Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
16.3.2007 | 09:38
Yfirbugaður??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2007 | 20:39
Heilsa og ánægja
Mikið ógurlega er gaman og praktískt að heilsuvernd skuli áfram verða starfrækt í húsi Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónstíg, eins og kom fram í fréttum í dag ... enda hvaða vit er í því að breyta húsi, sem beinlínis er byggt í því augnamiði að reka þar heilsuverndarstöð, til dæmis í hótel á sama tíma og það stendur til að verja milljörðum í byggingu svokallaðs "hátæknisjúkrahúss"??
Það er líka gaman að bæði Húsasmiðjan og BYKO eru best á mælikvarða Íslensku ánægjuvogarinnar ... samanber auglýsingar fyrirtækjanna í blöðum síðustu daga. Þetta minnir óneitanlega auglýsinguna þar sem strákurinn var spurður að því hvort honum þætti betra, Cheerios eða Honey Nut Cheerios ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2007 | 09:29
Aðalstræti
Mér hefur fundist virkilega gaman að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað við Aðalstræti í Reykjavík á síðustu árum. Í gær lauk formlega endurbyggingu húss nr. 10, sem mun vera eitt hið elsta í borginni, byggt árið 1762. Við nánari athugun er Viðeyjarstofa líklega eina húsið sem er eldra innan borgarmarkanna, þannig að Aðalstræti 10 er næstelst ... nóg um það.
Við lok þessara framkvæmda er húsalengjan vestan Aðalstrætis milli Túngötu og Grjótagötu orðin ein sú glæsilegasta í borginni. Þar er Hótel Centrum á grunni húsa nr. 14 og 16, veitingastaðurinn Maru í gamla Ísafoldarhúsinu sem flutt var úr Austurstræti og fundin staður við Aðalstræti og loks áðurnefnt hús nr. 10. Til að setja punktinn yfir i-ið að svo stöddu, mætti vel fjarlægja gamla Miðbæjarmarkaðinn, þ.e. hús nr. 9 og veita Fógetagarðinum, sem stendur á horni Kirkjustrætis og Aðalstrætis, þá viðurkenningu sem honum ber.
Þá hefur einnig frábærlega tekist til við endurbyggingu Geysishússins, sem stendur á hinu horni Aðalstrætis. Að mínu mati er stemmningin á horninu þar, við gatnamót Vesturgötu, Aðalstrætis og Hafnarstrætis, einhver sú allra skemmtilegasta sem fyrirfinnst í borginni en þar er maður umkringdur fallegum húsum á borð við Bryggjuhúsið (Kaffi Reykjavík), Fálkahúsið og áðurnefnt Geysishús. Maður verður samt að passa sig á að horfa ekki á Hlöllabáta, Hótel Plaza eða gamla Morgunblaðshúsið, ef löngun er til að njóta "andrúmsloftsins" á horninu til fullnustu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2007 | 23:04
Ertu með próf frá virtum skóla?
Af hverju er dagblöðum þessa lands, svona mikilvægt að halda þjóðinni upplýstri um hvað ungstirnið Þorvaldur Davíð Kristjánsson er nákvæmlega að gera þessa dagana? Þessi hæfileikaríki drengur hefur svo sannarlega gert ágæta hluti, um það verður ekki deilt, en er nauðsynlegt að það sé margtuggið ofan í fólk að hann sé að sækja um leiklistarskóla í New York, jafnvel þótt hinn virti Julliard-skóli sé meðal þeirra sem eru í sigtinu?
Maður fær jafnvel á tilfinninguna að þetta sé í fyrsta skipti sem Íslendingi dettur í hug að nema leiklist utan landsteinanna. Raunin er hins vegar önnur, eins og allir vita. Og gott betur, því í gegnum tíðina hefur nefnilega fjöldi Íslendinga sótt um inngöngu í virta háskóla á hinum ýmsu sviðum, víða um heim, komist inn, lokið þaðan góðu prófi og átt góðan "karríer" án þess að nokkurn tímann sé um það fjallað í fjölmiðlum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2007 | 21:40
Vandi tölvunarfræðinnar
Tölvunarfræðin glímir við ímyndarvanda og er misskilin. Misskilningurinn felst í að of margir telja tölvunarfræði einungis vera forritun og hin staðlaða ímynd forritunar er "sveittur karl úti í horni í netabol að drekka kók".
Aðeins tvær stelpur tóku þátt í forritunarkeppni framhaldsskólanna, samkvæmt Fréttablaðinu í dag. Eftir því sem ég fæ lesið út úr fréttinni, voru piltarnir 52 talsins, samkvæmt því kynjahlutföll 96% karlar á móti 4% kvenna. Kannski ekki skrýtið í ljósi misskilningsins og ímyndarvandans ... en hér er svo sannarlega óplægur akur fyrir feminista.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2007 | 18:31
Spennubreytirinn
Í gær dó spennubreytirinn við tölvuna mína. Dálítil vonbrigði og óþarfa peningaútlát. Kaup á nýjum óhjákvæmileg. Fyrirfram hefði ég samt talið það lítið mál að kaupa spennubreyti fyrir fartölvu ... tölta til söluaðila tölvunnar og tjá honum vandamálið, fá nýjan breyti og fara heim aftur.
En nei ... ég hafði varla stundið upp erindinu, þegar pilturinn sem var til svara hjá söluaðilanum, svaraði umsvifalaust ákveðnum og skýrum rómi: "Eigum 'ett ekki!!" Við nánari athugun vissi hann heldur ekki hvar ég gæti fengið spennubreyti sem passaði og það sem meira var ... honum virtist vera algjörlega drullusama. "Er tölvan þá ónýt?" spurði ég í fávisku minni. "Tékkað' á Office One." Ég í Office One, svo í Tölvulistann, loks í BT, þar sem ég fékk fékk breyti en það gat enginn þar staðfest að ég myndi ekki eyðileggja tölvuna ef ég setti hana í samband með hjálp umrædds spennis.
Þegar ég kom heim aftur með nýkeyptan gripinn, greip mig óstjórnleg hræðsla um að tortíma tölvunni og öllu því mikilvæga efni sem hún heldur utan um. Ég fletti upp í símaskránni og leitaði að tölvuverkstæði. Fann eitt gott á Skólavörðustígnum og þar sem ég var varaður við ... og mér bent á verslunina Íhluti í Skipholti. Þar var öllu kippt í liðinn og BT fékk varninginn sinn aftur - allt endurgreitt í topp, sem var gott mál. 3 klukkutímar farnir í spennubreytiskaupin ... sem ég fyrirfram hefði ætlað að tækju 30 mínútur. Mín heimska!! Takk Íhlutir og takk tölvuverkstæðið á Skólavörðustíg!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2007 | 21:55
Að vera með og á móti virkjunum og stóriðju
Sigurjón Benediktsson tannlæknir á Húsavík skrifar eftirfarandi í Morgunblaðið í dag undir yfirskriftinni "Hver á mengunarréttinn?" (vægast sagt kostulegur texti):
"Ég er fylgjandi virkjunum og uppbyggingu stóriðju þar sem hægt er að beita mótvægisaðgerðum. Það er hægt í Þingeyjarsýslum. Nóg af eyðimörkum má græða upp og binda þannig gróðurhúsalofttegundir. Ennþá nóg af vinnufúsum höndum til að takast á við verkefnin. Ekki þarf að umbylta þjóðfélaginu. Þensla ekki til, hvað þá vandamál. Sáralítil mengun á sér uppruna í Þingeyjarsýslum nema frá eyðimörkunum. Fyrirtæki enda tilbúin að koma. Hvað gerist þá? Rísa ekki upp þensluþandir forræðishyggjendur sem eru haldnir blindu svartrar náttúruverndar og sjá því allt til foráttu að virkjanir og stóriðja komi annars staðar að gagni en á Suðvesturlandi. Og kalla sig umhverfisvini og verndara! Hvar er baráttan fyrir mótvægisaðgerðunum við allri mengun kaffihúsafólksins á höfuðborgarsvæðinu?"
Ég spyr nú bara, hvar eru þessir náttúruverndarsinnar sem tala gegn stóriðju í Þingeyjarsýslum en agitera fyrir virkjunum og stóriðju á Suðvesturlandi? Persónulega hef ég ekki hitt einn einasta mann sem á þessari línu ... en Sigurjón getur sennilega bent á slíkt fólk ...
Ég hef heldur aldrei heyrt talað um að eyðimerkur séu mengunarvaldar ... en hér er greinilega kominn nýr vinkill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.3.2007 | 14:54
Hugaðir mælingamenn
Afar áhugavert verkefni að rannsaka vindrastir ... en ég er hræddur um að mér yrði lítið úr verki ef ég ætti að vinna í flugvélinni, í þeim aðstæðum sem lýst er - í 33 metra hæð yfir sjó í 33 metrum á sekúndum.
Flogið inn í ofsaveður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2007 | 17:09
Áfram Dr. Kolbeins!!
Fyrir örfáum mínútum ritaði ég ofurlítinn pistil á þetta ágæta blogg um Dr. Kolbeins og hugmyndaauðgi hennar.
Ég verð að segja að þessi túlkun hennar á forsíðu fermingarbæklings Smáralindar er svo frábær að ég fæ hreinlega gæsahúð við það eitt að hugsa um hana (allt svo, túlkunina) ... þvílíkur snillingur og þvílík kænska að sjá þennan dulda boðskap. Og benda allri þjóðinni á þetta ... Það var göfugt, verð ég að segja.
Áfram Dr. Kolbeins ... flettu ofan af fleirum!! Til dæmis þeim sem standa bakvið auglýsinguna frá Betra baki ... sofandi fólk í faðmlögum (bls. 51 í Fréttablaðinu í dag)!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2007 | 16:36
Líður yfir Magnús
Mér kemur það nú ekkert á óvart að Magnús hafi fengið aðsvif við að kynna þingsályktunartillögu um jafnréttisáætlun, þar sem kynjakvótar eru meðal þeirra "verkfæra" sem beita á í þágu jafnréttis ... Að mínu viti eru slíkir kvótar einhver sú bagalegasta aðferð sem hægt er að hugsa sér, þegar verið er að tala um og stuðla að kynjajafnrétti.
Magnús mun ekki ljúka að mæla fyrir jafnréttisáætlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)