Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
9.8.2008 | 11:03
Viðurkenning fyrir vel unnin störf
Ég skrapp á leik hjá stráknum í morgun, ... ég er auðvitað að tala um U14 hjá Gladesville Ryde Magic FC ... þeir voru að leika gegn Fraser Park.
Eftir vægast sagt dapurt gengi síðustu misserin var liðið komið í þá stöðu að þeir urðu að vinna leikinn til að halda lifandi þeim markmiðum sem sett voru í upphafi tímabils, það er að komast í úrslitakeppnina.
Til að gera langa sögu stutta, var aldrei "hætta" á að liðið ynni leikinn. Sóknarleikur liðsins var í molum eins og hann hefur verið allt tímabilið ... þjálfarinn hefur bara ekki haft áhuga á því að æfa sóknarleik neitt sérstaklega. Raunar ekki fyrr en á síðustu æfingu, þá allt í einu sá hann að nauðsynlegt væri að spá eitthvað pínulítið í þann þátt.
Kannski dálítið seint í rassinn gripið, þegar einungis 4 leikir eru eftir af mótinu ...
En úr því að ég er að tala um þjálfarann, sem er eins og glöggir lesendur hafa eflaust lesið um í færslu gærdagsins er líka fyrrum leiðbeinandi minn í háskólanum, þá er gaman að segja frá því að í gær þegar ég lét hann hafa "uppsagnarbréfið", þá tók hann því svo sem ekkert illa.
Það var ekki fyrr en ég var um það bil að yfirgefa skrifstofu hans að hann segir við mig: "Ég ætla að vona að þú komir ekki á leikinn á morgun ... það er lítilsvirðing við mig og við liðið að þú, fyrrum aðstoðarþjálfari, sért að koma á leiki, auk þess sem nærvera þín elur á sundrungu innan liðsins. Það er andstætt öllum hefðum hér í Ástralíu að þú hagir þér með þessum hætti."
Ég kváði ... enda ekki annað hægt að mínu mati og benti honum góðfúslega á það að foreldrar drengjanna hefðu sérstaklega beðið mig um að koma á leikina, því nærvera mín hefði góð áhrif á liðið. Ennfremur afþakkaði ég uppeldislegar ráðleggingar með öllu, og sagði að mér fyndist athugasemdir hans barnalegar og fáránlegar.
Eftir nokkur orðaskipti, rak hann mig út af skrifstofunni ...
... en viti menn eftir leikinn í dag, hópuðust foreldrarnir og strákarnir kringum mig. Tilgangur var að afhenda mér þakklætisvott fyrir mín störf sem aðstoðarþjálfari.
Um var að ræða stórt "Thank you" kort og $200 (u.þ.b. 15.000 ÍSK) í reiðufé ... ég neita því ekki að ég varð rosalega snortinn og algjörlega orðlaus. Satt best að segja veit ég ekki hvort ég verðskulda viðurkenningu sem þessa ...
... en það er ekki mitt að dæma það. Þetta er það sem fólkinu finnst og það er frábært!!!
Ég neita því ekki að mér fannst gaman að því að þegar þessi litla athöfn fór fram á bílastæðinu við Fraser Park, stóð þjálfi álengdar og horfði á ... sjálfsagt hugsað mér þegjandi þörfina ...
Allt þetta mál varðandi þennan blessaða mann, mál sem hefur tekið ótrúlega mikið af tíma mínum og þolinmæði er nú loks til lykta leitt. Ég er laus við hann ... og það er gott!
Eftir á að hyggja hefði ég samt ekki viljað missa af þessu ... því að taka á svona máli er geysilega þroskandi. Það er fyrirhafnarinnar virði.
Ég hef haft það að leiðarljósi í þessu öllu saman að vera alltaf heiðarlegur, bæði við sjálfan mig og aðra. Og ég held að það hafi gert gæfumuninn.
"Andstæðingur" minn ákvað að leika öðruvísi "taktík", sem er nú er að koma í bakið á honum af fullum þunga ... sú taktík gekk út frá því að ætla að svínbeygja alla í kringum sig, stjórna öllu og ljúga þegar á þurfti að halda.
Fólk sér í gegnum slíkt ...
... og smám saman er að fjara undan honum. Sem kannski má segja að sé leiðinlegt, því hann hefur áhuga á því sem hann er að fást við ... en ótti og minnimáttarkennd sem hafa birtingarmynd hroka, stjórnsemi og þrjósku, eru augljóslega að verða honum að falli ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2008 | 14:40
8. ágúst 2008
Þetta er búið að vera mjög merkilegur dagur í dag ... enda er dagsetningin ekki af verri endanum 080808 ...
Abba amma á afmæli í dag ... 82 ára segir barnabarn afmælisbarnsins ... "átta árum yngri en hann afi". Útreikningar ættu svo sem að vera einfaldir, því afi varð níræður fyrir nokkrum dögum.
Í dag skipti ég um leiðbeinanda hér í Sydney ... ég einfaldlega sagði leiðbeinandanum upp og "rak 'ann", enda annað ekki hægt ... maðurinn hefur bara ekki verið að standa sig í stykkinu.
Samið hefur verið við nýjan leiðbeinanda ...
... það mætti halda að ég væri í heilögu stríði við allt og alla hér í Sydney ... en svo er nú ekki ...
Fyrir þá sem það ekki vita er fótboltaþjálfarinn, sem ég gafst upp á að vinna með um daginn og hinn "rekni" aðalleiðbeinandinn minn í háskólanum, sami maðurinn!
... þetta er búið að vera mjög löng og ströng barátta hjá mér við þennan blessaða mann, sem segja mætti fullum fetum að gangi ekki heill til skógar.
Ég ætla svo sem ekki að vera að nota þennan miðil, það er að segja bloggið mitt, til að útmála þennan mann ennfrekar, þar sem hann hefur enga möguleika á að verja sig og sínar skoðanir.
Mér er þó ekki meira umhugað um að hann geti varið sig gegn skrifum mínum, en svo að einhvers staðar á blogginu mínu má finna færsluna "Að "díla" við mesta fávita í heimi" eða eitthvað svoleiðis. Allt sem þar stendur, stend ég við og miklu meira ...
Nú læt ég mér nægja að segja að ég er afskaplega feginn að vera laus undan oki þessa manns, sem hefur einhverjar þær skrýtnustu meiningar og aðferðir í mannlegum samskiptum sem ég veit um.
En fuglinn er laus úr búri sínu og nú blasir framtíðin vonandi við björt og frískandi ...
Með nýjum leiðbeinanda koma að sjálfsögðu nýjar áherslur og hefur sá nýi lagt til að ég vinni hörðum höndum að því að efla samskipti mín við kollega, að ég setji mig í samband við fólk og vinni að "networking".
Þá eru stórir hlutir að gerast með sýndarveruleikann minn, því ég er þessa dagana um það bil að ákveða að stíga eitt skref í viðbót í þeim efnum, og taka í þjónustu mína velþekkt og viðurkennd þrívíddarforrit og teikniforrit, sem ég hef verið feiminn við að nota fram til þessa.
Sú ákvörðun ætti að gefa af sér enn betra doktorsverkefni hér í Sydney ...
---
Af fjölskyldumeðlimum er það að frétta að afmælisbarn gærdagsins var heldur eftir sig eftir uppákomuna í gær, það er að fá sprautu í bæði lærin án þess að vera spurð hið minnsta út í það. Hún hefur, samkvæmt öruggum heimildum, sofið lungann úr deginum og sagði móðirin að hún hefði varla þekkt ungann fyrripartinn, svo ólíkur var hann sjálfum sér.
Móðirin sjálf er í fantaformi, er að komast á þvílíkt skrið að nú mega menn og konur fara að vara sig. Mig dreymdi hana í morgunsárið, þar sem hún var uppábúin að fara í afmæli ... mikið lifandis skelfing var manneskjan falleg í draumnum! Og svo vaknaði ég ... og sama fegurð blasti þá við mér :) !!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.8.2008 | 13:08
2ja mánaða afmæli
Jæja, þá hefur Guðrún Helga náð að fylla 2 mánuði og gott betur því þegar þetta er skrifað eru 2 mánuðir og 5 klukkustundir síðan hún rak fjólublátt höfuðið út í þennan heim.
Afmælisdagurinn hefði þó getað orðið ánægjulegri hjá blessaðri snótinni, því í dag þurfti hún að fara í sprautur ... bólusetja þurfti fyrir meðal annars mænusótt, heilahimnubólgu, stífkrampa, kíghósta, lifrarbólgu B og lungnabólgu ... !
Eftir að hafa mætti í Home-bygginguna með bros á vör upp úr klukkan 14, þá breyttist stemmningin á broti úr sekúndu, þegar stungið var af öryggi í sitthvort lærið. Að sögn sjónarvotta umturnaðist afmælisbarnið og mótmælti hástöfum þessari meðferð. Síðan þá hefur það ekki verið til viðtals.
Engu að síður var reynt að bæta skaðann með því að halda upp á afmælið og komu góðir gestir í heimsókn.
Myndirnar segja meira en mörg orð.
Lítil gleði var í upphafi veislunnar, eins og sjá má
En svo tók afmælisbarnið til máls ...
Það fór nú svo á endanum að afmælisbarnið sofnaði ... gafst alveg upp á afmælinu
Gestirnir ákváðu því að halda heim á leið og hér er Mixi að kveðja ...
En viti menn ... meðan Mixi var að kveðja Guðrúnu, þá rankaði hún við sér ...
Afmælisbarnið sofnað aftur og gestirnir horfa af andakt ...
Og svo er ein í lokin af því þegar Sydney ákvað að lesa sjálf ... en eftir að hafa hlustað á upplestur úr Roklandi eftir Hallgrím Helgason fékk hún lestrardellu.
Þá er gott að geta gripið í bókina "Dýrin á bænum", sem skagfirskar vinkonur sendu alla leið til Ástralíu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.8.2008 | 15:43
Jæja, ...
Fróðlegur dagur í dag ...
Ég er að ná dálítið góðum tökum á gerð sýndarveruleika fyrir verkefnið mitt ... veruleikinn er alltaf að verða raunverulegri og raunverulegri, betri og betri
Nýjasta afurðin er hérna ...
Ég tek það samt fram að þetta myndefni var allt saman bara gert í miklum fljótheitum og gæti því verið betra, því betur má ef duga skal ... en samt ég er mjög ánægður með þetta. Þetta lofar góðu.
Það má geta þess að upprunalega eru gluggarnir af velkunnu húsi í miðbæ Reykjavíkur, en með tækninni er hægt að plokka út einn glugga og fjölfalda hann eins og sést á myndinni þannig að út komi heilt íbúðarhverfi ...
Sá sem getur fundið út hvert rætur gluggans liggja, fær verðlaun Múrenunnar - í Sydney, sem er flug og bíll í 2 vikur í Evrópu. Sum sé til mikils að vinna.
Svo er mjög gaman að segja frá því að ég er þessa dagana að taka tvo menn í sátt ... ég meina, í fyrsta skipti á ævinni er ég að "fíla"þá og það sem þeir eru að gera eða hafa gert.
Þessi tveir menn eru Hallgrímur Helgason og Sverrir Stormsker ...
... ég er þessa dagana að lesa Rokland eftir Hallgrím ... og hún er alveg helvíti góð. Ég var búinn að heita því að lesa ekki fleira eftir hann eftir að ég las eða reyndi að lesa Höfund Íslands fyrir nokkrum árum. Ég dó nærri því úr leiðindum og gafst upp á bókinni. Síðan þá hefur sú bók verið notuð undir borðfót til að "jafnvægisstilla". Hentar vel í það!
Sömuleiðis hefur mér aldrei líkað "attitjúdið" í Hallgrími, mér hefur alltaf fundist hann helst til góður með sig og fullkominn beturviti ...
En viti menn ... Fjóla lánaði Laugu Rokland og ég greip bókina glóðvolga og er eins og áður greinir á bólakafi að lesa hana ...
... og í gær datt mér í hug að lesa brot úr bókinni fyrir einkadótturina, en þá vildi nú ekki betur til að kaflinn fjallaði meira og minna um kynferðislegar athafnir Böðvars H. Steingrímssonar og Dagbjartar Albertsdóttur í skottinu á golgrænni Toyotu Corolla á bílastæðinu við Reiðhöllina á Sauðárkróki.
Ég dró hvergi af mér við lesturinn og fékk dóttirin, tæplega 8 vikna, lýsingarnar beint í æð ef svo má segja.
En ég ætla að segja Hallgrími það til hróss að þessi bók er að virka ... svo mikið er víst! Og ég hef heitið því að líta á hann í jákvæðu ljósi, enda engin ástæða að vera að útmála hann ... ég þekki manninn ekki baun og hef aldrei talað við hann.
Hinn maðurinn, Sverrir Stormsker ... alltaf að reyna að vera eitthvað ógurlega fyndinn og dónalegur ...
... þetta viðhorf mitt til Stormskersins hefur algjörlega umturnast, eftir að ég fór að hlusta á þáttinn hans Miðjuna á Útvarpi Sögu. Ég er á því að maðurinn sé snillingur ... og hann er ekki þessi strigakjaftur sem ég hélt hann væri.
Jú, jú ... það flýtur eitt og eitt klúryrði frá karlinum, sem er yfirleitt hnitmiðað og á mjög vel við í þeirri umræðu sem er í gangi hverju sinni. Oft er hann bara alveg helvíti fyndinn ...
Stormskerið er því flottur gæi á ferðinni, með á nótunum og uppörvandi húmoristi sem hefur gaman að stíga einu skrefi lengra en flestir þora.
Og mæli ég eindregið með þáttunum hans á www.stormsker.net ...
Svo hefur hann samið fjölmörg góð lög ... og ég er með eitt þeirra á heilanum núna ...
Lag sem hann og Bubbi Morthens sungu fyrir líklega einum 20 árum eða svo ...
Ó hve sár er dauði þinn,
þú varst eini vinur minn,
einn ég stari í sortann inn
með sorgardögg á kinn.
Ég verð loks að geta þess að vinur minn Arnar Freyr lauk frægilegri för frá London til Ulaanbaatar í Mongólíu núna í morgun. Hann var eins og þjóðinni ætti að vera kunnugt meðal keppenda í Mongol Rally 2008, og lagði að baki um 15.000 km á 17 dögum. Uppskeran varð þriðja sætið. Vefsíða er hér.
Ég óska karlinum til hamingju með árangurinn!!!
Og nú held ég að sé tilefni til að birta góða mynd af mér og Arnari sem tekin var í Steinnesi sumarið 1985, þegar við skelltum andlitsfarða KISS framan í okkur, með hjálp hennar Jóku.
En þess má geta að Arnar er, eins og undirritaður, massífur KISS-aðdáandi ... sem er gott!!
Hér að neðan eru þrjár myndir af dótturinni fyrir alla þá sem hafa meira gaman af því að skoða myndir af henni heldur en að lesa pistla eftir mig ...
Já, einu gleymi ég ...
... í dag var stór dagur í lífi dótturinnar og móður hennar, því þær urðu í fyrsta skipti viðskila í næstum 4 klukkutíma!! Ótrúlegt!!
Fjóla bauð Laugu og fleiri vinkonum í mat og spjall og því var röðin komin að mér að gæta dótturinnar lengur en í 30 mínútur. Þetta krafðist undirbúnings af hálfu móðurinnar og fyllt var á pela, sem nota átti í neyðartilfelli.
Viti menn, klukkan um 19 brast á neyðartilfelli og fékk dóttirin því í fyrsta skipti í dag að drekka úr pela, heila 90 ml sem voru kláraðir á mettíma. Dóttirin tók vel við pelanum og ekki að sjá að hér væru fyrstu kynni að eiga sér stað ...
Mynd var tekin þegar þessi mikli atburður átti sér stað ...
Samvera okkar feðginanna gekk með miklum ágætum ... en um hálftíuleytið kom móðirin másandi og blásandi heim ... ægilega spennt að vita hvernig hefði gengið ...
Svarið við þeirri spurningu var einfalt: "Bara eins og við mátti búast" ... jáaaaaaúúú ... maður kann nú lagið á afkomendum sínum.
Bæti tveimur við ...
Þessi er tekin í dag ...
... en þessi var tekin þann 19. júní sl. ...
Svei mér ef dóttirin hefur ekki vaxað og þroskast ...
... satt að segja finnst mér hún vera orðin svo stór að ég verð alltaf jafnhissa þegar hún pissar í bleyjuna ... og ég er alltaf að segja henni að það séu bara smábörn sem pissi í bleyjur ...
... hún virðist ekki vera alveg að fatta það ...
Bloggar | Breytt 6.8.2008 kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2008 | 02:00
Athafnir í Sydney
Það hefur verið heilmikið útstáelsi á hinni einu sönnu Sydney Houdini. Eins og lesendur ef til vill muna, þá fór hún í sína fyrstu afmælisveislu og bátsferð um síðustu helgi, en þessa helgina hefur verið bætt um betur og dýrmæt reynsla lögð inn á reikning reynslubankans.
Á föstudagskvöldið buðu Rosa og Nick til póker-veislu. Þar voru mættar allar helstu stjörnur Sydney, sem eru eftirfarandi: Rosa og Nick (auðvitað!!), Neil og Fjóla, Steve og Zoe, Jon og Rich, Lauga og Sydney, auk bloggritara.
Skömmu áður en lagt var af stað til Rosu og Nick
Póker í fullum gangi
Mikið var um dýrðir, gestgjafarnir léku við hvurn sinn fingur og reiddu fram veitingar í stórum stíl, svo sem ástralskt "pæ", vorrúllur, kökur, kex og osta, bjór, gos og vatn. Svo var spilaður póker frameftir kvöldi og eitthvað inn í nóttina, uns allir voru orðnir sljóir af þreytu.
Ég veit ekki alveg hver vann spilið, en það var annaðhvort Zoe eða Nick ...
Síðdegis í dag var svo annars konar fagnaður, en það var svokallaður Íslendingafagnaður. Já, tilefni hans var að hljómsveitin Sigurrós hélt tónleika í Hordern Pavilion í Sydney í kvöld. Slíkt vakti áhuga Íslendinga sem hér búa og var því ákveðið að hittast fyrir tónleikana og tala saman íslensku.
Það hljóp örlítil snurða á þráðinn, þegar forráðamenn The Clock, sem var staðurinn þar sem fagnaðurinn átti að fara fram, heimiluðu ekki veru þriggja ára sonar Hilmars og Elísabetar, né heldur veru hinnar háæruverðugu Sydney Houdini. Það var því ekki annað í stöðunni en þessir tveir fulltrúar barnæskunnar færu út.
Eins og gefur að skilja fylgdu foreldrar börnum sínum, og eftir inn á The Clock sat fremur þunnskipaður bekkur.
Ástæða alls þessa var að The Clock fellur inn í "kategoríuna" pöbb, og þar má enginn vera yngri en 18 eða 20 ára, ekki einu sinni í fylgd með fullorðnum.
Þetta vandamál var ekki alveg auðleyst því mörg kaffihús í Sydney, loka af einhverjum ástæðum snemma um helgar, þá er ég að tala um svona kl. 14 eða eitthvað svoleiðis ...
... það má svo velta því fyrir sér til hvers að vera með kaffihús og hafa það lokað um helgar!! Mér finnst það ekki "meika neinn sens", en vafalaust þekkja rekstraraðilar betur rekstrarumhverfið hér, heldur en ég.
En til að gera langa sögu stutta ... þegar búið var að greiða úr þessu öllu, var fagnaðurinn hinn allra besta skemmtun. Alltaf gaman að hitta Íslendinga og tala íslensku! Þarna voru samtals mættir einir 11 Íslendingar og hefðu mögulega getað verið fleiri, þar sem hvorki Sara Jakobs, Herjólfur á Heygum Kolbrúnarson né Eydís Konráðsdóttir voru mætt. Auk má örugglega finna fleiri ef leitað er. En þetta eru þau nöfn sem ég hef heyrt nefnd.
Það hefði verið upplagt hér að birta nokkrar myndir af Íslendingum í Sydney 2. ágúst 2008 ... en svo verður ekki. Af hverju?
Ég tók engar myndir. Og af hverju ekki? Við þeirri spurningu hef ég ekkert svar!! Myndavélin var á borðinu fyrir framan nefið á mér allan tímann en lítið átti sér stað í þeirri deildinni ...
Tríóið í Bourke Street átti enga miða á Sigurrósar-tónleikana, þannig að þegar nær dró að þeir hæfust, héldum við heim á leið ... yngsti meðlimurinn var heimkomunni feginn, alltaf gott að fá nýja og ferska bleyju um mittið.
Af öðrum fréttum má geta þess að í morgun skrapp ég á leik hjá U-14 liði Gladesville Ryde Magic og var sú ákvöðun tekin að hluta til, að beiðni foreldra strákana. Það var talið að nærvera mín myndi hafa góð áhrif á þá, en sú forspá reyndist röng, því þeir töpuðu 4-0 fyrir Blacktown Spartans.
Blessaður þjálfarinn er enn við sama heygarðshornið og áður, og ástandið er vægast sagt dapurt, en svona hlutir eiga sér stað þegar menn vilja ekkert gera í málunum. Slæmir hlutir lagast nefnilega ekki svo glatt hjálparlaust.
Ég rakst á góðan frasa um daginn og ég held að æðstu stjórnendur GRM hefðu gott af því að hafa hann bakvið eyrað eða jafnvel bakvið bæði eyrun: Getuleysi fyrirgefst en viljaleysi aldrei!
Það er nefnilega eitt að geta ekkert gert í hlutunum en annað að vilja það ekki!!!
Nokkrar myndir að lokum fyrir hungraða ættinga heima á Íslandi ...
Átt í útistöðum við Kalla, Fidda, Simba og Halla
Hér er samkomulagið auðljóslega ögn betra
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)