Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
31.3.2011 | 22:36
Fimmtudagur 31. mars 2011 - Allt að gerast
Þetta er búið að vera afskaplega "bissí" dagur.
Ég er búinn að vera að vasast í rannsóknarniðurstöðum tveggja rannsókna í dag ... og vægast sagt verið um margt að hugsa.
Að auki er ég að skrifa fyrirlestur sem ég á að halda á Landspítalanum á mánudaginn eftir rúma viku. Þá verða kynntar niðurstöður rannsóknarinnar sem ég og nokkrir aðrir gerðum á biðstofu dag- og göngudeildar krabbameinsdeildar LSH.
Það eru á margan hátt athyglisverðar niðurstöður ... allir sem vettlingi geta valdið eru hjartanlega velkomnir að koma og hlusta.
---
Snillingarnir hér á heimilinu hafa haft fremur hægt um sig í dag ... þó að því undanskildu að Lauga fékk lokaeinkunn úr prófinu ... niðurstaðan var 91% árangur.
Þar með hefur upprúllunin verið formlega viðurkennd af þar til bærum yfirvöldum.
---
Guddan fann það út fyrir nokkrum dögum að vilja endilega koma með "stóran" bíl upp í íbúðina til okkar ... og nú ekur hún eins og greifi um allt ...
Sorry, þetta með rauðu augun ... tæknilegir örðugleikar ...
(NB!! Þegar móðir hennar sá rauðu augun á þessari mynd sagði hún: "Já, Guddan er með mjög góðan "retina-reflex" ... mjög gott" ... svo er hún alltaf að segja að ég sé nörd!!")
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2011 | 22:00
Miðvikudagur 30. mars 2011 - Prófi rúllað upp
Enn og aftur sýnir Lauga snilli sína ...
Eins og ég sagði um daginn þá fór Lauga í próf. Þetta var víst aðalprófið í náminu hjá henni ... mikið efni að fara yfir og kunna og það sem meira er ... til að standast prófið þarf að hafa að lágmarki 80% svara rétt.
Klukkan 18 í kvöld kíkti hún hvernig hefði gengið í prófinu. Hún gjörsamlega rúllaði þessu upp ...
Lokaeinkunn liggur ekki enn fyrir en af því að prófið var gert á netinu, þá er hægt að fylgjast með yfirferð kennarans með því að "logga" sig inn á heimasvæði námskeiðsins.
Nú þegar kennarinn er búinn að fara yfir 92% prófsins er snillingurinn með 93% rétt.
Prófið og mestur hluti lesefnis er á sænsku og það eru nú þegar nokkrir Svíar fallnir á prófinu ... meira að segja fólk sem barnlaust, í fríi frá vinnu og ekki ólétt ;) ...
Ég held að það sé ekki hægt annað en að taka ofan fyrir þessari frammistöðu ...
---
Annars er maður bara alveg svellbrattur ... kominn aftur inn á beinu brautina eftir ofurlitla sveigju útaf í gær ... þakka öllum sem ómökuðu sig til að senda baráttukveðjur til mín.
Maður getur náttúrulega ekki verið að tala um það hér að fólk eigi ekki að vera að væla og væla svo sjálfur eins og eymingi.
---
Guddan hefur líka farið aðeins út af sporinu í pissumálunum ... tvo morgna í röð hefur hún vaknað með allt "stöffið" í buxunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.3.2011 | 20:31
Þriðjudagur 29. mars 2011 - Smá mótbyr
Þetta eru meiri andskotans dagarnir ...
- rannsóknin sem fór í gang í síðustu viku virðist ekki vera að heppnast sem skyldi ... ætli það seinki ekki doktorsverkefninu um svona hálft ár eða svo ...
- að finna út úr rannsóknargögnunum sem ég safnaði í haust er slíkur höfuðverkur að það hálfa væri nóg ... og enginn til staðar til að ræða um þau.
- hæsti mögulegi leikskólagjaldataxti er yfirvofandi vegna þess að mjög treglega hefur gengið að útvega nauðsynlegar upplýsingar úr "kerfinu".
- "bráðskemmtileg" tilkynning barst í gær um að við værum sennilega að missa íbúðina í lok ágúst.
o.s.frv.
Verra gæti það ugglaust verið en ég er samt skítfúll yfir þessu ...
---
Held að nú sé nauðsynlegt að rifja upp "andstæðu-ofsóknarbrjálæðið" sem William Clement Stone gerði frægt.
Það er svona: "Allt sem á sér stað í heiminum gerist bara í þeim tilgangi að auka velferð mína."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.3.2011 | 21:03
Sunnudagur 27. mars 2011 - Nennirðu að rífast?
Þá er stysti dagur ársins að kveldi kominn ... klukkunni var nefnilega breytt síðastliðna nótt, þannig að maður vaknaði klukkutíma síðar í morgun en maður hefði annars gert ... án þess þó að hafa sofið sekúndu lengur.
Dagurinn hefur liðið við skýrsluskrif og greiningu gagna ... sum sé hefðbundin vinna ...
Ég er nefnilega á kafi í því að fá botn í gögn sem fengust í rannsókninni sem gerð var á biðstofu dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Athyglisverðar niðurstöður þar. Ætla svo að kynna þær á opnum fundi hjá Landspítalanum eftir hálfan mánuð.
---
Núna er Guddan komin með nýja hugmynd í kollinn. Hún fellst í því að rífast. Þá lítur hún á mann fögrum augum og spyr undurmjúkt hvort maður vilji rífast.
Ef maður segir já ... þá gerist hún mjög brúnaþung og reiðilesturinn dynur á manni. Reyni maður að svara eitthvað fyrir sig, þá færist hún öll í aukanna og vaðallinn verður slíkur að ekkert fæst við ráðið.
Svo um leið og "leikurinn" er búinn verður hún aftur dúnmjúk í framkomu.
Ekki veit ég hvar hún lærði þennan leik ... en henni hlýtur að finnast hann mjög skemmtilegur, því hún er alltaf að biðja mann um að koma í hann.
---
Annað mikið sport er að sofna í stofunni ... það er svo sem ekkert um það að segja annað en gott ... alveg óþarfi að vera sofna alltaf inni í herbergi.
---
Í gær var afmælisboð hjá Sverri og Dönu ... mjög vel heppnað í alla staði.
GHPL var búin að telja niður í viku. Það var meira að segja búið að út búa "dagatal" sem sýndi daga (leikskóli) og nætur (sofa) þangað til við færum til Sverris, Dönu og Jónda.
Stubbur merkti svo sjálfur við með fjólubláu.
Í boðinu lét hún svo Dönu snúast í kringum sig eins og skopparakringlu. Guddan er búin að koma sér upp vara-foreldrum ... svo mikið er ljóst.
---
Ég hef verið hugsandi yfir þessum frasa sem ég fékk sendan í pósti fyrir nokkrum dögum:
- Gefðu þér tíma til að kynnast öðrum, fremur en að kvarta yfir því að enginn skilji þig -
Ég er einn af þessum karakterum sem bölva því oft að fólk skilji mig ekki ... ég veit ekki hversu oft ég hef sagt það við Laugu þegar við erum ósammála "ooooooohhhhhhhh ... þú skilur mig bara ekki ... hvað er þetta eiginlega?!?! "
Enda fór hún bara að hlæja þegar ég sagði henni um daginn að ég hefði fengið þetta í pósti og væri svolítið að pæla í þessu.
Ég skil samt ekki sjálfur af hverju ég nota þetta svona mikið sjálfur ... því ég hef nefnilega þurft að díla við mann sem sagði þetta alltaf við mig þegar ég var ósammála honum.
Það var fótboltaþjálfarinn í Sydney. Við vorum ekki alltaf sammála og þá sagði hann: "Hey, listen Pagg (hann kallaði mig alltaf Pagg) ... you don't understand ... "
Ég gat orðið alveg tjúllaður á þessu ...
Það endurspeglast nefnilega svo mikill hroki í þessu ... því það sem raunverulega er verið að segja er að "það sem viðkomandi segir sé hið eina rétta í málinu og ef þú ert ekki sammála því þá ertu bara ekki að fatta 'etta".
Ég ætla að halda áfram að vinna í þessu máli ... ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2011 | 23:29
Fimmtudagur 24. mars 2011 - Stórmennskubragur
Lauga er hrein ótrúleg manneskja ... ef allir myndu hugsa eins og hún þá væri heimurinn allt öðruvísi en hann er.
Sagan er svona.
Lauga er að fara í próf á morgun. Þetta er lokapróf þess hluta námsins sem hefur staðið frá áramótum.
Í fyrradag sagði hún mér að hún hefði feilreiknað dagana fram að prófi. Hafði talið sig hafa þrjá daga en komst svo að því að þeir voru bara tveir.
"Hólí shjitt" sagði hún þá og setti allt í fluggír.
Í morgun, kl. 8, var svo hringt í hana frá vinnunni ... þar sem yfirmaður hennar grátbað hana um að koma niður á spítala til að redda einhverju sem ég kann nú ekki alveg að nefna.
Þetta átti að taka svona klukkutíma ... eða tvo ...
Þrátt fyrir að hafa engan tíma til að sinna þessu verkefni samþykkti hún beiðnina.
Þetta "djobb" tók nú talsvert meiri tíma ... og svo fór að lærdómur hófst kl. 15.
Þegar samstarfsmaður hennar spurði hana af hverju hún hefði ekki sagt "nei" þegar hún var beðin, var svarið: "Það er betra að ég falli í einhverju prófi, heldur en sjúklingur missi sjónina."
Ef það er ekki stórmennskubragur yfir þessu ... þá veit ég ekki hvað!!
Meiningin er að læra eitthvað fram á nótt ...
---
Guðrún bíður í ofvæni eftir að komast í sirkus ...
Þegar henni var bent á að eftir svona 200 daga myndum við fara í sirkusinn, hrópaði hún upp yfir sig: "Vei, vei, vei, vei ... sikus [sic] ... sikus [sic] !!!"
---
Ég hef verið að sýna Guddunni Evrópukort ... þetta er svona púsluspil af Evrópu og svo eru þjóðfánunum raðað í kring.
Það er nú misjafnlega mikill áhugi á þessu en í morgun var mjög mikill áhugi. Ræddum við fram og aftur um löndin og pöruðum þau við fánana.
Svo tók GHPL að leiðast þetta tal þannig að rétt svona til að reka smiðshöggið á þá þuldi ég upp nokkur lönd um leið og ég benti á þau á kortinu.
"Noregur, Rúmenía, Ítalía, Spánn, Danmörk og Ísland!!"
Guðrún leit á mig nánast föðurlegum svip, brosti góðlátlega, klappaði svo saman höndum og sagði: "Dulegur!! [sic]"
Því næst fleygði hún púsluspilinu í burtu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.3.2011 | 19:50
Miðvikudagur 23. mars 2011 - Að gera það gott
Guðrún skrapp með mér á fund niðri í skóla seinni partinn í dag. Allt gekk vel uns dóttirin fyrirvaralaust tók pissa rannsóknaraðstöðuna út.
Hún stóð uppi á stól, hágrátandi meðan hún pissaði af miklum þrótti á setuna og þaðan á gólfið. Sem betur fer voru fundarmenn snöggir að bregðast við og tók Terry leiðbeinandi minn sig til og þurrkaði öll herlegheitin meðan ég skrapp með stubb á klósettið að skipta um búning ...
Þannig var nú fyrsta háskólaferðin hjá Guddunni.
---
GHPL er líka á bólakafi í því að rifja upp "gamla" tíma.
Það er algjört æði í gangi fyrir því að bulla eitthvað algjörlega óskiljanlegt og enda svo frásögnina á því að segja "manstu?!"
... og auðvitað man maður ekki baun ... því maður skilur ekkert hvað það er sem maður á að muna ...
---
Annars er það að frétta að síðasta rannsóknin í doktorsnáminu hjá mér er komin á fullt. Það er slíkur léttir að mér er orða vant.
Það gæti því mögulega farið að sjást fyrir endann á þessu námi ... að því gefnu þó að gögnin sem fást út úr rannsókninni verði ekki algjört sorp. Í sannleika sagt tel ég líkurnar á því hverfandi.
---
Lauga er að undirbúa sig á fullu fyrir próf sem verður á föstudaginn ... að sjálfsögðu er stefnt að því að rúlla því upp.
Ójá ... svona er þetta nú í dag ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2011 | 23:05
Mánudagur 21. mars 2011 - GHPL - nokkrir punktar
Guddan fer á kostum þessa dagana ... eins og svo oft áður ...
Í leikskólanum í dag vakti það gríðarlega lukku þegar hún kallaði hátt og snjallt yfir krakkahópinn þegar tilkynnt var að nú ætti að fara út að leika: LET'S GOOOO!!!
Kennararnir voru svo hrifnir af þessu uppátæki að það var sérstaklega skráð í skýrslu dagsins ...
---
Svo er sagt að GHPL sé alltaf að reikna í skólanum ... "hún bara reiknar og reiknar og reiknar og reiknar ... alveg ótrúlegt", sagði Khadja kennari í dag við Laugu.
---
Hér heima fyrir segist Guðrún "tóra" og "drafa" ... sem kann ugglaust að hljóma sérkennilega í eyrum margra.
Til áréttingar má segja að "tóra" og "drafa" er það sem flestir Íslendingar myndu orða sem "toga" og "draga".
---
Stubb brá heldur betur í brún í dag þegar hann heyrði að Lauga hnerraði inni í eldhúsi. Kom hlaupandi og spurði hvort ekki væri allt í lagi.
Þetta kallar maður vöktun.
---
Hér á heimlinu ríkir Andrés Önd-æði ... það er bara mál málanna ...
Andrés Önd er samt aldrei kallaður annað en "des önd".
---
Svo er einhver bissness milli Laugu og Guddunnar með að kyssast og segja "elska þig". Stubbur á í smá vandræðum með að orða hlutina rétt ... "enska þig" ...
---
Maður veltir fyrir sér hvort styrkingarmynstrið á heimilinu sé komið út í öfgar. Syd gerir eitthvert ofurlítið viðvik og hrósar sér í hástert í kjölfarið: "Gí dugleg, Gí dugleg, mycket dugleg!!"
Stundum er þó viðvikið alveg eftirtektarinnar virði ... sérstaklega þegar hún klæðir sig hjálparlaust í nærbuxur, sokkabuxur og peysu ...
Snillingur dagsins á okkar heimili ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2011 | 00:21
Laugardagur 19. mars 2011 - Vor í lofti og vangaveltur um lífið
Það er engu líkara en vorið sé á næsta leiti hér í Uppsala ... mæðgurnar skruppu út á svalir í hádeginu og nutu veðursins í fyrsta skiptið á þessu herrans ári ... 2011.
Atburðir síðustu daga og vikna hafa fengi mig til að spá mikið í lífið og tilveruna. Það má eiginlega segja að fráfall Halls afa Laugu hafi "kickstartað" þessum pælingum enda skrifaði ég svolítið um þær þegar Lauga var á Íslandi í upphafi mánaðarins.
Í vikunni lenti Valtýr frændi minn í bílslysi. Hrikalega fréttir en sem betur fer virðist hann hafa, svona miðað við allt og allt, komist nokkuð vel frá því, þó hann þurfi þessa dagana að glíma við eftirköst.
Í fyrrakvöld fékk ég svo þær fréttir að heilsu Leifs frænda míns væri að hraka mjög. Það voru hörmulegar fréttir enda nánir og miklir vinir til síðustu tæplega 30 ára.
En í stað þess að sökkva í sorg og sút ... og bölva máttarvöldunum fyrir haga hlutunum með þessum hætti ... þá ákvað ég að líta á aðstæðurnar öðrum augum.
Ég ákvað að sýna þakklæti ...
... þakka fyrir að Valtýr skyldi sleppa þó svona vel úr slysinu og þakka fyrir allar stundirnar sem ég og Leifur frændi höfum átt á síðustu áratugum.
Í stað þess að krefjast þess að fá meira, þá þakka ég fyrir það sem ég hef fengið ... og það er eins og nýjar gáttir opnist á tilverunni.
---
Þetta fær mig líka til að horfast í augu við það hversu ótrúlega merkilegt þetta líf er ... og hvað maður fær mikið tækifæri upp í hendurnar.
Samt lítur maður oftar en ekki á lífið sem sjálfsagðan hlut og maður metur ekki hversdagsleikann að verðleikum ... talar um "hinn gráa hversdagsleika" ... þetta er náttúrulega ótrúlegt bull. Það er í raun ekkert til sem heitir "grár hversdagsleiki", því hver dagur, sem maður lifir, er auðvitað kraftaverk.
Það er langt því frá sjálfsagt að vakna á morgnana og komast lifandi í gegnum daginn.
Enn lengra frá því að vera sjálfsagt, er að maður sé frískur og hafi andlega og líkamlega burði til að komast í gegnum daginn.
Og ennþá lengra er síðan það að njóta gæfu og velgengni yfir daginn. Samt verður maður iðulega drullufúll ef hlutirnir ganga ekki smurt hjá manni.
Hver hefur lofað manni því að maður vakni frískur að morgni og njóti svo velgengni uns maður leggur sig á koddann að kvöldi?
Enginn ...
Ef maður er svo stálheppinn að vakna frískur og njóta velgengni ... væri þá ekki nær að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, leggja sig fram um að njóta þess og láta gott af sér leiða ... frekar en að vera alltaf að heimta meira?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.3.2011 | 21:01
Fimmtudagur 17. mars 2011 - Rosahól og Sjandri
Jæja, þá eru forprófanir fyrir rannsóknina hafnar með góðum árangri. Þetta er allt saman algjörlega að smella. Sem er auðvitað ákaflega gleðilegt.
Alvöru gagnasöfnun hefst sjálfsagt í byrjun næstu viku. Spennandi ... ;)
---
Annars er allt gott af okkur að frétta. Mikið að gera eins og alltaf ...
Lauga fékk svo rosalegt hól í vinnunni í dag að annað eins hefur varla heyrst. Sá sem hældi stóð gjörsamlega á öndinni af hrifningu yfir frammistöðu hennar, þannig að Lauga vissi eiginlega ekki í hvort fótinn hún átti að stíga.
Ég er oft búinn að segja þetta á þessari bloggsíðu ... en þessi manneskja er algjör snillingur!!
---
Og svo er það hann Sverrir vinur minn ...
Nú er karl búinn að ráðast inn á barnabókamarkaðinn ... því bókin Sjandri og úfurinn er kominn í verslanir.
Taktu eftir bókin heitir ekki Sjandri og úlfurinn, heldur Sjandri og úfurinn ... tvennt ólíkt ... mjög ólíkt! Og óhætt er að segja að Sverrir fari ótroðnar slóðir í þessari fyrstu bók um Sjandra.
Þetta er sum sé fróðleg saga fyrir börn ... já og fullorðna ... og alla þá sem hafa áhuga á því að fræðast um úfinn ...
Hvernig væri nú að trimma út í bókabúð og kynna sér málið ... hef sjálfur lesið bókina og hvet alla til að gera hið sama.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2011 | 22:32
Þriðjudagur 15. mars 2011 - Rannsókn og óhapp
Núna er allt á síðustu metrunum í undirbúningi fyrir síðustu rannsóknina mína í þessu blessaða doktorsnámi.
Bara dagurinn á morgun verður notaður í undirbúning og svo verða forprófanir á fimmtudag og föstudag. Eftir helgina hefst svo gagnasöfnun fyrir alvöru og mun standa samfleytt í tvær vikur.
Óhætt er að segja að þetta sé nokkurn veginn alveg eftir bókinni.
---
Annars gengur allt vel hér í Uppsölum ...
... það gekk hinsvegar ekki alveg jafnvel hjá honum Valtý frænda mínum, sem lenti í bílslysi í dag. Hamingjunni sé lof, þá fór betur en á horfðist ... eftir því sem mér skilst.
Nú er bara að vona að drengurinn nái sér að fullu.
---
Læt þetta duga ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)