20.2.2007 | 23:06
Tilraun í kókneyslu
Það er ósjaldan sem maður les á netinu, í blöðum eða tímaritum, að fólki hafi, með ótrúlegri eljusemi og aga, tekist að losna við X mörg kíló af óþarfa spiki á X löngum tíma. Nýjasta dæmið sem ég las um var kona sem einmitt hafði losnað við 46 kg á einu ári, með því að fara eftir ráðleggingum Íslensku vigtarráðgjafanna. Ég tek hatt minn ofan fyrir þessari konu - frábær árangur.
En hinsvegar varð ég hugsi þegar ég las niðurlag viðtalsins, þar sem hún segir: "Það er ekki fyrr en ég komst í kjörþyngd að ég fór að slaka á. Nú þarf ég að losa mig við sex kíló og ætla að passa mig á að detta ekki aftur í gamla farið."
Getur verið að kúrinn sem konan var á, hafi verið of strembinn ... þannig að hún mátti ekkert leyfa sér að slaka á. Að hún hafi alltaf verið á leið upp í mót ... en landið alltaf pínulítið brattara en hún hafi almennilega innistæðu fyrir. Hversu mikið þarf hún að passa sig til að falla ekki ekki aftur í sama gamla farið? Kemur inn það sama og sjálfbær líkamsrækt (sem hægt er að lesa um hér!).
Ég hef því ákveðið að gera eina litla tilraun til að prófa hugmyndafræði mína um mikilvægi þess að allt sem maður gerir, verði að vera sjálfbært eigi það að verða að lífsstíl. Ef mann langar til að vera duglegur að hreyfa sig, verður maður að gera það í sátt við eigin líkama og andlegt ástand. Hér gildir ekkert ofbeldi. Sama gildir fyrir breytt mataræði ... ef lífsstílsbreytingin á að vera til frambúðar, verður hún að eiga sér stað í sátt við líkama og andlegt ástand. Annars dettur allt í sama farið á nýjan leik.
Ég byrja eins og á fundi hjá AA og viðurkenni veikleika minn: "Ég er kókisti". Ég hef mörgum sinnum reynt að hætta að drekka kók. Hef haft algjört straff, svindldag í hverri viku, tvo svindldaga en allt kemur fyrir ekki. Kókið dembist niður um kokið og ofan í maga á mér, ég ropa og fæ mér meira án þess að pæla nokkuð í því hvort mig langar í meira! Sí og æ hugsar maður með sér að tími sé kominn til að hætta ... en það tekst bara ekki. Ástæðan er innistæðu- og meðvitundarlaus tékki ... engin sjálfbærni. Það er ekkert samráð við líkama og sál, sem heimta bara meira kók ... líkt og tölvusjúklingur heimtar meiri tölvuspil. Það þýðir ekkert að taka bara úr sambandi ... þá verður allt snarvitlaust eins og dæmin sanna!!
Þess vegna ætla ég að hætta að beita mig þessu ofbeldi, þessum ærandi aga. Ég ætla að semja við mig um að drekka kók meðvitað ... fá mér kók þegar mig langar raunverulega og ekki drekka dropa meira en mig langar raunverulega í. Ég stend sum sé í samningaviðræðum við sjálfan mig og mun bregðast við eftir því sem ég óska eftir. Næsta hálfa mánuðinn ætla ég að beita þessari aðferðafræði og svo reikna út með tölfræðilegum aðferðum hvort þetta virkar - rannsóknartilgátan mín er því: Mun kókneysla mín dragast saman á umræddu tímabili?
Ókei, ég veit að þetta hljómar alveg eins og ég sé að missa vitið en þessari aðferð hef ég beitt til að koma mér til að stunda hlaup 5x í viku án þess að finna nokkurn tímann til leiða eða verkja. Það sem betra er, er að ég hef einnig miðlað þessum hugmyndum til annarra og ... þær virka líka á þá!!!
Athugasemdir
Þetta er ansi áhugavert og spennandi að sjá hvort það virkar, því ég veit um fleiri sem hafa verið í þessum sporum að ætla að hætta í kókinu en ekki gengið nógu vel....(og þá er ég ekki bara að tala um mig :)
Benný (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.