19. júní 2008

Jæja, þá er allt dottið í dúnalogn hér í Bourke Street ... mæðgurnar báðar nýsofnaðar!!  Og það er eitthvað svo hrikalega notalegt að horfa á þær sofa með ábreiðurnar breiddar upp undir höku ... svo nudda þær höfðinu einhvern veginn við koddann, umla og smjatta af vellíðan, ... báðar tvær!!  Sú yngri þó heldur meira en sú eldri!

Núna er ég eiginlega kominn á þann punkt í þessu föðurhlutverki, að ég man varla lengur hvernig lífið var áður en stelpuanginn fæddist.  Það er alveg ótrúlega mögnuð tilfinning eftir að hafa verið faðir í ... tja ... 12 daga eða svo!  Þessu hefði ég aldrei trúað upp á mig ... þó ég hefði svo sannarlega vonað það þetta yrði raunin!

Besta barn í heimi dafnar líka alveg rosalega vel ... mér finnst ég sjá mun á hverjum degi, og í dag, held ég að mér hafi næstum því tekist að fá hana til að brosa, í fyrsta skipti.  En þess má geta að bros hafa ekki verið mörg hingað til, og hafa þau fyrst og fremst verið í tengslum við einhverja ólgu í maga þeirrar stuttu ... þá meira sem hluti af hreint ótrúlegu samsafni að alls kyns andlitsgeiflum.

Annars hefur þessi dagur liðið alveg svakalega hratt ... meiningin hjá mér var að drífa mig niður í skóla strax í morgun, en það var ekki hægt vegna anna við að þvo þvott. Já, góðir hálsar, ég hef verið iðinn, og meira að segja lúsiðinn í morgun, að handþvo og sjóða í potti á eldavélinni, allar helstu tuskur, klúta, ábreiður, lök og fleira sem til fellur af blessuðu barninu.  Í morgun sauð ég til dæmis fjóra potta, sem er met!!  Allt svo hengt út á snúru til þerris!!

Þessa suðuaðferð lærði ég af henni blessaðri ömmu minni, sem hér á árum áður, átti það til að smella nokkrum velvöldum tuskum í pott og sjóða drykklanga stund.  Sparar aðferðin okkur háar peningaupphæðir, en þess má geta að um 230 kr. kostar fyrir okkur að setja í eina þvottavél.

Eftir þvottinn, fór ég svo niður á Þjóðskrá og fékk vottorð frá ástralska ríkinu um að barnið væri til ... verður vottorðið sent á morgun heim til Íslands og þar með ætti hin íslenska Sydney að komast blað. 
Annars erum við búin að gefa stúlkunni nafn, en svona til að halda spennunni aðeins lengur, það er að segja fyrir þá sem eru yfirhöfuð eitthvað spenntir fyrir að vita nafnið, þá hef ég ákveðið að gefa það út hér á síðunni á morgun!

Að þessu öllu saman yfirstöðnu, hélt ég sem leið lá niður í skóla og vann þar allt til klukkan 7.30 í kvöld, hélt þá heim á leið og hitti þar dömurnar tvær ...

Í gær fékk ég þau skilaboð að nánustu ættingjar vildu fleiri myndir af títlunni litlu, ... helst ættu að birtast nýjar myndir daglega!  Veit ekki hvort ég lofa því nú alveg ... hér eru þó fáeinar myndir til að sefa sárasta sultinn!!


Þetta er uppáhaldssvipur, þetta er svona gáfnasvipur ... augnabrúnum er lyft á sama tíma og munnurinn er hringaður og gerður svo lítill að hann sést varla.  Engu líkara er en litla stýrið sé á barmi þess að afsanna afstæðiskenningu Einsteins ... það hefur þó ekki gerst ennþá!! 


"Skipað gæti ég, væri mér hlýtt", sagði föðurafi þessarar ungu hnátu oft á tíðum við föður hennar þegar hinn síðarnefndi var barnungur að gefa fyrirskipanir hingað og þangað
 ... þessi tilvitnun gæti einnig átt við hér, þar sem litla skottið liggur afvelta á "skiptiborðinu" en hikar ekki við að gefa skipanir og bendingar í allar áttir.


Skyldi börnum finnast þessi látalæti skemmtileg??  Ég er sannfærður um að þarna fékk ég einkadótturina næstum því til að brosa.  Hvort það er hinn raunverulegi sannleikur er allt annað mál!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er alveg afskaplega gáfulegt lítið stýri sem þið eigið þarna - svei mér þá ef hún er ekki bara næstum því jafn gáfuleg og frændi hennar sonur minn. Þau verða góð saman frændsystkinin og eiga eflaust eftir að leysa nokkrar óleystar ráðgátur lífsins í sameiningu.

Helga Guðrún (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 18:11

2 identicon

sú stutt er sveimér svipfögur þykir mér fíngerð og falleg eins og mamma hennar (já og pabbi eftir því hvernig á málið er litið).

Af okkur fjölskyldunni er allt gott að frétta. Brúðkaupið um síðustu helgi var líkast konunglegu brúðkaupi að stærð og veglegheitum. Brúðhjónin gullfalleg og synir þeirra eins og englar í húsi drottinns. Myndbandið frá fjólu vakti mikla lukku og ég fór að skæla þegar þið komuð í lokin að skála og allur salurinn skálaði við ykkur hehehe. Nikulás hélt ræðu eftir að hafa naumlega fengið magasár af áhyggjum yfir því það hefði hinsvegar engan grunað þegar maðurinn stóð pollrólegur í pontu og hélt þessa stórflottu ræðu.

annars er heimilsfaðirinn staddur í Strassburg þessa stundina með flottræflamatarklúbbnum sínum...lasinn og gengur fyrir verkjalyfjum skemmtilegt það huh? á meðan teljum við sigfús dagana þar til hann kemur heim og sigfús leitar hans um allt hús og kallar á hann...þetta átt þú allt í vændum nýbakaði pabbi - good times good times...

knús og kossar frá sigrúnu 

Sigrún Steingríms (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband