Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
17.10.2011 | 21:47
Mánudagur 17. október 2011 - Svona var dagurinn
Þessi dagur hefur liðið eins og elding ... maður er bara rétt vaknaður þegar maður þarf að fara að sofa aftur ... 17 klukkutímar foknir eins og blaðsnifsi.
Hvað hefur gerst hérna í dag?
Ballið byrjaði um 7.30 í morgun. Þristurinn og Guddan sáu um skemmtiatriðin.
Svo var morgunmatur að hætti hússins, GHPL þverneitaði að borða, svo venjubundinn eltingaleikur við hana þegar kom að því að klæða hana í útifötin til að hægt væri að fara með hana í skólann, PJPL át eins og uxi á meðan þetta gekk allt saman yfir, og einhvers staðar mitt í hringiðunni átum við Lauga til skiptis af diskunum okkar.
Guddan í leikskólann og Pípus í draumaheiminn. Ég fyrir framan tölvuna og Lauga líka.
Hádegismatur ... léttur og nokkuð hollur ...
Ég aftur fyrir framan tölvuna að vinna en Lauga að snúast í kringum nafna. Svo fer hún að ná í Guðrúnu kl. 14.
Ég fyrir framan tölvuna en þrenningin fer í búðina.
Palli P. sofnar aftur en mæðgurnar fara að baka.
Kaffitími kl. 17. Nýbakaðar möffins.
Ég fyrir framan tölvuna að vinna eftir kaffið. Þrenningin snýst hringinn í kringum sjálfa sig. GHPL farin að verða töluvert fyrirferðarmikil og hávaðasöm.
Ég fyrir framan tölvuna en Lauga reynir að hafa ofan af fyrir blessuðum börnum á milli þess sem hún fer að huga að matnum.
Ég hætti að vinna um 18.30 og tek nafni í gæslu. GHPL orðin mjög afundin og erfið viðureignar en Lauga virkjar hana í vinnu í eldhúsinu. GHPL hressist við það.
Matur kl. 19.30. Þristurinn setst í stólinn sinn og sofnar þar umsvifalaust. Guddan neitar að borða og hagar sér dólgslega.
Sljákkar hressilega í henni upp úr kl. 19.45 þegar hún rekur sig í matarborðið. Eftir smá samtal inni í svefnherbergi samþykkir hún að borða og fær svo ís í eftirrétt. Allt dottið í dúnalogn. Við Lauga fögnum því vel.
Kl. 20 finnur dóttirin sig knúna til að vekja bróðurinn. Sá vaknar heldur betur ringlaður en nær fljótt áttum.
Hringt í ömmuna á Sauðárkróki og þrenningin spjallar við hana meðan ég skrepp í ræktina.
Allt í rólegheitum þegar ég kem aftur.
Spjall við mömmu í gegnum Skype. Lauga skoðar blocket.se og facebook.
---
Þetta var einhvern veginn svona í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2011 | 22:11
Sunnudagur 16. október 2011 - Fréttir af PJPL
Yngsti meðlimurinn hér á heimilinu, Þristurinn, er farinn að láta til sín taka.
Klárlega er hann sperrtastur allra heimilismanna, svo sperrtur að uppréttur myndar hann boga þannig að hælarnir og hnakkinn eru í sömu lóðréttu línunni.
Blessað barnið er nánast stanslaust á iði þegar það er vakandi. Krefst þess að sitja öllum stundum, nema þegar krafan er að standa uppréttur.
Að halda á herramanninum í uppréttri stöðu getur verið þreytandi til lengdar því hann hoppar linnulítið.
Að liggja á maganum þykir ekki skemmtilegt nema í mjög stuttan stund og það er heldur ekki skemmtilegt að sitja í hvíta barnastólnum frá IKEA. Það alversta er samt að sitja í smábarnastólnum sem ruggar. Nafni verður óður á fyrstu sekúndunni ef hann er settur í þann stól.
Í smábarnastólnum ... mikill áhugi að kíkja á fiðrildið sem er aftan við höfuðið.
Tvær tennur líta nú dagsins ljós ... þannig að tannburstun fer brátt að verða óhjákvæmileg.
Í morgun gerði hann eitthvað sem þótti merkilegt í fyrsta skiptið ... ég gæti samt ekki unnið mér það til lífs að muna hvað það var ... en merkilegt var það ... svo mikið er víst.
Blessað barnið hjalar einnig töluvert mikið og er, eins og oft hefur komið fram hér á blogginu, ótrúlega þolinmóður gagnvart ytri áreitum. Á ég þá sérstaklega við fröken GHPL sem stundum getur verið herská í meira lagi.
Þristurinn er siðaður töluvert til, honum er líka ýtt dálítið, sérstaklega þegar hann situr. Og svo lýtur hann mjög ströngum aga varðandi hvað hann má vera með. Eru hlutirnir umsvifalaust rifnir út úr höndunum á honum ef svo ber undir.
Hann tekur því ósköp vel núna blessaður ... en þó kann það að breytast þegar svolítið meira vit hefur seytlað inn í hausinn á honum.
En GHPL sýnir honum þó oftar sínar betri hliðar. Klappar honum og kjassar hann, þangað til hann stendur algjörlega á öndinni. Oft heldur hún uppi skemmtiatriðum, þannig að stubbi veltist um af hlátri.
PJPL gengur undir nokkrum nöfnum s.s. Palli, Palli pípa, Pípus, Míels, litli bróðir, Páll, Páll Jakob, nafni, stubbi, já og eitthvað fleira sem ekki er prenthæft.
Maður verður samt aðeins að gæta sín í nafngiftunum, því 3ja ára eyrun á heimilinu eru næm og virðast hafa einkar gott lag á því að heyra það sem þau eiga ekki að heyra ... já og öfugt ...
Nú er blessaður drengurinn brátt að verða hálfs árs ... okkur Laugu finnst báðum hann hafa elst miklu hraðar en Guddan gerði. Óratími leið frá því GHPL fæddist og þar til hún varð hálfs árs. Það má nú líka segja að töluvert meira hafi gerist í hennar lífi á þessu fyrsta hálfa ári en hefur gerst í lífi PJPL.
5 mánaða afmælið þann 30. september sl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2011 | 21:45
Fimmtudagur 13. október 2011 - Fréttir af GHPL
Það er lúsagangur á leikskólanum hjá GHPL ... og í kvöld skipaði hjúkrunarfræðingurinn á heimilinu öllum, nema Þristinum, að fara í kembingu.
Sjálfur var hjúkrunarfræðingurinn algjörlega sannfærður um að vera grálúsugur og sérstaklega eftir að hafa séð lús stökkva á lúsakambinn og svo af honum aftur.
Seinna komst hann reyndar að því að lýs stökkva ekki ... sjálfur er ég löngu hættur að reyna að ræða þetta mál.
---
Guddan fór í danstíma í dag. Þróunin á þeim vígstöðvunum er bara niður á við. Í dag neitaði hún með öllu að fara inn í salinn þar sem danstíminn fór fram. Þess í stað sat hún bara frammi með móður sinni og beið eftir að tímanum lyki.
"Tilgangslausasta ferð ever!!" sagði móðirin þegar ég opnaði fyrir þeim dyrnar við heimkomuna. Guddan var alsæl og sagðist "ekki kunna að dansa" þegar ég spurði hana út í "þátttökuleysið".
"Það er nú einmitt tilgangurinn með að fara í danstíma ... að læra að dansa" sagði ég en hún nennti ekkert að ræða þetta neitt meira og sagði bara "horfa á sjónvarpið".
Málið var þar með afgreitt.
En svo eftir kvöldmatinn þá allt í einu, eins og þruma úr heiðskíru lofti, byrjar hún að syngja og dansa prógrammið sem er verið að kenna í dansskólanum. "Höfuð, herðar, hné og tær" í sænskri útgáfu ... eins og vænta má og eitthvað fleira sem ég kann ekki að nefna.
---
Ástandið var eitthvað svipað í leikfimitímanum í gær. Meginmunurinn var þó sá að hún tolldi inn í salnum meðan tíminn fór fram. Virknin var nú samt eitthvað í minna lagi.
"Alltof mikil hlaup" sagði móðirin eftir tímann "og svo ráða stelpurnar bara ekkert við þetta ... tvær með einhverja 15 krakka."
Guddan vildi nefnilega ekki hlaupa í tímanum vegna þess að í tímanum fyrir viku var hún "klukkuð" dálítið harkalega af einhverri stelpu. Sú meðferð fór illa í dótturina og hætti hún allri þátttöku í kjölfarið.
---
Við ræddum þessa "óvirku þátttöku" við kennarana hennar í foreldraviðtalinu í morgun. Þær sögðu að hún væri mjög virkur þátttakandi í öllum aðgerðum þar. Að vísu hefði hún skoðanir í mörgum tilfellum og færi sínar eigin leiðir ef svo bæri undir.
Sérstaklega er hún víst áhugasöm í hóptímum þar sem skordýr eru skoðuð en einnig sögðu kennararnir að þegar væri farið í göngutúr þá legði GHPL ríka áherslu á að stoppað væri hjá einu tilteknu tréi. Ákveðnin í þeirri stuttu væri slík að eiginlega væri hópurinn skikkaður til að ganga að trénu ef ekki ætti að hleypa öllu upp í loft.
Guddan í dansdressinu.
Á morgun verða svo sagðar fréttir af PJPL.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2011 | 23:00
Miðvikudagur 12. október 2011 - Skilningurinn eykst ennfrekar
Í kvöld komst ég að því að það er hægt að togna í hælnum. Fór í fótbolta og í fyrstu eða annarri snertingu tókst mér að afreka þetta. Ákvað samt að spila áfram ... sem sennilega var ekki besta ákvörðun í heimi sé horft út frá skynsemi. Á móti var það sennilega býsna góð ákvörðun sé litið til skemmtagildis sem var bara töluvert.
---
Hlutirnir ganga hér sinn vanagang ... ja og þó ... þeir ganga kannski bara alls ekki sinn vanagang. Þeir ganga bara allt öðruvísi en þeir hafa gert lengi. Ástæðan er sú sama og rakin hefur verið í bloggfærslunum í gær og fyrradag.
Ég held bara að ég geti hvatt alla til að leggja ókeypis ráðgjöf á hilluna ... þetta er slíkur munur. Og það er bæði gott fyrir þann sem er í hlutverki hins óþreytandi ráðgjafa og þess sem þiggur herlegheitin.
Það sem ég vil þó taka mjög skýrt fram er að það að leggja ókeypis ráðgjöf á hilluna þýðir ekki að spyrja aldrei neins og taka þann pól í hæðina maður eigi ekki að ræða hlutina við fólk nema það að fyrra bragði fitji upp á umræðuefninu.
Í mínum huga kallast sú nálgun afskiptaleysi sem er engu betra en afskiptasemi. Þess vegna er lykillinn sá að spyrja fólk hvort það hafi áhuga, langi mann að ræða tiltekin atriði og gefa því möguleika á að samþykkja eða hafna boðinu ... jájá ... ég ræddi um þetta í gær ...
... þetta er bara mikil uppgötvun.
---
Á morgun verður skrifað um eitthvað annað á þessu bloggi ...
... til dæmis um foreldrafundinn sem við sækjum í fyrramálið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2011 | 22:00
Þriðjudagur 11. október 2011 - Skilningurinn að aukast
Lærdómurinn í dag hefur verið eftirfarandi: Maður á ekki að gefa fólki ráð óumbeðinn og vera sífellt að pikka í fólk og minna það á skuldbindingar sínar og yfirlýsingar. Allra síst á maður að vera að grautast í fólki þegar það er að vinna í sjálfu sér.
Hitt er svo annað að langi mann til að gefa ráð eða gefa komment þá getur maður sagt að mann langi til að ræða tiltekið mál og spyrja svo hvort áhugi sé fyrir hendi.
Sé áhugi fyrir slíkum umræðum getur maður haldið áfram því þá er það gert á forsendum viðmælandans.
Sé ekki áhugi á slikum umræðum verður bara að bíða nýs tækifæris.
Þetta er nú ekki mjög flókið ... en engu að síður hefur þetta vafist fyrir mér ... heldur betur vafist fyrir mér. Ég hef nefnilega viljað gefa góð ráð og komment þegar mig langar til þess, algjörlega óháð því hvort viðmælandi minn (lesist Lauga í flestum tilfellum) hafi minnsta áhuga á því.
Það sem ég hef svo fattað í dag er að sjálfur þoli ég alls ekki þegar fólk er að dremba á mig ráðum og kommentum þegar ég hef ekki áhuga á slíku. Ekki það að ég hafi ekki haft grun um það lengi ... en í dag þá bara allt í einu sá ég heildarmyndina.
... og það er alltaf gaman að sjá heildarmyndina ...
Það er samkomulag milli okkar Laugu núna að vera ekki að pikka í hvort annað og ekki gefa góð ráð óumbeðin. Niðurstaðan er einföld: Við bæði finnum fyrir miklu andlegu frelsi. Öll samskipti verða léttari og stutt í djókið. Við erum örugglega búin að djóka meira í dag en samanlagt síðustu 10 mánuði.
Þetta er nú ekki svo lítill lærdómur!
---
Leiðrétting: Í gær var sagt að GHPL kallaði bróður sinn Níels. Það er ekki rétt. Bróðirinn er víst kallaður Míels. Nöfn annarra voru rétt í færslu gærdagsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.10.2011 | 21:09
Mánudagur 10. október 2011 - Að skipta um kúrs
Guðrún er köttur þessa dagana, skríður um á fjórum fótum og mjálmar. Reyndar er hún líka hundur af og til. Þá breytist mjálmið í gelt, rétt eins og lög gera ráð fyrir.
Í kvöld tilkynnti hún svo að Palli P. héti Níels og væri api. Sjálf segist hún vera Pippi Långstrump. Mamma hennar er hesturinn og ég er húsið?!?!
---
Þessa dagana er í gangi hjá mér afskaplega mikil sjálfskoðun ... sem er ansi þörf held ég bara.
Málið er nefnilega að mér hefur fundist hundleiðinlegt að búa í Svíþjóð allt frá því ég kom frá Íslandi í sumar. Ég hef viljað kenna öllu öðru um en sjálfum mér en nú er svo komið að ég hef komist að því að ég sjálfur er mesta vandamálið ... já og eiginlega bara eina vandamálið ...
Ég er að þróa massífa aðgerðaráætlun fyrir sjálfan mig. Aðgerðaráætlun sem byggist á félagslegum samskiptum og húmor ... og lykilatriðið hér er að áætlunin sé algjörlega á mínum forsendum. Ég hef kynnt Laugu helstu atriðin en hef jafnframt beðið hana um að vísa ekki til þeirra í umræðum okkar og ekki minna mig á þessi verkefni mín þegar ég á einhvern hátt er afundinn.
Þessi vísdómur, þ.e. að maður þurfi að gera svona hluti algjörlega á eigin forsendum er fullkomlega nýr í mínu lífi. Hingað til hef ég haft tröllatrú á að allir eigi að minna alla á þær skuldbindingar sem þeir hafa sett sér ... sú stefna hefur endað í öngstræti.
Og ef leið A er ekki að virka þá er betra að skipta yfir á leið B, í stað þess að glíma endalaust við vonlaus viðfangsefni enda er alveg lífsnauðsynlegt að tilveran fari að verða svolítið skemmtilegri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2011 | 20:56
Sunnudagur 9. október 2011 - Allt að koma ...
Guðrún tilkynnti það upp úr þurru að bróðir sinn væri að "hugsa núna", þremur sekúndum síðar tilkynnti hún að hann væri "hættur að hugsa" ...
Það er mjög gaman að sjá blessuð börnin aftur eftir tveggja vikna fjarveru og það er ótrúlegt hvað framfarirnar hafa orðið miklar hjá báðum.
GHPL er orðin svo hroðalega hjálpsöm, að það liggur við að hún geti séð um bróður sinn án nokkurrar aðstoðar. Hún gefur honum að borða, tekur af honum smekkinn og þurrkar honum um munninn. Svo fer hún langt með að skipta á honum líka ...
PJPL er orðinn svo sperrtur að hann minnir helst á stutta spýtu ... heimtar að fá að standa öllum stundum nema þegar hann borðar en drengurinn hefur heldur betur bætt sig á þeim vígstöðvum. Svo neitar hann með öllu að sofa nema "rúmið" sé á fleygiferð. T.d. er hann miklu líklegri til að sofa uppréttur í BabyBjörn á þeytingi um bæinn heldur en útafliggjandi í grafkyrrum vagninum úti á svölum.
Þessi drengur á klárlega eftir að láta til sín taka á komandi árum ...
---
Skruppum í ágætan göngutúr í dag ...
Guddunni fannst undirbúningurinn taka helst til langan tíma, þannig að hún sofnaði bara ... sem seinkaði túrnum um tvær klukkustundir ...
... en svo var farið út ...
Guddan smellti þessari síðustu af ... sneri sér svo við og tók þessa ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2011 | 19:46
Laugardagur 8. október 2011 - Aftur til Svíþjóðar
Þá er maður aftur kominn til Svíþjóðar eftir svolítið flakk.
Ráðstefnan í Eindhoven í Hollandi í lok september heppnaðist ágætlega. Alltaf gaman að kynna þau verkefni sem maður er að vinna að, þó svo ég hafi nú alveg átt betri dag í púltinu en þann 27. september sl.
Frá Hollandi hélt ég áleiðis til Íslands til að vinna þar í nokkra daga. Sú ferð gekk bara mjög vel og náði ég að koma nokkrum málum á góðan rekspöl.
Á Fróni lagði ég land undir fót og heimsótti Hellissand í fyrsta skipti á ævinni. Þó svo ég hafi nokkrum sinnum keyrt Snæfellsneshringinn hef ég aldrei haft fyrir því að líta við á "Sandinum". Veðrið hefði nú alveg mátt vera betra í þessari ferð en mígandi rigning var alla leiðina.
Að öðru leyti vann ég að húsakönnun bæði á Djúpavogi og Blönduósi, lagði hönd á plóg varðandi verkefni á Höfn í Hornafirði, fundaði með samstarfsmönnum á Landspítalanum og hitti Sævar félaga minn hjá Netspori. Þá er að sjálfsögðu ónefnd vinnan við ferðamálakönnunina sem fór fram á Djúpavogi í sumar.
Þar fyrir utan hitti ég auðvitað vini og vandamenn ... sumsé afar vel heppnuð ferð ...
---
Núna tekur við annars konar vinna ... það er við doktorsverkefi mitt og undirbúningur fyrir fjóra fyrirlestra sem halda á, á Íslandi og í Svíþjóð í byrjun næsta mánaðar.
Það er sumsé nóg framundan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)