Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
31.8.2008 | 05:27
Meiri markmið
Héðan frá Sydney er allt gott að frétta ... engin haustlægð hefur verið að gera okkur lífið leitt, með ausandi rigningu og roki. Það er kannski ekki skrýtið þar sem á suðurhveli er að vora um þetta leyti árs. September á suðurhveli er sambærilegur við mars á norðurhveli.
Til dæmis er í dag alveg frábært veður ... það er logn, um 20°C hiti og skýjað ... meiriháttar!!
Hér hefur allt gengið nokkurn veginn samkvæmt áætlun og allir á kafi að sinna alls kyns verkefnum.
Við Lauga, erum enn á fullu að vinna að markmiðssetningu. Við skrifum á hverjum morgni niður 10 markmið, stór eða smá, sem okkur langar til að ná í framtíðinni. Við skrifum þau án þess að rifja upp markmið dagsins áður. Þetta ætlum við að gera í 30 daga og ef allt gengur að óskum ættu sömu markmiðin að koma upp aftur og aftur síðustu dagana og samkvæmt öllum "reglum" ættu þau markmið þá að vera hin raunverulegu markmið okkar.
Ennfremur erum við bæði að vinna í því að skrifa niður meira en 100 markmið sem okkur langar til að stefna að í lífinu.
Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt ... halla sér aftur í sófanum og hugsa um allt það sem mann langar til að gera. Þegar öll þessi markmið verða komin niður, þá hefst vinnan ...
... og vinnan felst til að byrja með á því að spyrja spurningarinnar: "HVERNIG fer ég að því að ná þessum markmiðum mínum?" Athugaðu lesandi góður ... hér er spurt: "HVERNIG?", ekki "hvort?"!!!
En með því að spyrja sig "HVERNIG" á að gera hlutina, setur maður sig í þá stöðu að þurfa raunverulega að gera eitthvað ... en einmitt það fælir flesta frá því að setja sér markmið ...
... hversu einkennilegt er það?
En ég er kominn á þá skoðun að ég mun aldrei ná fullkomnu jafnvægi í lífi mínu nema ég vinni að markmiðum mínum og skori sjálfan mig á hólm. Ef ég geri það ekki mun alltaf (eðlilega?!?) vera misræmi milli hugsana minna og athafna.
Til dæmis ef mig langar til að fara til Afríku í safarí, þá mun ekki duga mér að skreppa á Hellu og fá mér hamborgara ... það er nokkuð ljóst ...
Það er heldur ekki heillavænlegt fyrir mig að reyna að telja mér sjálfum trú um, án þess að athuga málið í þaula, að það sé ekki hægt að fara til Afríku í safarí. Afsakanir eins og "ég á ekki pening", "ég hef ekki tíma" eða "það er bara hættulegt að fara í safarí", kalla bara á innri átök, því þær eru ekki sannleikurinn. Sannleikurinn er að mig langar til Afríku í safarí.
Það reyna að drekkja þeim sannleika, er sambærilegt við að reyna að sökkva flotholti ... það er sama hvað reynt er, flotholtið mun alltaf leita upp á yfirborðið. Því mun hugsunin eða löngunin fyrr eða síðar dúkka upp í kollinum á mér ... sannleikurinn mun sigra að lokum.
Við Lauga höfum tekið ákvörðun ... við ætlum ekki að standa uppi 85 ára, að því gefnu að við náum þeim aldri, og hugsa um allt sem við hefðum getað gert, og allt það sem gaman hefði verið að gera.
Við ætlum þess í stað að átta okkur á því hvað við raunverulega viljum, finna út úr því HVERNIG við náum því, og leggja svo á okkur vinnu til að uppfylla langanir okkar ...
... það er nefnilega svo skrýtið að við hörmum yfirleitt ekki það sem við höfum gert, heldur frekar það sem við höfum ekki gert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2008 | 14:11
Alls konar
Þá er James farinn.
Já, hann James, félagi okkar kvaddi í morgun og hélt á vit ævintýranna ... nánar tiltekið til Suður-Ameríku. Hann hyggst ferðast þar um í eina 3 mánuði held ég.
Þokkalegur pakki það ... ég væri til í að slást í för með honum, ef ég hefði ekki svo sem eins og eitt doktorsverkefni á stefnuskránni hjá mér.
Og í tilefni brottfarar sinnar, þá bauð hann vinahópnum út að borða í gærkvöldi. Herlegheitin fóru fram á P J O´Briens, sem er veitingastaður við King Street.
Rosalega fínn matur þar og allir í stuði.
Þarna má sjá flesta af þeim sem voru á staðnum.
Uncle Dave og Sydney Houdini
Reyndar gerðumst við Lauga svo dónaleg að við þökkuðum James ekkert fyrir matinn, né heldur buðumst til að borga okkar skammt, heldur stormuðum bara út af staðnum upp úr klukkan 22. Föttuðum svo þegar við komum heim að við höfum algjörlega orðið okkur til skammar ... hringdum með skottið milli lappanna í James og báðumst afsökunar á þessari yfirsjón okkar og þökkuðum kærlega fyrir okkur ... dálagleg frammistaða þetta!
Annað er allt í föstum skorðum, enn er unnið að sýndarveruleikanum og þokast hann áfram. Það góða við þessa vinnu að gerð sýndarveruleikans er, að það er hægt að hlusta á endalausa tónlist eða útvarpsþætti meðan vinnan fer fram. Það er ekki oft sem ég get leyft mér slíkan munað þegar ég er að vinna því ég þeirrar náttúru gæddur að geta með engu móti, til dæmis lesið eða skrifað og haft tónlist í bakgrunni.
Ef aðstæður eru með þeim hætti fer allt fyrir ofan garð og neðan hjá mér, bæði viðfangsefnið, sem og tónlistin.
Annars er það eiginlega þannig að mér finnst góð tónlist, eiga betra skilið en að vera látin hljóma einhvers staðar í bakgrunni. Mér finnst ég einhvern veginn þá vera að eyða í óþarfa, svolítið svona eins og borga sig inn á bíómynd og vera svo fastur á klósettinu meira og minna alla myndina.
Og það líkar mér ekki ...
En jæja, við sýndarveruleikagerðina get ég vel einbeitt mér að hlusta á tónlist, meðan ég dreg strik á tölvuskjáinn og vinn myndir í Photoshop. Ef ég þarf að hugsa, eins og stundum kemur fyrir, er slökkt á tónlistinni augnablik ...
Og hvað ... maður fær náttúrulega alls konar lög á heilann og um þessar mundir eru það tvö lög sem glymja í hausnum á mér daginn út og inn ...
... Eternal flame með The Bangles og We don´t need another hero með Tinu Turner ...
Þessi tvö lög eru náttúrulega ekkert nema tær snilld ...
Það vita það kannski ekki mjög margir að mér hefur alltaf fundist The Bangles hrikalega góð hljómsveit ... og þetta lag er alveg ógeðslega gott ... Susanna Hoffs (sú sem syngur) spillir heldur ekki myndbandinu ...
Annars var ég að lesa að Tina Turner sé að fara í "global" tónleikaferð í október næstkomandi, aðeins 69 ára að aldri. Hversu kúl er það eiginlega?!?
En jæja, er þetta ekki að verða frekar tilgangslaust kjaftæði ...
... enda færsluna á góðri myndasyrpu af dótturinni. Í dag var hún beðin fallega um að sitja stillt í sófanum meðan myndataka færi fram. Og auðvitað varð hún við beiðninni ... sjón er sögu ríkari ...
Allt byrjaði þetta vel ...
En svo fór fyrirsætan að líta í kringum sig ...
... en slíkt getur verið varasamt þegar maður er 11 vikna og heldur ekki haus ...
... og hefur ekki vit á því að bera hendurnar fyrir sig ...
Svona fór um sjóferð þá!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.8.2008 | 15:16
Handboltapælingar og myndir
Ástralir elska krikket og rugby, og þess vegna verður maður að taka hatt sinn ofan fyrir þeirri staðreynd að ríkissjónvarpsstöðin SBS tók sig til og sýndi úrslitaleikinn í handboltanum í beinni útsendingu á næstbesta útsendingatíma, það er frá 17:45 - 19:00.
Hilmar og Elísabet buðu til Íslendingafagnaðar í Rhodes ... sem var náttúrulega algjörlega frábært hjá þeim. Rosa gaman!
Þar hitti maður enn fleiri Íslendinga, þannig að samanlagður fjöldi þeirra sem ég hitt hér í Sydney fer nú að verða hátt á annan tug.
Já, það var alveg ómögulegt að missa af þessu mikla leik, þessu svokallaða mesta afreki íslenskrar íþróttasögu. Mér finnst nú samt að fólk verði kannski aðeins að slaka á í að vera að bera íþróttaafrek saman, enda eru þau nú alls ekkert samanburðarhæf.
Eru bronsverðlaun í -95 kg flokki karla í júdó í Los Angeles árið 1984 betri árangur en bronsverðlaun í stangarstökki kvenna í Sydney árið 2000 og eru þessi tvö afrek meiri en að vinna Englandsmeistaratitilinn í fótbolta og vera að hefja sitt 3ja keppnistímabil með einu allra besta knattspyrnuliði heims? Er silfur í handbolta í Peking 2008 meira afrek?
Skiptir það einhverju máli?
Þetta frábæra afrek handboltalandsliðsins stendur fyllilega fyrir sínu, finnst mér, og algjörlega óþarft að detta í einhver samanburðarfræði til að undirstrika það frekar.
Einu hef ég líka verið að velta fyrir mér í þessu sambandi ... í hverju viðtalinu á fætur öðru er rætt um hvað þetta afrek muni hafa gríðarlega mikil áhrif á Íslandi. Það er engu líkara að þjóðin verði bara ekki söm eftir þetta ...
... það má kannski til sanns vegar færa að þjóðin verður ekki söm ... því hún er 14 ólympíusilfrum ríkari ... en spurningin er: Hversu mikilvægt er það fyrir þjóðina í raun að handboltalandsliðið vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking 2008? Hverjir eru það eiginlega sem eiga eftir að finna einhvern gríðarlegan mun núna?
Handboltahreyfingin mun örugglega fá slatta út úr þessu ... auðveldara verður að fá styrktaraðila til liðs við handboltann og fjárhagsstaða sambandsins gæti hugsanlega batnað.
Sjálfsagt mun einnig koma tímabundin uppsveifla í fjölda handboltaiðkenda, þannig að ... íþróttafélögin munu þurfa að taka við fleiri krökkunum á æfingum. Núna ætla margir sér að verða næsti eða þarnæsti Ólafur Stefánsson eða Guðjón Valur ...
Ennfremur munu Íslendingar framvegis geta gortað sig af meiri ólympíuverðlaunum en þeirra Vilhjálms, Bjarna og Völu.
En önnur áhrif?
Satt að segja sé ég þau ekki svona í fljótu bragði ...
... hver voru áhrifin af frábærum árangri á Evrópumótinu árið 2004(?) þegar Ísland lenti í 4. sæti? Allt ætlaði um koll að keyra á sínum tíma, glæsilegar móttökur í Smáralindinni en eftir nokkrar vikur var þetta allt meira og minna gleymt.
Hins vegar er ég alveg á því að það má læra gífurlega margt af þessum árangri landsliðsins. Sú sálfræði og heimspeki sem manni skilst að sé að mestu runnin undan rifjum fyrirliðans er eitthvað sem hver einasti Íslendingur ætti að taka upp á arma sína og pæla aðeins í.
Sem áhugamaður um sálfræði og árangursfræði, þá væri ég afskaplega mikið til í að hitta Ólaf Stefánsson og ræða við hann um þessi fræði ... læra af honum ...
Þessi drengur er búinn að vinna algjörlega frábæra vinnu, sem atvinnumaður í handbolta ... og hann hugsar svo stórt og djúpt. Hann hefur nýtt árin sín í boltaspriklinu alveg aðdáunarlega vel ...
Ég fékk kökk í hálsinn þegar hann sagði í einhverju viðtalinu að verðlaunin sem slík skiptu engu máli, heldur það að hafa fundið hetjuna í sjálfum sér, allir í liðinu hefðu fundið hetjuna í sjálfum sér og það mundi fylgja þeim alla ævi. Og hann vonaði að þetta yrði til þess að einhverjir Íslendingar myndu finna sína innri hetju ... í slíkri vinnu væri hægt að líta til handboltalandsliðsins á ÓL 2008 ... að hafa það svona sem dæmi um hvað er hægt ef hetjan fær að blómstra ...
... þessi gaur er alveg ótrúlega flottur!
Mikið rosalega myndi ég vilja að þessi áhrif sem Ólafur er að tala um, yrðu að veruleika hjá sem flestum ... þá skyldi ég fyrstu manna viðurkenna "landlægt" mikilvægi þess að Ísland vann silfur á ÓL 2008.
Jæja, ólíkt fyrirliðanum finnst mér heimspekilegar vangaveltur aldrei alveg "fitta" við mig ... allavegana ekki þegar ég er að skrifa bloggfærslur ...
... ég bregð því undir mig betri fætinum og birti nokkrar myndir af dótturinni ... ömmurnar geta þá haldið áfram að prenta út myndir af barnabarninu og bæta í safnið!
Lengdarmæling á mánudegi ... eftir 11 vikur er lengdin 58,5 cm og hefur þá dóttirin lengst um heila 13 cm síðan hún fæddist. Samkvæmt stöðlum sem gefnir eru út hér í New South Wales samræmist lengd hennar nú meðallengd 11. vikna barna. Hún er með öðrum orðum búinn að vinna upp það sem upp á vantaði við fæðingu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.8.2008 | 14:10
23. ágúst
Ég skrifaði í síðustu færslu eitthvað um markmiðssetningar og vinnu okkar Laugu í þeim efnum. Í morgun tók ég verulega góðan skurk í þeim efnum, hlustaði á einn geisladisk af átta diska safni sem ber heitið "The Ultimate Goals Program" og er eftir Brian Tracy.
Fullt af frábærum punktum þar hjá Tracy. Atriði sem hverjum manni væri hollt að fara í gegnum og velta fyrir sér.
Til dæmis lagði Tracy fyrir mig spurningar gildismat mitt og hvort samræmi væri milli þess athafna minna. Hann vék að mikilvægi þess að vera heiðarlegur, bæði við sjálfan sig og aðra.
Er líf mitt eins og ég myndi vilja hafa það ef mér væru allir vegir algjörlega færir? Er ég sú persóna, sem ég óska mér að ég sé?
Ef svarið við þessum spurningum er nei ... sem það er í sannleika sagt í mínu tilfelli ... hvernig ætla ég að breyta því?
Þetta er nefnilega allt undir mér sjálfum komið að gera líf mitt að því sem ég vil að það sé ...
... og ég hef ákveðið að taka þeirri áskorun mjög alvarlega, og betrumbæta það sem ég tel að vanti upp á ...
Þetta er tímafrek vinna, en ég er sannfærður um að ég fæ hana ríkulega borgaða til baka ...
Jæja, en eftir þessa miklu "session" fyrir hádegi, fórum við Lauga að huga að fótboltanum sem boðað hafði verið til í Wentworth Park eftir hádegið, en ...
... þar sem við, og þá sérstaklega ég, erum með brenglað tímaskyn og óstundvís með afbrigðum, tókst okkur að missa af fótboltanum.
Já, loksins þegar bauðst að spila fótbolta, þá mættum við svo seint að það voru allir hættir og á leiðinni heim.
Ég varð svo ótrúlega grautfúll með frammistöðu mína að það tók mig marga klukkutíma að vinna mig út úr því. Ég tók eftir þetta "afrek" þá ákvörðun að fara að læra á klukku!
En jæja, við fórum þá heim til Jon, Rich og James, ásamt öllum fótboltahetjunum. Þar var boðið upp á úrslitaleik í fótbolta á Ólympíuleikunum, Nígería og Argentína. Leikur sem fyrirfram hefði mátt ætla að yrði stórkostlegur, enda tvær frábærar fótboltaþjóðir á ferðinni, en annað var sannarlega upp á teningnum. Eftir mjög tilþrifalítinn leik, hampaði Argentína Ólympíutitlinum með 1-0 sigri. Seinna sá ég að leikurinn hafði faríð fram í 42°C hita, sem skýrir ugglaust hversu dapur þessi leikur var. Leikurinn var meira segja stöðvaður á 70 mínútu til gefa leikmönnum drykkjarpásu ... það er eitthvað sem undirritaður hefur ekki séð í fótboltaleik fyrr.
Einhvern tímann var talað um að sumir leikmenn enska landsliðsins í fótbolta hefðu léttst um 6 kg í leik á HM í Mexíkó 1986. Þar voru menn að "díla" við 40°C hita og þunnt loftslag í ofanálag ... en fengu enga drykkjarpásu á 70 mínútu.
Eftir leikinn var haldið í "bowling" á KingPin á Darling Harbour. Undirritaður var ekki meðal sigurvegara í þeirri keppni, þrátt fyrir mikinn vilja.
Sydney hin unga fékk því í dag að kynnast "disco-bowling" í fyrsta skipti og naut þess bara vel, ef miðað er við hegðun hennar. Blikkandi ljós og dunandi tónlist héldu henni algjörlega við efnið, og svo vel að þegar keilunni lauk og við röltum yfir á veitingastaðinn H****quin (man ekki hvað staðurinn hét) datt hún í fastasvefn.
Á H*****quin hittum við svo fyrir Láru og Elvu, sem eru hér í Sydney í kvikmyndanámi, en Lára á einmitt afmæli í dag. Þar voru líka Júlía og Steinar, sem stefna á kvikmyndanám í Perth.
Það var því bara hinn besti Íslendingafagnaður á þessu ágæta veitingahúsi.
Upp úr klukkan 8 ákváðum við svo að halda heim á leið og tókum okkur góðan göngutúr frá The Rocks, niður á Darling Harbour, þar sem boðið var upp á rosalega flugeldasýningu nákvæmlega á því augnabliki sem við gengum fyrir Pyrmont-brúna. Þannig fengum við alveg óvart alveg svakafínt útsýni ...
Dóttirin upplifði því flugeldasýningu í fyrsta skipti í dag ...
Svo héldum við upp á George Street og heim.
Svona var nú ásigkomulagið við heimkomuna ... húfan komin út á hlið og þess má geta að hámarksskammtur var kominn í bleyjuna ...
Fljótlega eftir heimkomuna svifu mæðgurnar inn í draumalandið og eftir sit ég í markmiðspælingum, og pælingnum um það hversu ótrúlegt það sé að íslenska handboltalandsliðið sé komið í úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum ... í dag, já og á morgun einnig, væri ég til í að vera íslenskur landsliðsmaður í handbolta að keppa í Beijing ...
Nóg í bili ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2008 | 13:24
Markmið, borgarumhverfi og pakki
Maður hefur verið frekar linur við bloggskrif núna síðustu daga og kemur það helst til af því að ég hef bara haft svo hrikalega mikið að gera.
Hér í Bourke Street eru nefnilega hlutirnir að gerast þessa dagana. Gríðarlega ströng markmiðssetning og, ja ... ég leyfi mér að segja lífsstílsbreyting, er að eiga sér stað. Ekki bara hjá mér heldur hjá Laugu líka.
Við höfum sannfærst um það að til að ná að gera allt sem okkur langar í lífinu, er ekki hægt annað en fara í gegnum hvað okkur raunverulega langar og að setja svo upp einhverja dagskrá hvernig við hyggjumst ná því. Mér hefur skilist af góðu fólki að 3% fólks setji sér markmið og 1% fari eftir markmiðunum sínum.
Ég held að það sé til mikils að vinna að vera meðal þeirra sem fylla þetta 1%.
Það skrýtna í þessu öllu saman er að við erum bæði býsna hrædd við þessa vinnu. Alveg skítlogandi hrædd.
Það að kafa ofan í hvað mann virkilega langar til að fást við næstu áratugina, ef guð lofar, getur verið býsna óþæginlegt, því þegar maður kemst svo að niðurstöðu, þarf að fara að taka til hendinni og skora sig á hólm.
Það er samt eitthvað svo klikkað að vera hræddur við að gera það sem mann langar til að gera ...
En sum sé ... við erum í þessari vinnu þessa dagana, og hlutirnir eru að skýrast. En ég get samt fullyrt það að ég er ekki að hugsa um að hætta í doktorsnáminu og fara í eitthvað allt annað ... bara svo það sé alveg á hreinu ...
Í gær las ég mjög góða grein eftir Frank Lawrence um hvaða áhrif hönnun borgarumhverfis getur haft á heilbrigði fólks. Lawrence segir að slíkt geti hafi miklu meiri áhrif en látið er í veðri vaka, en slæm hönnun umhverfis getur beinlínis hrindrað fólk í því að fara út og hreyfa sig.
Til dæmis ef fólk býr í óaðlaðandi hverfum, er hvatinn til að fara út lítill sem enginn. Að sama skapi ef aðstaða til hreyfingar er ekki fyrir hendi er hvatinn einnig lítill sem enginn.
Þessar pælingar Lawrence eru mjög á sömu línu og ég er að vinna eftir. Hver eru áhrif borgarumhverfis á heilbrigði fólks?
Af hverju eru sum hverfi og sumar borgir vinsælli en aðrar? Væntanlega af því fólki líður vel í þeim, þær hafa upp á eitthvað að bjóða, sem kallar fram vellíðan.
Það er til dæmis vinsælla að skreppa til Prag heldur en til Liverpool, ef tilgangur ferðarinnar er að "njóta lífsins" ...
Læt þetta duga í bili, en set nokkrar myndir inn, svona til skemmtunar og yndisauka fyrir þá sem þessa síðu sækja.
Hér er ein frá því í sumarbústaðnum í Moss Vale
Guðrún og dúkkan frá ömmu á Sauðárkróki ... já, amman sendi risapakka til Ástralíu, þar sem mátti finna heilan klæðaskáp af fötum, sælgæti, bækur og blöð að ógleymdri dúkkunni góðu ...
Ekkert smáræði þarna á ferðinni eins og sjá má!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2008 | 12:48
Ísland á ÓL 2008
Skyldu þeir ná í verðlaunapening? Ef ekki núna hvenær þá?
Frábært að þetta blessaða handboltalandslið okkar sé að ná þessum góða árangri ... það eru svo sannarlega menn þar innanborðs, sem eiga það fyllilega skilið að landa einni orðu eftir alla vinnuna og eljusemina gegnum tíðina.
Liðið sem bókstaflega var jarðað í EM í janúar síðastliðnum, hefur svo sannarlega risið upp úr öskustónni ... en Evrópumeistararnir eru farnir heim.
Þrátt fyrir þennan frábæra árangur fær Ísland samt ekki að taka þátt í HM 2009 ... eða hvað?? Það skyldi þó aldrei opnast einhver glufa, eins og margoft hefur gerst á undanförnum árum ... enda vegir mótafyrirkomulags í alþjóðahandbolta með öllu órannsakanlegir ...
Fólk hér í Sydney heldur samt ró sinni og vel það ... fæstir vita sjálfsagt hvað handbolti er ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2008 | 23:49
Í Moss Vale
Um helgina var heldur betur brugðið undir sig betri fætinum, því í fyrsta skipti frá því við komum til baka frá Íslandi, það er um miðjan febrúar, fórum við út úr bænum.
Það sem gerðist var að Nick og Rosa buðu til veislu á "óðalssetri" móður Nicks, sem er í Moss Vale, rúmlega 130 km frá miðborg Sydney.
Allt var í þeirra boði, gisting, matur, drykkir og skemmtun ...
Og í stuttu máli var þessi ferð frábær ...
Húsið var alveg æðislegt, rúmgott, gamalt og glæsilegt með ekki minna en 7 rúmgóðum herbergjum og arinn í nánast hverju herbergi. Til dæmis fengum við Lauga svo stór svefnherbergi, að bara það var örugglega stærra heldur en öll íbúðin okkar í Bourke Street og svo þegar farið var að sofa voru hlerar settir fyrir gluggana ... klárlega í fyrsta skipti sem ég sé svona gluggahlera notaða af einhverri alvöru.
Mamma Nicks, Favne, hefur í mörg ár verið að dunda sér við að lagfæra húsið og lofa framkvæmdirnar mjög góðu og að sjálfsögðu var hún á staðnum líka.
Stór lóð var umhverfis húsið og á henni mátti hitta fyrir asnann "Íó" og hestinn "Stumpfy", sem njóta félagsskapar hvors annars í girðingu skammt frá húsinu.
Þar var einnig hundurinn "Missy", fjórar mjög svo gæfar hænur og tveir kettir, sem ég man ekki hvað heita.
Hænsnakofinn í garðinum í fallegri síðdegisbirtu
Íó og Stumpfy
Við Lauga mættum ásamt Nick og Rosu fyrripart laugardagsins, og nutum herlegheitanna, borðuðum gómsæta kjötsúpu og vorum kynnt fyrir "heimafólki".
Þegar degi tók að halla, var farið að undirbúa bálköst, sem kveikja átti í, síðar um kvöldið undir fullu tungli og að því verki loknu, tóku fleiri gestir að renna í hlað.
Neil, Fjóla og James mættu á blæjubjöllu þess síðastnefnda og Damian og konan hans, sem ég man ekki hvað heitir heiðruðu samkvæmið með nærveru sinni.
Og skömmu áður en kveikt var upp, komu systir Rosu, Jessica og maðurinn hennar, en svo skemmtilega vill til að þau eiga einmitt heima skammt frá Moss Vale.
Ég hef ekki verið viðstaddur svona óopinbera brennu í mörg herrans ár eða síðan brenndar voru nokkrar trjágreinar á Grjóteyri fyrir um 7 eða 8 árum minnir mig. Bálið í Moss Vale var því kærkomið, enda alltaf alveg ótrúlega gaman og notalegt að horfa á svona "bonfire".
Svo var borðað og drukkið og hlegið og spjallað fram eftir kvöldi og eitthvað inn í nóttina, en það verður að segjast eins og er að sumir gestanna urðu hreinlega uppgefnir af því að draga að sér svo mikið ferskt loft á svo stuttum tíma, og skriðu þeir því inn í rúm nokkuð snemma.
Sunnudagsmorguninn var alveg æðislegur. Að vakna í þögninni, fara út kalt en frískt morgunloftið, sjá hélaðar rúðurnar í bílunum glitra í sólarupprásinni og taka hlerana frá gluggunum, koma inn aftur hitta Favne og þiggja tebolla, rölta inn í herbergi aftur til að spjalla við mæðgurnar var meiriháttar.
Boðið var upp á egg og beikon, ristað brauð, sultu, te og djús í morgunmat, sem borin var fram undir heiðum morgunhiminum.
Mér fannst vera svona páskastemmning í Moss Vale þennan morguninn. Gott veður, lauflaus tré, sinugult gras, pínusvalt morgunloft og útsprungnar páskaliljur, er eitthvað sem minnir mig mjög á páska og á að það er vor í loft hér í Ástralíu.
Eftir morgunmatinn fóru fyrstu gestirnir að tygja sig til heimferðar, en aðrir nutu áfram verunnar á þessum frábæra stað fram eftir degi.
Bloggar | Breytt 18.8.2008 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2008 | 23:07
Ýmislegt
Hún er kölluð Gunna sí og er dóttir okkar. "Léttfætt" lipurtá með ginið opið allan daginn og heimtar stöðugt áfyllingu. Já, hún Guðrún sísvanga vex eins og gorkúla þessa dagana ... ekki það að hún hefur svo sem verið að vaxa af töluverðu "afli" síðan hún kom í þennan heim aðeins 45,5 cm að lengd.
Samkvæmt síðustu mælingu, sem fór fram á mánudaginn er barnið nú 57 cm, og hefur því vaxið um 11,5 cm á 9 vikum. Ef heldur áfram sem horfir, verður stúlkan búin að ná 180 cm í júní 2010, svona um það leyti sem hún verður 2ja ára ... það er að segja ef útreikningar mínir eru réttir, sem er náttúrulega alls ekkert víst.
En sé þetta rétt, verður Gunna sí talsvert hærri en Robert Wadlow, hæsti maður sem mælst hefur frá því mælingar hófust. Robbi Wa, eins og hann var gjarnan kallaður reyndist ekki nema 140 cm, þegar hann var fjögurra ára, og náði ekki 180 cm fyrr en um 7 ára aldur.
22ja ára, skömmu fyrir andlát sitt, var hann orðinn 272 cm hæð, sem verður að teljast talsverð líkamshæð. Ég man vel eftir myndinni af Robba Wa í Heimsmetabók Guinness, útgáfunni frá 1980 eða 1981 sem ég las spjaldana á milli á námsárum mínum í Austurbæjarskóla. Það var útgáfan þar sem stór mynd af Skúla Óskarssyni var á fyrstu blaðsíðu, enda maðurinn nýbúinn að setja heimsmet í réttstöðulyftu. Talsvert afrek það ... !!!
Það er þó rétt að taka það fram að undirrituðum er það ALLS EKKERT metnaðarmál, og raunar er hann harðlega andsnúinn þeim hugmyndum að fröken Gunna sí fari í einhverja vaxtarkeppni við Robba Wa og kraftakeppni við Skúla Óskarsson.
Annars er feikilega gaman að segja frá því, úr því Skúla Óskarsson ber á góma, að hér í Bourke Street eru teknir margir "Skúlar Óskarssynir" á hverjum degi.
Af einhverjum ástæðum sem ekki er svo gott að átta sig á, hefur sú æfing að láta barnið setjast upp úr liggjandi stöðu fengið heitið "Skúli Óskarsson". Ef Gunna sí vill bæta um betur eftir að sitjandi stöðu hefur verið náð, og krefst þess að fá aðstoð til að standa upp, þá kallast það "Skóli Óskarsson standandi".
En nóg um þetta ...
Síðustu dagar hafa liðið svo hratt að mér finnst eins og ég hangi í þotuhreyfli sem er í noktun. Maður æðir bara áfram, þó ekki stjórnlaust, með vindinn í andlitið.
Rannsóknin mín hefur verið að taka breytingum, þar sem ég hef verið að kynna mér önnur forrit til að búa til sýndarveruleikann minn ... ég man ekki hvort ég var búinn að nefna þetta fyrr hér á síðunni ... en hvað um það, sagan er svo skemmtileg að það er allt í lagi að segja hana aftur.
Ég er að taka í þjónustu mína forritið Google SketchUp, sem hægt er að fá ókeypis á netinu ef áhugi er fyrir slíku. Í Google SketchUp er hægt er draga upp myndir af öllum mögulegu, með tiltölulega einföldum hætti, en áhrifaríkum.
Ennfremur er ég að kynna mér mikið og stórt forrit sem heitir því höfðinglega nafni 3Ds Max og er geysiöflugt þrívíddarforrit. Margar velþekktar teiknimyndir hafa verið búnar til í þessu forriti og ég held að ég ljúgi ekki miklu ef ég segi að Toy Story hafi að talsverðu leyti verið búin til í þessu forriti. Í dag skrapp ég út á bókasafn og náði mér í kennslubók í 3Ds Max, samtals 1230 bls, auk geisladisks!!
Aðrir möguleikar eru einnig fyrir hendi, eins og Virtools og Stradacafé.
Með öðrum orðum, PJL er að verða eitthvert "bloddí" tölvunörd ... !!!
Á fimmtudagskvöldið fór ég á fyrirlestur, sem fjallaði um Council House 2 eða CH2 í Melbourne. Í Melbourne hafa yfirvöld sett metnaðarfulla vinnu í gang, sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og er endurhönnun og lagfæringar á húsum í miðborginni einn af þeim þáttum sem litið er til.
CH2 er opinber bygging sem hönnuð var með umhverfissjónarmið og sjálfbærni í huga. Þannig er byggingin ekki einungis sparineytin á vatn og orku, heldur var lagt upp með að hafa vinnuskilyrði, þannig að þau ýttu undir vellíðan og ykju afköst, sem er eitthvað sem kalla mætti "sálfræðilega sjálfbærni". Klárlega eru hugmyndir og hönnun sem þessi, framtíðin.
Þetta var mjög merkilegt að sjá og gaman að það skuli einhvers staðar finnast yfirvöld sem eru til í svona "prójekt" ...
Og að lokum er rétt að nefna það að við Lauga erum búin að kaupa okkur ferð til Cairns, sem er borg í norðurhluta Ástralíu. Tilgangur ferðarinnar er að fara út á hið geysimagnaða Great Barrier Reef, stærsta kóralrif veraldar og er talið eitt af náttúruundrum veraldar. Það verður vafalaust geysilega gaman að fara þangað!
Nóg í bili og engar myndir að þessu sinni ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.8.2008 | 13:38
Rannsókn og fyrirlestur
Héðan frá Sydney er allt fremur gott að frétta þennan daginn ...
Dagurinn hefur verið nokkuð annasamur hjá mér, þar sem ég hef verið að sinna hlutverki mínu heimafyrir og í skólanum.
Í dag tók ég til dæmis þátt í rannsókn hjá félaga mínum Chumporn, en hann er að vinna að doktorsverkefni sem fjallar um hegðun fólks í búðum, hvaða leið í búðinni það velur sér þegar það leitar að nytsamlegum hlutum og hvort birtustig í búðinni hefur eitthvað með þetta allt saman að gera.
Það var nokkuð skemmtilegt að taka þátt í þessu hjá honum, en ég fékk í upphafi innkaupalista og átti svo að fara í tiltekna búð og finna þá hluti sem nefndir voru á listanum á innan við 15 mínútum.
Ég fann sex af níu, sem Chumporn sagði bara nokkuð gott. Hann mun svo á næstu dögum leggjast fyrir hvaða leið um búðina, ég valdi mér meðan á leitinni stóð.
Já, og í gær átti ég stórleik ... ég ákvað að fara á fyrirlestur, einn af mörgum í fyrirlestraröðinni Sydney Ideas, og þar talaði Clive nokkur Hamilton um það hvort ríkidæmi og frelsi fólks færði því hamingju og gleði.
Geysilega athyglisvert efni að mínu mati og ég beinlínis iðaði í skinninu að heyra hvað Hamilton hefði fram að færa.
Því miður get ég ekki endursagt eitt einasta orð af því sem Hamilton sagði ... einfaldlega vegna þess að ég skildi ekki baun í erindi hans. Það tók mig svona eina mínútu að átta mig á því að viðfangsefnið var rætt út frá dálítið öðrum vinkli en ég hafði verið að vonast eftir.
Hamilton er nefnilega heimspekingur, ... ég hefði kannski átt að kynna mér það fyrirfram ... og hann ræddi hlutina fram og til baka allt út frá alls konar "ismum", sem ég kann engin deili á, vitnaði reglulega í Jean Paul Sartre, þann ágæta mann og tannhjólin í hausnum á mér stóðu blýföst ...
... en ég fæ þó punkt fyrir viðleitni ...
... annars er það alveg ótrúlega fúlt, hvað ég er ekki nógu góður í ensku ennþá ... um leið og umræðuefnið fer eitthvað pínulítið út fyrir hið ofurvenjulega dægurþras, þá stendur maður bara eins og glópur og skilur ekkert!!
Æi ... núna nenni ég eiginlega ekki að skrifa meira ... segi eitthvað skemmtilegt næst þegar ég blogga, klukkan er að detta í 23.30 ...
Redda þessu bloggi bara með myndum ... mér skilst að þær séu það vinsælasta á þessari síðu minni ...
... ég var líka að uppfæra www.palllindal.com ... lítur aðeins betur út núna, á samt eftir að gera fullt í viðbót ... kíktu þangað ef þú nennir.
Myndatakan undirbúin ...
... og svo er smellt af ... og myndefnið hinar geysifögru mæðgur!!
Símtal gærdagsins ... amman á Sauðárkróki á línunni ...
Fátt er það nú sem barnið hefur meira gaman af en að gera bakæfingar. Hér er mynd frá slíkri æfingu ...
Hamingjan skín úr andliti dótturinnar ... já eða ekki ...
Búið í bili ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.8.2008 | 15:12
Úti á lífinu!!
Áfram höldum við hjónaleysin vinnu okkar við að kynna barnunganum það sem er handan stofuveggjanna hér í Bourke Street.
Þessa helgina fékk Guðrún Helga Sydney Houdini nokkuð stóran skammt af "stöffi" sem hún getur melt frameftir vikunni.
Í gærkvöldi fór hún til dæmis í fyrsta skipti út að borða ... því við hittum Fjólu, Neil og Saritu á indverska staðnum sem er eiginlega alveg við þröskuldinn hjá okkur. Bara að fara yfir götuna, nokkur skref, beygja fyrir hornið og þá er maður kominn.
Alveg fantagóður matur ... ég held að við höfum bara öll fengið okkur eitthvað sem ber heitið "Thali", og er eitthvað gums sem bragðast bara fjári vel.
Þarna eru allir á indverska staðnum ...
Sarita og Sydney
Í dag var stefnan í fyrstu sett á Centennial Park, sem er geysimikill garður í nágrenni við okkur. Sambærilegt við indverska staðinn, þarf maður bara að ganga nokkur skref, beygja svo, ganga aðeins lengra, fara yfir götu og svo aðeins lengra og aftur yfir götu og þá er maður kominn ... ekki slæmt það.
En við hættum við þetta plan og ákváðum frekar að sigla til Parramatta, sem er í vesturhluta borgarinnar og tekur um eina klukkustund að sigla þangað frá Circular Quay. Þess má geta fyrir fróðleiksfúsa lesendur að Parramatta var sá staður sem bjargaði Englendingum þegar þeir fyrst komu í Sydney árið 1788.
Þegar Arthur Philip fyrsti landstjóri Ástralíu og hans fylgdarlið hafði áttað sig á því eftir tiltölulega stutta veru, að ófrjór jarðvegur og skortur á fersku vatni yrði sennilega hinni nýstofunuðu fanganýlendu að aldurtila, var ákveðið að sigla vestur eftir Sydney höfninni (eða Port Jackson, eins og hún heitir reyndar) og upp eftir Parramatta-ánni sem rennur í höfnina vestanverða. Og þeim og væntanlega áströlsku þjóðinni allri, til happs fundu þeir ferskvatn og frjóan jarðveg í Parramatta. Þannig var það nú ...
Við ætluðum sumsé að fara til Parramatta, en þegar við vorum að labba niður á Circular Quay byrjaði að rigna ... sem var náttúrulega alveg æðislegt!!
Inni á thailenskum veitingastað, var plan B dregið upp ...
Á thailenska veitingastaðnum
Plan B hljóðaði upp á að fara á Museum of Contemporary Art (MCA), sem einmitt er við títtnefndan Circular Quay.
Einkadótturinni voru því í dag kynntir leyndardómar nútímalistarinnar ...
... áhugi hennar var reyndar í stjarnfræðilegu lágmarki, því hún svaf meira og minna allan tímann á safninu, dauðþreytt eftir að hafa þurft að fylgjast með bílum, strætisvögum, háum húsum, gangandi vegfarendum og þvíumlíku, á leiðinni á áfangastað.
Já, hún fékk tækifæri til að fylgjast með þessu öllu í fyrsta skipti í dag, því hún gjörsamlega harðneitaði að liggja í vagninum. Slíkt kom bara alls ekki til greina að hennar hálfu og var hún á handleggjunum á okkur í meira og minna 8 klukkutíma, ýmist sofandi eða vakandi.
En það má dóttirin eiga að í dag gerði hún tilkall til þess að vera útnefnd þægasta barn í veröldinni ... það heyrðist varla bofs í henni ...
Á heimleiðinni var komið við í minjagripavöruverslun og á Starbucks. Já, og ekki má gleyma bókabúðinni sem við kíktum í. Merkilegt nokk ... í þessari búð er hægt að fá allt Tinna-safnið og allt Ástríks-safnið á alveg sæmilegum kjörum. Ég var næstum því búinn að draga upp veskið og snara út fyrir þessum stórkostu bókmenntaverkum, sem karl faðir minn kallaði aldrei annað en "vitleysisbókmenntir" hér á árum áður. En ég tímdi því ekki ... ekki í dag allavegana ...
Þegar heim var komið var haldið áfram að vera menningarlegur ... eins og sést á eftirfarandi mynd ... engar "vitleysisbókmenntir" hér á ferðinni!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)