Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Föstudagur 18. desember 2009 - Spurning um viðhorf

"Málið er að gera mikið úr litlu hlutunum. Blása þetta svolítið upp!

Af hverju ekki að hugsa: "Já nú er jól, ég ætla að gera eitthvað skemmtilegt úr því, já núna er 1. apríl hvað get ég gert skemmtilegt úr því?"  Til hvers að vera að bölva jólunum og spyrja hvort ekki sé hægt að halda þau annað hvert ár!"

Af hverju ekki að njóta þess tíma og þess staðar sem er núna ... af hverju ekki að kaupa jólatré og jólaskraut, þó svo við ætlum bara að vera hérna eitt ár og njóta þess að nú erum við hérna í Svíþjóð?  Þessi tími kemur aldrei aftur. 

Af hverju að vera alltaf neita sér um að gera eitthvað skemmtilegt og bíða þangað til síðar?"

Svona einhvern veginn mælti Lauga í seinnipartinn í dag ... tilefnið var bloggfærslan mín í gær um jólahundinn ...

---

"Já hvers vegna þetta "attitjúd"?" hugsaði ég.

---

Kveikt var á jólalögum með Dean Martin.

Hitað var óáfengt jólaglögg.

Ljósin í eldhúsinu voru dempuð og kveikt var á jólakertum. 

Sjálfur settist ég niður við eldhúsborðið og merkti alla pakka sem senda átti til Íslands.

Svo skrifaði ég nokkur jólakort.

Lauga sat hinum megin borðsins og við drukkum jólaglögg, hlustum á Dean Martin og spjölluðum við kertaljós, meðan ég gekk frá pökkunum og kortunum.  Guddan lék sér fallega á meðan, með hest og svín. Veðrið var kyrrt og jólasnjór yfir öllu.

Skemmtilegasti jólaundirbúningur sem ég hef lifað ... ;)

---

Jólahundur hvað??!

 
Útsýnið út um eldhúsgluggann seinnipartinn ...

---

Ps. Jólapakkarnir eru komnir í póst ... munu ekki berast fyrir jól ... jólahundurinn sá til þess!


Fimmtudagur 17. desember 2009

Þetta verður nú bara málamyndafærsla ...

... allur dagurinn frá A - Ö búinn að fara í að lesa yfir prófaúrlausnir.  Það mál  er afgreitt núna og hægt að snúa sér að öðru.

Jólapakkarnir, sem eiga að fara til Íslands, sitja sem fastast hér í Uppsala.  Þetta jólastand er alveg ótrúlega tímafrekt, sérstaklega þegar maður hefur ekki tíma til að standa í því.

---

Annars er ég að verða svo lítill jólakarl, alveg leiðinlega lítill ...

... mér finnst jólin rétt nýliðin þegar þau eru komin aftur.  Væri ekki nóg að halda þau bara annað hvert ár?

Ég er eitthvað svo forpokaður að mér finnst jólin alveg hafa glatað tilgangi sínum.  Allir að drepast úr stressi að klára "allt" fyrir jólin og hinn eiginlegi jólaboðskapur er einhvers staðar úti í hafsauga.  Margar vikur eru undirlagðar svo hægt sé að slappa af í 2 - 3 daga ... en svo þegar til kastanna kemur nennir enginn að slappa neitt af ...

... bíóin fyllast á annan í jólum og fólk kvartar yfir því að það sé ekkert að gera, másar yfir að þurfa að fara í leiðinleg jólaboð og yfir að vera "alltaf" að drepast úr seddu ... "mikið langar mig í soðna ýsu og kartöflur", segja menn og konur upp úr hádegi á öðrum degi jóla meðan sporðrennt er fjórðu eða fimmtu kjötmáltíðinni í röð. 

Ég ætla að vona að þessi "jólahundur" hverfi úr mér fljótlega ... þetta er alveg hundfúl afstaða ... ;) ...

---

Guddan braut blað í dag þegar hún klifraði án allra hjálpartækja upp á stofuborðið og dansaði þar af kæti ...

... ég reyndi að koma henni í skilning um að þetta væri nú ekki við hæfi hjá siðuðu fólki og tók hana niður.  Hún var kominn upp á borðið aftur eftir 15 sekúndur ...

Nóttin fer í að finna svar við þessu nýjasta "trikki" dótturinnar ...


Miðvikudagurinn 16. desember 2009 - síðbúin afmæliskveðja til Stefáns

Þessi dagur hefur heldur betur verið annasamur ... og sér nú ekki fyrir endann á þeim önnum ...

Prófayfirlestur hefur tekið drjúgan hluta dagsins, auk þess sem blessaður jólaundirbúningurinn tekur alltaf sinn toll.  Svo eru ýmis önnur mál sem hafa þurft sinn tíma ... en eins og stundum er sagt: "Það er gaman að þessu!"

---

Annars skammast ég mín fyrir hluta af síðari færslu gærdagsins.  Hér á ég við hlutann þar sem ég sagðist ætla að skrifa eitthvað fallegt um frænda minn Stefán Jóhann Stefánsson Jeppesen á morgun (þ.e. í dag).  Drengurinn átti afmæli fyrir þremur dögum, og hefði nú alveg átt það skilið að ég skrifaði umsvifalaust um sig.

En egóið tók öll völd, eins og gerist alltof oft ... fyrst skyldi skrifað um það að dóttirin klifraði upp í sófann í stofunni ... sú umfjöllun mátti víst ekki bíða morgundagsins ...

Hér kemur Stefán frændi minn ...

---

Gaukurinn fæddist á því herrans ári 1986, skömmu eftir að Reagan og Gorbastjov mættust í Höfða.  Síðan þá hef ég fylgst með honum vaxa og verða að boldangsmanni með bíladellu ... óstjórnlega bíladellu.

Haldi fólk að það sé flókið að tala um "spliff, donk og gengju", þá ætti það að ræða um "fækjugreinar, ventilhásingar og driffjaðrir" við Stefán.  Hann virðist hafa þetta allt saman á hreinu.
Háværir, kraftmiklir bílar eru hans ær og kýr ... 

Þeir eru margir mannkostirnir sem prýða þennan frænda minn en það sem ég hef alltaf kunnað að meta mest er einlægni hans og umhyggja fyrir sínu fólki.  Eiginleiki sem alltof fáir státa af.
Ekki verður sagt að hann sé opnasti maður í heiminum, en engu að síður þá lætur hann sitt fólk sig varða og maður finnur það svo glögglega, þegar maður er í návist hans.

Svo hefur hann góðan húmor og ekki leiðist honum að skjóta á síðuhaldara þegar tækifæri gefst.  Sagan af því þegar gos spýttist út úr mér yfir allt matarborðið í nýjársdagsboði mömmu fyrir nokkrum árum er atburður sem hvorugur okkar mun gleyma.
Stefán sér líka vandlega til þess að ég muni ekki gleyma þessu verðlaunaverða atviki ... og mér leiðist það nú svo sem ekkert ;) .

Greiðvikinn er drengurinn.  Ég man bara varla eftir að hann hafi sagt "nei" þegar ég hef beðið hann um að gera fyrir mig viðvik.  "Stefán, skrepptu fyrir mig út í BYKO og blablabla ... "  "Ókei" og svo er hann þotinn, kemur aftur eftir smá stund en er þá oftast sendur aftur, því ég hef gleymt að biðja hann um að kaupa eitthvað ... "Ókei!" ... svo er hann þotinn aftur.

Þessi karl er ómissandi þáttur af tilverunni og ég met hann mikils.  Hann er bara hann sjálfur og fer sínar eigin leiðir ...

Elsku karlinn ... til hamingju með afmælið um daginn og afsakaðu hversu seint þessi færsla birtist ... þú átt annað skilið ...

---

Hér er mynd af afmælisbarninu ásamt dóttur síðuhaldara ... hún kemur sér inn á flestar myndir sem birtast á þessari síðu ;)
Myndin er frá skírnardeginum 14. desember 2008.


Þriðjudagur 15. desember 2009 - síðari færsla

Enginn sem ég þekki á afmæli á dag 15. desember ...

... reyndar klikkaði ég allærlega á afmælidegi míns elskulega frænda Stefáns Jóhanns Stefánssonar Jeppesen sem átti afmæli þann 13. desember ...

... var það ekki vegna þess að ég gleymdi blessuðum karlinum.  Skýringin var sú að neyðarástand ríkti á heimilinu þennan dag og hvorki tími né stemmning fyrir blogg ...

Ég ætla hins vegar að bæta úr því á morgun og segja eitthvað fallegt um hann þá.

---

En í síðari færslu dagsins er meiningin að beina athyglinni að GHPL, en hennar ljós hefur lítið skinið síðustu daga, þó vissulega hafi verið ástæða til þess.

Stórkostlegar framfarir hafa orðið hjá blessuðu barninu í síðustu viku.  Má þær framfarir mikið rekja til dvalar hennar á leikskólanum og kannski til þeirrar staðreyndar að hún er orðin eins og hálfs árs.

Klifur.  Þann 10. desember klifraði hún ein og óstudd upp í rúmið.  Ekki lítill áfangi það.  12. desember bætti hún um betur og klifraði upp í sófann. Núna er sófapúðunum fleygt út um öll gólf og djöflast í sófanum eins og morgundagurinn sé enginn.  Sama gildir um rúmið.
Belgingurinn er þó kannski meiri en hæfnin, því sú stutta datt fram af rúminu seinni partinn í dag.  Sem betur fer er rúmið fremur lágt, þannig að skaðinn var lítill, sem enginn.

Í gær klifraði hún upp á kassa en áttaði sig ekki á að kassinn var undir barnastólnum ... þá var erfitt og sorglegt að reyna að rétta úr sér ...

Át.  Borðar eins og hestur.  Það bara snarbreyttist eftir 1,5 ára afmælið um daginn.  Borðar meira að segja á leikskólanum!!  Ótrúlegt!!
Það er líka eins gott ... því hún fór í vigtun síðasta miðvikudag og var þá meðal léttustu eins og hálfs árs barna í hinum vestræna heiminum.  Allavegana miðað við kúrfuna.  Hún hefur reyndar verið þarna megin kúrfunnar frá fæðingu.  Það er nú ekki beint yfirþyngd að fæðast 2,630 kg.  Opinber þyngd þann 9. desember 2009 var 8,815 kg ...

Tal. Talar óheyrilega mikið ... alls konar hljóð ... fæst af því skilst þó.  Engu að síður gengur sífellt betur að gera sig skiljanlega.  Miklar framfarir ...  Eyðir töluverðum tíma í að rífast og skammast við okkur foreldrana, sérstaklega meðan hún hoppar um í stofusófanum(?!?).

---

Í dag snjóaði hér í Uppsala ... svona fyrir alvöru ... hér er myndband af því tilefni.


Þriðjudagur 15. desember 2009 - fyrri færslan í dag

Ég hef fengið þau komment í "prívat pósti" hvort ég hafi eitthvað dottið á höfuðið af því ég eigi það til að vera væminn á þessari bloggsíðu minni ... harðnaglinn hafi ekki verið svona áður ...

... mér finnst þetta skemmtilegar athugasemdir ... og algjörlega réttmætar athugasemdir ...

---

Ég ætla að svara þessu með tveimur dæmum ...

Í fyrrasumar dó góð vinkona fjölskyldunnar eftir erfið veikindi.  Hér er ég að tala um konu sem hafði alla sína tíð alið önn fyrir fjölskyldu minni; afa mínum og ömmu, mömmu og pabba, systkinum mínum, systkinabörnum og börnum þeirra, nú að ógleymdum sjálfum mér.  Hún hringdi nánast daglega í mömmu bara til að heyra í henni hljóðið ... ómetanlegt?  Já.

... hversu oft þakkaði ég henni fyrir þetta allt saman og sagði henni að hún skipti okkur öll grífurlega miklu máli?  Aldrei í lifanda lífi ... ég hafði mig þó í að þakka henni í minningargreininni sem ég skrifaði um hana.  Það var nokkrum dögum of seint!

Í haust fékk frændi minn heilablóðfall.  Við erum að tala um mann sem hefur verið mér gífurlega mikils virði í um 25 ár og verið meðal minna bestu og traustustu vina.  Ómetanlegt? Já.
Honum var vart hugað líf, en verndarengill hans vakti yfir honum og sex vikum síðar reis hann upp á fæturna aftur ...

... hversu oft, fyrir áfallið, þakkaði ég honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig og sagði honum að hann væri meðal minna bestu vina og væri mér ómetanlegur?  Aldrei!  Ekki einu sinni ... á 25 árum!
Þegar ég sá að ég myndi fá annað tækifæri, beið ég ekki boðanna og skrifaði honum bréf.  Karl varð himinlifandi og ég hef frétt það að bréfið fari varla úr augnsýn.

---

Mergurinn málsins er sá að allir, og þá meina ég allir, vilja vita að þeir skipti máli.

Langsamlega flestir gleyma að segja við "liðsfélaga" sína að þeir skipti máli.  Af hverju?

Ég vil vera í hinum hópnum.

Þarf að segja meira?


Mánudagsmetall VIII - 14. desember 2009 - Afmæli

Enn eitt afmælið ... sem er gott!!

Síðuhaldari á afmæli í dag ...

Hvernig væri að taka tvær mínútur í að skrifa eitthvað í athugasemdaboxið af því tilefni?

Þarf ekkert að vera fallegt ... bara eitthvað frá hjartanu ;)

Myndaröð tekin af afmælisbarninu þann 14. desember 2006 - 2009 ...

Takið eftir hvað þróunin er öll í gífurlega rétta átt ... alltaf að verða betra og betra.

Afmælisbarn og Jón Þór
Með Jóni Þór stórvini mínum í eldhúsinu á Bergstaðastrætinu árið 2006.

Afmælisbarn í kvennafans
Á veitingastaðnum Yai í Sydney, með Söru, Fjólu, Dísu og Laugu, árið 2007.

Afmælisbarn
Við skírn dótturinnar á Bergstaðastrætinu, árið 2008.

 

Afmælisbarn
Með pakka í eldhúsinu í Uppsala, árið 2009.


Laugardagur 12. desember 2009 - 38 ára afmæli

Þau hrúgast inn afmælin þessa dagana ... og ekkert nema gott um það að segja ... er bara til vitnis um það að tíminn líður.  Þannig á það líka að vera ...

Hver skyldi eiga 38 ára afmæli í dag?

Sjálfsagt eru það nokkrir en sá sem ég þekki er stórvinur minn og nánast bróðir, Halldór Pálmar Halldórsson.

Nánast bróðir, segi ég vegna þess að mér finnst samskipti okkar vera á því "leveli".  Ótrúlega gegnheilt samband milli okkar og gagnkvæm virðing, húmor, trúnaður og traust í fyrirrúmi.  
Svipaður þankagangur oft á tíðum ... við þurfum oft ekki að segja mörg orð til að vita hvert hinn er að fara ... gildir það jafnt um það hvort málin eru rædd á léttum nótum eða hinum alvarlegri.

Fyrir mig er vinátta okkar og bræðralag algjörlega ómetanlegt ...

--- 

Við Dóri karlinn, hittumst fyrst í líffræðinni í HÍ árið 1996.  Lítið bar til tíðinda þetta fyrsta ár en haustið 1997 tókum við að ræða málin og höfum varla þagnað síðan ... svo vel small þetta ...

Síðan þá hefur fjölmargt verið brallað, en mér er það lífsins ómögulegt að taka eitthvað eitt sérstaklega út ... það er hreinlega ekki sanngjarnt ...

Það er því vel við hæfi nú þann 12. desember 2009, að þakka mínum kæra vini mikið vel fyrir samskiptin, sem aldrei hefur borið skugga á ... ótrúlegt en satt, það hefur aldrei borið skugga á þau ... við höfum aldrei svo mikið sem rifist. 
Sem er nú satt að segja ótrúlegt þegar ég á í hlut ;) ... en jæja ... svona er það nú samt ...

---

Það eru tvö persónueinkenni Dóra sem ég hef oft litið sérstaklega til og haft í huga.  Ég held að hann viti ekkert um það, því ég er ekki viss um að ég hafi sagt honum það ... og ég ætla nefna þau nú, öðrum til íhugunar.

Hið fyrra er að drengurinn er alltaf í góðu skapi ... það er alveg sama hver andskotinn gengur á, hann er alltaf í góðu skapi.  Ég segi alltaf, en dreg þó oggulítið aðeins í land, því ég hef séð hann einu sinni skipta skapi í 5 sekúndur ...

... og það var samt af minnsta tilefni í heimi ... 

... hann skipti skapi í Dimmuborgum árið 2002, þegar Norðmaður sem við vorum að ferðast með sagði að "bláber" væru "målber" ...

... eftir að hafa verið leiðréttur þrisvar sinnum á ensku, vildi Norsarinn ekki gefa sig, hélt sig grjótfast við það að berin hétu "målber" ... stóð þá minn maður upp og sagði stundarhátt og mjög ákveðið á íslensku beint framan í Norðmanninn ... "Þetta eru BLÁBER ... ég er að segja þér það!!!"  Því næst gekk hann í burtu.

Dóri hefur sér það þó til málsbótar að hann er nú doktor í líffræði og því eðlilegt að hann vilji hafa svona grundvallaratriði á hreinu ...

Hitt persónueinkennið er alveg gífurleg þolinmæði og jákvætt viðmót gagnvart ótrúlegustu hlutum ... mörgu sem myndi gera mig sturlaðan á örskotsstundu.
Frábærlega góður eiginleiki, sem ég hef oft í huga þegar ég þarf að kljást við erfið viðfangsefni ... "Hvernig myndi Dóri tækla þetta?", hugsa ég.

Ég hef bara einu sinni séð hann missa þolinmæðina og var það við sama tækifæri og nefnt er hér að ofan ... hann missti sumsé þolinmæðina og góða skapið í 5 sekúndur samtímis í Dimmuborgum í júlí árið 2002!! 

---

Megi vinskapur okkar verða sem mestur og bestur sem lengst ...

Til hamingju með afmælið minn kæri vinur!!

(það gat náttúrulega verið að ég á enga almennilega mynd af drengnum ... týni til það skársta ... hér er mynd frá því í janúar sl. ... tekin á Kaffi París ... afmælisbarnið lengst til hægri, spúsa afmælisbarnsins og afkvæmi afmælisbarnsins ásamt Laugu Líndal og Guddu Líndal).


Fimmtudagur 10. desember 2009 - 100 ára afmæli

Þá er kominn 10. desember ...

... og aftur ber að minnast á afmælisbarn ...

... en afmælisbarn dagsins er amma Laugu og nafna, sjálf Sigurlaug Andrésdóttir, sem á 100 ára afmæli hvorki meira né minna.  

Mér hlotnaðist sá heiður að kynnast lítillega ömmu Laugu, eins og Lauga mín, kallar hana alltaf.  Þá var hún komin hátt á níræðisaldur. 

Af þeim sökum er ég ef til vill ekki sá maður sem best er til þess fallinn að skrifa lærðan pistil um ömmu Laugu.  Til þess er þekking mín of miklum takmörkunum háð. 

Þó vil ég segja það að í mínum augum er amma Lauga hetja ... vegna þeirra afreka sem hún vann á sinni ævi, með eljusemi og dugnaði að leiðarljósi.  Hún er glæsileg fyrirmynd þess hverju má koma til leiðar ef viljinn er fyrir hendi.

Amma Lauga var manneskja fárra orða, en þess bjó yfir einhverri magnaðri visku og reynslu, sem ég hef ekki fundið fyrir annars staðar.  Mér fannst eins og hún gæti lesið mig eins og opna bók.  Andi hennar og ára einhvern veginn fylltu allt rými íbúðar hennar þegar komið var í heimsókn til hennar.  Mér fannst það magnað og finnst enn ...

Ég á því miður enga mynd í fórum mínum af ömmu Laugu og fæ því þessa mynd lánaða hjá Halla frænda í Grindavík.  Myndin er sennilega frá byrjun 9. áratug síðustu aldar.

Afmælisbarn dagsins situr lengst til hægri, við hlið hennar kemur Lauga Líndal, svo Halli frændi í Grindavík og amma og afi í Lindarbrekku.

Við þremenningar í Uppsala óskum ömmu Laugu til hamingju með 100 ára afmælið

Lauga, Hallur, Ömmur & Afi


Miðvikudagur 9. desember 2009 - 85 ára afmæli

Jæja ...

... þá hefði blessaður karl faðir minn orðið 85 ára í dag ef hann hefði lifað ... fæddur 9. desember 1924.

Pabbi var fyrir marga hluta sakir mjög merkilegur maður.  Hann var sjaldgæflega fróður, nánast eins og gangandi uppflettirit.  Hann virtist vita bókstaflega allt um allt.  Hann var framúrstefnulegur í hugsun og afköst hans voru langt ofan við meðallag.

Hann var geysilega góður sögumaður, gat sagt sögur og brandara, þar sem persónur og gerendur voru nafngreindir og ætt þeirra rakin ef á þurfti að halda, klukkutímum saman.  Geysilega ritfær og hnyttinn í tilsvörum.

Ég hef oft heyrt fólk segja að pabbi hafi verið gáfaðasti og skemmtilegasti maður sem það hafi nokkru sinni kynnst.

Ekki efast ég um að það sé allt saman satt og rétt ...

--- 

... en þegar ég hugsa um hann eru þessir jákvæðu eiginleikar hans ekki það sem kemur upp í huga minn, því sú hlið sem ég upplifði í samskiptum við föður minn var bakhlið þess sem lýst er hér að ofan.

Einrænn og dulur, oft reiður og pirraður ... oftast drukkinn.

Fáir hafa mótað líf mitt með jafnafgerandi hætti og pabbi, þau rúmu 18 ár sem við deildum sama tilverustigi. 
Eftir 16 ára samvist var ég gjörsamlega beygður, sjálfsálit og trú á eigin getu við frostmark.  Þorði ekki að tala, þorði varla að vera til.

Haustið 1990 stóð valið á milli þess að gefast hreinlega upp eða rísa upp.

--- 

Ég kaus hið síðarnefnda, pakkaði saman föggum mínum og fór norður í Menntaskólann á Akureyri.  Það var fyrsta skrefið í uppbyggingunni. 

Sumarið 1992 lést pabbi ... fráfall hans var eins og þruma úr heiðskíru lofti ... en um leið var það léttir.

---

Síðan 1990 hef ég unnið sleitulaust að því að byggja mig upp.  Sálfræðitímar, námskeið, ferðalög, lestur, samvera með vinum og vandamönnum svona til að nefna eitthvað.  Allt hefur þetta hjálpað til að raða hlutunum saman í heildstæða mynd.

Núna 19 árum síðar, er árangur loksins farinn að sjást.  Núna þori ég að vera til, ég þori að tala, ég þori að vera ég sjálfur ... í fyrsta skipti á ævinni.

---

Þegar ég horfi til baka, þá þakka ég almættinu og pabba fyrir áskorunina ... því ég veit að hún hefur gert mig að betri og þroskaðri manni.

Að fenginni þeirri niðurstöðu má pabbi sjálfsagt vel una, þar sem hann situr á einhverjum skýjabólstranum og fylgist með.  Allir foreldrar vilja stuðla að þroska barna sinna og að þau verði betri manneskjur ... og ég veit að pabbi var engin undantekning þar á ...

... það má þó setja spurningarmerki við aðferðafræði hans ... ;)

---

Ég óska elskulegum föður mínum til hamingju með afmælið!

 

 


Þriðjudagur 8. desember 2009

Ég er alveg hissa á því hversu vinsælt bloggið mitt er ...

Minni lesendur á afmælið mitt sem er eftir nokkra daga, þ.e. 14. desember ... gott að hafa smá tíma til að skrifa eitthvað fallegt um mig og senda mér það.


Þarna sýni ég listir mínar í Prag ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband