Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
15.2.2012 | 23:34
Miðvikudagur 15. febrúar 2012 - Hnífar, lok og dellur
Í kaffitímanum í dag gerðist GHPL mjög ábúðarmikil þegar hún tók að ræða í löngu máli um það hversu stórhættulegur brauðhnífur getur verið.
"Strikið hérna er mjög hættulegt" sagði hún og benti á egg hnífsins. Svo endurtók hún það nokkrum sinnum. Svo benti hún á annan hníf töluvert minni. "Strikið hérna er mjög hættulegt!"
Ég hef samt ekki hugmynd um af hverju hún kýs að kalla eggina strik.
Hún ætlaði svo að fara að taka stóra brauðhnífinn upp til að leggja enn frekari áherslu á hversu lífshættulegt þetta verkfæri væri. Var brugðist hratt við því og sýnikennslan kæfð í fæðingu. Upp úr því fjaraði umræðan út og önnur atriði eins og kókómalt urðu fyrirferðarmeiri.
---
Annars gekk lífið nokkuð sinn vanagang í dag. Undirbúningur fyrir lok doktorsverkefnsins míns er farinn að taka á sig mynd en ég stefni að skila inn fyrir 31. ágúst. Kannski var ég búinn að segja það áður ... man það ekki.
Mér finnst það bara ágætis þróun ... sérstaklega eftir að hafa fengið í hendurnar reikninginn frá Háskólanum í Sydney. Það er ágætis summa sem þarf að greiða í skólagjöld ...
---
Ég skrapp í söngtíma í kvöld. Ágætis tími og söngtæknin er smátt og smátt að púslast saman í hausnum á mér. Best finnst mér að nota tímana í því að bera saman þá tækni sem ég tel vera rétta og þá tækni sem kennarinn segir mér að nota.
Varla þarf að taka það fram hvor tæknin er að virka betur ... kennarinn heldur að ég sé að nota sína tækni og var feykilega ánægður með árangurinn. Taldi að mikið hefði gerst á síðustu vikum.
Ójá ...
---
Lauga keypti sér bók um daginn ... bók um augu og augnsjúkdóma ... og núna er hún eins og barn í leikfangabúð. Hún er gjörsamlega heltekin af bókinni og notar hvert tækifæri til að ræða við mig um augu.
Ég vissi ekki að það væri hægt að ræða svona mikið um augu ...
Annars er þetta svo sem ágætis mótvægi við söngumræðuna hjá mér ...
... við erum sumsé með sitthvora delluna.
Augu og söngtækni ... anyone?!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2012 | 22:46
Þriðjudagur 14. febrúar 2012 - Að fara öfugu megin framúr
Dagurinn byrjaði nú ekki gæfulega ... því ég fór þráðbeint öfugur fram úr rúminu. Það er orðið svo langt síðan það gerðist síðast að ég vissi varla hvernig ég átti að haga mér.
Og það fóru fleiri öfugt framúr í morgun ... minn ástkæri sonur var hreint ekki með á nótunum því eftir að hafa fengið gómsætan hafragraut í skál, tók hann ekki í mál að sporðrenna nema einni skeið.
GHPL sem hafði farið kórrétt fram úr át hinsvegar sinn graut með góðri list ...
Eftir nokkra geðillsku af minni hálfu og margar talningar upp á 10, tókst að koma dótturinni og syninum í strætóinn upp úr kl. 8.30.
Í strætónum skánaði stemmningin nokkuð ... þar sem við ræddum um liti á húsum og fötum, sungum og gerðum nokkra "fagur fiskur í sjó". Aðalfjörið í litaumræðunni er þegar ég spyr GHPL hvaða litur sé á tilteknum hlut og á spurningin, skv. fyrirmælum GHPL, að vera leiðandi þannig að ég spyr t.d. "er gallinn þinn grænn?" og liturinn sem ég spyr um á alltaf að annar en hann er í raun og veru. Með þessu móti fær Guddan tækifæri til að leiðrétta föður sinn aftur og aftur.
Greinilegt er að dótturinni líkar þetta allt saman því þegar mamma hennar náði í hana í dag sagði hún: "Það er gaman að vera í strætó með pabba ... já, og það er líka gaman að vera í strætó með mömmu."
En ... Guddan skilaði sér á leikskólann upp úr kl. 9.30 og þá var svona mesti hrollurinn úr mér en stubbi var ekki búinn að segja sitt síðasta orð.
Á leiðinni heim vaknaði hann í strætónum ... eitthvað sem ekki hefur gerst áður ... og þegar við komum heim, kærði hann sig ekki um neinn mat.
Svo allt í einu eftir svona hálftíma, þá fann hann það út að vilja borða. Bara lítið samt, og samfara átinu nuddaði hann ákaft á sér augun. Sem er oftast nær mjög augljóst þreytumerki.
Ruglið náði svo hámarki þegar ég ákvað að leggja hann kl. 11.30 og við steinsofnuðum báðir í einn og hálfan klukkutíma.
Það er sem ég segi ... vitleysan var ekki öll eins þennan morguninn.
Í kjölfarið var unnið sleitulaust til kl. 21.30 í kvöld, þá var farið út að hlaupa í 45 mín og í kjölfarið nánast beint farið í að gera raddæfingar ... því söngnámið heldur áfram, þó daglegar æfingar fari oftast nær fram upp úr kl. 22.30 eða síðar. "Það verður að vera agi í hernum", sagði Svjek og ef maður ætlar að syngja á La Scala einhvern tímann þá er nú víst betra að æfa sig svolítið ;) .
Sem betur fer eru þetta ekki æfingar sem þarfnast þess að maður blási allt út ... þetta er laufléttar og skemmtilegar tækniæfingar.
---
Í fyrradag hringdi Sverri vinur minn í mig ... "það er bara komið vor!" sagði hann glaður í bragði enda full ástæða til því veðrið var virkilega fínt.
"Já, er það ekki bara?" svaraði ég eins og fífl, enda búinn að steingleyma því að 8. febrúar í fyrra, sagði Sverrir nákvæmlega þessa sömu setningu og þá svaraði ég henni með nákvæmlega sama hætti. Enda full ástæða til, því þá var veðrið virkilega fínt.
Í fyrra fylgdi þessari "vorspá" svo hroðalegur kuldi að það verður lengi í minnum haft. Mínus 20 til 30 stiga gaddur í nokkrar vikur.
Í kjölfar þess skipaði ég Sverri að láta af öllum frekari spádómum um að vorið væri á næsta leyti.
Í fyrradag gleymdi ég mér svo. Og hvað? Snjónum kyngir niður í þessum skrifuðum orðum!
Sverrir!! Nú hættir þú þessari veðurspámennsku!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2012 | 23:47
Sunnudagur 12. febrúar 2012 - Að ná árangri og verða "happy"
Ég horfði á myndbandsfyrirlestur í gærkvöldi þar sem fyrirlesarinn fjallaði um tengsl árangurs og hamingju ... man ekki hvað fyrirlesarinn hét ...
... en það sem hann sagði var að það þyrfti að snúa formúlunni við.
Á Vesturlöndum hefur formúlan verið þessi um langt skeið: Vera duglegur, ná árangri, verða hamingjusamur.
Efnislega sagði hann að við ættum að byrja á því að vera jákvæð og þá kæmi hitt í kjölfarið af mun meiri krafti en ef við værum neikvæð.
Mér finnst mjög gaman af þessum pælingum og hef lesið nokkra hillumetra af þessum "literatúr", auk þess sem ég hef hugsað um þetta í tengslum við fótbolta, leiklist og söng, já og svo sem ýmislegt fleira.
Ég er alveg sammála kauða í því að formúlan sem mest er notuð og hefur verið mest notuð á Vesturlöndum er slæm.
Nýjasta dæmið í því er sviplegt fráfall söngkonunnar Whitney Houston í gær ... hún hefur lagt hart að sér, hún hefur svo sannarlega náð árangri ... en síðasta breytan í formúlunni hefur staðið illilega á sér. Afleiðingin? Nánast stjórnlaus áfengis-, lyfja- og dópneysla í meira en áratug.
Á föstudaginn var ég einmitt að velta þessari vonlausu formúlu fyrir mér ... hættan við hana er sú að maður fer að setja samansemmerki á milli eigin persónu og árangurs. Sjálfsmynd manns fer að mótast af árangrinum.
Vafasamt? Í besta falli já. Hvað gerist ef maður tengir sjálfsmyndina við árangur? Þá er allt í lagi þegar vel gengur. En hvað gerist þegar illa gengur?
Og hvernig gengur að rífa sig upp þegar illa gengur þegar sjálfsmyndin er brotin af því að illa gengur?
Það sér hver maður að slíkt getur reynst þrautin þyngri. Sjálfur barðist ég við þetta í mörg herrans ár. Sjálfsmynd mín tengdist getu minni á fótboltavellinum. Svo sterk voru tengslin að sjálfsmyndin gat tekið heljarstökk fram og aftur, upp og niður á mínútufresti. Oft þurfti ekki nema eina feilsendingu ... og himnarnir hrundu.
Það er meira en að segja það að spila fótbolta undir þessum kringumstæðum ...
Mín reynsla er því sú að formúlan: Vinna mikið, ná árangri og verða "happy" er eitthvert mesta "crap" sem til er.
Það var því gaman að hlusta á þennan fyrirlesara segja efnislega það sama og ég hafði verið að hugsa deginum áður ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2012 | 23:27
Laugardagur 11. febrúar 2012 - Viðtal í Læknablaðinu
Varstu ekki örugglega búinn að lesa þetta viðtal við mig í Læknablaðinu?
Ég er alveg klár á að þetta er örugglega í fyrsta skipti sem fjallað er um umhverfissálfræði í 98 árgangasögu Læknablaðsins ... að minnsta kosti um mitt sérsvið þ.e. sálfræðilega endurheimt.
Lít svo á að þessi birting sé hápunktur þessarar viku.
---
Eins og stundum áður var ég búinn að láta mér detta í hug fullt af "gáfulegu" stöffi sem ég ætlaði að skrifa um í kvöld ... flest, ef ekki allt, er horfið núna þegar til stundin er runnin upp.
Þannig ... lestu endilega þessa grein í Læknablaðinu ... hún er skemmtileg ...
Bloggar | Breytt 12.2.2012 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2012 | 22:17
Miðvikudagur 8. febrúar 2012 - Mataræði og met
Eitt af því sem ég hef alltaf verið mjög áhugasamur um er heilsan, bæði líkamleg og andleg. Og ekki virðist ég einn um þann áhuga.
Í gegnum tíðina hef ég verið alveg sæmilega duglegur í því að viða að mér efni um heilsuna, kannski meira varðandi andlega heilsu en þá líkamlegu. Það er þó eitt sem ég hef aðeins nýlega byrjað að spá í ... og það er mataræði.
Lengi vel vildi ég ekki horfast í augu við mataræði skiptir afskaplega miklu máli fyrir almenna vellíðan, ég áleit mat bara orkugjafa og meðan jafnvægi væri á milli orkuneyslu og orkunotkunar þá væri bara allt í fínu lagi.
Það verður auðvitað hver að finna út úr því fyrir sjálfan sig en í mínu tilfelli hef ég komist að því að það er ekki hægt að líta á mat einungis sem orkugjafa án þess að spá í gæðum hans. Upphafið að þessu má rekja til hásinavandamála minna sem stöfuðu að stóru leyti, leyfi ég mér að segja, af rangri orkuinntöku.
Eftir að ég fann orsakavaldinn, sem voru gosdrykkir í töluvert miklu magni, þá hef ég ekki fundið til í hásinunum í eina sekúndu. Þetta hefur orðið mér hvatning til að líta á mataræðið í víðara samhengi.
Af þessari ástæðu hef ég verið að kíkja á greinar sem fjalla um mataræði og ég verð að segja það að það er alveg ótrúlega mikið af alls konar rugli í gangi ... maður er eiginlega bara hissa ...
Hvað er t.d. málið með allt þetta prótein-dæmi sem svo margir eru að innbirgða. Ég er ekki saklaus af því ... rankaði svo við mér einn daginn og spurði sjálfan mig af hverju? Hef ekki fundið svarið ennþá.
Þetta minnir mig á "kreatín"-umræðuna sem var í gangi fyrir tæpum 20 árum, þegar ég var á fullu í fótbolta. Allt liðið var taka kreatín. Einn daginn datt mér í hug að tala við Sigga Bjarklind sem þá var líffræði- og lífeðlisfræðikennarinn minn. Siggi sagði einfaldlega að inntaka á kreatíni skipti engu máli fyrir fótboltamenn sem spiluðu leiki í 90 mínútur því líkaminn nýtti kreatínið á fyrstu tveimur mínútunum eða eitthvað álíka ... Siggi vissi hvað hann söng því enn hafa engar vísindalegar rannsóknir sýnt fram á mikilvægi kreatíns fyrir íþróttamenn sem stunda annað en "sprett-íþróttir".
Í þessari mataræðisumræðu er líka alltaf verið að tala um hitaeiningar og fitu náttúrulega. Ég las t.d. eina grein á DV.is í dag þar sem verið að fjalla um hversu lengi maður þyrfti að hlaupa til að nýta alla orku sem væri að finna í hinum ýmsa mat og drykk. Sagt var að það taki 86 kg þungan mann einn klukkutíma að brenna upp orkunni úr 1,5 lítra af kóki.
Eflaust er þetta alveg rétt ... mér finnst samt þetta svo skringleg framsetning og samhengislaus. Hvaða breytur eru eiginlega teknar inn í þessa útreikninga? Er grunnbrennslan, þ.e. orkuþörfin til að líkamskerfunum gangandi tekin með? Bara hún tekur um 70% af orkunni, þar af tekur heilinn um 20%. Ef 1,5 lítri af kóki telur um 645 kílókalóríur, þá ætti grunnbrennslan að taka um 450 kkal og þá eru eftir um 200 kkal. 86 kg maður þarf ekki að hlaupa í 60 mínútur til að brenna 200 kkal.? Hann þarf að hlaupa um 2,5 km sem tekur í mesta lagi 15 - 20 mín, allt eftir formi og stemmningu.
Væri þá ekki réttara að taka fram í þessum pistli sem ég var að lesa í dag, að þessar tölur miðuðu við að engin orka færi í aðra ferla en það að hlaupa. Upplýsingar eru því ekkert endilega rangar en þær eru ansi villandi og það er hætt við að ofeldið í heiminum væri á álítið öðru plani ef maður þyrfti að hlaupa í klukkutíma eftir að hafa drukkið 1,5 lítra af kóki.
Það má vel vera að ég sé gjörsamlega úti á túni í þessari færslu minni ... en þetta eru allavegana vangavelturnar í kvöld.
---
Svo var sett persónulegt met í dag. Það hafa aldrei fleiri farþegar stigið inn í strætó sem ég sit í, en gerðu við Stadshuset kl. 9.15 í morgun.
32 farþegar stigu inn í vagninn í einni lotu!
Mér var hugsað til þess hvað strætókerfið hér í Uppsala er vel nýtt ... víða annars staðar hefði þetta þýtt 32 bíla úti á götunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2012 | 22:18
Mánudagur 6. febrúar 2012 - Hlutirnir að gera sig
Ó það er svo dásamlegt að vera kvefaður og með hálsbólgu ... eða þannig ... samt er það nú ekki nokkur hlutur til að vera að nefna nema ...
... og ég ætla að eins að nefna söng aftur :) .
Ég fór á 2,5 tíma hljómsveitaræfingu í kvöld. Var nú ekki sérlega bjartsýnn á að geta eitthvað og gera eitthvað.
Svo byrjaði dæmið og rokkið og rólið steinlá 80% af tímanum, háir sem lágir tónar. Með því að segja "steinlá" á ég við að ég gat sungið megnið af "stöffinu" áreynslulaust og eftir æfinguna finn ég ekki fyrir neinu. Þetta segir bara eitt ... tæknivinnan er að skila sér ... :)
Sem er náttúrulega ótrúlega gaman fyrir mig eftir allt þetta streð í svo langan tíma. Ekki þó svo að skilja að ég sé kominn á endastöð og fullnuma ... það er nóg eftir, sem ég þarf að tileinka mér ... en allavegana er maður á réttri leið.
... ok ... ekki meira um það ...
---
Í dag var ég að leggja lokahönd á ferðmannakönnun fyrir Djúpavogshrepp, stefni að senda hana á morgun, ætla að eins að sofa á henni.
Ég er orðinn svo ruglaður í því hvað ég er búinn að skrifa á þetta blogg á síðustu dögum og vikum, þannig að ég man ekkert hvort ég var búinn að fjalla eitthvað um niðurstöðurnar.
Það merkilegasta í þessu finnst mér það að viðhorf fólks til náttúruverndar ræðst að einhverju leyti af væntingum þess til náttúrunnar sem umhverfis sem "hleður batteríin". Þetta þýðir að vel er mögulegt að fara að ræða um verndun náttúrunnar á öðrum forsendum en gert hefur verið á síðustu áratugum ... en núna sé ég ... þegar ég athuga færslunarnar á þessu bloggi að ég minntist eitthvað á þetta fyrir tæpri viku ... nánar þann 1. febrúar :) .
---
Þá ætla ég bara að breyta um kúrs ... tala um börnin sem voru svo óskaplega hress og glöð í dag. Meira að segja var GHPL svo hress að þrír kennarar hennar minntust á það þegar Lauga sótti hana í dag á leikskólann.
Þetta er auðvitað markmiðið ... ala börnin þannig upp að þau séu hress og glöð ... það er algjörlega leiðarljósið hjá okkur Laugu. En slíkt er svo langt frá því að vera auðvelt mál.
Persónulega finnst mér ég hafa séð hreina stökkbreytingu á GHPL eftir að ég breytti áherslum í byrjun desember sl. Þá fór ég að taka virkari þátt í uppeldinu, vera meira til staðar fyrir hana og bara sinna henni betur.
Ég hætti að vera "leiðinlegi" gaurinn og fór að vera "stundum leiðinlegi og stundum skemmtilegi" gaurinn ... svínvirkar alveg ...
---
Nafni hefur líka tekið breytingum bara í síðustu viku ... þ.e. eftir að ég tók við stýrinu á morgnana. Nú þurfum við að eiga í samskiptum í nokkra klukkutíma á hverjum degi og við höfum lært mjög hratt hvor á annan.
Þegar Lauga tók við honum í dag eftir hádegið var hann firnahress og var með skemmtiatriði í strætónum þegar mæðginin fóru að ná í GHPL á leikskólann.
Allavegana er þetta gaman þegar hlutirnir eru að gera sig ... og þeir eru að gera það núna ... ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2012 | 23:36
Sunnudagur 5. febrúar 2012 - Meira um söng ...
Maður hefur "loksins" náð sér í fyrsta kvef vetrarins ... dagskráin riðlaðist öll þess vegna. Meiningin var að fara í Sunnerstabäcken að renna sér á snjóþotu en ég sagðist ekki nenna vera úti með bullandi kvef í brunagaddi, þannig að allt stöffið var slegið af ...
Þess í stað hefur lífið verið tekið rólega ...
---
Seinnipartinn fór ég að spá í tónlist, var að hlusta á lög og læra lög sem meiningin er að taka á hljómsveitaræfingu á morgun. Það verður gaman.
Svo er ég alveg að fá söng á heilann. Síðustu vikur hafa verið geysilega árangursríkar hjá mér, nýir hlutir að gerast og í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég vera farinn að syngja eins og maður. Að minnsta kosti eitthvað í þá veru sem alltaf er verið að segja manni að eigi að syngja ...
... og þess vegna fór ég í það að skrifa svolítið um söng, skrá niður hvað ég hef verið að gera og hvernig hlutirnir hafa verið virka. Ég skráði líka söngsögu mína sem spannar allt frá haustinu 1998.
Ég man ekki hvort ég er búinn að segja það áður ... en mér finnst það ótrúlegt að fyrst núna eftir 13,5 ár, sé maður loksins að skilja um hvað hlutirnir snúast. Það maður eigi bara góða möguleika að syngja hæstu tónana og geti gert það nokkurn veginn áreynslulaust.
En allavegana ... ég skrifaði 8 blaðsíður og mér finnst ég búinn að dekka svona 1% af því sem mig langar til að skrá niður.
Það sem ég verð að segja alveg fyrir mig er að mér finnst alveg ótrúlegt að hægt sé að læra söng í svona langan tíma án þess að labba út vitandi hvernig á að syngja ... en hinsvegar vita alveg svakalega mikið um það hvernig á ekki að syngja :) .
Síðustu daga hef ég mikið verið að líta á söngkennslu bæði á YouTube og hinum ýmsu vefsíðum. Maður les og hlustar á sömu rullurnar aftur og aftur ... rullur sem maður veit að virka bara ekki nema önnur ákveðin skilyrði séu fyrir hendi.
Það virðist oft ekki vera neinn skilningur á því hvað er orsök og hvað er afleiðing ... og mjög oft er verið að díla við afleiðingarnar án þess að nokkuð sé pælt í orsökinni ...
Cari Cole er kona sem ég var t.d. að hlusta á í dag ... hún er "celeb vocal coach" og eitthvað meira frábært.
Í einu video-i hennar er hún að tala um "nasality", þ.e. þegar mikið nefhljóð er í röddinni. Þetta er nú vandamál sem ég hef glímt lengi við.
Cole byrjar á því að segja að ef "röddin sé í nefinu" sé það venjulega vegna mjög þröngra "nefganga" (nasal passage).
Strax þarna kemst maður ekki hjá því að spyrja sig ... "ok, hvað á ég að gera í því?" Þröng nefgöng er ekki eitthvað sem maður getur reddað sí svona ... eftir því sem ég fæ best skilið þá eru nefgöngin beinastrúktúr sem er klæddur að innan með slímhúð ... jæja ok ...
Cole heldur áfram, því það er ekki nóg með að "nasal" maður sé með þröng nefgöng heldur kreistir (squeeze) hann líka vöðvana sem eru bakvið nefið ... "ok, hvað á ég að gera í því?" Strangt til tekið eru engir vöðvar bakvið nefið eftir því sem ég best veit. Það eru hinsvegar vöðvar í koki og mjúka gómnum sem skilur að nefholið og munnholið. Þetta er því ónákvæmni sem er gjörsamlega út úr öllu korti ... ég tala nú ekki um þegar maður er "celeb vocal coach". Það er ekki skrýtið að raddvandamál séu sífellt að aukast meðal frægra söngvara ...
Það er meira í þessu sem ég gæti tekið til athugunar en mig langar þó bara til að nefna eitt atriði, bara af því ég var að tala um orsök og afleiðingu. Cole segir efnislega að "nefhljóð í röddinni" sé tilkomið vegna þess að bakhluti tungunnar sé of hátt uppi og blokki því loftflæði út um munninn. Hún leggur því til æfingar sem byggjast á því að láta bakhluta tungunnar síga.
Ég hef heyrt þetta milljón sinnum og ég hef æft þessu svipað milljón sinnum og ég get fullyrt að þessi nálgun gengur ekki upp nema ef sjálf tungurótin og hálsinn séu laus. Sé það hinsvegar ekki málið myndast spenna á milli tungurótar og bakhluta tungu sem skapar bara önnur vandamál, fyrir utan hvað það er vont að gera þetta.
Á hinn bóginn ef tungurótin og hálsinn eru laus, þá er "nefhljóð í röddinni" örugglega ekki vandamál ... :)
Hver er þá niðurstaðan? Sennilega er grunnorsökin of spennt tungurót eða of spenntur háls, sem svo aftur þrýstir tungunni upp og afleiðingin er "nefhljóð í röddinni".
Að minnsta kosti er það þannig hjá mér að ef minnsta spennan gerir vart við sig í tungurótinni og hálsinum þá er komið nefhljóð ... gæti ég hinsvegar að því að hafa þetta laust, þá fer röddin ekki í nefið.
En þegar hér er komið sögu eru sjálfsagt allir hættir að nenna að lesa þessa færslu ... :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2012 | 23:42
Laugardagur 4. febrúar 2012 - Frost og beiðnir
Já ... núna er veturinn kominn hér í Uppsala ...
Liggur í mínus 17°C núna ... stefnir í 25°C í nótt ... samt eru það nú bara hlýindi miðað við hitastigið í norðurhluta landsins. Þar er kuldinn að rúlla niður fyrir 40°C. Fínt að vera ekki þar.
Skruppum í göngutúr í dag ... vorum í svona 1,5 klukkutíma og hitastigið það lækkaði um tæpar 8°C rétt meðan við vorum úti. Guddan, þrátt fyrir að vera vel búin, fraus næstum inn að beini þar sem hún sat á snjóþotunni.
Það var því ekki annað í stöðunni en að fara í "ljónaleik" og láta hana bara hlaupa heim, sem hún gerði ... rúmir 600 metrar, mér fannst það bara ágætlega af sér vikið í snjógalla og bomsum.
Ég hef verið mjög hugsi í dag yfir viðtalinu sem tekið var við skipbrotsmanninn sem var bjargað var í um daginn þegar Hallgrímur fórst, en ég hlustaði á viðtalið í gærkvöldi.
Þetta er ótrúlega áhrifarík saga sem hann hafði að segja ... og ómögulegt að gera sér í hugarlund þá þrekraun sem maðurinn gekk í gegn um.
Ég hjó sérstaklega eftir einu atriði í frásögninni og það var þegar hann sagðist trúa því að hugar manna gætu tengst. Þar sem hann veltist einn um úti á rúmsjó í kolvitlausu veðri, ákvað hann að tala og hugsa til vinar síns og tala við samferðamenn sína á skipinu sem þá þeim tímapunkti voru hvergi sjáanlegir. Hann bað um hjálp ...
Það rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við mann á Akureyri fyrir um 15 árum, samtal sem ég raunar hugsa oft um, en sá maður sagði við mig að ef mig vantaði hjálp, þá ætti ég að tala við fólk, þó það væri víðsfjarri.
Ennfremur sagði hann við mig: "Hefurðu einhvern tímann setið alveg grafkyrr og allt í einu fundið eins og hreyfingu á loftinu í kringum þig, ofurlítill kaldur gustur, svona eins og einhver hafi gengið framhjá þér?"
Ég vissi ekki alveg hverju ég átti að svara ...
"Athugaðu þetta ... prófaðu að sitja grafkyrr og athugaðu hvort þú finnur þetta. Þetta er nefnilega fólkið þitt sem er að ganga í kringum þig ... pabbi þinn, ömmur þínar og afar ... og fleira fólk. Og allir vilja þeir þér vel. Talaðu við fólkið og sjáðu hvað gerist ... óskaðu eftir leiðsögn eða aðstoð ef þú þarft á að halda."
Þó ég sé ekki alveg viss hvað ég á að halda um þessa hluti, þá hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að best sé að útiloka ekkert í þessum efnum. Gefa hlutunum tækifæri. Þó ekki hafi verið sýnt fram á tilvist þessa með vísindalegum hætti finnst mér það alls ekki útiloka tilvist þess. Mér finnst það svolítið eins og að útiloka að vitiborið líf á öðrum hnöttum af því það hefur aldrei verið sýnt frá á það vísindalega.
Þess vegna hef ég prófað að tala við mitt fólk og satt best að segja, þá finnst mér það bara virka ... þ.e. þegar maður biður einlæglega og af einhverju viti ... um eitthvað sem skiptir raunverulega máli. Kannski er það bara hugarburður og ef maður tæki saman og skráði nákvæmlega árangurinn er ekki víst að neitt vitrænt kæmi út.
Mér fannst bara eitthvað svo magnað að heyra þessa aðferð notaða í því samhengi sem skipbrotsmaðurinn var í ... og það leit út eins og hún hefði hjálpað. Ég ætla að frekar trúa því en ekki. Jafnvel þótt einhver reynslubolti hafi sagt að líkurnar á að finna mann í svona aðstæðum séu nokkuð miklar ... það leit nú ekki beinlínis út þannig af frásögn Eiríks, já loksins man ég nafn skipbrotsmannsins ... já af frásögn Eiríks að dæma ...
Nóg í bili ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2012 | 23:13
Fimmtudagur 2. febrúar 2012 - Nokkrar línur
Alveg rífandi góður dagur að baki ...
Byrjaði á því að mæta með GHPL 20 mínútum fyrr á leikskólann í morgun, í samanburði við gærdaginn. Meiningin er að koma henni í skólann kl. 9 á morgnana. Undirbúningurinn tekur bara svolítið langan tíma. Ég var kominn á fætur kl. 7 í morgun en komst ekki út úr húsi fyrr en rétt fyrir kl. 8.30.
Systemið á auðvitað eftir að pússast svolítið til ...
Svo líða alveg 45 - 50 mínútur frá því maður lokar hurðinni hérna heima og þar til maður labbar inn um hliðið á leikskólanum ... svo þarf maður að koma sér til baka ... þannig að túrinn er í heildina tekur tíma sinn.
En dóttirin skal í skólann þannig að það þýðir ekki að pípa neitt um þetta ... tek bara með mér góða bók í vagninn og les á heimleiðinni.
Ég hef verið að lesa bókina hans Jan Gehl, eins og ég nefndi um daginn ... góð bók ... og góðar pælingar. Eins og vænta má er mikil skörun við það sem hann er að segja og það sem ég er að gera, enda erum við báðir að fást við upplifun fólks á götum úti. Hann kallar bara hlutina öðrum nöfnum en ég en í prinsippinu erum við á sama báti.
Gehl er nú ekkert að skafa utan af hlutunum þegar hann segir að uppbygging borga á síðustu áratugum sé afskaplega slæm. Hann er búinn að setja niður á blað fjölmargt af því sem ég hef verið að pæla síðustu misseri. Sem er auðvitað afar gagnlegt fyrir mig.
---
Vetur konungur hefur aðeins minnt á sig í dag og kvöld. Núna er hitastigið eins og það var vikum saman síðasta vetur ... -15°C núna ... gæti verið verra.
Ég skrapp út að skokka í kvöld og svei mér þá ef ég er ekki bara með talsvert kuldaþol eftir veturinn í fyrra. Mér fannst þetta ekkert svo rosalegt ...
---
Svo get ég bara ekki stillt mig um að minnast aðeins á fyrirtækið Já ... "Símaskrána" öðru nafni.
Eins og stóð í einu kommenti sem ég las í dag, þá er það með ólíkindum að fyrirtæki sem nánast einokar markaðinn og ætti hér um bil að geta rekið sig sjálft, hafi tekist að koma sér í slíkan bobba. Það sem kemur mér samt mest á óvart í þessu er hvað hægt er að skapa mikil læti utan um símanúmeraskrá.
Einu sinni var símaskráin alltaf með sama lúkkinu ... kort af Íslandi á kápunni og landinu var deilt upp eftir svæðisnúmerum. Svo var hún bara í misjöfnum lit eftir árum. Ekkert "fansí" en skilaði nákvæmlega sama árangri.
Aldrei hefði mann grunað þá að símaskráin gæti orðið slíkt þrætuepli í íslensku samfélagi að fólk skiptist í fylkingar með og á móti ... að fólk hreinlega þyldi ekki símaskrána, skilaði henni eða jafnvel henti henni.
Hér í Uppsala er símaskráin eitthvert það mest óspennandi sem fyrirfinnst, held ég bara ... of ég veit ekki til þess að neitt fjaðrafok hafi orðið vegna hennar ... þá sem vantar símanúmer fletta upp í skránni og punktur.
... að lokum ... límmiða-"múv" dagsins hjá Já var heimskulegt og lítilmannlegt ... fyrirtækið sóttist eftir þjónustu Gillz þegar allt lék í lyndi og nú þegar illa árar er stokkið frá borði, alveg eins og ítalski skipstjórinn gerði um daginn þegar skemmtiferðarskipið hans strandaði.
Annars er umhugsunarefni, kannski ekkert nýtt svo sem, hvað "frægðin" er óskaplega fallvölt. Stuttu áður en allt hljóp í baklás hjá Gillz var hann gjörsamlega út um allt ... og ég man að ég hugsaði hvað hann var í raun búinn að koma ár sinni vel fyrir borð ... því ekki leiddist honum athyglin.
Það var alveg á hreinu að drengurinn væri búinn að standa sig vel og nýta sitt tækifæri vel ... en svo hrynur bara allt eins og spilaborg ... á mettíma ... og þessi maður er gjörsamlega búinn að vera a.m.k. á því "formati" sem hann hefur verið síðustu ár.
Rétt í lokin ... ég held að þessi viðurkenning sem Já fékk frá Félagi kvenna í atvinnurekstri sé einhver mesti bjarnargreiði síðustu missera ... og er e.t.v. glöggt dæmi þess að "konur eru konum verstar" ;) .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2012 | 22:22
Miðvikudagur 1. febrúar 2012 - Alvöru verkefni í gangi
Nú hefur alvaran hafist ... Lauga farin að finna aftur eftir langt frí frá vinnu. Síðuhaldari er tekinn alfarið við stjórnartaumunum þegar morgunverkunum er sinnt.
Og engin vettlingatök nú ...
---
Ég hef síðustu daga verið að vinna í skýrslugerð fyrir Djúpavogshrepp. Það er framhald ferðamannakönnunarinnar sem ég vann að í fyrra.
Verið er að kanna upplifun fólks á svæðinu og afstöðu til náttúruverndar. Ég tek nýjan vinkil á náttúruverndina því ég er að kanna hvort afstaða fólks ráðist af því hversu vel fólki finnst náttúran hjálpa því að "hlaða batteríin".
Nálgunin er því það sem kallast má "ego-centrísk" ... það er að fólk einfaldlega vilji stuðla að verndun náttúru vegna þess að það sjálft hefur persónulegan hag af því að upplifa lítt raskaða eða óraskaða náttúru.
Þetta finnst mér vera mjög áhugaverður vinkill og lyftir umræðunni upp úr þeim hjólförum sem hún er vanalega í ... s.s. átökum um siðferði, líffræðileg vistkerfi og fjárhagslegan ávinning.
---
Svo eru í burðarliðnum tvær kostnaðaráætlanir fyrir tvær heilbrigðisstofnanir en óskað var eftir ráðgjöf varðandi endurbætur á umhverfi sínu.
Bæði tilfellin eru mjög áhugaverð og vandasöm, og gleðiefni að fólk skuli vera farið að leita í smiðju umhverfissálfræðinnar þegar kemur að því að betrumbæta umhverfið.
Betrumbætur á gangi dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á LSH við Hringbraut, sem samtökin Umhverfi og vellíðan stóðu fyrir, hafa þótt til fyrirmyndar og hafa orðið mörgum hvati.
Þessa mynd tók Páll Jökull þegar verkefninu á krabbameinsdeild LSH lauk formlega með myndagjöf. Þá höfðu Umhverfi og vellíðan staðið fyrir sálfræðilegri rannsókn á þeim breytingum sem gerðar voru og svo var klikkt út með þessari myndagjöf með stuðningi Actavis.
Á myndinni eru Margrét Tómasdóttir frá LSH og fulltrúi Slippfélagsins í Reykjavík en Slippfélagið styrkti verkefni með því að gefa málningu og mála veggi á biðstofu og gangi deildarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)