Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Sunnudagssúra 1. nóvember 2009

Þetta er búið að vera feikilega fínn dagur ...

Í dag var lokaviðureignin í landsleikjahrinu Íslands og Svíþjóðar, sem hefur farið fram síðastliðna 5 eða 6 sunnudaga á Ekeby leikvanginum hér í Uppsala.

Viðureignirnar hafa verið mjög jafnar og skemmtilegar ... og var engin breyting á því í dag.  Ísland vann 13 - 9 ... hvað annað ... ??

Fyrir lokaleikinn keypti ég mér takkaskó, til að geta beitt mér almennilega ... hef hingað til verið á flatbotna innanhússkóm, þar sem ég skildi takkaskóna mína eftir í Sydney í fyrra.  Hef ekki tímt að kaupa mér nýja skó í allt sumar og allt haust ... en lét sumsé verða að því í dag?!?  Keypti síðasta parið af stærðinni 42,5 í allri Uppsala Kommun, held ég.

Greinilegt var að skórnir gerðu sitt, því ég lét mig ekki muna um að taka eins og eina hjólahestaspyrnu í leiknum ... sem rétt missti þó marks.  Hjólhest hef ég ekki tekið í 10-12 ár, hugsa ég, en það gekk samt ótrúlega vel og ég slapp heill út úr því ... 


Hérna er hjólhestaspyrna sem er eitthvað í líkingu við það sem ég framkvæmdi á Ekeby-leikvanginum í dag.

Meiningin var að taka mynd af landsliðinu en því miður gleymdi ég að setja minniskubbinn í myndavélina áður en ég lagði af stað ... þannig að það verður engin mynd ...

Næstkomandi sunnudagskvöld mun landsliðið svo hefja innanhúsæfingar í Gränby-höllinni ... enda meiningin að liðið komist í gott form fyrir mót sem haldið verður í september á næsta ári einhvers staðar í Svíþjóð.

---

Lauga fór að hitta vinkonu sína í morgun ... eitthvað heppnast það nú ekki alveg nógu vel, því skömmu eftir að þær hittust, fór dóttir vinkonunnar að haga sér illa vegna þreytu, þannig að þær mæðgur hurfu á braut fljótlega.

Það verður þó að fylgja sögunni að vinkonan var búin að vera í húsdýragarðinum í Gränby síðan kl. 9 um morguninn og Lauga hitti hana kl. 11.30.
Það þarf því að undirbúa næsta hitting eitthvað betur ...

--

Við spjölluðum svo við Helgu og Dóra í dágóða stund núna seinni partinn ... hressandi spjall eins og ævinlega ...

---

Af heimasætunni er það að frétta að hún fann krónupening í dag ... þann fyrsta á ævinni.  Tel ég víst að sá peningur muni fara í hlutverk "happapenings", sbr. happapening Jóakims aðalandar, en sá peningur var sá fyrsti sem Jóakimi auðnaðist ...

Hér er mynd af dótturinni með happapeninginn ... móðirin talaði jafnvel um að opna sparireikning hér í Svíþjóð fyrir dótturina ... ég veit ekki alveg hvort hún var að djóka eða ekki?!?  En sjálfsagt er það gáfulegra en að hafa happapeninginn undir glerhjálmi eins og Jóakim kýs að hafa það, eilíflega skíthræddur um að hin alræmda Hexia de Trix ræni peningnum, með hörmulegum afleiðingum fyrir eigandann, eins og flestum læsum mönnum og konum á Íslandi er sjálfsagt kunnugt.

Skömmu eftir myndatökuna tölti hún með happapeninginn fram í eldhús og henti honum í ruslið ... ?!??  Það eru ekki miklar fjárhagsáhyggjur á þeim bænum ... að minnsta kosti gjörólíkt "fílósófíu" Jóakims ...


 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband