23.5.2012 | 22:09
Miðvikudagur 23. maí 2012 - Met slegin
Þá er nú hitasóttin á heimilinu sennilega í rénun. Ég fullyrði að hitamet innan fjölskyldunnar var slegið kl. 2.30 í nótt þegar hitamælirinn sýndi 41.1°C. Persónulega hef ég aldrei séð aðra eins tölu á hitamæli sem mælir líkamshita.
En hitasóttin er sennilega í rénun eins og áður segir, enda hefur hitinn verið að rúlla í kringum 39°C í dag og fer stiglækkandi.
GHPL hefur tekið þessu ótrúlega vel og tilkynnt mjög samviskusamlega hvenær henni sé heitt og hvenær ekki. Hinir hitalækkandi stílar eru orðnir bestu vinir hennar og maður hefur þakkað hvað eftir annað fyrir þá.
---
Stubbi hefur hinsvegar verið afar hress ... hann setti líka met á þessum sólarhring, þegar hann svaf til klukkan 10.15 í morgun. Sem er hreint með ólíkindum hjá manni sem vaknar alltaf um sjö-leytið. En án nokkurrar tilkynningar, þá tók hann þessa ákvörðun í morgun.
Og hefur, ja eins og áður segir, verið alveg firnahress í dag.
Hann er orðinn geysilegur klifurköttur, og fer upp á allt það sem hann mögulega kemst upp á ... eftir að ég hafði komið að honum einum og óstuddum standandi í efsta þrepi Trip-Trap-stólsins sem GHPL situr í, tók ég þá ákvörðun að fjarlægja neðsta þrepið úr stólum. Við afar takmarkaða hrifningu.
Svo er hann farinn að tala töluvert og kalla hátt og snjallt "mamma" ... sérstaklega þegar hann hefur klifrað upp á eitthvað og kemst ekki niður aftur ...
Hér er mynd af klifurhetjunni ... en hún er tekin af systur hans, sem er sannast sagna orðið býsna glúrin við að taka myndir ...
Hún tók t.d. líka þessa mynd um daginn ...
Það má nú líka láta það fylgja að GHPL setti einnig svefnmet í morgun ... svaf til klukkan 11.30 ... og hraut eins og varðhundur á meðan. En þetta met er auðvitað ekki sett undir neinum eðlilegum kringumstæðum þannig að það skráist nú varla ... svona eins og met í langstökki skráist ekki ef meðvindur er of mikill.
---
Sumarið hefur svo sannarlega hafið innreið sína hér í Uppsala ... yfir 20°C hiti dag eftir dag, og bara sæla ... sérstaklega fyrir þá sem geta verið úti og notið blíðunnar. Slíkt hefur ekki verið tilfellið hér eins og vænta má, hafi frásögnin hér að ofan skilist.
En útsýnið úr vinnuherberginu mínu er alveg afbragð ... ætlaði reyndar að setja mynd hér en myndin er svo léleg að það er ekkert gaman að hafa hana inni.
Set bara þessa í staðinn ...
Athugasemdir
Ótrúlega flottar myndir hjá þeirri litlu! Ég held þú ættir að biðja hana um að mynda útsýnið úr vinnuherberginu þínu :)
Stjóri (IP-tala skráð) 25.5.2012 kl. 00:38
:D ... Það er náttúrulega alveg brilliant hugmynd!!! :D
Páll Jakob Líndal, 26.5.2012 kl. 15:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.