Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
14.3.2011 | 23:45
Mánudagur 14. mars 2011 - Að stjórna þvaglátum
Þá ryðst maður aftur fram á ritvöllinn.
Hér hafa hlutirnir heldur betur verið að gerast ...
... en mál málanna á þessu bloggi er stubbur ... síðuhaldara er það alveg ljóst ...
---
Lauga sagði í gær að það þyrfti að kaupa einn bleyjupakka í viðbót handa GHPL og svo ekki söguna meir ... "næsta barn getur svo bara notað restina" bætti hún svo við.
Fyrir nokkrum vikum, höfðum við ekki hugmynd um hvernig ætti eiginlega að venja barnið af þessu ... og ákváðum bara að bíða og sjá.
Núna notar hún ekki einu sinni bleyju á nóttunni ... alveg ótrúlega merkilegt, finnst mér ...
Það má nú samt ekki ganga svo langt að segja að þessi ferill sé 100% ... en hann er 95% öruggur ...
Þá er það komið til skila ...
Guddan sofnuð bleyjulaus í sófanum í kvöld ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2011 | 23:16
Föstudagur 11. mars 2011 - Rannsókn og GHPL
Þetta er búið að vera mjög árangursríkur dagur.
Núna er þriðja og síðasta rannsóknin í doktorsverkefninu mínu að fara af stað eftir helgina. Mér til aðstoðar við gagnasöfnunina verða tveir sálfræðinemar við Uppsala-háskóla ... raunar eru þeir meira en mér til aðstoðar ... þeir munu sjá alfarið um gagnasöfnunina.
Í Danmörku vinna samstarfsmenn mínir dag og nótt að gerð sýndarveruleikans sem verður notaður í rannsókinni. Þeir eru búnir að búa til tvö hverfi sem þátttakendur í rannsókninni verða beðnir um að ganga um.
Þetta er mjög spennandi rannsókn, því þetta er fyrsta rannsóknin í heiminum, held ég þar sem áhrif "byggðs umhverfis" á sálfræðilega endurheimt (streitulosun - til einföldunar) er kannað í gagnvirkum sýndarveruleika.
Þetta verefni er búið að vera í vinnslu síðan í síðla árs 2007 og gríðarlega mikið búið að hafa fyrir því. Og á síðustu vikum hafa bara hlutirnir gengið gríðarlega vel og smollið saman hver af öðrum.
Ég vona svo sannarlega að niðurstöðurnar verði áhugaverðar.
---
Guddan og Lauga komu heim í gær ... gaman að fá þær aftur.
Svei mér ef Guddan mannaðist bara í Íslandsferðinni. Hún er búin að vera alveg fjallhress síðan hún kom.
Hér er hún undir stýri á bíl afa síns.
Með Öbbu og Pétri
Með Öbbu langömmu
Hallur móðurbróðir kom færandi hendi með sleikibrjóstsyk. GHPL hafði aldrei fengið svoleiðis fyrr og þótti brjóstsykurinn ekki slæmur. Þegar hún var búinn með hann, bað hún umsvifalaust um meiri "ís".
Eftirfarandi myndir eru teknar eftir heimkomuna til Svíþjóðar.
Vaðið í polli á leikskólalóðinni
Í sögulegri búðarferð í Coop núna undir kvöld fór stubbur gjörsamlega á kostum. Hér hangir hann í auglýsingaskilti sem notað var í dágóða stund sem hús.
Og hérna var verið að díla við 4 lítra að mýkingarefni sem teknir voru niður á gólf.
Í kvöld sat Guddan svo og horfði á Andrés Önd.
Eftir dágóða stund bandaði hún út annarri höndinni án þess að líta af skjánum. "Pabbi ... mjólk ... [ekkert svar] ... paaaabbbbbbbiiiii ... MJÓLK!!"
Stuttu síðar leit hún upp af skjánum. "Ís ... fá ís"
Svo gekk hún áleiðis inn í eldhús og ég fylgdi í humátt á eftir.
Hún sneri sér við. "Pabbi ... sittu" Hún benti mér að fara inn í stofu.
"Ha?!? Ætlarðu ekki að fá ís?"
"SITTU!!" Svo ýtti hún mér inn í stofu og að stólnum. "Sittu!"
Svo fór hún fram og náði sér í ís.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.3.2011 | 23:17
Miðvikudagur 9. mars 2011 - Símtal, tölvuleigur og Freddie
Þá eru nú mæðgurnar væntanlegar heim á morgun ... sem er náttúrulega afar notalegt.
Talaði við Laugu í morgun, þar sem mestur tíminn fór í að hlusta á mæðgurnar slást um símann ...
"Já svona láttu ekki svona" "ég vil ogso" "nei, Guðrún, slepptu símanum" [duuuuuu - þ.e. ýtt á takka á símanum] "Ekki fikta!!"
Þetta endaði með því að stubbur fór að orga, þannig að ekki heyrðist mannsins mál ...
---
Komst að því í gær að það eru til tölvuleigur ... þ.e. fyrirtæki sem leigja út tölvubúnað ... það er augljóslega ekkert nýtt undir sólinni.
Sendi nokkrum þeirra póst til að spyrja um verð því mig vantar tölvu fyrir rannsóknina mína ... er með aðgang að einni en vantar aðra.
Ein leigan bauð mér tölvu til afnota í þrjár vikur ... fyrir litlar 7.500 sænskar krónur auk virðisaukaskatts. Sumsé eitthvað nálægt því að vera 9.500 kall eða rúmlega 170.000 íslenskar krónur.
Á netinu fann ég tölvu til kaups, sem gæti gert sama gagn, á 9.000 sænskar.
Sérkennilegur bissness ... verð ég að segja ...
---
Fór í söngtíma í kvöld ... alveg rosalega skemmtilegt ... það er bara verst hvað þessir tímar eru fljótir að líða.
Maður er varla kominn inn þegar allt er búið.
Við vorum aðeins að vinna meira í Freddie Mercury ... ekki beint ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, enda er það ekkert skemmtilegt.
Jæja nóg í bili ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2011 | 23:40
Þriðjudagur 8. mars 2011 - Að kvarta og kveina
Af einhverri ástæðu hefur tæknibúnaðurinn á þessu bloggi tekið upp á því að afnema nokkur bil í textanum ... hef enga skýringu á því ...
---
Það er afar fróðlegt finnst mér að fylgjast með umræðunni á Íslandi, þar sem alltof margir keppast við að finna að öllu milli himins og jarðar.
---
Það sem ber helst á góma núna er bensínverðið. Það sé bara alveg fáránlega hátt. Rúmar 230kr. Til samanburðar má þó geta þess að Statoil selur lítrann af blýlausu 95 oktana bensín í sjálfsafgreiðslu hér í Uppsala, á 14,13 sænskar krónur eða á tæplega 260 íslenskar.
Það að eiga og reka bíl er bara ekkert sjálfsagður hlutur, og enn síður mannréttindi eins og ég las einhver staðar nýlega. Hærra bensínverð kallar einfaldlega á breytingar. Það verður kannski að hætta að rúnta eða vera að skutlast út um allt. Það verður kannski bara að draga fram spil á sunnudögum í staðinn fyrir sunnudagsbíltúrinn. Hugsanlega að sameinast í bíla á leið í vinnu. Nú eða eins og sumir hafa nefnt, skipta umferðamáta ...
---
Og þá er komið að öðru vinsælu kvörtunarefni. Almenningssamgöngunum. Það eru margir sammála um að þær gætu verið betri í Reykjavík. En á sama tíma er gólað ógurlega yfir verðinu.
Það á sumsé að standa undir algjörri toppþjónustu með algjörri lágmarks gjaldheimtu. Í Uppsala kostar stök ferð í strætó um 30 sænskar krónur eða um 550 íslenskar. Þjónustan er skert bæði á kvöldin og um helgar. Og í samanburði við Osló er verðlagning í Reykjavík algjör grín.
Almenningssamgöngur eiga fyrst og fremst að vera góðar en þegar sífellt er verið að bjástra við að hafa þær sem ódýrastar þá geta þær ekki orðið góðar. Ekki nema náttúrulega séu teknir peningar annars staðar frá en þá fara allir líka að góla.
---
Og ofan á þetta er svo kvartað mikið yfir því hversu illa umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu anna umferðarþunganum. Maður hefur oftar en einu sinni heyrt fólk kvarta hástöfum yfir því að það taki allt upp undir 40 mínútur að komast ofan úr efstu byggðum Reykjavíkur niður í miðbæ. Það verður bara að fara að gera eitthvað í þessu, segir fólk með grátstafinn í kverkunum.
Í Sydney fékk ég stundum far á fótboltaæfingar, ég var að þjálfa þar fótbolta. Það voru eknir um 10 km og það tók um þrjú korter að komast á áfangastað ... og það var ekki einu sinni á háannatíma. Ég man ekki eftir því að nokkru sinni hafi verið kvartað yfir því hvað ferðin tæki langan tíma. Fólk lagði einfaldlega bara fyrr af stað til að komast í tæka tíð og hafði í bílnum hljóðbækur, tónlist, auk útvarpsins til að stytta sér stundir. Jafnvel bækur til að grípa í.
---
Að lokum er það blessað rafmagnið ... já og hitinn ... svona hreint alveg ótrúlega dýr. Á Íslandi tíðkast það mjög víða, sérstaklega í þéttbýli að öll híbýli fólks eru upphituð. Hvert eitt og einasta herbergi. Og það finnst engum það merkilegt.
En það er merkilegt, því það heyrir til undantekninga að slíkt sé gert erlendis. Þegar ég var í Austurríki fyrir nokkrum árum var farið mjög sparlega með alla upphitun innandyra. Svo ekki sé talað um rafmagnsnotkun. Hér í Svíþjóð gilda sömu lögmál ... t.d. í blokkinni hjá okkur, er hitanum bara stjórnað af húsnæðisfélaginu sem rekur blokkina og til að spara ennfrekar er tvöfalt gler í öllum gluggum. Ekki tvöfalt gler eins og á Íslandi, þar sem er 1-3 mm milli glerja. Hér eru 1-2 cm milli glerja til að tryggja að hitinn haldist inni.
Í Sydney var ekki einu sinni ofn í íbúðinni hjá okkur. Á vetrum þegar hitinn fór niðurí 7°C gat því orðið ansi kalt. Við gripum til þess ráðs að kaupa okkur lítinn hitablásara til að gera veruna bærilegri og þegar Guddan fæddist splæstum við í lítinn rafmagnsofn.
Mánuði síðar kom leigusalinn okkar og sagði að rafmagnsreikningurinn hefði rokið upp úr öllu valdi. Hann þrefaldaðist, úr um $300 í næstum $900. Bara út af einum litlum, skitnum ofni í einu herbergi.
Einn góður vinur minn hér í Svíþjóð sagði mér að þegar hann fengi Íslendinga í heimsókn, þá væri iðulega öll ljós logandi í öllum herbergjum alltaf ... sem er ágætis vísbending um að Orkuveitan hefur sjálfsagt svigrúm til ennfrekari hækkana ... en þessi ávani hefur sannarlega vaxið af manni eftir um fjögurra ára veru erlendis.
Ég tek undir orð Jóns Gnarr í "Spjallinu með Sölva" í síðustu viku þegar hann efnislega sagði að fólk mætti líka horfa á það góða sem er til staðar í íslensku samfélagi ... þetta kemur inn á færslu gærdagsins hjá mér ... þakklæti ...
Þökkum fyrir það sem við höfum og verum hress!!
Bloggar | Breytt 9.3.2011 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2011 | 23:14
Mánudagur 7. mars 2011 - Að snúa ofan af vonleysi
Það var ekki laust við að maður fylltist hálfgerðu vonleysi í morgun. Eins og stundum áður settist ég fyrir framan tölvuna og opnaði internetið ... kíkti aðeins á dv.is ...
Þar bar helst fyrir að laun bankastjóra væru að rjúka upp, kaup Skúla Mogensen á MP-banka sennilega með peningum Björgólfs Thors, blogg Jónasar Kristjánssonar um að það væri allt væri á sömu leið og fyrir hrun og síðast en ekki síst að Hells Angels og einhverjir óvinir þeirra væru að yfirtaka allt og alla.
Ég fór nú bara að hugsa um það sem ég er að gera ... hvaða f***ing máli skiptir einhver umhverfissálfræði í þessu samhengi sem um ræðir hér á undan?!?
Maður fær margar fréttir af því að einhver Jón stóri hafi brotið allt og bramlað á einhverju hótel í Frankfurt og Geiri á Goldfinger hafi bara borgað brúsann en minna fer fyrir fréttum af því að Djúpavogshreppur sé búinn að setja náttúruverndarákvæði á um 30% lands í sveitarfélaginu. Jafnvel þó hið síðarnefnda sé stórfrétt á Íslandi.
---
Svo tók ég mig saman í andlitinu ... og fór að hugsa um snillinginn William Clement Stone sem sagðist vera haldinn andstæðuofsóknarbrjálæði ...
Andstæðuofsóknarbrjálæði er það þegar fólk trúir því að heimurinn sé svo hliðhollur því að allt sem gerist, gerist bara í þeim tilgangi að auka velferð þess.
Einkunnarorð Stone voru: "Ég er frískur, ég er glaður, ég er frábær!" ... og segi maður þetta nokkrum sinnum hátt og snjallt, þá hressist maður bara heilmikið ... sérstaklega ef maður gætir þess að vera "mindful" meðan á athöfninni stendur. Fyrir þá sem það ekki vita er það að vera "mindful" það sama og beina athyglinni að því sem maður er að segja, finna tilfinninguna ... m.ö.o. að vera í núinu.
---
Svo hef ég síðustu daga verið að æfa mig í því að vera þakklátur ... að þakka fyrir það sem ég hef ... sem er geysilega margt ... á hverjum morgni skrifa ég niður a.m.k. fimm atriði sem ég er þakklátur fyrir og hugsa um hvert atriði í nokkrar sekúndur (mindfulness ;) ).
Ég er þakklátur fyrir að vera læs. Í Mósambík er t.d. 47,8% íbúa ólæs. Í heiminum voru nærri 800 milljónir manna ólæsir árið 2010. Hér er einungis verið að tala um fullorðna einstaklinga.
Ég er þakklátur fyrir að hafa tækifæri til að gera það sem mig langar til. Hafa þak yfir höfuðið. Hafa nóg að borða. Að eiga alla þessa frábæru vini.
Að vera heilsuhraustur. Þessu gleymir þessu alltof oft þegar maður er hress en man það þegar einhver óáran hleypur í mann. Hugsa sér hvað það er gott að vera ekki með höfuðverk og hálsbólgu alla daga.
Þakklæti fyrir að eiga Gudduna ... og Laugu ... og fjölskylduna. Öll heimsins auðæfi duga ekki í skiptum fyrir þessa aðila ... ekki einu sinni einu stykki.
---
Í morgun notaði ég þessar aðferðir til að snúa vonleysinu yfir í von og eldmóð ...
... og hef ekki stoppað fyrr en nú undir miðnættið ... ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2011 | 23:06
Sunnudagur 6. mars 2011 - Vinna og gögn
Þegar maður býr í blokk kemst maður ekki hjá því að heyra nágranna sína rífast við og við ... í kvöld þegar ég kom heim úr fótboltanum var verið að rífast á einhverju máli sem ég kann ekki að henda reiður á.
En það var greinilega dálítill hiti í umræðunni ...
---
Húsfreyjan á afmæli í dag ... og af því tilefni fór ég í mat til Sverris og Dönu í kvöld. Alveg hreint ljómandi matur og ég át allt of mikið.
En það eru nú liðin ár og dagur síðan ég var fjarverandi á afmælisdeginum hennar ... en svona er þetta ... lífið er óútreiknanlegt ...
---
Dagurinn hefur farið í vinnu ... hér er unnið endalaust meðan mæðgurnar eru á Íslandi.
Áframhaldandi teiknimyndagerð en auk hennar lagði ég lokahönd á blaðagrein til birtingar í Fréttablaðinu og skrifaði einn "abstakt" fyrir ráðstefnu sem halda á í Eindhoven í Hollandi í lok september. Meiningin er að komast þar inn með fyrirlestur.
Í gærkvöldi fékk ég svo frábæran póst sem innihélt gögn sem safnað var núna nýlega á dag- og göngudeild krabbameinsdeildar Landspítalans. Ég var svo spenntur að sjá hvað kom út úr þeim að ég vann langt fram eftir nóttu ... og ýmislegt kom í ljós ... ekkert þó sem hægt er að segja á opinberum vettvangi að svo stöddu.
Þetta verkefni var framkvæmt af spítalahóp samtakanna Umhverfis og vellíðunar, en í þeim hóp eiga sæti auk mín, Auður Ottesen ritstjóri og garðyrkjumaður, Hulda Þórey Gísladóttir iðjuþjálfi og Rut Káradóttir innanhúsarkitekt.
Verkefnið sem unnið er í sjálfboðavinnu hefur verið í gangi síðan 5. mars árið 2009, þannig að það var vel við hæfi að fá gögnin í hendurnar 5. mars 2011. En meira um þetta síðar ...
Hérna eru einar aðstæður sem prófað var í ... myndin er tekin af ljósmyndaranum Páli Jökli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2011 | 23:50
Föstudagur 4. mars 2011 - Áframhaldandi teiknimyndagerð
Enn er maður á kafi í að búa til teiknimyndir ... eins og ég hef áður sagt er þetta geysilega tímafrekt. Það þýðir ekkert að hugsa þetta í einhverjum klukkustundum eða dögum. Minnsti mælikvarðinn er vika.
Tölvan mín er gjörsamlega að springa það er svo mikið að gera hjá henni við að búa til myndir og skeyta þeim saman o.s.frv. ... ;)
---
Annars er nú eiginlega orðið svo framorðið hér að það er ekkert vit í öðru en að fara að leggja sig ...
... sjálfsagt miklu betra en að skrifa eitthvert rugl á þetta blogg ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2011 | 23:54
Fimmtudagur 3. mars 2011 - Íslandsferð
Mæðgurnar búnar að yfirgefa "pleisið" ...
... þannig að það er nú frekar tómlegt hér heimafyrir eins og er ...
---
Síðustu heimildir herma að GHPL hafi verið hin ánægðasta með ferðalagið og þótti víst sérstaklega skemmtilegt að fara á klósettið í flugvélinni. Það var þrátt fyrir að hún væri ein af fáum eða eini farþeginn í flugvélinni sem var þannig útbúinn að hún gat með góðu móti pissað í buxurnar í sætinu sínu.
En það vildi hún alls ekki gera ...
---
Í strætónum heiman að og niður á lestarstöð var líka mjög gaman og kallaði hún "veiiiii" í hvert skipti sem stoppað var á stoppistöð.
---
Við komuna til Íslands urðu miklir fagnarfundir og eftir því sem mér skilst ræður hún nú lögum og lofum á heimili ömmu og afa á Sauðárkróki.
GHPL í HENSON-gallanum, skömmu fyrir brottför í morgun ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2011 | 23:44
Miðvikudagur 2. mars 2011 - Teiknimyndagerð
Í dag hef ég unnið að því að búa til teiknimynd ... hvorki meira né minna.
Afrakstur dagsins er búinn að vera stórkostlegur. Í það minnsta er ég búinn að læra alveg fullt í dag um teiknimyndagerð.
Lengsta myndin sem ég bjó til í dag var hvorki meira né minna en 3 sekúndur og það tók nú tíma sinn að búa það til ... alveg ótrúlega tímafrekur "prósess".
Þetta er auðvitað meira þrekvirki en orð fá lýst ...
---
Fór í söngtíma í kvöld ... gekk bara ágætlega þrátt fyrir kverkaskít ... háa c-ið steinlá, fullkomlega áreyslulaust, svo dæmi sé tekið.
Skrapp einnig í fótbolta í kvöld ... góð hreyfing þar ... og bara hinn besti bolti.
---
Guðrún átti gullkorn dagsins þegar ég kom heim úr söngtímanum:
"Var gaman í leikskólanum?"
Svona læra börnin það sem fyrir þeim er haft enda er spyr ég hana þessarar spurningar á hverjum degi þegar hún kemur heim af leikskólanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.3.2011 | 22:13
Þriðjudagur 1. mars 2011 - Lítið í fréttum
Hef þetta stutt núna ...
Hefðbundinn dagur með smávægilegum landvinningum eins og alltaf. Annars, aldrei þessu vant, kvef og höfuðverkur í allan dag.
Aðrir heimilismenn bara hressir ... reyndar var dóttirin eins og úrillt ljón þegar hún kom heim af leikskólanum. En eftir að hafa hvílt sig svolitla stund og fengið sér svolítið að borða, varð allt betra.
---
Í athugasemd við færslu gærdagsins bað Sigrún frænka um óléttumynd af Laugu ...
Það verður nú að segjast eins og er að þær eru frekar af skornum skammti og til að bæta úr myndaleysinu ... set ég inn mynd af henni þegar hún var ólétt úti í Sydney árið 2008. Myndin er tekin í Centennial Park hinn 11. maí.
Hún er eiginlega alveg eins núna og á myndinni ;) .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)