Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Fimmtudagssleggja 12. nóvember 2009

Jæja, það hefur verið brjálað að gera hjá mér ... og ég rétt næ að skjóta inn bloggi fyrir miðnættið.

Búinn að vinna baki brotnu í verkefninu mínu og að æfa fyrirlestrana mína.  Það tekur töluverðan tíma að æfa fyrirlestra sem eru 80 mínútna langir ... ;)
Var t.d. rétt í þessu að ljúka einu rennsli ...

---

Af Sydney dóttur minni er allt gott að frétta.  Hún hefur þessa vikuna blómstrað á barnaheimilinu og kemur heim skælbrosandi á hverjum degi.

Í dag kom hún heim með þá einkunn frá einni fóstrunni að hún væri alveg einstaklega fljót að læra ... ekki amalegur vitnisburður það ...

Í gær borðaði hún hádegismat í fyrsta skiptið og svolítið af ávöxtum í kaffitímanum.  Það ber ekki að skilja sem svo að henni hafi ekki verið boðin fæða fyrr á leikskólanum ... hingað til hefur hún bara afþakkað allan mat, bæði heitan og kaldan, sem borinn hefur verið á borð á þessi ágætu stofnun.

Matarmálin eru samt enn í bölvuðum ólestri, svona almennt séð.  Sú stutta borðar bara varla nokkurn skapaðan hlut og við Lauga skiljum þetta bara ekki.
Samt er Guddan alveg eiturhress og virðist líða alveg prýðilega ... hún virðist því vera að á góðri leið með að sanna að það er víst hægt að lifa á bara loftinu ...

... önnur pæling er sú að hún fari fram á nóttunni og fái sér eitthvað í gogginn ...

Þetta er alltént hin mesta ráðgáta, því nógu skilar barnið af sér út um hinn endann ... án þess að ég fari nánar út í það ...

---

Móðir dótturinnar er í góðum gír líka ... það styttist óðum í Íslandsferð þeirra mæðgna ... mikil tilhlökkun á öllum vígstöðvum vegna þess máls.

Slútta færslunni á hefðbundinn hátt með myndum af dótturinni ... hinni einu sönnu Guðrúnu Helgu!!


Í kvöld ákváðum við að skreppa aðeins út ... og þá tók Guðrún upp á því að fela sig ... ekki dónalegur felustaður þetta!!!


Eftir annasaman dag á leikskólanum ...


Þriðjudagur 10. nóvember 2009

Sá merki atburður gerðist í dag að ég fór í klippingu ... alltaf dálítið merkilegir dagar í mínum huga, af því ég fer svo sjaldan ...

Reyndar er verðið á klippingu hér í Svíþjóð ekki beinlínis hvetjandi, allra síst þegar maður kemur nánast beint frá Ástralíu.  Herraklipping = 6.000 kr.!!  Sama stöffið kostar innan við 1.500 kall í Surry Hills Centre í Sydney.  Þar voru Íranir með stofu og klipptu mann á 10 mínútum ... mér fannst það fjári fínt og mun betra en þetta endalausa dútl. 

Annars hefur dagurinn liðið við gagnagreiningu og er margt skemmtilegt að koma í ljós.

---

Í færslunni í dag ætla ég að kynna glænýjan "fítus" í myndbandagerðinni hjá mér ... sjón er sögu ríkari ...

Slútta þessu með mynd af aðgerð sem framkvæmd var í dag, við mikinn fögnuð sumra en annarra ekki ...

 


Mánudagsmetall V - 9. nóvember 2009

Ég komst að frábærri niðurstöðu í kvöld þegar ég horfði á Kastljósið ...

... þar var Helgi Seljan að sauma að Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ um þetta dæmalausa kreditkortamál fjármálastjóra KSÍ.  Óhætt að segja að þetta sé eitthvert vandræðalegasta mál sem komið hefur upp í sögu KSÍ, þó 3 - 0 ósigur Íslands gegn Lichtenstein hérna um árið, sé talinn með.

En yfir þessari umræðu fattaði ég loksins hvern Helgi Seljan minnir mig á ... hér er Helgi ...

Og hver er hérna??

Sjálfur Derrick ... sem allir Íslendingar eldri en 5 ára ættu að þekkja ...
Helgi og Derrick eru sláandi líkir ... þvílík uppgötvun og þvílíkur léttir, því Helga-mál hefur böggað mig töluvert lengi.

Helgi mun því sennilega líta einhvern veginn svona út í framtíðinni ...

Ekki leiðum að líkjast!!!

---

Hef í dag unnið að ýmsum verkefnum ... fyrir hádegi gekk ég frá lestrarefninu fyrir fyrirlestrana mína og sendi það frá mér.  Gott að losa við það.

Svo svaraði ég nokkrum emailum og tók svo til við að kíkja á gagnasafnið mitt.  Fór og hitti Terry Hartig leiðbeinanda minn kl. 16.30 og var það góður fundur.

Kvöldið leið svo við frekari gagnagreiningu ... já og frétta- og Kastljósáhorf ...

---

Af öðru heimilisfólki er allt gott að frétta ... mæðgurnar báðar búnar að vera stuði í dag ...

 


Sunnudagurinn 8. nóvember 2009

Í dag er feðradagurinn og kom Guddan mín færandi hendi ...


Gjöfin afhent og svo var kokteiltómatur borinn saman við chillið á plötunni ...

 
Að sjálfsögðu varð að þakka fyrir þessa frábæru gjöf frá bestu dóttur í heimi ...

... en ferðin út í búð var ekki bara farin til að kaupa gjöf handa föðurnum.  Hún hafði annan tilgang einnig ...

... skókaup! Meira að segja tvenn pör! Götuskór og kuldaskór ...

 

Í skóbúðinni gerði Sydney Houdini það gott ...
... þar var tveggja ára stelpa að tala við pabba sinn sem sat á hækjum sér, væntanlega til að vera í góðu augnsambandi við dótturina.  Þá kom hin eina sanna Sydney og tróð sér á milli þeirra og settist í fangið á pabbanum ...
... sá gat nú ekki annað en hlegið: "Það er víst komið nýtt barn í fjölskylduna!"

Lauga kom aðvífandi, hálfvandræðaleg ... "ó, afsakið ... hún er bara svo félagslynd ... hmmmm ..." og tók Gudduna úr fangi mannsins ...
Sjálf var sú stutta hæstánægð með uppátækið og sagði "hej do", þegar mæðgurnar gengu í burtu.

---

Fyrsti innanhússfótboltatíminn var í kvöld ... fínn bolti þar ...

Hef annars varið deginum í að fara yfir fyrirlestrana mína, snyrta á og snurfusa ... þeir eru að verða bara góðir ...

---

Lauga hefur í dag, verið að vinna að kynningu sem hún ætlar að halda á augndeild LSH þegar hún fer til Íslands.


Guðrún Helga 17 mánaða í dag!

Já, Guddan orðin 17 mánaða ...

Hún reis árla úr rekkju í morgun ... líkt og aðra laugardaga. 

Lék sér við móður sína frameftir morgni.

Svo fengum við okkur öll að borða morgunmat upp úr kl. 10.30.  Fínn morgunmatur ... reyndar nr. 2 hjá hinni árrisulu dóttur.

Eftir morgunmatinn, þá ákváðum við ... já, nei ... ætli sé ekki best að videoið segi þá sögu ;)

Eftir þetta lagði afmælisbarnið sig svo í 2 klukkutíma.  Því næst var kaka á boðstólnum ...


Girnilegur epla-muffins!

Að kökuátinu loknu var dóttirin eins og "umskiptingur", en það er vísun í söguna um "18 barna faðir í álfheimum".  Þá sögu sagði blessunin hún amma mín mér oft þegar ég var lítill drengur ... sérstaklega ef ég lét er eins og óður maður.  Þá hafði amma einmitt orð á því að ég væri eins og "umskiptingur" ... ofuráhugasamir lesendur geta lesið söguna um "18 barna föðurinn" hér.


Þetta var stemmningin ... ;)

Heldur róuðust leikar þó þegar sú stutta fékk að horfa á 20 þætti með Dodda hinum eina sanna ... það var víst í tilefni afmælisins, að sögn forráðamanna.

Eftir glápið harðheitaði hún að borða matinn sinn, allt þar til omeletta var framreidd.  Hugnast frökeninni sú fæða og sporðrenndi léttilega ...
Því verður þó að halda til haga að sú stutta drakk þessi lifandis ósköp af mjólk við matarborðið ... við höfum tekið eftir því að hún verður oft mjög þyrst eftir að hafa horft á Dodda.  Ástæður þessa eru enn ókunnar ...

Afmæliskvöldið leið svo í kjöltu móðurinnar, uns Óli Lokbrá lét sjá sig ... fóru mæðgurnar báðar á fund hans, meðan ég útbjó þetta stórkostlega myndband sem fylgir færslunni ;) .

 


Föstudagsflétta 6. nóvember 2009

Jæja, þá er Poseidon lokið ... Poseidon er stórmynd með Kurt Russell í aðalhlutverki ...

... ég komst ekki hjá því að sjá hana með öðru auganu, og þvílík vitleysa ... :)

---

Dagurinn hefur verið tileinkaður skrifum á útdrætti, sem ég ætla að senda á IAPS ráðstefnuna 2010, sem haldin verður næsta sumar.

Þar ætla ég að fjalla um rannsóknina sem ég var að keyra um daginn ...

---

Svo fékk ég tvær alveg brilliant hugmyndir í dag ... ætla samt ekki að segja hér og nú um hvað þær hugmyndir fjalla.  Tala minna og gera meira ;) .

---

Guddan hefur verið dálítið öfugsnúin í dag, sem og móðir hennar.  GHPL hefur verið að frekjukastast og mamman hundskammar hana ...

Sennilega má rekja þetta til þeirra miklu breytinga sem hafa átt sér stað hjá Sydney Houdini síðustu misserin ... þ.e. að byrja í skóla ...
Það er nú sjálfsagt ekki auðvelt, þegar maður er ekki nema tæplega 17 mánaða.

Hlutverkin hafa því snúist við hérna á heimilinu, þar sem ég er að biðja Laugu um að vera ekki hastarleg við snudduna ... einhvern tímann hefði það nú þótt saga til næsta bæjar ;) .

---

Annars hefur þetta verið tíðindalaus dagur að mestu leyti ... svona frekar rólegt yfir honum ...

Ekki það að stundum getur það nú bara verið ágætt ...

Lýk þessu með mynd af Laugunni að taka sporið á Tjörninni í febrúar 2007 ...


Fimmtudagssleggja 5. nóvember 2009

Í gær voru menn með kraftmikla blásara að hreinsa fallin lauf kringum húsin ...

... hófu leikinn fyrir kl. 7.30.

Í morgun byrjaði svo að snjóa ...

Allt í réttri röð hér í Svíþjóð ...

---

Dóttirin fór út í apótek í dag, þar sem keyptir voru D-vítamíndropar handa henni.  Til að afgreiða dropana þurfti afgreiðslukonan í apótekinu að renna einhverju persónuskilríki í gegnum skanna ... ekki ósvipaði því þegar maður rennir debet- eða kreditkorti í gegn.

Eitthvað gekk það nú brösuglega hjá konunni, og eftir að það hafði mistekist í fimmta skiptið, þá setti Guddan sig í stellingar og sagði: "Issssss ... "

Vakti það hina mestu kátínu meðal viðstaddra ... 

 

---

Dagurinn hefur að mestu leyti farið í greiningu á gögnunum mínum ... gengur það verk bara ágætilega.

Reyndar vann ég í morgun lítilræði í tengslum við Aðalskipulag Djúpavogshrepps.

---

Það fór ekki vel fyrir fyrirlestrinum hjá Laugu ... spítalinn reyndist ekki hafa nýjustu útgáfuna af PowerPoint, þannig að herlegheitunum var frestað fram í næstu viku.

Smá spæling ... en Lauga telur að það muni eitthvað gott koma út úr því ... "t.d. verða fleiri á fundinum í næstu viku".

Þetta er viðhorf til eftirbreytni ...

---

Set eina af okkur feðginum ...

... þessa dagana leggur Guðrún áherslu á að koma með dótið sitt fram í eldhús, þegar við Lauga sitjum þar og spjöllum saman eftir matinn. 

Og er hún óspart hvött áfram með þennan mikla burð, enda gefst þá smá tími að ræða málin ...

Myndin hér að neðan er tekin í kvöld þegar GHPL kom fram með dúkku ... myndgæðin eru ekki stórkostleg, en þau þurfa heldur ekkert að vera það alltaf ;) .


Miðvikudagur 4. nóvember 2009

Þetta er búið að vera vægast sagt annasamur dagur, sem byrjaði kl. 7.30 í morgun.

Eftir að hefðbundnum störfum lauk, þ.e. að koma mat ofan í dótturina og koma henni svo á leikskólann, hófst vinnan ...

Að þessu sinni byrjaði ég á að vinna beinagrind að rannsókn sem meiningin er að samtökin Umhverfi og vellíðan vinni að á Krabbameinsdeild Landsspítalans.  Ég hef sagt það innan veggja samtakanna að þetta sé líklegast eitt göfugasta verkefni sem ég hef komið að, en markmið þess er að bæta líðan fólks sem glímir við krabbamein og þarf að dvelja löngum stundum innan veggja LSH.

Verkefnið snýst sum sé að því að bæta hið efnislega umhverfi á göngum og biðstofum.

Þetta verkefni hefur verið í burðarliðnum í nokkurn tíma og fer sennilega að lifa sjálfstæðu lífi fljótlega.

---

Svo hjálpaði ég Öbbu mágkonu minni með lítilræðis bréf og þegar því var lokið var komið að því að fara að sinna hinu dásamlega doktorsverkefni sem hefur verið í kæli um drjúgan tíma. 

Þar blasir við að greina gögnin sem ég safnaði í september og sjá hvaða spennandi hluti er þar að finna.

Í tengslum við þessa vinnu þarf náttúrulega að rifja upp tölfræðina góðu og fleira í þeim dúr og hef ég allan seinni part dagsins verið að fást við það.

---

Meiningin var svo að fara á kóræfingu í kvöld, en það fórst einhvern veginn fyrir.  Tek það næsta miðvikudag.

---

Guddan var dálítið skökk í dag.  Greinilega þreytt eftir síðustu daga.  Þannig tók hún sig til kl. 5 síðdegis og lagði sig.  Vaknaði ekki aftur fyrr en kl. 8 í kvöld, fékk sér að borða, lék sér aðeins og lagðist svo aftur til hvílu kl. 10.

---

Lauga hefur verið að útbúa fyrirlestur í dag.  Til stendur að kynna niðurstöður gagnasöfnunar sem hún stóð fyrir í vinnunni, en málið er að alltof margt fólk hringir inn á deildina í svokallaðan "akút"-síma eða síma sem er ætlaður fyrir bráðatilfelli.  Á því vildi mín kona taka ...

Niðurstöðurnar sýna að meira en 50% þessara símtala væri hægt að losa við með strúktúrbreytingum, og hefur Lauga verið að vinna að hvernig má leysa þetta mál ... sem er mikið vandamál á deildinni eins og er.

Niðurstöðurnar verða sum sé kynntar í fyrramálið á starfsmannafundi ... þetta kallar maður að stimpla sig inn á nýjan vinnustað!!! :)

Set hér inn eina mynd af afmælisbarni dagsins, Valtý Stefánssyni stórfrænda mínum á Akureyri ... kauði er 18 ára í dag.  Að sjálfsögðu á ég enga mynd í tölvunni minni af afmælisbarninu nema fröken Sydney fylgi með kaupunum ... myndin er nærri ársgömul, tekin á þeim góða degi 30. desember 2008.

 

Slútta þessu með mynd sem tekin var af þeim mæðgum í kvöld ...


Þriðjudagurinn 3. nóvember 2009

Aftur góður dagur ... fyrirlestrarnir tilbúnir ... nú þarf bara að æfa sig og snurfunsa svolítið ...

Hlakka mikið til að flytja boðskapinn á Hvanneyri eftir um hálfan mánuð ... 

Annars er klukkan orðin of margt til að ræða málin af einhverju viti.

En það er óhætt að segja að margir áhugaverðir hlutir bíði manns núna ... veitir ekki af því að spýta í lófana og halda áfram, því betur má ef duga skal!

---

Annars verð ég að láta þess getið að í dag fékk ég tölvupóst, sem varð til þess að ég vöknaði í augum.
Tölvupósturinn var frá fyrrverandi lærisveini mínum hjá fótboltafélaginu Gladesville Ryde Magic.  Þannig var mál með vexti að þegar ég hætti sem þjálfari hjá félaginu, þá sendu margir strákarnir mér tölvupóst og þökkuðu mér fyrir samstarfið.  Mörg bréfin voru sérlega falleg og einlæg, þar sem þeir sögðu að ég hefði hjálpað sér rosalega mikið o.s.frv.

Það voru samt tveir strákar sem sendu mér sérlega hjartnæm bréf, svona vasaklútabréf ... og ég svaraði þeim báðum með löngum og ítarlegum ráðleggingum hvað þeir skyldu leggja áherslu á til að verða góðir fótboltamenn.  Í lokin sagði ég við þá að ég hefði 100% trú á þeim.

Og viti menn ... í dag sendi annar þeirra mér bréf og sagði mér frá framförum sínum, sem voru vægast sagt stórkostlegar.  Endaði hann bréfið á eftirfarandi nótum:

"Mig langaði bara til að segja þér þetta af því að þú hafðir trú á mér.  Ég prentaði út tölvupóstinn sem þú sendir mér í fyrra og ég tek hann með mér hvert sem ég fer og nota hann sem hvatningu þegar ég þarf á því að halda.  Ég mun aldrei gleyma því sem þú hefur gert fyrir mig."

Ég hef aldrei upplifað þessa tilfinningu fyrr sem ég upplifði þarna ... en hún var mergjuð ... 

16 ára strákur með stóra drauma og eitt lítið email frá mér "meikar difference" ... ég er sannfærður, eins og ég hef raunar alltaf verið, að þessi drengur á eftir ná langt.

"Hugsaðu ekki hvað land og þjóð getur gert fyrir þig - hugsaðu hvað þú getur gert fyrir land og þjóð!" - þessi frasi fékk nýja merkingu hjá mér í dag í kjölfar þessa tölvupósts ... 

---

Guddan gerði það gott í morgun á leikskólanum.  Þegar hún átti að kveðja mig, þá gekk hún til mín og vildi láta taka sig upp.  Þegar því var lokið veifaði hún samviskusamlega til leikskólakennarans ... 

... greinilega ofurlítill grundvallarmisskilningur þarna á ferðinni ;) .

Svo tók hún upp á því að pissa bæði á eldhúsgólfið og í stofuteppið ... með mjög stuttu millibili.  Það atvikaðist þannig að hún fékk þriggja mínútna bleyjuhlé.  Ekki lengi að "markera" sér svæði.

Alveg dásamleg!!


Mánudagsmetall IV

Ég er búinn að vera mjög duglegur í dag ... er langt kominn með síðari fyrirlesturinn minn, og hann mun klárast á morgun ...

Svo skilaði ég inn Annual Progress Report til háskólans í Sydney í morgun ... þá er það mál frá í bili að minnsta kosti.

Þau tímamót urðu einnig í dag að ég lauk loksins markþjálfunarnámskeiðinu sem byrjaði í október á síðasta ári.  Það var góður áfangi ... og ljóst er að ég lærði heilmikið á námskeiðinu ...

Annars veit ég svo sem ekki hvað ég á að segja meira núna ... best að koma sér bara í bælið ...

Set hérna inn eina mynd af plöstun á Grjóteyri í apríl 2007, skömmu áður en flogið var til Ástralíu ...
Þarna stendur Stjóri glaðbeittur uppi á palli Eiríks Haukssonar og Helga er í ljósbláa gallanum.  Verkstjórinn sjálfur er svo á bakvið Stjórann ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband