Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Pétur og álið

Í 4. tölublaði www.framtidarlandid.is skrifar Pétur Gunnarsson rithöfundur eftirfarandi:

Borgarastyrjöldin gegn landinu

PDFPrentaRafpóstur
Það mun hafa verið Halldór Laxness sem kom með hugtakið um “hernaðinn gegn landinu” og gerði landsfleygt í grein sem birtist árið 1970 undir sama heiti. Þá stóð stríðið um Kísilgúrverksmiðjuna í Mývatni hæst. Síðan eru liðin þessi ár sem eru liðin og verksmiðjan sú hefur nú lagt upp laupana, líftími hennar var ekki lengri en þrjátíu ár.

Mannsaldur.

En þau spjöll sem hún vann á lífríki vatnsins, m.a. eyðileggingu bleikjustofnsins sem hafði verið búhnykkur fólksins og lífsviðurværi við vatnið undangengin þúsund ár - fræðingar telja að það muni taka a.m.k. tvö hundruð ár að endurheimta hann.

Þegar aftur á móti er litið til þeirra áforma sem nú eru ýmist vel á veg komin, á teikniborðinu eða kröfur eru settar fram um, kemur manni í hug: borgarastyrjöldin gegn landinu. En borgarastríð eru einhver grimmilegustu og haturfyllstu átök sem ein þjóð getur ratað í, einskonar sjálfsofnæmi sem kvistar þjóðirnar niður innan frá, þótt öflin sem næra þau séu oftar en ekki utanfrá.

Þannig er nú skipað saman í sveit erlendum auðhringum og íbúum dreifbýlisins, fólki sem hefur afskipt horft upp á óðaþenslu höfuðborgarsvæðisins og jafnvel orðið fyrir þungum búsifjum vegna stjórnvaldsaðgerða í fiskveiðimálum. Fólki sem finnst það hafa harma að hefna. Álverksmiðjan er þeirra síðbúna hefnd á “kaffihúsaliðinu”.

Þar með opnast kærkomin leið fyrir samsteypur og auðhringa sem nú gína yfir fallvötnum og jarðhita landsins, orkunni sem býr í vatnsföllum og iðrum jarðar og hyggjast hagnýta til bræðslu á áli.

Ef þessar fyrirætlanir ná fram að ganga og draumur sveitastjórna víða um land um stóriðju í sín heimapláss rætist, mun ásýnd Íslands aldrei verða söm. Hættan er því ískyggilegri að ástand í heiminum er nú á þann veg, með rísandi efnahagssól Kínverja og Indverja, að eftirspurn eftir áli verður gríðarleg næstu áratugi. Og þeir sem eiga sér þá ótrúlegu draumsýn að Ísland verði vettvangur bróðurpartsins af þeirri álbræðslu eiga góða möguleika að sjá þá sýn verða að veruleika.

Það er því brýnt að vakna – ekki seinna en nú – upp við vondan draum – áður en hann breytist í martröð.

Uppbyggður vegur yfir Kjöl

Múrenan er "afturhald" og setur stórt spurningarmerki við þessa framkvæmd - jú auðvitað styttir þetta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um einhverja tugi kílómetra, það sparast peningar, hagkvæmt ... og svo koma frasarnir alveg í röðum.  Ef litið er framhjá öllum peninga-, hagkvæmnis- og hraðasjónarmiðum hvers eiga hálendið og unnendur þess að gjalda?  Halda menn að þetta 200 km sinnum 200 km landsvæði þoli að sífellt sé klipið af því, í þágu "framfara"?  Á fólk sem fílar að vera úti í ósnortinni náttúru, bara að halda kjafti, fara Gæsavatnaleið eða að öðrum kosti, vera heima hjá sér og skoða myndir?

Uppbyggður vegur yfir Kjöl mun mjög líklega hafa í för með sér massífa uppbyggingu á Hveravöllum, svo sem bensínstöð og pylsu- og hamborgarasölu, hugsanlega verður rifin upp ein sundlaug, stígar milli hveranna malbikaðir auk þess sem safn um Fjalla-Eyvind fer teljast álitlegur kostur.  Hinum almenna vegfaranda kemur til með að finnast Kjölur álíka spennandi yfirferðar og honum finnst Holtavörðuheiðin núna.  Með framkvæmdinni er sjarmi Hveravalla sennilega horfinn á braut ... og allt í nafni þess að "allir þeir" sem eru svo mikið að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur geti sparað klukkutíma í akstri.  Já og náttúrulega "allur fjöldinn" sem er á leiðinni milli Selfoss og Akureyrar - hann sparar alveg tvo tíma.  Hvað með hávaðamengun?  Hafa forráðamenn Norðurvegar eitthvað spáð í hana?

Eitt að lokum: Hvað skyldu stjórnendur Flugfélags Íslands segja við uppbyggðum Kjalvegi?


Hafmeyjur!!!

Að þessu sinni langar mig bara til að varpa fram eftirfarandi og þú lesandi góður getur, ef áhugi er fyrir hendi, getur velt þessu fyrir þér ...

Þar sem ég sat á biðstofu hjá tannlækni dag einn ekki fyrir svo löngu síðan, komst ég ekki hjá því að heyra samtal tveggja kvenna sem þar biðu.  Umræðuefnið var ofnæmi.  Önnur konan lýsti með miklum tilfæringum ofnæmisviðbrögðum sem höfðu blossað upp, eftir að hún smellti sér í nýju lopapeysuna sem hún hafði keypt á Fosshóli.  "Já og ... hérna ... og svo bara varð ég allt í einu bara öll útsteypt ... bara öll flekkótt ... eins og hafmeyja!!!"  Hún horfði stórum augum á viðmælanda sinn, sem bara trúði þessu ekki - svo flekkótta manneskju hafði sú kona greinilega aldrei nokkurn tímann heyrt um eða séð.  Af látbragði þeirra var ekki annað ráðið en báðar væru algjörlega með það á hreinu hversu flekkóttar hafmeyjur gætu orðið.  Fyrst leið mér eins og vanvita ... en svo þyrmdi yfir mig ... þetta hafði amma mín sáluga greinilega ekki vitað.  Staðreyndirnar töluðu sínu máli - þetta var svartur dagur. Hin alvitra amma mín, sem brýndi það fyrir mér, nótt sem nýtan dag að kýr væru skjöldóttar, hross skjótt og kindur flekkóttar ... hafði aldrei minnst á það flekkóttasta af öllu flekkóttu - HAFMEYJUR!!! 

Var amma kannski ekki svo víðlesin eftir allt saman ... ?


Þeir eru bara ekki nógu góðir ...

... hugsa kannski einhverjir, eftir þrjá tapleiki íslenska landsliðsins í röð.  Það má svo sem alveg pæla í því ... en hefði þurft að leika tvo síðari tapleikina?  Þegar búið er að leika hátt í tug leikja á nánast jafnmörgum dögum og lið fellur úr keppni, að minnsta kosti úr keppni um heimsmeistaratign, með viðlíka hætti og henti Íslendinga, er þá ekki bara komið gott? 

Greinilega eru skipuleggjendur HM í handbolta ekki  á þeirri skoðun.  Það skiptir engu máli hvort lið er á beinni braut í átt að verðlaunasæti eða dottið út í 8-liða úrslitum - þessi 8 lið sem komust í fyrrgreind úrslit, skulu bara leika tvo leiki í viðbót og ekkert múður.  Það hlýtur að vera alveg meiriháttar að gíra sig upp fyrir leik um 7. sætið, eftir að hafa verið sleginn út í 8-liða úrslitum og lúta svo aftur í lægra haldi, í það skiptið í keppninni um 5. sætið(!) (sem útaf fyrir sig er merkilegt fyrirbrigði - keppni um 5. sætið en jæja ... ). 

Vegna þess að skipuleggjendum HM var það fyllilega ljóst að leikur um 7. sætið virkaði ekkert sérstaklega spennandi, svona á pappírunum að minnsta kosti, var ákveðið að það sæti gæfi möguleika á því að keppa í sérstakri forkeppni um sæti á Ólympíuleikunum(!) - sjálfsagt að því að þessum sömu mönnum finnst stórkeppnir í handbolta ekki of margar.  Þetta er alveg ótrúleg þvæla enda sýnir það sig, hversu menn eru gjörsamlega búnir á því andlega og líkamlega að leikurinn við Spán endar 40:36.  76 mörk á 60 mínútum!  Það veltir upp annarri spurningu: Hvað ætli sé hægt að skora mörg mörk í handboltaleik ef það eru engar varnir leiknar?

Landsliðum Íslands, Spánar, Rússlands og Króatíu hefði bara átt að gefa frí eftir tapleikina í 8-liða úrslitunum - líkt og gert er á HM í fótbolta.  Þessi lið lentu í 5.-8. sæti á HM 2007 - búið basta.  Leiðina á Ólympíuleikana mætti svo finna með öðrum hætti.

Eru forráðamenn handboltans ekki að reyna of mikið - maður bara spyr sig!  Ójá ...


mbl.is Ísland í 8. sætinu eftir tap gegn Spánverjum, 40:36
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að búast við því versta ...

Flestir kannast örugglega við að hafa heyrt einhvern segja, sérstaklega þegar eitthvað mikið stendur til að viðkomandi "voni það besta en búist við því versta".  Strákur hittir stelpu og verður spenntur fyrir henni - "hann vonar það besta en býst við því versta", stelpa á að syngja á skólatónleikum - "hún vonar það besta en býst við því versta", Siggi fer í ævintýraferð til Afríku - afi og amma "vona það besta en búast við því versta.  Dæmin eru endalaus ...

Hvað er þetta að "vona það besta og búast við því versta"?  Má ekki bara "búast við hinu besta"? "Nei", segja sumir, "þá er úr svo háum söðli að detta ef hlutirnir ganga ekki upp".  En af hverju vilja menn ekki detta úr háum söðli?  Það liggur náttúrulega alveg ljóst fyrir - hærra fall leiðir væntanlega af sér meiri skaða.  Það er náttúrulega bara púra lógík!

En af hverju þarf alltaf allt að vera svona lógískt, sérstaklega ef það rýrir tilveruna.  Lítum á eftirfarandi jöfnu: Engin vonbrigði = engin gleði!!  Er það þess virði að fórna gleðinni fyrir það að verða ekki fyrir vonbrigðum? 

Kannast þú við að hafa verið með höfuðverk? Alveg dúndrandi höfuðverk sem svo líður hjá og allt í einu blasir lífið við, þó ekki sé nema í eitt andartak.  Allt í einu er rigningin orðin æðisleg og plokkfiskur frábær matur, bara vegna þess að höfuðverkinn er farinn.  Þetta er allt annað líf!!!  En hvað hefur gerst?  Það hefur svo sem ekkert gerst því þetta er bara lífið í hnotskurn, eðli tilverunnar - stundum er fúlt en stundum er skemmtilegt!  Með öðrum orðum er það breytileikinn, sveiflurnar, átökin, reiðin, fyrirgefningin, gleðin, vonbrigðin, ánægjan, höfnunin og allt það sem gefur lífinu gildi.  Maður sem aldrei hefur fengið höfuðverk, veit ekkert um hversu gott það er að vera ekki með höfuðverk.  Sá maður sem aldrei upplifað vonbrigði, þekkir ekki ástandið "glaður".  Vonbrigði, sársauki, eftirsjá, reiði, leiðindi eru auðvitað ekkert eftirsóknarverðir "fyrirbæri", en nauðsynleg til færa manni hið gagnstæða, gleðina, skemmtunina og ánægjuna.

Að leyfa sér "að búast við því besta" gefur þér því tækifæri til að lifa margbreytilegu lífi, þar sem allt litrófið fær að vera með.   "Að búast við því besta" er samt engin trygging fyrir því að hlutirnir gangi alltaf upp en hinsvegar er það trygging fyrir því að sífellt styttist í að aftur rofi til og sólin skíni á nýjan leik.

Það er nú svona ... Múrenan slær botninn í umræðuna.


Ökutíminn

Góður vinur minn sagði mér um daginn sögu af 16 ára frænda sínum, sem er mikill áhugamaður um tölvur og eftir því sem mér skilst, með augu rétthyrndari en rétthyrndasti rétthyrningur. 

En til allrar hamingju er tölvuáhuginn þó ekki algjör, því einn daginn rankaði hann við sér og sagðist vilja læra á bíl.  Foreldrunum hálfbrá að heyra tíðindin en fundu þó til gleði í hjarta sínu - kannski myndi nú litli demanturinn þeirra hætta lífi tölvuáhugamannsins og koma út úr hýði sínu - jafnvel fá ferskt loft í lungun sín.

Viti menn, strax í fyrsta ökutímanum var hann nærri búinn að drepa sig.  Ástæðan ef til vill reynsluleysi og þó ...  því allt í einu fannst honum sem hann væri staddur í tölvuleik einum og tók vinstri beygju, með nákvæmlega sama hætti og hann hafði alltaf gert í tölvuleiknum.

Ökukennarinn var ekkert sérstaklega hrifinn, eins og nærri má geta - tölvuáhugamaðurinn sagði hinsvegar bara "hjúkk", því þarna hefði hann geta tapað einu lífi.

Það held ég nú ...


Kemur ekkert sérstaklega á óvart

Er fólk ekki fíklar vegna þess að það virðir ekki takmörk að minnsta kosti hvað ákveðna hluti varðar?  Alkóhólistar demba í sig áfengi meira en góðu hófi gegnir, eiturlyfjaflíkar neyta meiri eiturlyfja en góðu hófi gegnir, kynlífsfíklar sækja í meira kynlíf en góðu hófi gegnir, o.s.frv. 

Þótt foreldrarnir hafi auðvitað ekki neitt annað í hyggju en velferð afkomanda síns, þá eru það gömul vísindi og ný, að skilvirkasta ráðið til að gera fíkil gjörsamlega snarruglaðan, er að fjarlægja í mörgum tilfellum "eina vininn" með valdi. Fíkn er miklu meira mál en svo, að á henni slokkni bara með einu "pennastriki" og viðkomandi sagt að nú sé bara komið gott af þessu.  Spurning hvort ekki hefði verið betra en að setja leikreglurnar fyrir tölvuspilaiðkun fyrir svona 5 árum eða ... en auðvitað er afskaplega auðvelt að vera vitur eftir á, ójá ...

Hinsvegar gætu einhverjir foreldrar litið á þetta sem víti til varnaðar!


mbl.is Tölvufíkill trylltist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband