26.1.2011 | 21:45
Miðvikudagur 26. janúar 2011 - Lauga að gera það gott
Lauga er gjörsamlega að brillera í vinnunni ... hún er í verknámi núna á augnskurðstofunni ... og fær svo mikið lof fyrir frammistöðuna að hún kemur heim á hverjum degi 10 cm hærri en þegar hún fer út á morgnana.
... og ég fæ að vita allt ... auðvitað.
Stundum er það sem hún segir mér mjög áhugavert ... eins og t.d. það að mögulegt er að láta hjartað hætta að slá ef maður togar of fast í einn tiltekinn augnvöðva, en þeir eru, eftir því sem mér skilst, sex talsins.
Þetta finnst mér merkilegt ...
Stundum eru frásagnirnar út og suður, eins og t.d. í matnum í kvöld ...
... eftirfarandi frásögn gerði nákvæmlega engin boð á undan sér.
"Já og heyrðu ... svo þurftum við að senda aftur niður í "centralið" 40 pakka. Þá var hitinn í þessu of hár hjá okkur ..."
"Nú?"
" Já, þetta var greinilega alltof heitt ... og hún var ánægð að það var bent á þetta."
Ég hallaði undir flatt og lyngdi aftur augunum.
"Hvað nennirðu ekki að hlusta á þetta?"
"Nei, eiginlega ekki ... "
"Af hverju ekki?"
"Af því að ég skil ekkert í því sem þú ert að segja ... "
"Hvað skilurðu ekki?"
"40 pakkar?? Er það mikið eða lítið?"
"Það er rosalega mikið!!"
"Ok ... og hvað er í þessum pökkum? Hvað er þetta "central"? Hvaða hún var ánægð? Í hverju var of mikill hiti o.s.frv. ... þú talar bara eins og ég sé innsti koppur í búri á þessum spítala!!!"
"Já ... ok ... ég skil þegar þú segir þetta ... (þögn) ... heyrðu, Guðrún borðaði víst tvær pönnukökur á leikskólanum í dag ... "
---
Í kvöldmatnum lagði Guddan sig fram á borðið og sofnaði á mettíma ... rétt eftir að hún var búin að lýsa því hátíðlega yfir að hún væri ekkert þreytt og ætlaði að fara að sofa "á molgun" (svo þetta sé haft algjörlega orðrétt eftir fröken hátign).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.