Að búast við því versta ...

Flestir kannast örugglega við að hafa heyrt einhvern segja, sérstaklega þegar eitthvað mikið stendur til að viðkomandi "voni það besta en búist við því versta".  Strákur hittir stelpu og verður spenntur fyrir henni - "hann vonar það besta en býst við því versta", stelpa á að syngja á skólatónleikum - "hún vonar það besta en býst við því versta", Siggi fer í ævintýraferð til Afríku - afi og amma "vona það besta en búast við því versta.  Dæmin eru endalaus ...

Hvað er þetta að "vona það besta og búast við því versta"?  Má ekki bara "búast við hinu besta"? "Nei", segja sumir, "þá er úr svo háum söðli að detta ef hlutirnir ganga ekki upp".  En af hverju vilja menn ekki detta úr háum söðli?  Það liggur náttúrulega alveg ljóst fyrir - hærra fall leiðir væntanlega af sér meiri skaða.  Það er náttúrulega bara púra lógík!

En af hverju þarf alltaf allt að vera svona lógískt, sérstaklega ef það rýrir tilveruna.  Lítum á eftirfarandi jöfnu: Engin vonbrigði = engin gleði!!  Er það þess virði að fórna gleðinni fyrir það að verða ekki fyrir vonbrigðum? 

Kannast þú við að hafa verið með höfuðverk? Alveg dúndrandi höfuðverk sem svo líður hjá og allt í einu blasir lífið við, þó ekki sé nema í eitt andartak.  Allt í einu er rigningin orðin æðisleg og plokkfiskur frábær matur, bara vegna þess að höfuðverkinn er farinn.  Þetta er allt annað líf!!!  En hvað hefur gerst?  Það hefur svo sem ekkert gerst því þetta er bara lífið í hnotskurn, eðli tilverunnar - stundum er fúlt en stundum er skemmtilegt!  Með öðrum orðum er það breytileikinn, sveiflurnar, átökin, reiðin, fyrirgefningin, gleðin, vonbrigðin, ánægjan, höfnunin og allt það sem gefur lífinu gildi.  Maður sem aldrei hefur fengið höfuðverk, veit ekkert um hversu gott það er að vera ekki með höfuðverk.  Sá maður sem aldrei upplifað vonbrigði, þekkir ekki ástandið "glaður".  Vonbrigði, sársauki, eftirsjá, reiði, leiðindi eru auðvitað ekkert eftirsóknarverðir "fyrirbæri", en nauðsynleg til færa manni hið gagnstæða, gleðina, skemmtunina og ánægjuna.

Að leyfa sér "að búast við því besta" gefur þér því tækifæri til að lifa margbreytilegu lífi, þar sem allt litrófið fær að vera með.   "Að búast við því besta" er samt engin trygging fyrir því að hlutirnir gangi alltaf upp en hinsvegar er það trygging fyrir því að sífellt styttist í að aftur rofi til og sólin skíni á nýjan leik.

Það er nú svona ... Múrenan slær botninn í umræðuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband