Færsluflokkur: Bloggar
2.9.2012 | 22:08
Sunnudagur 2. september 2012 - Eitthvað að gerast
Jæja ... hérna hafa hlutirnir verið að gerast frá því síðast var bloggað.
Þar ber helst að nefna leikskólaævintýrið hjá nafna mínum, sem gengur mjög vel. Hann fær þá einkunn núna að hann sé allur að eflast og styrkjast. Og að auki glaður og hress.
Guddan fær líka ágætis einkunn. Hún er núna búin að kynnast nýrri stelpu á leikskólanum. Sú á ættir að rekja til Gambíu og talar ekki stakt orð í sænsku, bara eitthvað "húgúlúgú"-mál. GHPL talar sænsku og íslensku á móti.
Að sögn viðstaddra ná þær alveg frábærlega saman og spjalla saman með þeim hætti sem ekki nokkur lifandi manneskja skilur nema þær tvær. Það verður að segjast hreint dásamlegt hvað börn geta stundum fundið út úr hlutunum.
Sjálfur er maður á kafi í að skrifa doktorsverkefnið. Það mjakast og jafnvel svo að maður hefur það á tilfinningunni að þetta muni einhvern tímann klárast. Tilfinning sem ég hef svo sannarlega ekki haft á hverjum degi síðustu árin ;) .
En stundum stendur maður upp af stólnum ... eins og t.d. í kvöld þegar ég lék með Vaksala SK gegn Rosersberg. Það þarf nú ekki að orðlengja það mikið ... við stútuðum leikum 7-0. Mótherjar okkar sáu aldrei til sólar og ekki var nú verra að síðuhaldari opnaði loksins markareikninginn sinn. Það var kominn tími til. Hefði svo með réttu átt að fá tvær vítaspyrnur en dómarinn taldi þó í bæði skiptin að að brotið hefði verið svona 1 cm utan við teig.
Þetta var gaman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2012 | 22:40
Mánudagur 20. ágúst 2012 - Dagurinn og helgin gerð upp
Í morgun var ég búinn að klæða systkinin, gefa þeim að borða og undirbúa þau fyrir strætóferðina í leikskólann en átti eftir að klæða mig sjálfan, greiða og tannbusta. Í miðju kafi við að koma mér í buxurnar heyri ég hvar gellur í GHPL þar sem hún stendur tilbúin við útidyrnar:
"Pabbi!! Pabbi!!"
"Já!"
"Drífðu þig ... ég er að missa af strætó!"
Hvað segir maður eiginlega við svona?!?
---
Í dag var fyrsti alvöru dagurinn hjá nafna. Var dagurinn öllum til sóma, því nafni hagaði sér eins og þaulvanur leikskólanemandi. Reif kjaft, lék sér, svaf, neitaði að borða og fór að grenja þegar mamma hans kom að ná í hann.
Svo var hann alveg járnhress þegar heim var komið. Þá var ekið um á "bobby car" og farið í fótbolta með systurinni.
Svo fjaraði fremur hratt undan drengnum ...
---
Snæfríður yfirgaf svæðið í gær ... hélt til Íslands en á laugardaginn ákváðum við að gera okkur dagamun og héldu til Stokkhólms, nánar í Gröna Lund.
Það lukkaðist bara mjög vel en óhætt er að segja að það sé ekkert gefins á þeim staðnum ...
Þar skruppu allir í tæki við hæfi, jæja og þó ... Snæfríður plataði mig í rússibana. Satt að segja hef ég aldrei verið sterkur þegar kemur að svona tívolíum. Held að ég hafi ekki stigið í rússibana síðan í júlí 2003 þegar ég fór eina ferð í skemmtigarðinum Six Flags í New Orleans. Sú ferð fannst mér hreint ekki skemmtileg.
Kannski var það nú ekki til að lyfta stemmningunni að ég var hressilega sólbrunninn og þurfti því að klæðast peysu og átti ekkert annað en flíspeysu. Það var gott að labba um garðinn í nærri 40°C hita í þeirri flík.
En já, það var þá. Ég lét mig hafa eina ferð í "Jetline". Kannski ekki rosalegasti rússibani í heimi en svei mér þá það var bara mjög skemmtilegt. Þannig að ég lét mig hafa að fara eina ferð í "Kvasten". Rosalega var ég samt ringlaður þegar ég kom út úr þessum tækjum ... man ekki eftir að hafa upplifað það fyrr (en ég fékk það staðfest af tveimur læknum í gær að þetta væru augljós merki um að ég væri örlítið tekinn að eldast :) ).
Svo skrapp ég í ferð með GHPL í "Fljúgandi fílana".
GHPL fannst það frábært!
Lauga tók hlutunum aðeins rólegar og skrapp með nafna, já og Gudduna, í fyrstu tívolí-ferð þess fyrrnefnda.
Það var nú sannarlega tæki við hæfi.
Svo var leikur í gærkvöldi - Vaksala vs. Markim/Onesta. Steindautt markalaust jafntefli. Síðuhaldari gat ekki drullu í leiknum. Ótrúlega leiðinlegt að spila heilan fótboltaleik og geta ekkert.
En svona er þetta bara stundum.
Góða í þessu er að við höfum ekki tapað síðustu fimm leikjum sem er ágætt eftir afleita byrjun á mótinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2012 | 22:14
Fimmtudagur 16. ágúst 2012 - Ungmennafélagsandinn og vinsældarkeppnin
Það er svo gjörsamlega vonlaust að setja upp mót við Snæfríði og Laugu.
Þær kunna ekki að keppa. Vorum að spila Yatzy í kvöld og þær fögnuðu alltaf þegar hin fékk gott kast.
Það sama hefur verið upp á teningnum þegar borðtennismótin hafa farið fram.
Ég hef lagt töluvert á mig að benda þeim á að þetta sé keppni og þær séu "andstæðingar" en ungmennafélagsandinn ræður algjörlega ríkjum nema þegar síðuhaldara gengur vel. Þá er talað um "grísalabba" og "monthana".
Ég veit ekki með Snæfríði en Laugu er ekki viðbjargandi. Hún hefur verið svona innstillt í marga áratugi. Hún hefur sagt mér að í hástökkskeppnunum á árum áður hafi hún verið í broddi fylkingar að hvetja þá sem hún sjálf var að keppa við?!?!
---
Í kaffitímanum sagði Guðrún í óspurðum fréttum að Stubbi væri skemmtilegur.
"Nújá" sagði ég. Mig langaði til að kanna þetta mál aðeins betur þannig að ég spurði "er Snæfríður skemmtileg?"
"Jahá" var svarið.
"Er mamma þín skemmtileg?"
GHPL skáskaut augunum á mömmu sína. "Nnnnneeeeeeeeei" sagði hún full efasemda.
"En er pabbi þinn ekki skemmtilegur?"
"Nehei!!!"
Jæja ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2012 | 22:02
Miðvikudagur 15. ágúst 2012 - Borðtennis, stríðni og myndataka
Ókrýndur borðtenniskonungur heimilisins er sá sem þetta skrifar. Síðan flutt var inn á nýja staðinn hafa farið fram mörg einvígi á borðtennisborði heimilisins ... já, það er borðtennisborð í kjallaranum. Af um 200 leikjum sem fram hafa farið síðan á laugardaginn síðasta hef borðtenniskonungurinn tapað einum. Hann var þá líka með bundið fyrir augun.
Í borðtennismóti kvöldsins hélt óslitin sigurganga mánudagsins áfram og hverri viðureigninni af annarri rúllað upp.
Því miður gaf batteríið í myndavélinni upp öndina þegar mynda átti snillinginn en hérna eru mótherjarnir í baráttunni.
---
Af öðrum er allt gott að frétta ...
... GHPL og PJPL eru alveg himinsæl í leikskólanum og í augnablikinu man ég ekki eftir neinu sérstöku af þeim vígstöðvunum.
Dagarnir hjá þeim eru afar langir því Lauga tók Snæfríði í "sight-seeing"-túr í dag, þannig að fjórmenningarnir komu ekki heim fyrr en upp úr kl. 19.30 í kvöld.
Þá var nafni alveg eins og hann var í morgun þegar hann kvaddi í morgun ... þ.e. frekar stúrinn vegna þess að hann var tiltölulega nývaknaður.
Guddan var hinsvegar í banastuði og sagði mér sögu af því þegar hún muldi hrökkbrauðið sitt ofan í mjólkurglasið hjá Viktori vini sínum í kaffitímanum. Einhvern veginn virtist sem svo að henni hefði lítið leiðst það.
Þetta blessaða barn er orðið svo hrikalega stríðið að það nær varla nokkurri átt. Í gær stríddi hún mér svo mikið í búðinni að ég var orðinn alveg kolringlaður og ef Snæfríður hefði ekki verið með til að halda í hendina á mér, veit ég hreint ekki hvað þetta hefði allt saman endað. GHPL hendi endalaust vörum í körfuna hjá mér, faldi vörur fyrir aftan bak og hljóp út um allt og faldi sig.
Lauga heldur því staðfastlega að þetta sé afleiðingin af hátterni mínu, því börnin læri það sem fyrir þeim er haft ... ég veit ekki alveg hvort þetta eigi við rök að styðjast. Mér finnst ég ekki svona rosalega stríðinn.
Á Kaffi Krók á Sauðárkróki í upphafi mánaðarins
Nafni er líka farinn að verða ansi stríðinn en yfirbragð þeirrar stríðni er ögn öðruvísi. Það er nú meira að hlaupa í burtu þegar maður er að reyna að klæða hann og eitthvað í þeim dúr.
Annars er algjör móðursýki það sem helst einkennir hann þessa dagana. Eftir að hafa verið besti vinur minn á Íslandi í nokkra daga hefur kompásinn heldur betur snúist og ég má vera ansi skemmtilegur svo hann nenni að eiga við mig orð.
---
En þessari færslu lýkur með mynd sem Snæfríður tók í garðinum hjá okkur í dag ... skrambi góð mynd verð ég að segja.
Og hér er önnur sem sýnir uppeldisaðferðirnar hér á bæ ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2012 | 22:34
Mánudagur 13. ágúst 2012 - Nafni byrjar í leikskóla
Það hefur náttúrulega heilmikið gerst á öllum vígstöðvum síðan ég sat í sumarnóttinni á Hörgslandi á Síðu og skrifaði blogg.
Þá hafði ég fest kaup á 3G lykli til að geta tengst inn á internetið hvar og hvenær sem væri ... í það minnsta var manni talin trú um slíkt. Annað kom þó á daginn, því annað eins dótarí hef ég varla komist í tæri við.
Bloggið lagðist því útaf ...
... en nú er ég kominn aftur til Uppsala ... og við fjórmenningarnir komnir á mjög fínan stað eftir að hafa sagt "uppáhalds-leigusalanum okkar" upp. Kannski meira um það síðar en ...
... í dag hófst alvaran fyrir alvöru.
Hann alnafni minn fór nefnilega í leikskólann í fyrsta sinn.
Í upphafi dags og með mikið fylgdarlið.
Eftir því sem fréttir herma, gekk fyrsti skóladagur ævinnar nokkuð vel. Stubburinn lék við hvurn sinn fingur og að eina sem skyggði á gleðina var að hann fékk ekki að fara út að leika sér, heldur þurfti þess í stað að fást við kollega sinn sem var afar frekur til fjörsins.
Guðrún fór líka í fyrsta skipti á leikskólann í dag eftir sumarfrí, núna er hún komin á deildina sem hýsir elstu börnin ... hvorki meira né minna. Mér kæmi ekki á óvart ef hlutirnir færu að gerast núna en hún var í það minnsta afar sátt við daginn.
Í lok dagsins þegar systkinin hittust aftur hljóp bróðirinn skælbrosandi með opinn faðminn í átt til systur sinnar og þau föðmuðust mjög innilega að sögn sjónarvotta.
Systkinin í stuði á skólalóðinni eftir annasaman dag.
Læt þetta duga sem fyrsta blogg eftir sumarfrí.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2012 | 01:00
Miðvikudagur 4. júlí 2012 - Á Íslandi
Skrapp í dag og keypti mér 3G-lykil fyrir tölvuna, til að geta farið á netið hvar sem er meðan á Íslandsdvöl minni stendur. Maður er klárlega að verða ansi háður þessi neti.
Sit t.d. núna úti á svölum á Hörgslandi á Síðu ...
... það er ágætisstemmning í því að var úti í sumarnóttinni að skrifa blogg ... held að ég hafi bara aldrei gert það áður. Þannig að þá er það komið á "rekordið" hjá mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2012 | 23:13
Föstudagur 29. júní 2012 - Vikan gerð upp í snarhasti
Þá er síðasti dagurinn hér í þessari íbúð á enda runninn. Ég verð að segja að ég hefði alveg verið til í það að búa áfram á þessum stað ... en svona er þetta bara. Maður á eftir að finna eitthvað enn betra.
Óhætt er að segja að töluvert hafi á dagana drifið síðan síðast var skrifað á þessa síðu ... þannig að hér verður ofurlítið uppgjör.
Síðustu helgi ákváðum við að flytja svolítið af dótinu okkar yfir í nýju íbúðina áður en við lögðum land undir fót. Ferðin lá til Eskilstuna, nánar tiltekið í skemmtigarð þar sem kallast Parken Zoo.
Börnin leika listir sínar á leið til Parken Zoo
GHPL sýndi góða hæfileika þegar hún stökk á milli steina, líkt og sjá má hér.
Nafni tók upp á því að sitja í fyrsta skipti á ævinni í kerru í Parken Zoo
Með flamingóa í bakgrunni
Eftir að hafa skoðað þar alla króka og kima, fórum við og fengum okkur pizzu, héldu svo til Strängnäs þar sem við tókum nokkrar góðar syrpur. Strängnes kom skemmtilega á óvart ... virkilega skemmtilegur bær, að minnsta kosti í kvöldblíðunni í júní.
PJPL niður við höfn
Guddan brá sér aftur í hlutverk flamingóa
Ferðin var mjög vel heppnuð í alla staði. Sérstök verðlaun fyrir frábæra frammistöðu í ferðinni fékk GHPL. Nafni lenti í öðru sæti sem skýrist fyrst og fremst af litlum kærleik milli hans og bílstólsins sem hann hafi afnot af.
Á sunnudeginum var svo lagt á ráðin og heimsmálin krufin, allt þar til síðuhaldari spilaði sinn síðasta fótboltaleik með Vaksala Vets fyrir sumarfrí. Óhætt er að segja að liðið sé komið á beinu brautina en þá um kvöldið var þriðja sigrinum í röð landað í blíðskaparveðri á Årsta IP vellinum.
Vikan hefur svo farið í taumlausa vinnu hjá öllum og margir skemmtilegir hlutir gerst.
Þetta er nefnilega vikan þar sem GHPL eignaðist vini hér í götunni, vini sem hún fer með út að leika og vini sem koma til heimsókn til hennar. Í dag var t.d. fullt hús af krökkum hér í dágóða stund sem er algjör nýbreytni ... en skemmtileg nýbreytni.
Það er alveg augljóst ef áfram heldur sem horfir að ég verð að pússa mína sænsku allrækilega.
Með vinunum úti á svölum
Að lokum er gaman að segja frá því að fyrsta skipti sá ég mann sem skemmti sér konunglega í eltingarleik ... orða þetta kannski aðeins nánar ... ég er sko að tala um mann sem skemmti sér konunglega einn í eltingarleik.
Auðvitað var það minn ástkæri sonur sem hafði svona sannfærandi ofan af fyrir sér. Hljóp hvern hringinn á fætur öðrum í íbúðinni og heyra mátti í honum skríkjandi af spenningi. Afar skemmtileg og ekki síður athyglisverð sjón.
En svona er þetta ... það verður ekkert blogg á morgun því það er ekkert net í nýju íbúðinni. Á sunnudaginn verður svo haldið til Íslands. Þá verður Ísland komið með nýjan forseta til næstu fjögurra ára.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2012 | 23:19
Föstudagur 22. júní 2012 - Midsommarafton
Í dag er Midsommarafton sem er hátíðardagur hér í Svíþjóð ... allt er lokað og fólk í sólskinsskapi, geri ég ráð fyrir.
Hátíðarhöld eru hingað og þangað ... en við Lauga tókum smá "tvist" á 'etta og vörðum stórum hluta dagsins í að flytja draslið okkar á milli íbúða. Já, nú fer að nálgast sú stund að við yfirgefum núverandi íbúð og flytjum okkur um set.
Af þeim sökum ákváðum við að leigja okkur bíl og hefur hann verið nýttur í dag til flutninga. Við erum alveg hjartanlega sammála um það að það er afar þægilegt að hafa bíl ;) .
Hluti dagsins fór líka í annað ... t.d. að heimsækja Sverri, Jónda og Dönu tvisvar í dag. Í fyrra skiptið ákváðum við að skreppa til þeirra með afmælisgjöf handa Jónda sem einmitt á afmæli í dag. Í þeirri heimsókn duttum við í rúgbrauð og síld, sem einmitt er það sem Svíar eta á þessum mikla degi. Skömmu fyrir brottför okkar var okkur svo boðið í kvöldmat, sem við að sjálfsögðu þáðum með þökkum. Mættum "rúmlega" kl. 19, gæddum okkur á himnesku bolognese-i, fengum afmælistertur og loks var boðið upp á leik Grikklands og Þýskalands á EM. Góður pakki þetta!
Eitt er klárt eftir þennan dag ... nafna mínum finnst ekki gaman í bíl!
Það mátti vart milli sjá hvor okkar var pirraðri í bílferðinni, hann yfir því að vera ólaður niður í barnastól eða ég yfir því að hafa orgin í eyrunum á mér allan tímann sem drengurinn sat í stólnum. Hér er því komið mjög verðugt verkefni fyrir mig ... sem er að halda sönsum meðan sonur minn gólar í bílstól.
---
Guddan hefur átt marga góða spretti síðustu daga. Því miður gleymir maður þeim alltof auðveldlega en hér eru tvö "móment".
"Nei mamma, sjáðu bílinn!!" sagði hún í versluninni Biltema og benti á garðsláttuvél en í Biltema má finna allt frá naglaklippum yfir í hestakerrur.
Dana: "Sjáðu Guðrún, þetta er sprauta eins læknirinn er með!"
GHPL: "Má ég sjá?" Sprautan skoðuð.
Dana: "Hefur þú verið sprautuð?"
GHPL: "Já"
Dana: "Ég var einu sinni sprautuð hérna." Bendir á öxlina á sér. "Viltu sjá?"
GHPL: "Ég er ekki læknir!!" Labbar í burtu.
Svo eru hér tvær samræður sem oft eiga sér stað og eru einhvern veginn með þessum hætti.
Snemma morguns á virkum degi. PJPL og GHPL eru nývöknuð.
PJPL: "Mamma."
GHPL: "Nei, litli bróðir, mamma er að vinna."
PJPL: "Mamma."
GHPL: "Nei, litli bróðir, þú mátt ekki segja mamma, mamma ekki heima, mamma er að vinna!"
PJPL: "Mamma."
GHPL (lítur á mig): "Litli bróðir skilur ekkert. Ég segja honum mamma er að vinna!"
PJPL: "Mamma."
GHPL: "Ooooohhhh litli bróðir. Ég er búin að segja að mamma er að vinna!!!"
Við kvöldmatarborðið.
GHPL: "Nú moste ég aðeins að fara og horfa á sjónvarpið. Svo kem ég aftur og svo fer ég aftur að horfa á sjónvarpið ... ókei?" Býr sig undir að víkja frá borðinu.
Ég: "Hvað segirðu?"
GHPL: "Ég moste fara nu og horfa á sjónvarpið, svo kem ég aftur?"
Ég: "Viltu ekki bara borða núna og horfa svo á sjónvarpið á eftir?"
GHPL: "Nei, nei, ég moste fara nu, svo kommer jag að borða meira ... ókei?"
Ég: "Nei, nei, nú borðar þú bara."
GHPL: "Nei, pabbi ... ég moste fara nu ... snella pabbi snella ..."
Ég: "Jæja ... ok, en bara smástund og svo verðurðu að koma aftur og klára matinn:"
GHPL: "Ok!!" Hleypur inn í stofu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2012 | 22:06
Þriðjudagur 19. júní 2012 - Tónskáld og útileikir
Jæja ... í fyrsta skipti í kvöld var ég viðriðinn það að semja lag.
Ok ... kannski ekki alveg í fyrsta skiptið því við Lauga höfum verið að semja lag í nokkurn tíma ... ekki að það gangi nokkurn skapaðan hlut hjá okkur.
En í kvöld var ég að semja lag svona fyrir alvöru með Janne gítarleikaranum í hljómsveitinni. Hann mætti með hugmynd að lagi, svo fór það að taka á sig einhverja mynd, ég bætti söngmelódíu ofan á, þannig að í lokin voru við komnir með uppkast af lagi.
Janne vill endilega að ég semji texta, þannig að hann hefur greinilega fulla trú á mér í þessu ;) ... en já, þetta var mjög skemmtiegt.
Í gær var svo hljómsveitaræfing, svaka stuð í næstum 3 klukkutíma. Ég hef verið betur stemmdur raddlega, var alltof stífur og aldrei þessu vant var ég smá sár í hálsinum eftir sessionina en hvað gerir maður ekki fyrir rokk og ról.
---
Af öðrum er gott að frétta. Allir í stuði.
Guddan er nú kominn á þann stall að nú eru krakkar farnir að spyrja eftir henni. Og GHPL tekur vel í það. Raunar er það svo að í fyrsta skipti hringdu krakkar bjöllunni og spurðu hvort GHPL mætti koma út að leika.
Ég neita því ekki að það hreyfði aðeins við mér ;) . Það er alveg merkilegt hvað allt viðkomandi þessum krökkum ristir djúpt ... hvenær hefði ég getað ímyndað mér að ég myndi kippa mér upp við það að einhver spyrði hvort einhver annar mætti koma út að leika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2012 | 22:51
Laugardagur 16. júní 2012 - Á leikvellinum með GHPL og PJPL
Rólegt í dag ...
Spjallað, borðað, leikið, fiktað í tölvunni ... og já farið út ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)