. Í það minnsta minnir það mann á hversu ánægður maður getur verið að vera ekki alltaf með stíflaðar nasir!
Í þriðja lagi fórum við í afmælisveislu til James, vinar okkar í kvöld. Það var þrítugsafmæli hjá honum og sæmilega margt um manninn ... í það minnsta var góðmennt hjá honum.
Við vorum alltént mjög ánægð með veisluna.
Mig langar til að velta einni spurningu upp í lokin ... og hún er svona:
Ef maður er kona og heitir Leilei og er gift manni sem heitir Lei, er það þá hrein snilld að skíra barnið sitt Leih eða ber það vott um óendanlega gelt ímyndunarafl?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2008 | 13:29
Knattspyrnuakademían
Í dag var fyrri starfsdagur Knattspyrnuakademíu P&G.
Allt hófst þetta samt á fundi niðri í skóla með Terry Purcell aðstoðarleiðbeinanda mínum kl. 9 í morgun. Terry var hress að vanda og ótrúlega áhugasamur um verkefnið mitt. Sagðist hafa beðið spenntur í viku að vita hvað hefði gerst því. Því miður hafði ég lítið að segja honum, enda hefur tíminn farið að mestu leyti í að gera eitthvað allt annað en að fókusera á doktorsverkefnið mitt. Á næstu dögum verður þó bætt úr því.
En strax og fundi okkar lauk, yfirgaf ég Wilkinson-bygginguna og hélt áleiðis til Stanmore að ná í hjólið mitt, sem var í viðgerð þar, eða öllu heldur í stillingu þar. Og þvílíkur munur að hjóla á því núna ... gírarnir hættir að "skralla" og hættir að hoppa á milli, sem allir hjólreiðamenn hljóta að vera sammála um að er gjörsamlega óþolandi!
Á hjólinu fór ég heim til Garys, en það er nafn þjálfarans, og þaðan héldum við til Lofberg Oval í West Pymble, sem er í norðurhluta Sydney. Upp úr klukkan 12 birtust 16 strákar tilbúnir í slaginn, þar af 8 stykki úr U-14 liði Gladesville Ryde Magic. Þar að auki kannaðist ég við tvo, sem reyndu fyrir sér á svokölluðum úrtökudögum í síðastliðnum nóvember, en voru ekki valdir í liðið.
Gary hafði sett upp meginhluta prógramsins en ég hafði úthugsað nokkrar tækniæfingar sem gott var að hafa í handraðanum.
Dagskráin byrjaði á langhlaupi, en í kjölfarið komu stökkæfingar og sprettir. Ég verð að viðurkenna að mér fannst það dálítið einkennileg byrjun á fjögurra klukkutíma æfingu, en ok ...
Eftir það hófust tækniæfingar ... ég fékk þann hóp sem var betur á sig kominn tæknilega ... með öðrum orðum boltameðferð þeirra var betri en hinna.
Það verður nú samt að segjast að hún var ekkert sérstaklega góð ... flestir illilega einfættir, og vildu helst ekki nota hinn fótinn til annars en að standa í hann. En slíkt er ekki álitið sterkt fyrir fótboltamenn.
Undirtektirnar voru nú ekkert framúrskarandi, þegar ég hóf að sýna þeim listir mínar og biðja þá um að endurtaka þær. Stinga boltann og taka við honum innanfótar eða utanfótar með hinum fætinum ... þessar einföldu æfingr, sem nota bene eru æfingar nr. 1 og 2 í bók Wiel Coervers "Knattspyrnuskóli KSÍ", féllu ekki í kramið, enda fullyrði ég að varla nokkur þeirra gat gert þær með sannfærandi hætti. Samt eru þetta grundvallar "moves" í fótbolta.
"Af hverju þurfum við að vera að þessu? Þetta er "boring"", voru kommentin sem ég fékk í hausinn. Ég verð að viðurkenna að ég var steinhissa, því þegar ég var 14 ára, fannst mér rosaskemmtilegt að vera úti í garði að æfa þessi "move".
Ég hef sjálfsagt verið svo gáfað barn, en í huga mér lék aldrei vafi á hvers vegna gera þyrfti þessar æfingar ... að sjálfsögðu til að verða besti fótboltamaður í heimi!!
Svo voru æfðar sendingar og loks endað á leik. Nokkuð "straight forward" prógram í dag.
Ég verð samt að segja að ég er undrandi á "energy levelinu" hjá drengjunum ... en í mörgum tilfellum var það mjög lágt! Það var nærri því eins og þeir væru sofandi eða að sofna ... ég bara skil þetta ekki!! Til hvers að vera í fótbolta og veltast um eins og draugur!!
Heim kom ég um sex-leytið og gaf ég Laugu þá langa og ítarlega skýrslu af því sem gerst hafði ...
Við enduðum svo að rölta út á Erciyes Kebab House og fengum léttan kvöldverð ...
Jáhá, svona leið nú þessi dagurinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 04:11
Textagerð
Í morgun áttum við Lauga skemmtilegt samtal einu sinni sem oftar ... og í þetta sinnið barst talið að textagerð og lagasmíðum. Tókum við til að rifja upp hvaða afrek við hefðum unnið á því sviðinu allt fram á þennan dag. Lauga gat nú bara nefnt, held ég, einn texta sem hún samdi og er hann að mínum dómi ákaflega einfaldur og innihaldslaus ...
Hann er svona:
Ég sagði nei, nei, nei, nei, nei nei ... (og nei-ið endurtekið 100 sinnum eða svo)
Mín afrek eru miklu betri. Eftirfarandi er texti við lag sem hljómsveitin Mini-KISS flutti á fyrri hluta 9. áratugar síðustu aldar. Lagið var hljóðritað í herberginu mínu á Bergstaðastrætinu. Kristján vinur minn söng og ég lék á trommur. Því miður hefur hljóðritunin glatast en textinn mun lifa um ókomna framtíð!!
Leikurinn
(Kristján Magnússon / Páll Jakob Líndal)
Ég vildi að ég væri orðinn Karate Kid,
þá mun ég segja, segja hid.
Þessi leikur er frá Liverpool,
Liverpool og Manchester United keppa frúm.
Liverpool er með boltann hér,
gefur á Ken Dalgish sem skorar á mínútunni,
hann má ekki gefa frá sér.
Hann segir: "Eitt, núll"
og skorar vúll!!
Það var "skeytin inn" ég trúði því varla svo skjótt.
Ég horfði á leikinn og spilaði mig svo fljótt
Ég ætlaði að skjóta "skeytina inn".
En þá kom litli, ljóti, myglaði sonurinn minn.
"Svaraðu já, segðu nú nei,
ég fel ekki grasið og segðu svo hey"!!
Ég vissi ekki fyrr en ég var að vinna keppnina með mér ... hey!!
Úúúvvaaaaa ... ef ég væri Pamela í Dallas!!!
Síðasta línan var ekki hluti af upphaflegum texta, og viðurkenndi Kristján eftir að hljóðritun hafði átt sér stað, að hann hefði bara ekki vitað hvað hann átti að segja meira og því hefði hann bætt þessu við, meira svona vegna óöryggis en listræns innsæis.
Ég verð samt að segja að raddlega séð, var síðasta línan besta frammistaða Kristjáns í laginu. Hún var gjörsamlega frábær!!
Í Steinnesi, á svipuðu tímabili og við Kristján héldum úti hljómsveitinni Mini-KISS, rak annan snjallan texta- og lagahöfund á fjörur mínar. Hét sá og heitir enn Arnar Freyr Vilmundarson.
Við sömdum saman tvær ódauðlegar perlur. Önnur þeirra hefur beina vísun í vinnu sem við Arnar stunduðum á þeim tíma, sem var að horfa löngum stundum á heyblásara, matara og færiband vinna vinnuna sína við að koma heyi úr heyvagni og inn í hlöðu.
Ef verið var að taka saman vothey, var maurasýra (myresyre) blönduð saman við heyið, en slíkt er nauðsynlegur liður í votheysverkun. En vegna þess hversu hættuleg maurasýra en ákvað Magnús bóndi eitt sinn, að breyta til að nota þess í stað hvítt duft, sem bar heitið "Kofasalt". Þess má geta að "Kofasaltið" átti eftir að verða bylting í starfi okkar Arnars.
Eftirfarandi texti fjallar um þetta allt saman.
Myresyre
(Arnar Freyr Vilmundarson / Páll Jakob Líndal)
Myresyre, myresyre, kofasalt, kofasalt
myresyre, myresyre, kofasalt, kofasalt
Annar texti kom líka til okkar, og var sá byggður á sívinsælli sögu um Rómverska riddarann og er eftirfarandi:
Rómverskur riddari
(Arnar Freyr Vilmundarson / Páll Jakob Líndal)
Rómverskur riddari réðst inn í Rómaborg
rændi þar og ruplaði rúbínum og risagimsteinum.
Rigning var og rosa rok.
Reiður rýtinginn hann reif af risavöxnum róna
sem ræktað hafði rófur, rabbabara og rúsínur!!
Hvað eru mörg R í því?
Bæði lögin voru mjög rokkuð og undirleikur var á smurolíutunnur og hlöðudyr (reyndar var hætt að nota hlöðudyrnar til undirleiks, eftir að við vorum eitt sinn spurðir, hvað hefði eiginlega komið fyrir dyrnar ... en það sást "aðeins" á þeim eftir flutning laganna). Upptökur fóru því miður aldrei fram á þessum góðu lögum.
Nokkrum mánuðum síðar, á Seltjarnarnesinu, nánar tiltekið heima hjá Arnari, fæddist þetta textabrot ... því miður man ég ekki meira af því. Upptaka fór fram á þessum texta, en hefur hún nú glatast, geri ég ráð fyrir.
Algjör
(Arnar Freyr Vilmundarson / Páll Jakob Líndal)
(texta vantar) ...
Algjör byrja, algjör byrja,
algjör, algjör kaktus ...
Pabbi minn er algjör feitur flóðhestur!!
Einn góður texti var líka samin í samvinnu við Palla frænda minn. Sá texti var tileinkaður playmói, leikföngum sem við elskuðum.
Playmóbíl
(Páll Eiríksson / Páll Jakob Líndal)
Ég leik með playmóbíl,
ég elska playmóbíl.
O je!!
Síðast en ekki síst ber að nefna mjög vandaðan texta sem við bræður, ég og Stebbi, sömdum saman uppi í rúminu hennar ömmu, um svipað leyti og frægðarsól Bjartmars Guðlaugssonar skein sem skærast og hver smellurinn rak annan. Texti okkar bræðra var við hið sívinsæla lag "Súrmjólk í hádeginu, Cheerios á kvöldin". Hafði textinn beina skírskotun í heimilislífið á Bergstaðastrætinu og var hann eftirfarandi:
Viský og ákavíti
(Stefán Jón Jeppesen / Páll Jakob Líndal)
Viský í hádeginu, ákavíti á kvöldin,
Palli drekkur þetta allt saman af stút.
Viský í hádeginu, ákavíti á kvöldin,
Mamma er orðin hundleið á þessum drykkjurút!!
Þegar við fluttum svo lag og texta fyrir ömmu, varð hún í stuttu máli, ekki hrifin, bað okkur að láta ekki nokkurn mann heyra þetta og bað Guð almáttugan að varðveita okkur. Þrátt fyrir að vilja allt fyrir ömmu okkar gera, skelltum við skollaeyrum við þessari bón hennar og enn í dag, lifir textinn góðu lífi.
Bloggar | Breytt 17.4.2008 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.4.2008 | 14:05
Daglegt líf í Sydney
Þessi dagur byrjaði líkt og aðrir dagar, á því að ég vaknaði upp úr kl. 7. Eftir kjarngóðan morgunverð og gott spjall við Laugu, tók ég hjálminn minn niður af skápnum, spennti á mig bakpokann, stökk á hjólhestinn og hélt á vit ævintýranna.
Fyrsta málið á dagskrá í dag var að lesa yfir grein eina, sem fjallaði um augnhreyfingar fólks þegar það horfir á ljósmyndir af náttúrunni annars vegar og af borgarumhverfi hins vegar. Niðurstöðurnar voru kýrskýrar, fólk hreyfir augun meira þegar það horfir á myndir af borgarumhverfi, sem gefur til kynna að slík iðja krefjist meiri athygli en áhorf náttúrumynda og það leiðir til aukinnar andlegrar þreytu, sem síðar skilar sér í streitu ... já, já og svo framvegis ...
Eftir lesturinn hélt ég á fund. Fjögurra manna fundur þar sem kenningar um "restoration" voru til umfjöllunar. Í dag reyndum við að finna einhvern flöt á því hvort hægt væri að sameina kenningar Kaplan-hjónanna og Rogers Ulrich, en báðar eru þessar kenningar eru gríðarlega mikið notaðar til að skýra hvers vegna mismunandi umhverfi hefur misjöfn áhrif á fólk. Ekki gekk nú að samþætta þær á fundinum, enda sennilega meira en klukkutíma verk að umbylta öllum fræða-literatúrnum! Ég fékk samt það verkefni að útbúa flæðirit, þar sem báðum kenningunum er hnoðað saman.
Matur. Hakk og pasta ... alveg listilega og lystilega gott. Ég og hin hollenska Karin, spjölluðum yfir matnum, fórum með gamanmál og ræddum sálfræðikenningar.
Að loknu borðhaldinu, hélt ég á annan fund. Í þetta skiptið var það með prófessornum mínum. Ræddum við umsókn sem ég hef verið að undirbúa síðan á föstudaginn, þar sem sóttst er eftir peningum til að komast á IAPS-ráðstefnu í Róm í júlí næstkomandi, en IAPS stendur fyrir International Association of People-environment Studies. Ég sendi grein í desember síðastliðnum til IAPS í þeirri von að geta komið henni að á ráðstefnunni og var hún samþykkt. Þannig að eins og mál standa, á ég að halda fyrirlestur í Róm í sumar um áhrif borgarumhverfis á sálarlíf fólks. Skortur á peningum gæti þó komið í veg fyrir að svo verði ... þess vegna er verið að möndla umsóknina.
Jæja, eftir fundinn svo hélt ég áfram að græja umsóknina og þegar það var allt saman komið í strand, sneri ég mér að því að koma blessuðu hjólinu mínu í viðgerð. Það þarf aðeins að herða það upp og fixa gírana, og þá mun ég hjóla eins og fálki um stræti og torg Sydney-borgar.
Aftur fór ég svo í skólann. Nú lá fyrir að ljúka við einn abstrakt, sem ég ætla að senda á ráðstefnu sem verður á Ítalíu í sumar. Ég hef nú ekki hug á því að fara á þá ráðstefnu, enda er hægt að sækja um svokallaðan "virtual" aðgang að henni og borga fyrir það ekki nema $300 eða um 20.000 kr. Þann pening hef ég náttúrulega í rassvasanum nú þegar og veit bara ekkert hvað ég á að gera við. Ráðstefnugjald er því kærkomið tækifæri til að spandera aurunum ... eða ... ??
Mamma var komin á Skype-línuna hjá mér upp úr klukkan 8 að íslenskum tíma ... hún var bara hress og sagði mér margar sögur af öllu mögulegu, uns hún tók að krefja mig um fréttir. Þær stóðu ekki á sér og réttum klukkutíma síðar slitum við samtalinu. Þá var Lauga komin upp á skrifstofu til mín, eftir margra klukkutíma bæjarferð, þar sem verslað var efni sem nota skal til frekari afreka á hönnunarsviðinu ... eyrnalokkasviðinu (kíktu á www.123.is/lauga ef þú hefur ekki hugmynd um hvað ég er að tala).
Ég aðstoðaði hana við að búa til nafnspjöld og að því loknu héldum við heim á leið, komum við í bókabúðinni og keyptum þar þrjár bækur fyrir samtals 800 kr.
Áttum svo saman langt og skemmtilegt spjall fram eftir kvöldi, þar sem við ræddum lífsins gagn og nauðsynjar ...
Já, svona var nú dagurinn 15. apríl 2008 hér í Sydney!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2008 | 23:26
Ritstörf
Þessa dagana er ég að vinna að ritun kafla, ásamt Sigrúnu Helgadóttur náttúrufræðingi og kennara, um áhrif náttúrunnar á andlegt og líkamlegt atgervi fólks. Meiningin er að kaflinn verði hluti bókar, sem verið er að setja saman til heiðurs Arnþóri Garðarssyni líffræðingi, sem varð sjötugur ekki fyrir svo margt löngu.
Ég lít svo á að um hálfgert frumkvöðlastarf sé hér að ræða, því eftir því sem ég best veit hefur afskaplega lítið verið ritað um þessi mál á Íslandi. Vissulega hafa verið skrifaðir pistlar um að það hljóti bara að vera betra að vera uppi á fjöllum en að standa gapandi við Reykjanesbrautina og hlusta á umferðarniðinn, en ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem "vísindalega" er tekið á málinu.
Ef einhver veit betur ... vinsamlegast látið mig vita ...
... því það sem blasir við mér, er mjög praktískur vandi, en það er að þýða sum hugtök umhverfissálfræðinnar yfir á íslensku. En ef einhver er nú þegar búin(n) að því, gæti töluverð vinna sparast.
En svona til upplýsingar fyrir þá sem áhuga hafa, þá virðist náttúran hafa, og ótal rannsóknir styðja það, mjög jákvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu fólks. Hins vegar vita menn ekki af hverju þessi áhrif eru svona sterk, en tvær helstu kenningar dagsins í dag, gera ráð fyrir að skýringuna megi finna í því að einu sinni héngu forfeður okkar í trjánum. Með öðrum orðum, það eru þróunarfræðilegar skýringar á þessu öllu saman.
En ég held að allir unnendur náttúrunnar, geti farið að spenna beltin og gera sig klára fyrir að lesa spennandi kafla, það er að segja, eftir að bókin er komin út, því hann gæti verið mjög áhugaverð lesning, þó ég segi sjálfur frá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 00:17
Fótboltadraumur???
Það er stundum ótrúlegt hvað lífið er óútreiknanlegt ... það er í rauninni alveg dásamlegt hvað hlutirnir geta tekið á sig skrýtnar myndir og allt í einu er maður kominn í einhverja stöðu sem maður hefði aldrei nokkurn tímann, getað ímyndað sér að maður myndi lenda í ...
... og í þessu tilfelli er ég að tala um feril minn sem fótboltaþjálfari hér í Ástralíu.
Eftir fremur "frústrerandi" fótboltaferil, sem lauk með mjög eftirminnilegum hætti á Gróttuvellinum á Seltjarnarnesi þann 21. september 1996, hef ég varla snert fótbolta, ef undan eru skildir nokkrir tímar í innanhúsfótbolta og nokkrar æfingar með HK árið 1997, sem voru hundleiðinlegar.
Svo kemur maður hingað til Ástralíu, þar sem fótbolti er nú ekkert sérstaklega hátt skrifaður, hittir þar mann frá Kanada, landi þar sem fótbolti þekkist varla og segir honum, vegna þess að hann spyr, að maður hafi jú, verið á kafi í fótbolta. Eftir brösugt samtal um fótbolta, er hann allt í einu kominn með þá hugmynd, að ég hafi verið rosalega gildur þáttur í sögu íslenskrar knattspyrnu á síðasta áratugi síðustu aldar ... sem er náttúrulega algjört kjaftæði.
Ekki það að "potentialið" og áhuginn til að gera góða hluti, hafi alveg verið til staðar, vandinn hins vegar alltaf "mentalitetið", það er eigin gagnrýni og átök í heilabúinu sem stóðu öllum árangri fyrir þrifum. Ég er til dæmis viss um að það hafi ekki margir æft æfingarnar hans Wiel Coervers (þ.e. upp úr bókinni Knattspyrnuskóli KSÍ) klukkustundum saman á hverjum degi úti í garði í niðamyrkri um hávetur ... en ég gerði það. Svo þegar kom að því að sýna töfrana á æfingum og leikjum, þá bara "fúnkeraði" ekkert, eins og það átti að gera ... og maður missti brækurnar niður um sig, svona í óeiginlegri merkingu, varð brjálaður o.s.frv. Svo var manni bara skipt út af ... og "hvíldur" í næsta leik.
Jæja, en nóg um það ... kanadíski maðurinn, sem samkvæmt allri statistík á ekki vita hvað fótbolti er, biður hina fyrrum knattspyrnustjörnu um að aðstoða sig við þjálfun fótboltaliðsins Gladesville Ryde Magic FC í aldursflokki U-14.
Ég er sum sé fenginn til liðsins sem reynslubolti, til að ausa úr skálum visku minnar um fótbolta.
Í fyrstu vissi ég lítið um það hvað ég ætti eiginlega að segja við þessa blessuðu drengi, ... en síðan hefur annað komið á daginn ... ég veit bara allan fjandann um fótbolta, svona þegar á reynir. Og það sem meira er ... þetta þjálfarastarf er bara alveg rosalega skemmtilegt.
Þegar þetta er skrifað hafa þrjár umferðir farið fram í deildakeppninni hér í Nýja-Suður Wales, og hefur Gladesville Ryde Magic U-14 unnið alla sína leiki og er efst í deildinni með 9 stig og markahlutfallið 10-3.
Í gær var virkilega gaman að horfa á liðið þegar það sundurspilaði Hakoah og sigraði 5-1.
Það glænýjasta í fótboltamálum er síðan það að næstu tvo fimmtudaga verð ég með fótboltaskóla, ásamt þeim kanadíska, fyrir stráka á aldrinum 13-15 ára. Þessar tvær vikur er frí í grunnskólum og hefð hér í landi að krakkar fari á námskeið og/eða í útilegur.
Námskeiðið okkar er sum sé eitt af því sem í boði verður hér í Sydney ... eftirspurnin hefur sprengt öll mörk og hafa 17 strákar skráð sig.
... og ég sem ætlaði aldrei að koma nálægt fótbolta aftur!!! Hvað þá að verða þjálfari!!!
En þetta hefur kennst mér þá lexíu að enginn veit ævina sína fyrr en öll er!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2008 | 07:22
Andhverfu-ofsóknarbrjálæði
Það er alveg stórmerkileg bók, sem ég er, þessa dagana að grípa í ... þetta er bók sem margir hafa sjálfsagt heyrt um.
Þetta er bókin "Hámarksárangur" og er eftir Brian Tracy.
Fyrir um 10 árum keypti ég mér þessa bók og byrjaði að lesa hana, en gafst fljótlega upp, því mér fannst ekkert vit vera í henni. Um jólin síðustu, þegar ég var á Íslandi rak ég augun í bókina uppi í hillu og ákvað að kippa henni með mér til Sydney.
Hvort það er vísbending um vitsmunalega framför eða afturför, þá er allt annað upp á teningnum núna, þegar ég les hana, því skoðanir mínar og þankagangur ríma ótrúlega vel við hugmyndir Tracys. Þetta steinliggur allt saman.
En það er líka margt í bókinni sem er nýtt fyrir mér ... til dæmis það þegar Tracy nefnir mann, sem ég man ekki hvað heitir í augnablikinu, enda skiptir það engu máli, sem hefur komið sér upp "andhverfu-ofsóknarbrjálæði" ... ég skrifa það aftur "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"!!
Hvernig er hægt að koma sér upp "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"??
Hvað er "andhverfu-ofsóknarbrjálæði" fyrir það fyrsta??
Flestir vita hvað ofsóknarbrjálæði er ... en það er þegar einhver heldur að allur heimurinn sé leynt og ljóst að vinna gegn sér.
Andhverft ofsóknarbrjálæði er andstæða þess ... eða það að einhver heldur að heimurinn sé leynt og ljóst að vinna með sér.
"Andhverfu-ofsóknarbrjálæði" er því algjör snilld og síðustu vikur hef ég verið alveg brjálæðislega "stökk" í því og unnið hart að koma mér upp einu slíku!
Og niðurstaðan er að ég hef verið ótrúlega jákvæður og tek öllu sem hendir mig fagnandi ... þetta er bara spurning um afstöðu, hugarfar eða hvað maður á eiginlega að kalla það.
Til dæmis, þegar dekkið á hjólinu mínu sprakk um daginn, þurfti ég að ganga 8 km til að koma því heim og ég varð himinlifandi!!
Í stað þess að hugsa: "Dauði og djöfull, helvítis dekkið sprungið ... er þetta ekki alveg týpískt og ég úti helvítis rassgati. Andskotinn, ég hef sko engan tíma fyrir þetta ... ég er óheppnasti maður í heimi o.s.frv. ..." þá hugsaði ég "rosalega er ég heppinn að geta gengið, og það fá að ganga núna er algjörlega það besta sem hefði getað komið fyrir núna!! Þvílík heppni!!" Svo rölti ég bara heim með hjólið "undir hendinni", skoðaði mannlífið, hugsaði um doktorsverkefnið mitt, svaraði nokkrum spurningum í huganum sem ég hef ekki haft tíma til að hugsa um og fleira og fleira ...
Þannig að ef þú ert í stuði, þá ættirðu að prófa "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"... þetta er skemmtilegt og kostar ekki krónu!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2008 | 23:51
Melbourne - Dagur 3 (kemur mjög fljótlega)
Það er allt vitlaust að verða hjá Múrenunni þessa dagana ... hún sér vart út úr augum!!
En það er bara í góðu lagi ... Múrenan getur fullvissað lesendur sína um að, frásögn frá þriðja og síðasta deginum í Melbourne, verður komin fyrr en lesendur grunar!! Er það ekki það sem lesendur vilja?? Hvernig endaði ferðin?? Hvernig var upplifunin að vera loksins kominn á slóðir silfurverðlaunahafans frá Ólympíuleikunum 1956 (?), ... já, það er verið að tala um sjálfan Vilhjálm Einarsson, sem Íslendingar eru ennþá að fagna eftir afrekið, þótt liðin séu 52 ár síðan!!
Merkilegt í þessu sambandi hvað það virðist skipta miklu máli hvort íslenskir keppendur á ólympíuleikum fái silfur eða brons ... Múrenan er ekki viss um Bjarni Friðriksson og Vala Flosadóttir hafi fengið og muni fá annan eins klappkór og Vilhjálmur ... ekki það að Vilhjálmur verðskuldar það sjálfsagt, hann er náttúrulega lifandi goðsögn!! En meira um þetta síðar ...
En eins og áður segir, það er allt vitlaust að verða, Múrenan búin að taka að sér svo mörg verkefni að flestir sem þekkja hana, ættu að átta sig á að hún er við hestaheilsu og að sumir hlutir breytast seint!! Og ef allt er vitlaust að gera, hlýtur að liggja í augum uppi að það ætti að vera hægt að segja frá einhverju ... það er bara massífur tímaskortur sem hamlar öllum skrifum ...
Rock and roll halleluja!!
Og til að gleðja lesendur, lætur Múrenan eina mynd frá því í maí í fyrra fylgja með ... á myndinni fagnar Múrenan stórtapi Framsóknarflokksins í síðustu alþingiskosningunum. Á skjánum er Sigmundur Ernir í beinni í Sydney!!

Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2008 | 15:00
Melbourne - Dagur 2
Eftir dásamlegan svefn, vöknuðum við upp úr kl. 9.00. Það var mjög erfitt að koma sér fram úr þennan morguninn, því sængurfötin voru svo mjúk og rúmdýnan svo þægileg. En það hafðist samt fyrir rest.
Bev frænka beið okkar þolinmóð, tilbúin til að taka til morgunverðinn, sem í þetta skiptið samanstóð af ristuðu brauði, tei, ávöxtum, skinku og soðnum eggjum. Alveg frábært.
Stuttu eftir að borðhaldið hófst, birtist barnabarn hennar, sem mér reynist fullkomlega ómögulegt að muna hvað heitir. Eftir að hafa meðtekið gestina frá Íslandi, tók sú stutta til óspillra málanna, sagði sögur, brandara, sýndi töfrabrögð og fór í feluleik.
Upp úr 11-leytinu bjuggum við Lauga okkur undir að kveðja þetta fimm stjörnu hótel, því næstu nótt skyldi varið á City Centre Hostelinu á Little Collins Street. Bev frænka keyrði okkur á brautarstöðina og leysti okkur út með gjöfum, bangsa handa afkomandanum og páskakanínum úr súkkulaði.
Dagskráin þennan daginn hjá okkur Laugu var fremur einföld í sniðum. Einfaldlega að fara niður í Albert Park og vera þar þangað til um kvöldið.
Ástæða þess var auðskiljanleg. Við áttum miða á Formúlu 1 kappaksturinn, sem þar átti að fara fram, og að honum loknum voru tónleikar með KISS.
Þarna er ég og dagskrá dagsins
Það var alveg myljandi hiti þegar við stigum út úr sporvagninum við Albert Park skömmu fyrir eitt-leytið, og sól skein í heiði. Hvaðanæva dreif fólk að ... ekki nokkur spurning að hér var um stóratburð á ræða. Enda kom síðar á daginn að yfir 100.000 manns voru á svæðinu.
Strax eftir að miðarnir okkar höfðu verið klipptir, tókum við að leita að sölubás, þar sem vænta mátti að eyrnatappar væru til sölu. Það gekk greiðlega, en í beinu framhaldi var ekki komist hjá því að finna sölubás með drykkjarvöru. Ekki fannst hann nú en þess í stað kranar, þar sem hægt var að nálgast frítt vatn. Í næsta nágrenni var einnig hægt að komast í úðaviftur, en í þeim var mögulegt að fá framan í sig góðan blástur og mjög fíngerðan úða. Alveg geysilega svalandi.
Lauga og úðaviftan
Við ákváðum að finna okkur heppilegan stað til að horfa á kappaksturinn og gengum því yfir þveran garðinn, sem er umtalsverð vegalengd, verð ég að segja. Hitinn og sólskinið var þrúgandi. Undir hverju tréi og hverjum vegg sat fólk í skjóli fyrir sólinni. Þorstinn leitaði á mann í hverju skrefi. Vatnsbirgðirnar voru fljótar að hverfa, en nú voru góð ráð dýr því enginn krani og enginn sölubás var í sjónmáli.
Lauga í sjóðheitum Albert Park að skrælna úr þorsta
Loks komum við að veitingatjaldi, þar sem boðið var upp á drykki á "sanngjörnu" verði ... $5 eða um 360 kr. fyrir hálfan lítra af Sprite. En hvað var hægt að gera í stöðunni, kverkarnar voru að skrælna. Maður hefði glaður borgað $20 ef óskað hefði verið eftir því.
Hin ólétta Lauga fann sér stað undir vegg og andaði léttar. Hún opnaði bakpokann og hugðist bjóða upp á súkkulaði, þar á meðal páskakanínurnar frá Bev. Það reyndist þrautin þyngri að gæða sér á þeim, því þær höfðu skipt um fasastig, það er úr föstu efni yfir í fljótandi. Lauga stakk þeim bara aftur í töskuna. Þær skyldu borðaðar síðar.
Eftir þessar tilfæringar fór ég að gera mig kláran til að sjá kappaksturinn. Skammt frá voru ofurlítil áhorfendastæði, en ég hafði engann áhuga á þeim. Ég ætlaði að komast í almenninlegt stúkusæti. Það leið nú samt ekki á löngu að mér var gert það ljóst að ég hefði engann aðgang að stúkusæti. Til þess var miðinn minn alltof ódýr ... þó hann hafi verið bara skrambi dýr!!
Ég mátti því sætta mig við standa efst á áðurgreindu áhorfendastæði, og horfa í gegnum massífa vírgirðingu á væntanlega kappakstursbíla þjóta framhjá á mörg hundruð kílómetra hraða.
Herflugvélar sýna listir sínar
Um klukkan 15.00 hófust leikar, með því að Vanessa Amorosi söng ástralska þjóðsönginn. Orrustuflugvélar frá ástralska hernum flugu yfir ... alveg merkilegt hvað þessi viðbjóðslegu morðvopn leika stóran þátt í þessari kappaksturshátíð ... og þegar þær höfðu lokið sér af, flaug Boeing 747 Jumbo þota frá Qantas yfir vettvanginn. Mjög tilkomumikið ... eða þannig ...
Allir á ráspólunum
Svo var bara blásið til leiks. Og þarna stóð maður í 39,1°C og brennandi sólskini uppi í vesælu áhorfendastæði og reyndi að taka myndir af bílunum sem þutu framhjá með drunum og dynkjum.
En við þetta var náttúrulega ekki unað. Við ákváðum að fara á röltið. Reyna að finna betri stað fyrir mig til að ná myndum af þessum mikla atburði sem þarna var að eiga sér stað.
Ekki höfðum við gengið langt þegar þorstinn fór að sverfa að á nýjan leik ... aftur hófst leit að vatni og þegar hún stóð sem hæst, gerðist eitthvað á brautinni. Fólk þusti að girðingunni. Ég stökk til og fylgdi straumnum. Og viti menn, þarna var annar bíll Ferrari-liðsins stopp og ökumaður hans, Kimi Räikkönen stökk fimlega upp úr bílnum og skaust eins og eldibrandur í skjól. Hinir bílarnir þutu framhjá. Þegar um hægðist, kom "dráttarbíll", sem hreinlega lyfti hinum rándýra, ofurþróaða Ferrari-bíl, eins og kartöflupoka og færði hann út af brautinni og baksviðs. Hann var úr leik í Melbourne-kappakstrinum 2008.
Við Lauga héldum áfram ferð okkar og aftur gerðist eitthvað á brautinni. Mannfjöldinn rann allur í eina átt. En út úr þvögunni, gagnstætt straumnum kom mótórhjól á fleygiferð. Tveir menn voru á því. Ég áttaði mig seinna á því að þarna hafði verið á ferð ökumaður Toyota-liðsins, Jarno Trulli, sem lent hafði í heljarmiklum árekstri skömmu áður. Þegar okkur bar að var verið að drösla hálfköruðum bílnum út af brautinni. Ég hnoðaðist áfram í mannþrönginni, uns ég hin laskaði bíll blasti við mér.
Eftir á að hyggja hafði Melbourne-kappaksturinn verði geysilega fréttnæmur, þar sem meira en 60% ökumanna lauk ekki keppni. Því miður fór það meira og minna framhjá mér, þó ég væri á staðnum. Það er náttúrulega ekkert grín að fylgjast með öllu þegar 22 bílar aka, eða reyna að aka, rúma 307 km á um það bil 90 mínútum. Maður ræður nú kannski ekki við að hafa gætur á öllu, einungis vopnaður myndavél og tveimur fótleggjum, og meðreiðarsveinninn óléttur í þokkabót!!
Jæja, svo lauk þessu nú öllu saman. Lewis Hamilton vann kappaksturinn. Sól var tekin að síga á lofti og hitinn orðinn bærilegri.
Bretar léku við hvern sinn fingur eftir sigur Hamiltons og kyrja hér "God save the Queen"
Nú var bara að bíða eftir KISS. Um kl. 19.30 birtust þeir í fullum herklæðum og 50.000 manns fögnuðu ógurlega. Ég skildi Laugu eftir einhvers staðar tiltölulega aftarlega og tróðst fram í áttina að sviðinu ... og komst á góðan stað.
Tónleikarnir voru frábærir ... þarf nú ekki að spyrja að því ...
Upp úr 21.30 var botninn sleginn í dagskránna í Albert Park ... og þreyttir en ánægðir Íslendingar héldu heim í koju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)