Mánudagur 2. janúar 2012 - Gleðilegt ár!!!

Ég ætlaði auðvitað að byrja árið á að setja góða og gagnmerka færslu inn á bloggið hjá mér í gær.
En hvað?
Svolítið miklu betra gerðist hjá mér en það ... ég talaði við Dóra vin minn í 4 klukkutíma á Skype í gærkvöldi ... það var eins og við hefðum talað saman í svona hálftíma þegar samtalinu lauk.

---

Nýja árið hefur verið okkur hliðhollt það sem af því er liðið og ef það heldur svona áfram gæti þetta bara orðið eitt besta ár ævi minnar.

Síðasta ár var það nú ekki alveg og segja má að maður hafi kvatt það með glans ... eða þannig ... við buðum Sverri, Jónda og Dönu í hátíðarmat á gamlárskvöld. Þríréttað í tilraunaeldhúsinu.

Sveppasúpa í forrétt ... sem var svona ágæt fannst mér ... of mikið piparbragð af henni fyrir minn smekk.

Pörusteik í aðalrétt. Aldrei gert pörusteik fyrr en mikið rosalega leit hún vel út þegar ég tók hana úr ofninum. Brúnaðar kartöflur, Waldorfsallat að hætti hússins og ýmislegt fleira. Reyndar gleymdi ég að kaupa rauðkál ... frekar glatað þegar maður er með pörusteik enda er rauðkál meðlæti nr. 1 í mínum huga.
Það hefði þó sloppið fyrir horn ef snillingurinn sem heldur úti þessari bloggsíðu hefði haft vit á því að kaupa ósaltað svínakjöt!!

Þó pörusteikin hafi litið vel út þegar ég tók hana úr ofninum fannst mér hún samt dálítið rauð ... en ég reyndi að bægja hugsuninni um að einhver skandall væri í uppsiglingu frá mér ...

En það var engin miskunn hjá Magnúsi ...

... framvindunni verður sennilega best lýst með því að segja að á nýjársnótt hentum við Lauga restinni af "saltkjötspörusteikinni með negulnagla- og lárviðarlaufsbragðinu". 


 
Meðan allt lék nokkurn veginn í lyndi ...

Sverrir og Dana voru samt ósköp góð við okkur, sögðu að þetta væri bara gott og stríddu okkur ekkert. Í dag sagði Sverrir að þetta hefði alls ekki verið neinn skandall, en af einhverjum ástæðum væri hann búinn að syngja "Saltkjöt með pöru ... túkall!!!" síðan á nýjársnótt.

Í eftirrétt var svo einhver réttur sem Lauga bjó til og tókst hann ljómandi vel ... klárlega það besta á matseðlinum það kvöldið.

---

Svo var Skaupið bara mjög gott fannst mér ... á eftir að horfa á það aftur.  Mér fannst Noregsbrandarinn frekar vondur þarna um kvöldið en eftir því sem ég hef pælt í því atriði hef ég eiginlega komist að því að meiningin hafi ekki verið að gera grín að þessum hörmungaratburðum í sumar. Miklu frekar hafi ætlunin verið að skjóta á þessa gríðarlegu þörf fólks, ekki bara Íslendinga, um að halda að grasið sé alltaf grænna hinum megin.

Noregur er í hugum margra Paradís á jörð en einmitt þar gerast svona martraðaratburðir ... 

Þeir geta í sjálfu sér gerst hvar sem er ...

En Íslendingar vilja oft gleyma því að Ísland hefur gríðarlega marga kosti. Bara svona til að nefna einn sem örugglega fæstir hugsa um.
Á Íslandi hafa allt fram á þennan dag fáir þurft að hafa áhyggjur af skógarmítlum, þ.e. blóðsugum sem líma sig á spendýr og þá auðvitað á menn og geta borið með sér bakteríur sem valda skaða á taugakerfinu.

Þessi kvikindi eru mjög algeng hér í Svíþjóð og ég segi það fyrir mig að tilvist þeirra spillir mjög fyrir upplifun minni í náttúrunni hérna. Ég á ekki von á öðru en kvikindin finnist líka í Noregi. 

Þegar við bjuggum í Ástralíu þurfti maður sífellt að hafa augun á sér varðandi einhver kvikindi. Andskotans kakkalakkarnir í eldhúsinu hjá okkur, já og maurarnir.

Þó mítlar og kakkalakkar, já og kannski maurar finnist á Íslandi er það, enn sem komið er, ekki í neinni líkingu við víða annars staðar.

... og það er alveg hrikalega mikill plús!! 

--- 

Jæja ... hérna átti að koma voðalega fín nýjársdagsmynd af snillingunum hér á heimilinu ... ef ég hefði ekki þurrkað myndirnar út af minniskubbi myndavélarinnar núna í kvöld.

Maður er bara í því að gera það gott :) .

En þetta er mynd dagsins í dag.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk kærlega fyrir spjallið ... sem virtist ekki mínútu lengra en 30 mín þó það hafi staðið yfir í 240 mín! Maður er alltaf endurnærður eftir svona smá spjall við þig

Þetta er frábært: Saltkjöt með pöru ... túkall :)

Stjóri (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband