Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Fimmtudagur 31. desember 2009 - Gamlársdagur

Lítið að frétta af vígstöðvunum í dag ... mikil rólegheit.

Guddan búin að sofa daginn meira og minna af sér ... klárlega að undirbúa sig fyrir kvöldið.

Nokkrir flugeldar voru keyptir af sænsku hjálparsveitinni ... eða að minnsta kosti ætla ég að trúa því þangað til annað kemur í ljós.  Í kjölfar kaupanna var svo snæddur síðasti McDonald´s hamborgari ársins ... :)

... verst hvað mér er farið að þykja Mc-borgarar vondir ...

---

Óska öllum lesendum, vinum og vandamönnum gleðilegs árs og friðar.


Þriðjudagur 29. desember 2009

Í dag hefur fókusinn verið fyrst og fremst á því að botna ennfrekar í sýndarveruleikanum sem ég hyggst nota í næstu rannsókn ... þessu hefur miðað svolítið.

Að vísu hjálpaði ekki þegar allt kerfið fraus og ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð ... þá kom "inCrysis Forum" sér vel, en "inCrysis Forum" er samskiptavefur þeirra sem eru að búa til módel með hjálp forritsins "CryEngine".  Einhver snillingur úti í heimi benti mér á að ýta á "F3"-takkann.  Þá leystist allt :) .

Ekki var það nú flókið.

Annars hefur dagurinn einkennst af höfuðverk ... líklega þeim sama og Lauga var með í gær.  Og er hann að stigmagnast núna í þessum skrifuðum orðum.

Að reyna að skilja CryEngine og vera með höfuðverk í ofanálag er ekkert sem ég óska að allir dagar beri í skauti sér.
Auk þessa var Lauga enn að jafna sig eftir gærdaginn og Guddan fremur öfugsnúin.

Já, svo er rétt að halda því til haga að sú stutta tók eitthvert það ógurlegasta kast sem ég hef séð, í morgun þegar hún ætlaði að rjúka á fætur fyrir kl. sex í morgun, en var stoppuð.  Blessað barnið hreinlega umturnaðist og eftir svolítinn barning var hún færð aftur í rúmið.  Neitaði samt að fara að sofa.

Sofnaði svo aftur kl. 8 en var vakin korteri seinni til að fá sér að borða og svo fara á barnaheimilið.


Staðið upp á dollu.

Þetta hefur sumsé verið fínn dagur ;) .

 


Mánudagur 28. desember 2009

Sydney Houdini tók upp á því í kvöldmatnum að leggja andlitið ofan í matardiskinn til að hvíla sig.  Sem hefði nú svo sem verið í lagi ef ekki hefði verið matur á disknum og stúlkan ekki nýkomin úr baði. 

Hún reisti höfuðið frá disknum þegar hún var vinsamlegast beðin um að gera það og ákvað þá að strjúka smjörklístruðum höndunum um höfuð sér og þar með ónýtti hún hárþvottinn sem hafði átt sér stað nokkrum augnablikum áður.

Annars er hún búin að vera í feiknastuði í dag ... broshýr og talandi ...

Það hefur mikið gerst er lýtur að málfari, því nokkur orð hafa bæst við síðustu daga ... svo sem "voffi", "vínber" og "vinargreiði" ...

Svo heldur klifurbröltið áfram ... sólbekkurinn er vinsæll, en telpan er hætt við stofuborðið og eldhúsborðið.  Er það fyrst og fremst vegna þess að henni leyfist það ekki.

Sjálfur hef ég verið að reyna að finna út úr tölvumálum tengdum næstu rannsókn hjá mér.  Það er hvorki létt verk né löðurmannlegt ... en samt hefur viðfangsefnið þokast ögn á síðustu klukkutímunum.  Betur má ef duga skal.

Lauga hefur verið eitthvað skrýtin í allan dag, að eigin sögn ... og í kvöld lagðist hún fyrir með mesta höfuðverk sem hún man eftir að hafa fengið, einnig að eigin sögn.
Eftir misheppnaða ferð í apótek að kaupa höfuðverkjarpillur, fundust nokkrar í sjúkraskápnum og mikið var það nú gott!

---

Þá má geta þess að Guddan er komin með nýja uppáhaldsbók.  Sú bók heitir "Tíu vísur" og var gjöf frá Þórhildi föðursystur hennar.

Ekkert kemst annað að þessi dægrin en gamlar og góðar íslenskar vísur.  Af vísunum tíu eru tvær í algjöru uppáhaldi, þ.e. "Dansi, dansi dúkkan mín" og "Krummi krunkar úti".  Til að allt sé eftir settum reglum vill daman að annað hvort eða bæði foreldrin syngi vísurnar á meðan hún sjálf bendir á myndirnar sem fylgja vísunum.

Í gær vorum við svo í afskaplega góðu kaffiboði hjá Gunnari og Ingu Sif.  Virkilega góðar veitingar og skemmtilegur félagsskapur.


Laugardagur 26. desember 2009 - Annar í jólum

Annar rólegheitadagur ...

Skruppum á jólaball Íslendingafélagsins sem haldið var í Turnabergskirkjunni.

Það var hið besta mál.

Eftir ballið var etið hangikjöt með tilheyrandi ... afskaplega gott.


Föstudagur 25. desember 2009 - Jóladagur

Gleðileg jól!!

Héðan frá Uppsala er allt frábært að frétta ... það hefur svo sannarlega ekki væst um okkur hér.

Aðfangadagskvöld var afar frábrugðið því sem maður hefur áður vanist, en engu að síður sérlega ánægjulegt.  Aðalleikari kvöldsins var hin eina sanna Sydney Houdini.

Í hátíðarmatnum gerði hún í brækurnar.

Hún gjörsamlega harðneitaði að borða nokkurn hlut nema ísinn.

Hún drakk kók í leyfisleysi.

Hún hristi jólatréið eins oft og lengi og hún komst upp með.

Hér er smá klippa frá hápunktum aðfangadagskvölds 2009.

Í dag hafa rólegheitin verið í fyrirrúmi.

Við skruppum út í göngutúr um miðjan daginn.  Við tókum hjólið með vegna þess að Guddan vill alls ekki vera í kerru, en finnst yfirleitt í lagi að vera í stólnum sínum á hjólinu.

Yfirleitt finnst henni það ...

... en ekki í dag.  Í dag vildi hún endilega fara að sofa í göngutúrnum og varð ég því að bera hana í fanginu nánast allan göngutúrinn, þar sem hún eins og stundum áður, svaf svefni hinna réttlátu.  Svo þegar við komum inn og ég ætlaði að leggja hana frá mér, vaknaði hún og var hin hressasta ...

Þetta var góð æfing fyrir mig!!

Af klifursögum er það að frétta að hún uppgötvaði í dag sólbekkinn sem er undir glugganum í stofunni.  Klifraði upp á sófann og yfir sófabakið og komst þannig upp á sólbekkinn.  Þar hljóp hún fram og aftur og hafði hátt ... það var æðislega gaman!!

 


Fimmtudagur 24. desember 2009 - Aðfangadagur jóla

Þegar þetta er ritað, liggur einkadóttirin inn í rúmi og sefur svefni hinna réttlátu.

Ég er sannfærður um að í hennar augum er þessi dagur, þ.e. aðfangadagur jóla, ekkert öðruvísi en aðrir dagar.  Hún hefur ekki hugmynd um hvað bíður ...

Í dag hefur henni fundist meira en sjálfsagt að vera grútskítug um munninn, sulla mjólk niður á fötin sín, rusla út dótinu sínu, heimta að fá rúsínur, hlaupa um á sokkabuxunum, biðja um að fá að horfa á Dodda, klifra upp á borð og harðneita að láta greiða sér.

Alveg eins og á ofurvenjulegum degi ...

Hún kippti sér meira segja ekkert upp við að fá mandarínu í skóinn í morgun.  Þegar móðir hennar hvatti hana til að sýna föðurnum skógjöfina góðu, þá fyrstu á ævinni, fannst henni sjálfur skórinn mun tilkomumeiri en mandarínan.  Og voru herlegheitin því sýnd í þeirri röð sem henni sjálfri þótti við hæfi.  Að borða mandarínuna var ekki tekið í mál ... algjörlega af og frá ...

Þó er gaman að segja frá því að hún bætti einu afreki í safnið í morgun, þegar hún klifraði upp litlar tröppur í eldhúsinu og upp á eldhúsborðið ...
Klárlega þarf að gera einhverjar varúðarráðstafanir til að sporna við þessu athæfi ef ekki á að hljótast stórslys af ... en afrekið stendur samt eitt og óstutt eftir og er allrar athygli vert ...


Uppi á eldhúsborðinu ... eftir að tímamótaáfangi náðist

... mér kæmi ekki á óvart að hún sveiflaði sér í loftljósinu einn daginn ...

Nóg um þetta í bili ...

---

Við þremenningarnir, þó einn okkar viti ekki hvað snýr upp eða niður, óskum ykkur kæru lesendur gleðilegra jóla og vonum að þið njótið þeirra eins og best verður á kosið ...


Vaksalakirkjan í Uppsala - 24. desember 2009


Miðvikudagur 23. desember 2009

Jæja ... þessi Þorláksmessa er búin að vera mjög frábrugðin öðrum Þorláksmessum sem ég hef lifað.  Þó fyrri Þorláksmessur hafi undantekningarlaust verið fábærar, er mjög gaman að prófa að gera hlutina með öðrum hætti ...

---

Ég vann fram yfir hádegið, gat nú ekki verið þekktur fyrir annað ... en svo tók við jólaundirbúningur.

Af því að Guddan má ekki fara út enn, þá skrapp ég einsamall niður í bæ til að kaupa jólatré ... eftir svolítið vafstur, fann ég eitt forláta tré í Åtlens.  Um er að ræða lítið gervijólatré, sem skreytt er með stjórnum og svo eru ljósþræðir sem skipta litum.  Mjög gaman af þessu ...

Jólatréð 

Nú og svo keypti ég líka jólagjöf handa spúsu minni ... ekki má ræða það neitt meira hérna í bili að minnsta kosti ...

Það kom svo skemmtilega á óvart að kl. 18, einmitt stuttu eftir að ég kom heim úr bæjarferðinni, þá var þáttur um KISS í útvarpinu ... KISSmas Special!  Ekki var það nú til að spilla gleði minni.

Eftir þáttinn góða, skrapp ég svo út í ICA að kaupa í matinn fyrir hátíðarnar ... gat nú reyndar ekki keypt nema rétt rúmlega helminginn, þannig að fara verður aftur á morgun og redda restinni ...

---

Guddan hefur verið í stuði í dag.  Er orðin hitalaus og getur skroppið út með okkur á morgun.  Það verður gaman fyrir alla.

Það kom flatt upp á okkur foreldrana í kvöldmatnum þegar hún bað um að fá væna klípu af smjöri.  Það var látið eftir henni og viti menn ... dóttirin át smjörið bara eins og ef hún væri með eplabita.  Beit af smjörklípunni vænan bita og sagði svo sigri hrósandi "mmmm ... " og fékk sér svo annan bita.

Er þetta normalt?? :)


Sydney að borða smjör


Þriðjudagur 22. desember 2009

Guddan að hressast ... hitinn að nálgast það sem eðlilegt getur talist ...

Eins og áður hef ég verið að vinna í verkefninu mínu í dag ... er að spá í að taka mér frí á morgun og skreppa í IKEA að kaupa jólaseríur.

---

Annars er ég búinn að hlæja mikið af frétt, sem birtist í dag, og fjallaði um skráningu Gunnlaugs Haraldssonar á sögu Akraneskaupstaðar.  Á síðustu 10 eða 12 árum (vefmiðlum ber ekki alveg saman um tímalengdina) hefur Gunnlaugur fengið rétt um 75 milljónir til að skrá sögu Akraneskaupstaðar frá landnámi til upphafs 18. aldar.

75 milljónir!!  Og það besta er að ekki sér enn fyrir endann á verkinu og vonast er til að hægt verði að ljúka því fyrir 6 milljónir ... þetta er einn mesti brandari sem ég hef heyrt!

Hún hlýtur að vera stórbrotin saga þessa litla bæjarfélags í þau 1000 ár sem ritverk Gunnlaugs nær að "kovera", því ekki duga minna en 1000 bls.  Sem sagt ein síða fyrir hvert ár.

Maður hefur greinilega vanmetið Skagann dálítið ... og enn á þá eftir að skrifa um síðastliðin 200 ár ...

Hann hefur svo sannarlega dottið í lukkupottinn sá ágæti maður Gunnlaugur Haraldsson þegar hann samdi við Skagamennina ...


Mánudagur 21. desember 2009

Hér heldur áfram að snjóa og fröken Guðrún heldur áfram að vera veik ...

Stúlkan sú arna hresstist lítið í dag ... hitinn meiri en í gær og fyrradag.  Slagaði hátt í 40°C.  Hitalækkandi stílar notaðir til að sporna við kerfið ofhitnaði.

Þeir virkuðu ágætlega og líkt og í gær, var sú stutta hin hressasta meðan virknin var í hámarki, en svo dapraðist hressleikinn í réttu hlutfalli við virkni lyfsins ... líkt og kom fram í færslu gærdagsins.

Eitt er það sem er mjög fyndið og hefur gerst oft en gerist æ oftar.  Guddan er að tala úr upp úr svefni ... sem er hreint stórkostlegt áheyrnar ...

Snemma í morgun sagði hún hátt og snjallt "datt" ... en það er aðalorðið og hefur verið aðalorðið síðustu 6 mánuði eða svo.  Í fyrrinótt sagði hún einnig "datt" upp úr svefni.  Það er greinilega margt sem er að detta þessar næturnar í draumaheiminum.

Auk þessa hefur hún sagt ýmislegt annað uppúr svefni, en flest af því er erfitt að hafa eftir ...

---

Af öðrum er svo sem allt gott að frétta ... eins og stundum áður hef ég verið að vinna í verkefninu mínum og þetta þokast áfram.

Sá mér til skelfingar nú fyrir stundu að líklega verð ég að kynna mér tölfræðilega sem kallast "bootstrap" og ég er engan veginn að fara að nenna því, enda búinn að dvelja töluvert lengi við Sobel-testið sem greindi frá hér á síðunni um daginn.

Annars er ég handviss um að það er betra að hætta að skrifa núna frekar en að fara út í frekari málalengingar varðandi þessi mál.

---

Lauga í stuði ... eftir vinnu hefur mestur hennar tími farið í að hjúkra blessuðu barninu.

Reyndar sótti hún pakka á pósthúsið.  Það voru gjafir og góðgæti frá Sauðárkróki ...

... við vorum ekkert mjög lengi að taka upp eina súkkulaðiplötu og einn lakkríspoka.  Lauga sagði að við mættum alls ekki klára þetta fyrir jól en svo hámaði hún lakkrísinn í sig, líkt og hún fengi greitt fyrir það.

Líklega hefur hún átt við að ég mætti ekki klára allt góðgætið fyrir jól!

En pakkinn var kærkominn!!  Takk, takk!!


Sunnudagurinn 20. desember 2009

Jæja, þá stígur maður fram á sjónarsviðið á nýjan leik ... ég hreinlega gleymdi að blogga í gær ...

En helgin hefur ekki verið alveg samkvæmt dagskrá því Guddan tók upp á því aðfararnótt laugardagsins að fá 39°C hita svona upp úr þurru ...

... hálfur stíll í rassinn og hún svaf eins og ljós til morguns ...

Helgin hefur sum sé verið undirlögð af hitavellu dótturinnar og lítið hægt að hreyfa sig.  Ég sem var búinn að ákveða að fara í bæinn og upplifa jólastemmninguna um helgina ... ;)

Doddi er búinn að fá að rúlla nokkrum sinnum í tölvunni til að dóttirin haldi sem mest kyrru fyrir og það hefur virkað vel.  Hún hefur verið eins og ljós, þrátt fyrir heilsuleysið.

Svo hefur hún fengið svolítið meira af stílum og þá hressist hún heil ósköp.  Byrjar þá að tala mikið og rífast svolítið ... svo þegar verkun stílsins tekur að réna, þá minnkar málæðið í réttu hlutfalli.

---

Sjálfur hef ég unnið alla helgina í doktorsverkefninu mínu og hef þurft að glíma við þá óþæginlegu tilfinningu að mér finnst verkefnið ekkert ganga, að ég hökkti bara í sama farinu viku eftir viku og ekkert þokist.

Ég held samt að ég sé að komast yfir þennan hjalla eftir að ég sendi leiðbeinanda mínum bréf í kvöld og fékk gott bréf til baka frá honum ... það var hressandi.

Það var líka hressandi að fá þetta í tölvupósti frá Brian Tracy vini mínum: "Before you begin a thing, remind yourself that difficulties and delays quite impossible to foresee are ahead... You can only see one thing clearly, and that is your goal. Form a mental vision of that and cling to it through thick and thin."

Þetta var einhvern veginn nákvæmlega það sem ég þurfti að fá í dag.

---

Lauga hefur verið í stuði um helgina, búin að lesa mikið í bókinni "Chicken Soup for the Soul" eftir Jack Canfield og segja mér frá sem hún er að lesa.  Þessi bók er mjög góð lesning fyrir alla.

Svo bjó hún til pizzu í gær, hún er algjör snillingur í því ... bestu pizzurnar í bænum, svo mikið er víst.

Þess á milli hefur hún hugsað svo fallega um dótturina að það er unun á að horfa.  Alveg toppmóðir ... Sydney Houdini á vonandi eftir að átta sig á því einhvern daginn, hversu ljónheppin hún er að eiga þessa móður.

---

Lýk þessu með myndum af þeim mæðgum.  Myndin er tekin í morgun þegar þær horfðu saman á Dodda.

Svona alveg í blálokin set ég þessa mynd sem tekin var á föstudaginn.  Mér er sagt að þá um kvöldið hafi frostið farið í -20°C.
Það kvöld skruppum við þrenningin út í búð og á leiðinni þangað voru við að ræða um að nú væri orðið ansi kalt.  Þá sagði ég mjög gáfulega að nú væri svona 5 - 6°C frost og sagði að þunnu jogging-buxurnar mínar væru kannski ekki alveg það heppilegasta ef það yrði mikið kaldara.

En klárlega voru þessar -20°C mun hlýrri en -15°C sem ég upplifði á Akureyri einhvern tímann á menntaskólaárunum ... þá var nefnilega kalt!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband