Færsluflokkur: Bloggar

Föstudagur 15. júní 2012 - Svíar fara heim

Þá eru Svíar á leiðinni heim úr EM 2012 eftir tap gegn Englendingum 3-2. 


Mellberg skorar annað mark Svía og breytir stöðunni í 1-2. 

Gamla kempan Henrik Larsson, einn sá sprækasti sem Svíar hafa alið, var ekki mjög hress í ráðgjafahlutverkinu á TV4 eftir leik. Sama má segja um hinn ráðgjafann, Bojan Djordjik.
"En fótbolti er fótbolti", sagði Larsson.

Og núna er búið að draga forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt inn í stúdíó að ræða málin ásamt fleirum og allir frekar spældir. Kannski skiljanlega ;) .

 

---

Lauga hefur verið iðin við að horfa á leikina á EM 2012. Það hefur satt að segja komið mér mjög á óvart. Hún hefur hingað til ekki verið mjög áhugasöm um fótbolta.
En hún situr í sófanum og dæmir aukaspyrnur og stundum víti (jafnvel úti á miðjum velli), spyr hvernig rangstaðan virkar, hampar því sem vel er gert, bölvar mönnum fyrir grófan leik og lélegar sendingar og flissar hneyskluð þegar skotin geiga.

---

Sonurinn veit ekkert betra en poppkorn og vínber. Jú, kannski að komast í súkkulaði. Í kvöld var margt af þessu í boði meðan horft var á leikinn. Drengurinn þvældist hringinn í kringum stofuborðið í leit sinni að einhverju bitastæðu.  

Samfara því skrapp hann nokkrum sinnum að sjónvarpsskjánum, var algjörlega fyrir meðan hann klappaði glaðlega á skjáinn. Eftir að vera fyrir í dágóða stund, beindist fókusinn yfirleitt að ljósinu sem gefur til kynna að tækið sé í gangi og takkanum við hliðina á ljósinu sem er til að slökkva á tækinu. Honum hefur ekki enn tekist á slökkva en það er tímaspursmál.

Hinsvegar er hann búinn að uppgötva appelsínugula takkann á fjöltenginu sem tengir tölvuna mína við rafmagnið.
Það er afar "þakklátur" gjörningur þegar hann ýtir á þann takka meðan vinna á tölvuna stendur sem hæst.  
GHPL ákvað í dag að prófa að ýta á takkann. Ég skyldi ekki hvur fjárinn var að gerast þegar tölvan allt í einu gaf upp öndina. Ég leit á GHPL sem horfði til baka með var-ég-að-gera-eitthvað-sem-ég-má-ekki-gera?-svipnum. Svo vissi hún upp á sig skömmina og fór að gráta án þess að ég hefði nokkurt tækifæri til að setja ofan í við hana.

Meðan á fyrri hálfleik stóð í kvöld horfði heimasætan á Strumpana - með ungversku tali held ég. En henni er slétt sama um það. Í síðari hálfleik fóru hins vegar leikar að æsast, bæði hjá henni og á sjónvarpsskjánum.
Leikmenn tóku að raða inn mörkum og dóttirin tók að raða inn beiðnum um hvers kyns þjónustu. Hún var alveg að pissa í buxurnar og því átti ég að ná í kopp fyrir hana, ég átti að hella poppi í skál fyrir hana og tína upp mylsnurnar af gólfinu. Á meðan var skorað. Svo átti ég að ná í náttkjól fyrir hana og mjólk að drekka. Aftur var skorað. Ég átti að hjálpa henni að klæða sig úr og í og strjúka henni eftir að hún lagðist fyrir í sófanum. Meðan ég var að vasast í því var skorað. Þá vantaði sæng en þá sagði ég stopp ... Lauga náði í sængina. Ekkert gerðist í leiknum á meðan.

"En fótbolti er fótbolti", sagði Henke Larsson ... og það er rétt, það er ekki spurt að því hvort maður sé fyrir framan skjáinn eða frammi í eldhúsi að sækja mjólk í "bleika pjéla" eins og GHPL kýs að kalla stútkönnuna sem hún hefur tekið ástfóstri við. 

Í lokin ... maðurinn sem landslið Svía í fótbolta snýst um ... Zlatan Ibrahimovic í viðtali eftir leik ... 

 


Þriðjudagur 12. júní 2012 - Uppeldi

Í kvöldmatnum þráaðist Guddan við að borða. 

"Guðrún mín, borðaðu nú matinn þinn."
"Nei!"
"Svona láttu nú ekki svona ... borðaðu matinn."
"Ég er búin að segja nei!"
"Svona ... !"
"Ég er búin að segja NEI!!"

Einhvern veginn tókst mér nú samt að fá hana til að taka til matar síns og lauk hún af disknum án teljandi fyrirhafnar. Þá stóð hún upp af stólnum og hugðist ganga inn í stofuna, en sneri svo við, leit á mig og sagði:

"Ég verð reið þegar þú lætur svona! Heyrir þú það?!? Ég verð reið þegar þú lætur svona!"

Svo gekk hún til stofu.

Annars hefur dagurinn bara verið hinn besti ... 


Mánudagur 11. júní 2012 - Sænskt tap en sigur hjá Vaksala Vets

Þessi dagur hefur nú farið í allt annað en að vinna ... 

... eftir að hafa gætt barna og buru í fram yfir hádegið, lagði ég ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum land undir fót og skrapp til Örsundsbro að skoða íbúð. Ágætis díll virðist vera þar á ferðinni en satt að segja er ég ekkert of bjartsýnn með að við löndum þessari ...

... sem skiptir kannski ekki máli. Það verður þá bara eitthvað betra sem bíður okkar ... ekki vafi.

Eftir að hafa dvalið dágóða stund í Örsundsbro, var farið heim, unnið svolítið, fengið sér að borða og loks var komið að fyrsta leik Svía á EM 2012. Ekki gat maður látið það framhjá sér fara.

Sæmilegur leikur og Svíar hefðu vel mátt setj'ann í lokin en það tókst hinsvegar ekki þannig að þeir töpuðu 1-2 fyrir Úkraínu.

---

Í gær var hinsvegar leikur hjá okkur í Vaksala Vets, sem er nokkrum styrkleikaflokkum fyrir neðan sænska landsliðið hvað getu snertir.

Við gerðum góða ferð til Almunge og unnum "geysisterkt" lið  Funbo með tveimur mörkum gegn einu. Leikurinn fór fram á grasi og mikið andsk ... voru það mikil viðbrigði frá gervigrasinu sem vanalega er spilað á. Mér fannst ég vera svona 20 kg þyngri en ég er í raun og er það þá orðin talsverð þyngd sem hér um ræðir.

Hef klárlega spilað betri leik á ævinni en örugglega líka verri leik en því miður fór ég ekki almennilega að skemmta mér fyrir en í seinni hálfleik.

En nú eru komnir tveir sigurleikir í röð hjá Vaksala Vets og einn leikur eftir fyrir sumarfrí. Ég man ekki hvað liðið heitir sem við eigum að spila á móti næsta sunnudag en ég man samt að við töpuðum 9-2 fyrir þeim í fyrra. Það tap er það mesta og besta sem ég hef upplifað á mínum fótboltaferli. Sjálfur skoraði ég annað mark okkar og breytti þá stöðunni í 2-2 en eftir það opnuðust allar flóðgáttir ...

Eftir leikinn kom svo í ljós að íþróttahúsinu hafði verið læst og þar með tapaði ég skónum mínum sem stóðu, fallega uppraðaðir í skóhillunni, handan við læstu glerhurðina. Af einhverri rælni hafði ég álpast til að taka fötin með mér út á völl ... man ekki ástæðuna ... en skilið skóna eftir.  

Sjónstöðvarnar í mér hafa ekki greint þá skó aftur og mun sennilega ekki gera héðan af.


Laugardagur 9. júní 2012 - Afmælisveislan

Í dag var afmælisveisla ... fyrsta alvöru afmælisveislan hjá dótturinni.

Þess vegna er ótrúlega spælandi að video-ið sem tekið var af henni að blása á kertin þurfti að sjálfsögðu að eyðileggjast. Ástæða þeirrar eyðileggingar er eitthvað sem myndavélin ein getur gert grein fyrir.

En hér mættu góðir gestir í kökur og með'í.

Lauga bakaði einhverja merkustu köku sem um getur ... en það var fjögurra hæða prinsessuterta. Guddan var alveg sátt við það.

 

Um klukkustund fyrir afmælið leit það ekki björgulega út með prinsessutertuna. Jafnvel var rætt um að koma henni bara einhvers staðar fyrir á góðum stað meðan afmælið færi fram. En svo var reynt til þrautar og útkoman harla glæsileg.

Það er ljóst að það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur að þessu sinni ... ;) . 

 

Svo var þessi bökuð líka og afmælisbarnið sjá um skreytingarnar.

Þegar skreytingin átti sér stað, stóðst afmælisbarnið ekki málið og sleikti nokkra mola áður en hún hugðist setja þá á kökuna, en var búið að koma henni í skilning um að hún ætti ekki að raða molunum í sig.

Það komst upp um strákinn Tuma og sagði móðirin að hún mætti alls ekki sleikja molana áður. "Ef þú sleikir molana þá verður þú að borða þá", sagði hún.
Ég kímdi enda ekki alveg sannfærður um að þessi regla myndi skila tilætluðum árangri. 

Afmælisboðið gekk ljómandi vel og ekki að sjá annað en að afmælisbarninu, foreldrum og gestum líkaði það hið besta.
Margar góðar gjafir bárust og kunnum við öllum miklar þakkir fyrir þær.

 


Fimmtudagur 7. júní 2012 - Guddan 4 ára

Nú er heimasætan orðin fjögurra ára ... hreint með ólíkindum hvað tíminn líður.

Man þegar hún fæddist hvað mér fannst langt þangað til hún næði þessum merka aldri.


Myndin tekin í Stadsträdgården í dag

Það hefur nú ýmislegt á dagana drifið á árinu og verður það tekið saman í afmælismyndbandi sem nú er í vinnslu.

Maður er kominn með þetta allt saman á hælana sökum anna við hin ýmsu störf.

Til hamingju með afmælið, elsku Guddan okkar!! 

 


Miðvikudagur 6. júní 2012 - Þjóðhátíðardagur Svía

Eftir gott morgunkaffi var ákveðið að fara í bæinn.

Allir fóru í svona sæmileg föt enda leit veður út fyrir að vera hið besta, hálfskýjað og bara góður lofthiti.

Í strætónum benti ég GHPL á bensínstöð eina og sagði henni að þarna fengju bílarnir sér að drekka. "Já, já" sagði sú stutta eins og það væri henni fyrir löngu kunnugt. 
"Veistu hvað bílarnir drekka?" spurði ég þá.
"Tómatsósu!!" var svarið og þar með lauk umræðunni af minni hálfu, enda allt sagt sem segja þurfti.

Þegar niður í bæ var komið tók að rigna. Úrhelli.

 

Og ekkert annað að gera en að drífa sig inn í eitthvert mollið niðri í bæ. Að skoða í búðir voru sum sé "skemmtiatriði" dagsins í dag meðan húðrigndi.

Við skruppum svo á kaffihús.

Upp úr klukkan 5 var hægt að voga sér út aftur og tókum við stóran útúrdúr á heimleiðinni - út í Ekeby og Eriksberg enda var þá sólin farin að skína á nýja leik.

 

"Óþjóðhátíðarlegasti dagur sem ég hef upplifað" var einkunnin sem Lauga gaf. Jú, það er töluvert til í því. Mæta of seint í hátíðarhöldin og svo rignir eldi og brennisteini loksins þegar maður lætur sjá sig. 

Engu að síður var þessi dagur hinn besti ... þannig að ekki misskilja það :) . 


Þriðjudagur 5. júní 2012 - Íbúð landað

Það tókst loks að landa íbúð í dag. Hlaut að koma að því.

En það var ekki áreynslulaust.

Lauga fór eftir vinnu í gær og náði í GHPL á leikskólann. Hélt svo áfram sem leið lá til þeirrar ágætu konu sem á þeim tíma var hugsanlegur leigusali.

Raunar hafði allt ballið byrjað á laugardagskvöldið kl. 22.45 þegar Lauga hringdi í konuna til að tilkynna áhuga sinn. Að hringja kl. 22.45  í Svíþjóð jafngildir örugglega því hringja í einhvern kl. 00.45 á Íslandi. Ekki beint viðeigandi ... en þar sem hart er bitist  um hverja íbúð sem býðst hér í Uppsala er betra að vera ekki að láta slík formsatriði vefjast fyrir sér.

Konan tók erindinu fremur fálega í fyrstu en Lauga náði henni á flug og loks var ástandið orðið þannig að það var nánast ómögulegt að losna við hana úr símanum. Þegar það loks tókst, leið ekki á löngu þar til okkur barst tölvupóstur og í honum var að finna um það bil 20 atriði sem við yrðum að fallast á ef við ætluðum að láta okkur svo mikið sem dreyma um að landa þessari íbúð.

En jæja ... í gær var sumsé fundur með konunni. "Ætli maður verði ekki svona tíu mínútur korter, eitthvað svoleiðis" sagði Lauga þegar við ræddum um fundinn fyrirfram.
Kl. 1500 mætti Lauga og til að gera langa sögu stutta, þá slapp hún út aftur kl. rétt fyrir kl. 18. Þá voru bæði börnin búin að taka sér góðan blund. Óhætt er að segja að málin hafi verið rædd út í hörgul.

Niðurstaðan var sú að íbúðin væri okkar, ef við vildum og ef við gætum uppfyllt þær kröfur sem settar voru upp. Ef allt gengi upp, fyrirskipaði konan að þær Lauga myndu hittast kl. 13 í dag og ganga frá málunum. Skipti þar engu um hvort sá tími hentaði Laugu eða ekki. 

Þegar 100 manns eru búin að lýsa yfir áhuga á að fá íbúð og maður er sá sem er að landa henni, getur sennilega lítið rifið kjaft þannig að ...

Eftir að hafa hringt í að ég held, alla meðmælendur sem við gáfum upp sem voru örugglega ekki færri en 10, hringt í bankann, flett upp launagreiðslum Laugu síðustu 12 mánuðina, hringt í sálfræðideild Uppsala háskóla til að fá það staðfest að ég væri á skráð þar og væri með sænska kennitölu, ásamt ganga úr skugga um nokkur atriði í viðbót, gat konan sannfærst um að við værum fólk sem óhætt væri að leiga út íbúð.

Hún hitti Laugu kl. 13 og þá tók við tveggja klukkutíma samningsgerð, þar sem öll "helstu" atriði voru vandlega skráð s.s. númer á húslyklum, moppa sem við megum nota til hreingerningastarfa og fata, en allir þessir hlutir ásamt fleirum eru hluti af "dílnum".

Svo var komið að því að afhenta lykla en það varð að gerast alveg með sérstökum hætti. Hún vildi fara með Laugu í bankann til að fá útprent af stöðunni á reikningnum hennar til að sjá hvort hún ætti fyrir tveggja mánaða leigu og tryggingu. Þegar hér var komið sögu var hinsvegar búið að loka bönkunum en þessi ágæta kona vildi engu að síður rölta á milli sem flestra útibúa til að fullvissa sig um að þau væru öll lokuð.  Það var einmitt á því rölti sem ég varð beinn þátttakandi í þessari atburðarrás en ég sat í 7-unni á leiðinni heim þegar ég rak augun í þær. Ég og afkomendurnir stukkum út úr vagninum og hlupum þær uppi.

Þá var mér tilkynnt að þær væru á leiðinni á bókasafnið til að komast í tölvu svo Lauga gæti millifært. Þangað var farið og þá þurfti að hanga þar í hálftíma, þrjú kortér meðan sú atburðarrás átti sér stað. Lauga lýsti því fyrir mér hvernig konan hefði andað ofan í hálsmálið á sér meðan hún var í internet-bankanum. Peningurinn rann á milli reikninga og þá sagðist konan myndi vilja fara heim og tékka hvort peningarnir væru ekki örugglega komnir áður en hún léti okkur fá lyklana ... og það jafnvel þó hún hefði í höndunum útprentun af millifærslunni þar sem reikningsnúmer komu fram. Þá sagði fröken Sigurlaug stopp og fékk lyklana.

Loks þegar þetta var frágengið, bað blessuð konan um að fá að taka mynd af okkur. Sagðist vilja fá mynd til að sýna fjölskyldunni. Meðan myndin var tekin, hugsuðum við Lauga það nákvæmlega sama: "Þá er hún komin með mynd af okkur sem send verður lögreglunni umsvifalaust ef eitthvað kemur upp á".

Þessu umstangi öllu lauk upp úr klukkan 16.30 og var þá búið að taka samanlagt hátt í heilan vinnudag hjá Laugu og mér varð mjög lítið úr verki í dag, því ekki var hægt að láta blessuð börnin ganga sjálfala.

Og kvaddi hún okkur svo með þeim orðum að ef við myndum einu sinni klikka á því að borga á tilsettum tíma þá væri þetta búið ... 

Svona er nú hægt að gera einfalda hluti flókna ...

... eftir að við komum heim þurfti Lauga að leggja sig ... "orkusuga, þessi manneskja! Sennilega nákvæmasta manneskjan í heiminum! Ég er með dúndrandi hausverk!


Laugardagur 2. júní 2012 - PJPL í aðalhlutverki

Sonurinn hefur verið að gera ágæta hluti í dag ...

... í örstutta stund komust litlir fingur í lyklaborðið á fartölvunni og hvað gerðist? 

Jú, litlu fingurnir sendu tölvunni skipun um að snúa skjámyndinni á hvolf ... líkt og sjá má á myndinni.

Það tók tíma sinn að lagfæra þetta.

Með þessu fetaði sá stutti í fótspor systur sinnar, sem sneri skjámyndinni 90° þegar hún slapp í tölvuna hjá ömmu sinni og afa á Sauðárkróki í kringum jólin 2008. Þá tók enn lengri tíma að finna út úr hlutunum.

Í kvöld vildi PJPL endilega komast upp í sófann í stofunni. Í viðleitni sinni til að komast þangað sneri hann bakinu í sófann, hallaði höfðinu aftur og teygði hendurnar upp fyrir höfuð ... sbr. mynd hér fyrir neðan ...

Maður verður bara að vona að verkvitið eða hvað maður skyldi kalla það, skáni með aukinni reynslu ... en það var alveg ljóst öllum öðrum en honum sjálfum að þessi aðferð er gjörsamlega vonlaus.

En svo var honum hjálpað aðeins og þá var gaman ...

 

Og á þessari mynd má sjá herramanninn taka til hendinni í eldhúsinu. Er þarna með sína eigin "eldavél", pott og allar græjur.

Þessi eldamennska endaði þó með svolitlum látum því litli kokkurinn, á einhverjum tímapunkti, leit snögglega við til að sjá hvað væri að gerast bakvið sig, missti jafnvægið, snerist hálfhring, kútveltist og endaði með einhverjum snilldarhætti liggjandi ofan í pottlokinu sem sést á myndinni. Hreint óborganlega sena.

Okkur Laugu finnst þessi ungi maður oft minna töluvert á Peter Sellers í Bleika pardus-myndunum eða Leslie Nielsen í Naked gun-myndunum, svo ég tali nú ekki um snillinginn Chris Farley í myndinni Beverly Hills Ninja. Það er bókstaflega ekkert að gerast, allt í friði og spekt. Svo á sér stað eitthvert ofurlítið atvik. Við því er brugðist sem verður til að í gang fer einhver keðjuverkun. Eitt leiðir af öðru og skyndilega er allt í hers höndum. Um gólfin er kútveltst og öllu sem í vegi verður er rutt um koll án þess að nokkur fái rönd við reist. Svo þegar gauragangurinn er yfirstaðinn, þannig að það beinlínis rýkur úr rústunum, stendur okkar maður upp og heldur áfram iðju sinni ... eins og ekkert hafi í skorist. 

Svo eru tvær að lokum af systkinunum sem nú keppast um að fá að sitja fyrir borðsendanum í Trip-Trap stólnum. 

 

 


Fimmtudagur 31. maí 2012 - GHPL og PJPL

"Nú þurfum við að borða morgunmat", sagði ég við dótturina í morgun.
"Já", svaraði hún.
"Hvað viltu fá að borða?"
"Fisk!"
"Fisk?!? Í morgunmat?"
"Já ... ég elska fisk!"

Svo mörg voru þau orð.

En fisk fékk hún þó ekki í morgunmat enda ekkert slíkt til í býtibúri heimilisins á umræddum tímapunkti. 

---

Í kaffitímanum í dag skrapp GHPL á klósettið ... "alveg sjálf" eins og flestir heitir þessa dagana.

Eftir dágóða stund kemur þetta sígilda "kall": "BÚIN!!!"

Ég stend upp og gríp í húninn á baðherbergishurðinni - sú stutta er þá búin að læsa að sér. Maður verður jú að hafa næði.

"Guðrún, verður að opna ..."

"Get það ekki ... ég var að pissa!!"

Snillingur þessi dóttir!!

--- 

Í kvöld sá hún svo grindahlaup í sjónvarpinu og uppveðraðist heldur betur ... "Mamma, mamma!!  Komdu og sjáðu!!  Fólkið að hlaupa og hoppa mjög mikið!!
Svo var tekið til óspilltra málanna. Bók, strump, púsluspili og púða var raðað upp með jöfnu millibili á gólfið og svo tók dóttirin tilhlaup og hoppaði yfir "hindranirnar" ("alveg sjálf!!") ... alveg þangað til hún í eitt sinn dreif ekki yfir púðann, sem rann undan henni og hún valt um koll!!  

Reiðikast ... "DET GÅR INTE!!!!" öskraði hún með samankreppta hnefana og á eftir fylgdi mikið reiðihljóð - púðinn flaug upp í loftið og lenti á eldhúsborðinu og hér um bil ofan í matnum ...

Þetta jafnaði sig samt fljótt ... en grindarhlaupsæfingar lögðust af. Þess í stað fór hún að æfa það sem sigurvegararnir á frjálsíþróttamótum gera oft ... en það er að hlaupa sigurhring með blómvönd í hendi ... hátt á lofti. GHPL greip því afganginn af agúrkunni sem lá á borðinu, lyfti honum hátt til lofts og tók að hlaupa í hringi. Hún fannlíka geit, svona litla plastgeit og hélt á henni í hinni hendinni. Hátt á lofti. Tilgangur geitarinnar er enn óljós ...

---

Stubbur hefur hins vegar tekið hlutina öðrum tökum. Hann er búinn að vera veikur núna í 2 daga og hafði af fjölskyldunni siglingu til Riga sem búið var að skipuleggja og kaupa með ærinni fyrirhöfn. Ég er búinn að skrifa það hjá mér og mun gera það upp við hann þegar hann hefur vit til að skilja hvar Davíð keypti ölið. 
GHPL bíður reyndar líka eftir að læra sína lexíu síðan hún hafði af okkur Tyrklands- og Grikklandsferð hér um árið, þegar hún tók sótt mikla í Hong Kong þegar við vorum að fljúga heim frá Ástralíu. Kyrrsetning í 6 fermetra hótelhergi í Hong Kong í viku ... geymt en ekki gleymt! ;)

Nú þarf að vinna í því að fá Riga-ferðina endurgreidda ... ætti nú samt ekki að verða mikið mál.

Nafni sveiflast á milli þess að vera slappasta barn í veröldinni og yfir í að vera hressasta barn í veröldinni.
Þegar hann er slappur þá heimtar hann að liggja á bringunni á manni, og maður má ekki hreyfa sig baun án þess að það kosti töluverð leiðindi og greinileg óþægindi fyrir hann ... að hans eigin mati að sjálfsögðu.
Svo fær hann nettan stíl upp í óæðri endann og að nokkurri stund liðinni, verður allt skínandi bjart og fagurt. Skælbrosandi og skríkjandi, veður hann um öll gólf og leikur við hvurn sinn fingur. Og æðir hiklaust út á svalir ef einhver hefur álpast til að opna þangað út, svona til að láta lofta aðeins um íbúðina. 
Loks fellur allt í fyrra horf ... stíllinn hættir að virka og allt verður á svipstundu ómögulegt ...

Svona gengur nú lífið fyrir sig á þessum bænum. 


Þriðjudagur 29. maí 2012 - Hæfnin að bregðast við

Þá er maður rétt að jafna sig eftir sigurinn í Eurovision ... búið að vera stanslaust geim síðan á laugardagskvöld.

Sunnudagurinn fór í að leggja lokahönd á grein sem send var til vísindatímarits í gær ... loksins!!  Það var ákaflega ánægjulegur áfangi svo ekki sé meira sagt.

Núna þarf bara að vinna að síðustu greininni fyrir doktorsverkefnið og var hafist handa við það í dag af töluverðum krafti. Reyndar var ég búinn að vinna töluvert í henni síðastliðið haust en núna er allt tekið mun fastari tökum. Hún verður að skrifast á mjög skömmum tíma ef markmið mitt um að skila inn doktorsverkefninu þann 31. ágúst á að nást.

--- 

Húsnæðisleitin ætlar engan endi að taka og er það vel enda fátt skemmtilegra en að leita á húsnæði á markaði þar sem lítið sem ekkert framboð er til staðar. Þetta setur alveg auka vídd í tilveruna.

Svo er spurningin um hvað taki við af doktorsnáminu farin að verða nokkuð áleitin og einhverjar hugmyndir teknar að fæðast ... það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

---

Ég hef lítið sett fram "gáfulegar" pælingar upp á síðkastið, þannig að hér kemur ein.

Ég var að lesa pistil sem fjallaði um mikilvægi þess að þróa með sér hæfni til að bregðast við. Þrælathyglisvert.
Höfundurinn tók sérstaklega fyrir þær aðstæður þar hlutirnir ganga ekki eins og helst er á kosið. Hann sagði alveg merkilegt hvað skortur á hæfni við að bregðast við slíkum aðstæðum væri almennt mikill hjá fólki. Sem er alveg rétt.
Hvað gerir maður yfirleitt þegar hlutirnir ganga ekki eins og maður vill að þeir gangi? Jú, maður verður pirraður, reiður og byrjar svo að kenna öllum og öllu öðru en sjálfum sér um.  Hvað segir maður ef maður skíttapar fótboltaleik ... "þetta var nú meira dómarafíflið!" eða "þessir drengir í þessu liði þeir geta bara ekkert" eða eitthvað annað ...

Mín hæfni á þessu sviði er ekki góð ... svo mikið er víst ... það þarf nú oft ekki mikið til að maður fuðri upp. Sjaldnast er það þó sjálfum mér að kenna ;) .

Það er í raun alveg rosalega skrýtið að maður velji þennan kost jafn oft og raun ber vitni ... í stað þess að æfa sig. Líta á "mótlætið" sem prýðisgott tækifæri til að auka hæfnina í því að bregðast við á sannfærandi og uppbyggilegan hátt.
Með því að hafna þessum tækifærum er maður í raun að kasta mjög nytsamlegum hlutum frá sér. Það að hafa hæfileika á einhverju sviði er í flestum tilfellum jákvætt ... skyldi maður ætla.

Ef maður hefur hæfni til að bregðast vel við mótlæti, hlýtur maður að vera betur í stakk búinn að mæta því. Eftir því sem maður er betur í stakk búinn að mæta því, því líklegra er að maður geti breytt hlutunum þannig að líklegra sé að þeir falli manni í geð.

Ef maður hinsvegar kennir alltaf öðrum um, þá er maður um leið að segja að aðrir verði að breyta hlutunum þannig að þeir falli manni sjálfum í geð. Með öðrum orðum, líðan mín eða vanlíðan er því orðin háð því að aðrir geri eins og ég vil. Ég er því orðinn bjargarlaus. Eins og korktappi úti á rúmsjó.

Þannig að ef ég verð alltaf pirraður á því þegar Guddan neitar að vera í buxum þegar hún þarf að vera í buxum, þá er pirringur minn og pirringsleysi algjörlega háð því hvað GHPL segir á hverjum tíma. Með öðrum orðum, líðan mín eða vanlíðan mín er orðin háð einhverjum dyntum í tæplega fjögurra ára gömlu barni. 
Ég leyfi fjögurra ára gömlu barni að "leika sér" með geðslag mitt en ég leyfi því ekki að leika með fjarstýringuna á sjónvarpinu ... :) 

Af hverju í fjáranum ætli maður kjósi sér þessa leið í lífinu?

Þetta var pæling dagsins ...  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband