Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Sunnudagur 30. október 2011 - 6 mánaða afmæli og 3ja ára afmæli

Þetta hefur verið sannkallaður afmælisdagur í dag. 

Nafni er 6 mánaða í dag. Hvorki meira né minna. 


PJPL 6 mánaða - GHPL tók myndina af mjög stuttu færi

Við Lauga erum sammála um það að fyrstu sex mánuðirnir hjá PJPL hafi verið mun fljótari að líða en fyrstu sex mánuðirnir hjá GHPL.

Að beiðni ömmu hans á Bergstaðastrætinu var drengurinn lengdarmældur í tilefni dagsins og reyndist lengd hans vera heilir 66 cm. Ekki svo lítið það.

Guddan var tekin í leiðinni ... hún er 100 cm.

Afmælisdagurinn var þó langt frá því að vera tileinkaður hinum 6 mánaða snáða, því við skruppum til Stokkhólms í dag. Kornelíus Jón frændi okkar átti nefnilega 3ja ára afmæli.

Afmælisveislan var afbragðsgóð. Góðar veitingar og fínn félagsskapur.

Persónulega fannst mér afmælið ná hápunkti þegar Kornelíus Jón var prófa að elda í glænýju pottasetti sem hafði fengið að gjöf. Í miðju kafi var hann truflaður því gesti bar að garði. Hann var augljóslega í dálitlum vandræðum með matinn sem allur "bullsauð" í nýju pottunum.
Hann skimaði í kringum sig eftir aðstoðarmanni. Leit beint í augun á PJPL og bað hann í þann mund sem hann stóð upp að hafa augun á pottunum.  

Guðrún var líka einkar áhugasöm um eldamennskuna í afmælinu. Útbjó t.d. gulrót í pylsubrauði.

Eftir afmælið skruppum við niður í miðbæ Stokkhólms og nutum veðurblíðunnar, já og fengum okkur aðeins meira í gogginn.

Í miðbæjartúrnum fór GHPL á kostum þar sem hún þrætti í hverri beygju um hvaða átt ætti að labba í. Hún klifraði upp á hvert einasta ljón sem varð á vegi okkar og hoppaði niður af því.  Hún dáðist afar mikið af draugi sem hengdur hafi verið upp í göngugötunni og ræddi um hann fram og aftur.


Í Drottingargötunni í Stokkhólmi. GHPL hallar sér upp að einu ljóninu. Draugurinn í baksýn. 

 


Laugardagur 29. ágúst 2011 - Hrekkjavökupartýið

Í dag skruppum við í Hrekkjavökupartý sem haldið var á vegum Íslendingafélagsins hér í Uppsala.


Guddan fékkst alls ekki til að fara í neinn annan búning en kjólinn af Sollu stirðu og vildi alls ekki láta mála sig í framan, nafni fékk lánaðan hatt í partýinu en var í KISS bol og sjálfur gleymdi ég alveg að ég ætti að fara í grímubúning. 

Nafni minn fékk nokkur atkvæði sem glaðasti maðurinn í partýinu. 

 

Guddan vildi endilega að ég tæki mynd í morgun af Strumpadótinu hennar ... 

 

 


Föstudagur 28. október 2011 - Þversögn og uppgötvun

Í dag var ég ekki jafn djúpt þenkandi og í gær. Sem er nú kannski bara ágætt. 

Ég fer nú samt ekki ofan af því að mannleg samskipti eru flókið og ruglingslegt fyrirbæri. Það er samt alveg merkilegt hvað maður fær litlar leiðbeiningar um hvernig maður á bera sig að í slíkum samskiptum. Þetta er svolítið eins og uppeldið. Maður er með stórbrotið verkefni í höndunum sem maður hefur eiginlega ekki hugmynd um hvernig á að framkvæma.

Í vikunni hef ég spáð töluvert í uppeldismál. Ekki í fyrsta skiptið og vonandi ekki í það síðasta. Ég uppgötvaði það á miðvikudaginn að ég var kominn í mótsögn við sjálfan mig eða hvað ... ?

Ég hef verið fylgjandi þeirri hugmynd að börn eigi ekkert endilega alltaf að hlýða því sem þeim er sagt að gera og það eigi að leyfa börnum að hafa svigrúm til að átta sig á hlutunum á eigin forsendum. Finna sínar eigin leiðir.  Sálfræðirannsóknir hafa sýnt að tækifæri til að takast á við hlutina er mikilvæg forsenda sjálfvirðingar og hamingju ... ekki bara hjá börnum heldur fullorðnum líka.
Jæja ... það er sumsé mikilvægt að hafa eigin skoðanir og elta ekki bara fjöldann hugsanalaust. 

Þá finnst mér það liggja í augum uppi að það hlýtur að verða að gefa börnum svigrúm til að vera sjálfstæð og hafa sínar eigin skoðanir og nálganir.
Samt er í raun tilhneigingin sú að gefa slíkt svigrúm einungis þegar manni sjálfum hentar. Sem er eiginlega aldrei. 

Ég veit ekki hvað ég þarf að bíta oft í tunguna á mér og hnýta hendurnar aftan við bak á hverjum degi til að Guddan fái það svigrúm sem hún á e.t.v. að fá til að geta áttað sig á hlutunum.

Ég er náttúrulega ekki að tala um að leyfa henni að veifa kjötskurðarhnífnum í kringum sig eða leika sér með eldspýtur.
Í kvöld fann GHPL t.d. hjá sér sterka hvöt til að fara fram á baðherbergi og rennbleyta ermarnar á peysunni sem hún var í.  Þegar ég sá þetta voru fyrstu viðbrögð þau að vilja skamma hana en ég rétt náði að hemja mig.

Hvaða máli skiptir þetta í raun? Hvaða máli skiptir það þó hún rennbleyti ermarnar á peysunni sinni? Málið var nú ekki flóknara en svo að hún fór úr peysunni, setti hana á ofn og fór í aðra peysu.

En þetta var ekki það sem ég ætlaði að segja ...

... ég ætlaði að segja frá því að á miðvikudaginn, í leikfimitímanum gerði GHPL ekki það sem kennararnir voru að leggja upp með. Hún var þess í stað í sínum eigin heimi og gerði bara það sem hana sjálfa langaði.

Ég sat álengdar og lét þetta fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Á endanum sagði ég við hana að ég myndi "verða reiður" ef hún gerði ekki eins og kennararnir segðu. Það gerði bara illt verra ... 

... enda ef maður spáir í það ... hversu vel tekur maður sjálfur í það ef maður nennir ekki að gera eitthvað eða langar til að gera eitthvað annað, að einhver aðili komi upp að manni og segi að maður fái að kenna á því að maður drullist ekki til að gera það sem fyrir er lagt?
Sérstaklega þegar maður hefur aldrei verið spurður yfir höfuð hvort mann langi til að gera það sem fyrir mann er lagt ...

Lauga ákveður upp á sitt einsdæmi að fara með mig á dansnámskeið. Á námskeiðinu, langar mig meira til að sitja frammi og horfa á fótbolta í sjónvarpinu, heldur en að dansa. Lauga verður pirruð á þessari þvermóðsku, kemur til mín og segir að ég skuli svo sannarlega fá að kenna á því ef ég komi mér ekki út á gólfið að dansa. 

Maður yrði sennilega mun hressari og meira til í að taka þátt eftir slíkan gjörning eða ... ? 

... af hverju eiga þessa hótanir endilega að virka vel á börn? 

Það var á miðvikudaginn sem ég áttaði mig betur en áður hvað þetta er ótrúlega vandrataður stígur að feta. Á meðan ég vil gefa GHPL frjálsræði til að átta sig á tilverunni á eigin forsendum þá vil ég ekki að frjálsræðið verði þannig að það sé engu hlýtt. 

Já ... þetta er svo sannarlega verðugt viðfangsefni ... 

 


Fimmtudagur 27. október 2011 - Um vináttu og félagsleg samskipti

Á milli þess sem ég hef verið að vinna í dag, hafa sótt á mig hugsanir um vini, vináttu og félagsleg samskipti.

Þessi þrenna er merkilegt fyrirbæri, sem ég hef aldrei almennilega skilið. 

Félagsleg samskipti eru flóknasta fyrirbæri sem til er að mínu mati, bæði torskilin en einnig ákaflega ruglingsleg.
Sumir virðast eiga afskaplega auðvelt með þau en aðrir ekki. Ég tilheyri síðari hópnum, finnst mér. Á minni lífsleið hef ég sárasjaldan átt frumkvæði að samskiptum við fólk. Ég vík mér sjaldan að fólki sem ég þekki lítið og byrja að ræða við það. Ég bara einfaldlega tek ekki sjénsinn. Hvaða sjéns mætti það spyrja? Mitt svar er "ég veit það ekki". 
Þar að auki er ég mjög lélegur í að viðhalda samskiptum við fólk. Ég hringi helst ekki í fólk að fyrra bragði. Ég hvet sjaldan til hittings. Ég kommentera aldrei á Facebook. Bara svona til að nefna eitthvað. Ég tek ekki sjénsinn. Hvaða sjéns? Mitt svar er "ég veit það ekki". 

Ég veit ekki af hverju ég hef kosið að feta þessa leið.

Í gegnum tíðina hef ég fengið að heyra að ég virki mjög öruggur með mig, jafnvel yfirlætisfullur. Ég horfi á fólk með einhverju augnaráði sem segir þeim að mér finnist nú ekki mikið þess koma. Fyrirlitningarsvipur einhver.

Svona eru hlutirnir skrýtnir og öfugsnúnir.

Þó svo ég viti ekki almennilega af hverju þetta er svona, þá er alveg klárt mál að ég hef mikið hugsað þetta mál. 

Einhvern veginn finnst mér þó að þetta sé sambland af feimni og einhvers konar vantrausti á fólki. Allt frá því ég man eftir mér hef ég verið feiminn. Svakalega feiminn. Ég hef þurft að taka mér minn tíma til að kynnast fólki. En þegar fólk hefur öðlast traust mitt þá eru fáir hlutir sem ég neita að ræða við það.

Ég lít á vináttu þeim augum að við vini sína á maður að geta sagt það sem manni býr í brjósti og verið maður sjálfur án þess að einhverjar óeðlilegar hömlur séu í gangi. Vináttu fylgir líka þagnarskylda, þ.e. maður þarf að geta þagað yfir því sem manni er sagt ef svo ber undir, og vináttu fylgir virðing og væntumþykja undir öllum kringumstæðum.  

Ég ber mikla virðingu fyrir vináttu og met hana mjög mikils. Að sama skapi geri ég gífurlegar kröfur til minna vina. Kröfurnar eru þær að þeir líti vináttu sömu augum og ég. Kannski til mikils ætlast. Sennilega til of mikils ætlast.

Kannski er það þetta mikla traust sem ég legg á hendur vina minna sem er minn mesti Akkilesarhæll því þeir eru nokkrir í gegnum tíðina sem hafa ekki staðist þessar væntingar mínar ... þeir hafa brennt mig ... sem gæti skýrt skortinn á frumkvæðinu og viðhaldsleysið ... 

... en núna sýnist mér að þessi frásögn mín sé bara komin í hring ...  


Miðvikudagur 26. október 2011 - Gamanmál og PJPL

Jæja ... eftir að hafa komið nokkuð óskaddaður úr fótbolta í kvöld þá fékk ég þá afar slæmu hugmynd að kíkja á "gamanþáttinn" Kexvexsmiðjuna sem RÚV sýnir á laugardagskvöldum. Nánar tiltekið horfði ég á þáttinn sem sýndur var síðasta laugardagskvöld.

Ég held að ég hafi bara töluverðan "tolerans" fyrir gamanefni, og þá sérstaklega íslensku gamanefni ... get hlegið vel og lengi að kúka- og pissubröndurum en líka af gamanmálum í þroskaðri kantinum ... já og svo auðvitað öllu þar á milli.

En um þennan þátt þarf ekki að fjölyrða ... þetta sé algjörlega ömurlegasti gamanþáttur sem ég hef nokkurn tíma séð ... þetta er í raun alveg pínlega ófyndið. Mögulega gæti verið hægt að brosa örlítið út í annað af nokkrum "sketsum" ef þeir væru svona 95% styttri.

Verstir voru rannsóknarlögreglumennirnir tveir ... sá skets var alveg átakanlega gjörsneyddur öllu því sem fyndið getur talist.

Jæja ... ekki orð um þetta meir ... enda sjálfsagt allir hættir að nenna að horfa á þessi ósköp ...

---

PJPL er orðinn alveg ægilega sperrtur og leikur við hvurn sinn fingur þessa dagana. Brosir hringinn í hvert skipti sem hann er ávarpaður. Í morgun vaknaði hann árla og hóf þá að berja rúmdýnuna af miklum móð auk þess að hjala öll lifandis ósköp. Var svo hinn hressasti þegar hann var búinn að vekja alla.

Pilturinn raðar svoleiðis í sig veitingunum að annað eins hefur ekki sést á þessu heimili. Spænir í sig hafragraut og hálfa peru í morgunmat, tekur svo millimál og annan vænan skammt í hádeginu, svo millimál, gúffar vel í sig í kaffinu og aftur í kvöldmatnum. Klárlega borðar hann svona á við 3 eða 4 Guddur, þegar hún var á sama aldri. 

Mér sýnist að hann verði ekki lengi að éta upp sparnaðinn sem hlóðst upp vegna mjög svo hóflegrar matarinntöku dótturinnar á sínum tíma. Ekki það að hún sé eins og einhver ryksuga núna.
Já ... það er svo sannarlega öldin önnur nú ...

Handæðið er líka að tikka hressilega inn núna ... það má ekkert vera innan við metra frá honum öðruvísi en það lendi ... tja ... einhvers staðar ... 

Hér er maður dagsins ...

Hér er svo systirin í kaffitímanum í dag ... kókómalt og "smörgoss" ...

... og aftur herrann ... að fikta í tölvu systur sinna. Gott að nýta tækifærið þegar hún er ekki heima.

 


Mánudagur 24. október 2011 - Osman frændi og video

Sennilega er Lauga að verða milljónamæringur ... hún var svo heppinn að frábær maður suður á Spáni sendi henni bréf til að tilkynna henni að hún væri erfingi mikilla auðæfa. Þetta er tilkomið vegna láts frænda hennar herra Osman Gunnarsdóttur. 

Hún mun skv. bréfinu erfa 45% af USD 12.500.000,00 ... sem gerir eitthvað rétt rúmlega fimm og hálfa milljón dollara ...

Lauga er í sjöunda himni enda er nú búið að leggja grunninn að stórkostlegu veldi ... B & L hf. (ég geri ráð fyrir að fá helminginn af 45%).

---

Að þessum frábæru fréttum slepptum ... ætlaði ég bara að setja video inn ... sem er náttúrulega ekkert bara ...

Svo er ég að búa til myndband af nafna mínum ... svo hann verði nú ekki útundan ... 

Hann fær mynd af sér núna. Nóg er nú til af blessuðum myndunum.

 

 Blessaður drengurinn er svo ákafur þessa dagana að komast upp á endann að það nær bara ekki nokkurri átt.
Í dag gerði hann mjög heiðarlega tilraun til að reisa sig upp af sjálfdáðum ... tókst ekki ...

Í skil ekki öðru en maðurinn verði farinn að hlaupa um eftir 2 mánuði ...  


Sunnudagur 23. október 2011 - Farið í bíó

Sonur minn elskulegur fór í fyrsta skiptið í bíó í dag, já og systir hans fór í annað skiptið.

Myndin sem dró okkur í bíóhúsið var engin önnur en hið stórbrotna þrekvirki úr smiðju Walt Disney Nalle Puh - Nya äventyr (eða Bangsímon - Ný ævintýri).

 

Það verður þó að segjast með ólíkindum að Pípus, rúmlega 5 mánaða gamall og vitandi lítið meira í sinn haus en almennt gengur og gerist með börn á hans aldri, þurfti að greiða full barnagjald til að fá að fara inn í salinn (sem var 70 SEK). 

Ef ekki hefði verið búið að lofa GHPL fagurlega að fara með hana að sjá Bangsímon í bíó ... hefði þessi "pólisía" bíóhússins snarlega hnýtt fyrir frekari áætlanir.

Við spurðum út í ástæður þessarar gjaldtöku, svona í ljósi þess að barnið er 99% óviti og er alls ekki að fara að sitja eitt í sæti.

Jú, ástæðan er til að hægt sé að vita nákvæmlega hversu margir eru í salnum á hverjum tíma. Ok ... gæti verið vegna einhvers rýmingarplans í neyðartilfellum. En maður skyldi nú halda að á gervihnattaöld, ætti að vera hægt að hafa valmöguleika í tölvukerfis heils bíós sem keyrir um 30 myndir á hverjum degi í 12 sölum, þar sem skráður er fjöldi 0-2 ára barna í hverju sal. Ég meina ef fjöldinn þarf að vera svona skuggalega nákvæmur.

En svo kom rúsínan í pylsuendanum. Ef maður mætir á svokallaðar barnavagnasýningar sem eru fyrir hádegi á miðvikudögum þá þarf ekki að greiða fyrir börnin. Þá má maður koma með heilan leikskóla með sér ... og allir fá frítt, nema náttúrulega sá fullorðni ... sem eðlilegt er!

Ef bíóið vill ekki fá 0-2 ára gömul börn á almennnar sýningar, þá eiga þeir bara að segja það ... svona rugl er alveg klikk!!

... en bíómyndin var skemmtileg ... eða það fannst allavegana Guddunni ...


Fimmtudagur 20. október 2011 - Verkefni og brunasár

Í kvöld barst mér póstur sem innihélt afar spennandi verkefni og með honum fylgdi fyrirspurn hvort ég hefði áhuga á að vera aðili að verkefninu ef til þess kæmi.

Verkefnið snýst um að búa til fullkomið tölvulíkan af Uppsala sem hægt væri að nota við hönnun skipulags fyrir bæinn en ekki síður sem umhverfi til að gera umhverfissálfræðilegar rannsóknir. Þetta er risaverkefni sem undir stjórn Berkely-háskóla í Kaliforníu.

Nú er bara að sjá hvort verkefnið verði að veruleika ... en hópur manna hér í Uppsala er í því að reyna að landa því.

---

Að öðru leyti hefur dagurinn farið í greinarskrif og lestur. Ég er að snurfunsa vísindagrein nr. 2 og vona að hún fari bráðum að verða tilbúin. Ræðst dálítið mikið af því hversu mikinn tíma leiðbeinandinn minn hefur.

---

Af öðrum er allt gott að frétta.

Guddan fór í danstíma í dag og neitaði að taka þátt. Sú regla hefur verið við lýði í dansskólanum að foreldrar mega ekki koma inn í danssalinn með tímarnir fara fram. Því kýs GHPL frekar að sitja frammi en að taka þátt.

Lauga ræddi við kennarann eftir tímann og sá gaf grænt ljós á að hún væri inni í tímanum næst.

Annars er þetta nú harla tilgangslaust.

---

Annars varð Syd fyrir því óhappi í kvöld að brenna sig. Hún tróð fingrunum hiklaust ofan í sjóðheitan ost. Fékk blöðrur að launum. Grét og kvartaði merkilega lítið. Eiginlega bara alveg undarlega lítið.

Það sem hún reyndar gerði, sem ég hef aldrei séð áður gert, var að troða höndinni ofan í mjólkurglas. Fyrst tróð hún henni ofan í eigin mjólkurglas. Setti það svo á hliðina en þó með svo snilldarlegum hætti að öll mjólkin fór ofan á matardiskinn hennar. Uppþurrkun var því í algjöru lágmarki.
Í framhaldi af þessu óhappi setti hún höndina bara ofan í mjólkurglas móður sinnar ... eins og ekkert væri sjálfsagðara. Loks fór höndin ofan í vatnsglas.

En kannski er málið bara að setja brunasár ofan í mjólkurglas ... ég veit það ekki ... 

---

Kúturinn er bara hress ... át svolítið af ís í kvöld. Var bara sáttur við það og sofnaði með ísskegg á efri vörinni. 


Miðvikudagur 19. október 2011 - Tognun, taktík og úlnliðshreyfingar

Þetta er nú farið að verða aðeins pirrandi ... þessi andskotans meiðsli í kringum þennan fótbolta ...

Maður er bara alveg stanslaust á meiðslalistanum. Í kvöld tókst mér að togna í kálfanum. Það var bókstaflega ekkert að gerast í leiknum og þá bara tognun.

Í síðustu viku tognaði ég í hælnum(?!?) einmitt þegar ekkert var að gerast í leiknum ...

Þar á undan var ég búinn að vera að díla við brákað rifbein síðan í september.  Þar á undan var það eitthvað annað sem ég man ekki lengur hvað var. 

Það sem er þó aðeins merkilegt í þessu öllu saman er að allt þessa vesen er vinstra megin ... það má allavegana hafa gaman af því ...

Flestir sem heyra af þessu vita skýringuna á þessum þrálátu meiðslum og finnst ekkert sérstaklega leiðinlegt að láta hana flakka beint framan í fésið á mér. Skýringin er svona: "Þú ert orðinn gamall!" 

Því neita ég auðvitað ... 

---

Ég fór með Gudduna í leikfimitíma í dag. Hún stóð sig bara alveg ágætlega enda var hún rekin áfram með minni hörðu hendi. 

Reyndar þurfti ég aðeins að taka á því að reyna að fá hana til að komast í gang. Þó ég sé alfarið á móti því að setja börnum afarkosti eða hóta þeim, þá var ég orðinn svo rökþrota á tímabili vegna aðgerðaleysis hennar að ég sagði að ef hún ætlaði ekkert að gera í tímanum, þá myndum við bara fara heim umsvifalaust.

Þessi ráðagerð gjörsamlega snerist í höndunum á mér því GHPL varð eitt sólskinsbros í framan við að heyra þessi tíðindi og vildi ólm fara heim.

Ég þurfti því að upphugsa hratt nýja taktík ... og hún virkaði.

---

Svo má segja þær fréttir af honum nafna mínum að hann er að uppgötva á sér úlnliðina þessa dagana. Hann horfir því dolfallinn á hendurnar á sjálfum sér snúast í hringi um úlnliðina ... og virðist ekki gera sér neina grein fyrir því að það er hann sjálfur sem er að framkalla þessi galdraverk. 

Kostuleg sjón, vægast sagt.

---

Jæja, það er ekki hægt að skrifa bloggfærslur í alla nótt! 


Þriðjudagur 18. október 2011 - Alveg eins og í gær þó með undantekningum

Dagurinn í dag var nokkurn veginn endurtekning á deginum í gær, þó að eftirfarandi atriðum undanskildum:

1. Veðrið var mun verra í dag en í gær. Eiginlega bara rammíslenskt haustveður.

2. Þrenningin kom rennandi blaut heim af leikskólanum í dag.

3. Engar kökur voru bakaðar eða borðaðar í dag.

4. Ég sá um kvöldmatinn.

5. Ég fór ekki í ræktina.

6. Ég hitti Sverri í hádeginu.

7. Ég skrapp í Alina Systems og skilaði biluðum hörðum diski og fékk nýjan í staðinn. 

8. Ég kenndi Laugu svolítið á gítar í kvöld.

9. GHPL kom sé fyrir á einum borðstofustól og sofnaði þar í kvöld með sæng og kodda. Stólsetan er 40 x 40 cm. Þetta heimtaði hún.

10. Lauga þvoði massamikinn þvott í dag.

Að öðru leyti var dagurinn bara nákvæmlega eins og dagurinn í gær.

---

Guddan er mjög upptekin af afmælinu sínu þessa dagana. Skoðar af þeim sökum mikið eina tiltekna mynd sem er að finna í bókinni Fyrstu 500 orðin. Myndin er sumsé af afmælisveislu.

Lauga hefur verið að reyna að koma henni í skilning um að hún eigi afmæli í júní. Dóttirin sýnir skilning sinn með því að kinka ákaft kolli.
Skilningurinn er þó ekki meiri en svo að í kjölfar útskýringanna, gaumgæfir sú stutta myndina í bókinni og spyr svo iðulega stóreygð: "Hvar er júní?"

---

Pípus hefur heldur betur borið nafn með rentu í dag ... og Lauga veltir sífellt fyrir sér hvort hann sé svangur. Sem reyndar er ekki skrýtið, það er nánast eins og hella niður í nýlagt niðurfall að gefa manninum að borða. Hann tekur endalaust við.

Hann er klárlega að taka ómakið af systur sinni.

Núna eru uppi vangaveltur um hvort þetta mikla át sé hreinlega eðlilegt fyrir 5,5 mánaða snáða.

Ójá ... það er ýmist of eða van ... :) . 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband