Færsluflokkur: Bloggar
22.4.2011 | 23:52
Föstudagur 22. apríl 2011 - Helgihald á föstudeginum langa
Ekki beint hægt að segja að þessi föstudagur hafi verið mjög langur ... hann hefur hreinlega skotgengið ...
Skrapp í ræktina í morgun ... "djöfulsins heiðingjar" sagði Sverrir í símanum í morgun þegar ég sagði honum að Friskis og Svettis hefðu opið í dag.
Það er svo sem alveg rétt. Þetta er meira og minna allur helgibragur að fara af þessum allra helgustu dögum ... og þrátt fyrir að vera algjörlega á móti þessari þróun þá spilar maður með eins og morgundagurinn sé enginn. Maður fer í ræktina á föstudaginn langa, er meira en til í að skreppa í innanhúsfótbolta á páskadagskvöldi, skreppur í matvörubúðina í hádeginu á jóladag til að kaupa eitthvað í gogginn og aftur á nýjársdag til að kaupa sér "frozen pizza".
Til að auka enn á helgihaldið, þá ákvað ég að vinna seinnipartinn ... var að skrifa stuttan fyrirlestur sem ég að halda í Gävle á þriðjudaginn.
En loks undir kvöld þá var aðeins litið til þess að þetta er rauður dagur í almanakinu. Sverrir og Dana buðu okkur nefnilega í mat ... listilega gott í alla staði.
... og ein af Guddunni eftir síðdegislúrinn í dag ... þar sem var nánast sett heimsmet í því að svitna í svefni ...
Bloggar | Breytt 23.4.2011 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2011 | 22:06
Miðvikudagur 20. apríl 2011 - Fermingarafmæli og fleira
Í öll þau skipti sem ég hef bloggað þann 20. apríl hef ég minnst á ferminguna mína. Ekki af ástæðulausu enda var ég fermdur þann dag árið 1987.
Það styttist óðum í 25 ára fermingarafmælið.
Ég birti hér á blogginu fyrir nokkru síðan viðtal sem tekið var við mig og bekkjarsystkini mín og birtist í Þjóðviljanum þann 12. apríl 1987. Umræðuefnið var fermingin ...
---
En það er óhætt að segja að ég hafi lifað betri daga en þennan í dag. Ferlegt slen og deyfð yfir karlinum ... allt einhvern veginn á hálfum snúningi ...
Það verður nú að segja að verkefni dagsins var nú ekki það uppbyggilegasta sem ég hef fengist við á ævinni. Ég var í því að "klippa og líma" gagnaskrá í tölvunni.
Brátt kemur betri tíð með blóm í haga ...
---
Annars er gaman að segja frá því að Guddan vaknaði skellihlæjandi í morgun og það fyrsta sem hún sagði var "meija desönd" sem útleggst á íslensku sem "meiri Andrés önd". Það hefur sum sé allt verið á fullu rétt áður en hún vaknaði.
Í gærmorgun voru fyrstu orð dagsins ekki ógáfuleg. Þá snéri Guddan sér að mér og spurði: "Dulegur að hlaupa?"
"Emmm ... já ... "
Málið var þá útrætt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2011 | 22:20
Þriðjudagur 19. apríl 2011 - Leibbi fer á kostum
Jæja þá hefur Leifur frændi minn verið lagður til hinstu hvílu. Það er alveg ótrúlega skrýtið ... en svoleiðis er það nú samt.
Ég sendi inn ofurlítinn greinarstúf í Moggann sem ég ætlaðist til að birtist í blaðinu í dag. Það gekk ekki eftir og súrnaði allhressilega í síðuhaldara við þá uppgötvun. Vona að það gangi eftir á morgun.
En ég hef verið með hugann hjá Leibba í dag og Lauga ákvað að við myndum kveðja karlinn með því að fara út að borða í hádeginu og fara svo á kaffihús síðdegis. Minna mátti það varla vera.
---
Leibbi frændi var kynlegur kvistur. Í bestu merkingu þeirra orða. Hann vakti hvívetna athygli fyrir "öðruvísi" framkomu og tilsvör ... en hann var alltaf bara hann sjálfur ... hann var Leifur Vilhelmsson.
Leibbi spurði spurninga ... stundum margra spurninga. Mér er t.d. mjög minnistætt þegar Lauga hitti Leibba í fyrsta skiptið síðla árs 1996.
Við Lauga fórum vestur í Hofgarða. Við vorum varla komin inn fyrir þröskuldinn þegar Leifur leit á mig og sagði: "Farðu fram í eldhús að tala við Sæunni (konu hans) ... ég þarf að tala við Sigurlaugu."
Svo fóru þau inn í stofu og þriðju gráðu yfirheyrsla hófst.
Leibbi rakti úr Laugu garnirnar meðan hann gekk í hringi um stofugólfið og í hvert sinn sem ég birtist til að kanna hvort ekki væri allt í lagi brást hann snarlega við: "Svona ... vertu frammi ... ég er að tala við hana." Svo sneri hann sér að Laugu og sagði svolítið lægra og hálfhneykslaður: "Það er bara varla hægt að tala saman. Það er ekki nokkur friður fyrir stráknum!"
Lauga sagði mér eftirá að hún hefði haft mjög gaman af yfirheyrslunni, þó hún hefði ekki getað svarað helmingnum af því sem Leifur spurði að. "En honum var alveg sama um það" sagði hún og kímdi. Frá og með þessu kvöldi hófst óslitin og trygg vinátta þeirra á milli.
---
Við Leibbi áttum óteljandi spretti saman og margir þeirra voru hreint stórkostlegir.
Síðasti alvöruspretturinn sem við tókum í sameiningu var þann 30. júlí 2009 um mánuði áður en Leifur fékk heilablóðfall sem markaði upphafið að endalokunum.
Þennan dag var ég staddur upp í sumarbústað fjölskyldunnar í Borgarfirði og sárvantaði startkapla. Eins og oft áður hringdi ég í Leibba til að tékka hvort hann gæti reddað mér. Leibbi átti nefnilega sumarbústað steinsnar frá okkar bústað.
Símtalið var stutt. Ég bar upp erindið og hann sagði: "Komdu!!"
Þegar ég kom til hans var hann í óðaönn að finna út úr hlutunum. Sótbölvaði því að hafa skilið startkaplana sína eftir í Reykjavík. "Þetta er náttúrulega alveg rosalegt með hana Sæunni ... maður fær bara aldrei að hafa neitt í friði fyrir henni!! Jæja ... við verðum að hringja í hann Sigga og athuga hjá honum!"
Siggi gat reddað köplunum en vandinn var að hann var ekki heima. "Þið verðið bara að tala við konuna og láta hana redda ykkur!" Og þar með byrjaði ballið.
Við ókum inn á Hvanneyri og heim til Sigga. Þegar við renndum í hlaðið sáum hvar "grillreykur" steig upp aftan við húsið. "Hún er bakvið hús" sagði Leifur. Hann stökk út úr bílnum, gekk framhjá aðaldyrunum með hendur fyrir aftan bak og niður fyrir húshornið. Stuttu síðar heyrði ég hann kalla "HALLÓ, HALLÓ!! ENGINN HEIMA!??!" Ég flissaði þar sem ég sat í bílnum.
Í sömu mund sé ég hreyfingu innandyra og brátt opnuðust aðaldyrnar. Húsfreyjan (þ.e. kona Sigga) skimaði í allar áttir en sá engan. Hún lokaði aftur en í sömu andrá kom Leifur aftur fram fyrir húshornið. Í þetta skiptið æddi hann inn um aðaldyrnar og lokaði á eftir sér. Ég sá inn um gluggana hvar hann fór inn í stofuna að leita að húsráðanda en án árangurs.
Ekki kom þessi árangurslausa leit hans mér á óvart því meðan Leifur ranglaði um í stofunni, birtist húsfreyjan aftur. Í þetta sinn stóð hún í bílskúrsdyrnum en augljóslega var innangengt úr íbúðinni í bílskúrinn. Líkt og áður skimaði hún í allar áttir en sá hún engan. Hún lokaði því dyrunum.
Um leið og bílskúrshurðin féll að stöfunum opnuðust aðaldyrnar og Leifur steig út. Hann hafði augljóslega gefist upp á því að finna nokkurn innandyra. Hann gekk að bílskúrsdyrunum, þar sem húsfreyjan hafði verið nokkrum andartökum áður, í þeirri von að vera einhvers vísari. Á sama tíma sá ég í gegnum gluggana að húsfreyjan gekk hröðum skrefum í áttina að stofunni. Leifur opnaði bílskúrsdyrnar og fór inn. Þá var húsfreyjan farin að hringsnúast inni í stofunni þar sem karlinn hafði hringsnúist nokkru áður.
Víst má telja að Leifur hafi gert lokatilraun til að finna einhvern með því að kalla þar sem hann var staddur inni í bílskúrnum. Alltént sá ég að húsfreyjan tók undir sig stökk og dreif sig aftur fram í bílskúrinn. En áður en hún náði þangað var Leifur kominn út aftur og búinn að loka á eftir sér. Hann gekk í áttina að bílnum og gaf mér bendingu um að skrúfa niður rúðuna.
"Ég bara finn ekki startkaplana ... það virðist ekki nokkur maður heima" sagði hann við mig. Ég kom ekki upp orði fyrir hlátri. "Haaaaaaaa ... ?!?" sagði Leifur og kímdi "hvers vegna ertu að hlæja?"
Ég benti á bílskúrsdyrnar. Þar stóð þá húsfreyjan með startkaplana í hendinni.
"Nú það er þá einhver heima?!" Leifur gekk til konunnar, heilsaði með virktum og þakkaði kærlega fyrir lánið.
"Við skilum þeim aftur!!" kallaði hann þegar hann settist upp í bílinn.
"Jæja ... þetta gekk nú ekki þrautalaust!!" sagði hann.
Við ætluðum aldrei að komast heim aftur úr þessari svaðilför, svo mikið hlógum við ...
---
Já, það er svo sannarlega sjónarsviptir af honum Leibba frænda ... rosalega sakna ég hans!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2011 | 20:49
Mánudagur 18. apríl 2011 - "Gogga-ævintýrið"
Þessi dagur hefur verið svolítið öfugsnúinn. Málið var nefnilega að ég, ásamt Sverri vini mínum og "Gogganum", dvaldi fram eftir nóttu á slysadeildinni.
Forsaga þess máls var á þá leið að í fótboltanum í gærkvöldi varð mér það á að hlaupa "Goggann" niður en "Gogginn" er afrískur félagi okkar og dyggur liðsmaður fótboltafélagsins 20 mínútna. Það skipti engum togum að við höggið steyptist "Gogginn" beint á höfuðið, rotaðist í stutta stund og fékk "myndarlegan" skurð á augabrúnina.
Innan vébanda 20 mínútna er að finna harðsnúið lið lækna en í gær var enginn þeirra mættur. Fyrstu viðbrögð voru því afar fálmkennd og hringlandi rugluð ...
Sjálfsagt væri ekki vanþörf á að maður tæki eins og eitt skyndihjálparnámskeið ...
Með "Gogganum" hálfvankaðan og blóðugan var ekki annað í stöðunni að en drífa hann á slysó, þar sem einmitt einn læknirinn úr liði 20 mínútna tók á móti og gerði að sárum "Goggans".
Ferlið tók nokkra klukkutíma og ég var ekki sofnaður fyrr en um 04.30 í nótt.
Það er samt algjört aukaatriði. Aðalmálið er að "Gogginn" var í morgun orðinn hress en þarf nú að hvíla í nokkra daga áður en fótboltasparkið getur byrjað aftur.
---
Það sem er umhugsunarefni í þessu öllu saman, var að í gær áður en ég fór í boltann fékk ég "skilaboð" einhvers staðar frá, um að annaðhvort myndi ég meiðast eða orsaka meiðsl í fótboltanum.
En svona "skilaboð" man ég ekki eftir að hafa fengið fyrr ... og því datt mér ekki í hug að sleppa boltanum ;) .
---
Í gær, áður en "skilaboðin" bárust og "Gogga-ævintýrið" hófst, vorum við Lauga og Guddan ásamt fleirum í góðri veislu hjá Jónínu Hreins samstarfskonu Laugu á augndeildinni. Veðrið var frábært og maturinn æðislegur ... og óhætt að segja að vel hafi tekist til í alla staði.
---
Svo er náttúrulega afar gaman að segja frá því að "samstarfsfólki" Guddunnar á leikskólanum, ungu sem "öldnu" finnst hún ákaflega skemmtileg.
Jafnvel svo að það var sérstaklega tekið fram við Laugu þegar hún náði í stubb í dag.
Þetta er auðvitað engin ný tíðindi fyrir okkur foreldrana ;) . Hún á nú ekki langt að sækja það að vera skemmtieg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2011 | 23:05
Laugardagur 16. apríl 2011 - Ættfræði og samband
Ég held, svei mér þá, að það sé bara að koma vor hér í Uppsala. Hitinn datt eitthvað upp fyrir 15°C og sól með köflum.
Lauga og Guddan skruppu í picknick út í garð í dag ásamt gestum sem hingað komu. Sjálfur leit ég út í ofurlitla stund en annars var ég í óðaönn að sinna vinnu.
Reyndar tók ég smá útúrdúr frá vinnunni, til að svara tölvupósti frá Kanada. Þar var afkomandi Jakobs Líndal verslunarmanns á ferðinni en Jakob þessi var einn af þeim fjölmörgu sem fluttu vestur um haf í lok 19. aldar. Afkomandinn hafði rekist á heimasíðuna mína og ákvað að senda mér línu til að grennslast fyrir um Líndals-nafnið.
Ég lagðist því ofurlitla rannsóknarvinnu en satt að segja er ég skammarlega illa að mér þegar kemur að ættfræðinni. En ég fann eitthvað út úr þessu og gat sagt með nokkurri vissu að viðkomandi væri ekki skyldur mér og ráðlagði honum að setja sig í samband við afkomendur Jónatans Jósafatssonar frá Miðhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. Ekki lítið afrek það ...
Svo tók ég eina nemendaritgerð til yfirlestrar ... skil núna betur að ég fái skjölin mín öll útkrotuð frá leiðbeinandanum mínum. Skjalið sem ég fór yfir var nánast rautt eftir yfirlesturinn ... hmmm ...
---
Gaman að segja frá því að Lauga vildi setja svona "sambands-status" á facebook. Ég samþykkti að við værum "in relationship", sem er svo sem ekkert að samþykkja enda búin að vera saman síðan 1996 ...
... þrátt fyrir það hafa viðbrögðin við þessu "múvi" okkar verið nokkuð góð ... :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2011 | 22:28
Fimmtudagur 14. apríl 2011 - GHPL stígur á stokk
Mæðgurnar settu saman innkaupalista síðastliðinn sunnudag. Fróðlegt að sjá hvernig upptalningin, svona um miðbik, tekur 90° beygju ...
En listinn var eftirfarandi (það sem Lauga taldi upp er merkt með (SGG) en það sem Guddan valdi er merkt með (GHPL)):
Mjólk (SGG)
Djús (GHPL)
Ávextir - epli (GHPL), perur (GHPL) og bananar (SGG)
Rjómi (SGG)
Niðursoðnar perur (SGG)
Súkkulaði (í tertu) (SGG)
Bók (GHPL)
Fíllinn (GHPL)
Blómið (GHPL)
Dóra (GHPL)
---
Það er óhætt að segja að Syd Houdini hafi tekið miklum framförum meðan ég skrapp til Íslands. Hún segir hún alveg hiklaust "ó je" með miklum tilfæringum ef maður biður hana um að gefa "fæv". Það gerði hún einmitt ekki áður en ég fór til Íslands.
---
Guddan var í fríi í skólanum í dag vegna viðgerða á skólahúsnæðinu. Þess vegna sátum við út á svölum í morgun og ræddum málin. Eftir að hafa bókstaflega malað eins og kvörn í dágóða stund, og algjörlega án þess að ég skildi upp né niður í því sem hún var að segja, þá fékk hún þá flugu í höfuðið að ég ætti eitthvað bágt.
"Allt í lagi?"
"Já, já ... allt í lagi ... "
"Já ... "
Smá þögn.
"Allt í lagi?"
"Já, já ... "
"Mmmm ... " (kinkar kolli)
Svona gekk þetta í smástund ... svo byrjaði önnur sena ...
"Ná í dúkkuna, bangsa ... (eitthvað óskiljanlegt) ... kem aftur ... "
Svo hljóp hún inn og náði í dúkkuna.
"Ná í bangsa ... (eitthvað óskiljanlegt) ... kem aftur ... kem aftur ... "
"Ok ... ég bíð ... "
Hljóp inn og náði á bangsann.
"Ná í dúkkuna ... (eitthvað óskiljanlegt) ... kem aftur ... "
Að lokum var eitt og annað komið út á svalirnar ... t.d. Herbalife-dunkurinn og Herbalife-próteinið sem mamma vildi endilega að ég tæki með mér. Og hverri ferð fylgdu sannfærandi loforð um endurkomu ...
---
Um daginn var GHPL að lita. Hún greip hvítan vaxlit og tók til óspilltra málanna. Eins og vænta mátti skilaði hvítur litur á hvítt blað fremur takmörkuðum árangri.
Guddan lyfti litnum af blaðinu og leit framan á oddinn ... "æi ... tómur ... "
Hún teygði sig eftir græna litnum. Málið var afgreitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2011 | 22:32
Miðvikudagur 13. apríl 2011 - Nokkur komment um kvikmyndagerð
Svíþjóð heilsaði mér með pompi og prakt í hádeginu í dag ... Sverrir mættur út á flugvöll á ná í mig ... það var afar fallegt af honum :) .
Aldrei þessu vant þá ákvað ég að hafa það extra "næs" í flugvélinni. Keypti mér t.d. eggjaköku með beikoni, pylsu og kartöfluteningum á 1500 kr. Fullkomið rán þar á ferðinni ... ;) .
Meðan ég át herlegheitin þá horfði ég á myndina "Gauragang".
Þrátt fyrir einbeitta vilja og jákvætt viðhorf, verð ég að viðurkenna að mér fannst hún ekkert sérstaklega góð. Nokkrar villur í henni spilltu líka fyrir.
Sem dæmi ... myndin á að gerast kringum áramótin 1979/1980. Þrátt fyrir þetta notar aðalsöguhetjan í myndinni þá peninga sem teknir voru upp eftir myntbreytinguna sem var í upphafi árs 1981. Og ekki nóg með það ... hann hringir í tíkallasíma og notar til þess tíukrónupeninga sem voru ekki teknir í gagnið fyrr en árið 1984, þegar blái 10 krónu seðillinn með Arngrími lærða vék fyrir loðnu-tíkallinum.
Að auki ekur ein persóna myndarinnar á gamalli ryðgaðri Lödu. Út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja en heppilegra hefði verið ef einhver hefði haft vit á því að sjá til þess að týpan væri frá 8. áratugnum. Sú týpa sem sést í myndinni var ekki framleidd fyrr en kringum árið 1985.
Þá fannst mér orðanotkun unglinganna í myndinni miklu nær því sem er í gangi í dag en var áður fyrr. Því miður man ég samt ekkert dæmi til að styðja mál mitt ... þyrfti að horfa aftur myndina. En orðfærið var bara þannig að maður beið bara eftir að einhver tæki upp gemsann sinn og sendi sms.
Ljóst er að ofurlítil rannsóknarvinna hefði nú gert gæfumuninn þarna ... ;) .
Íslenskir kvikmyndagerðarmenn mættu líka vanda sig svolítið meira í klippingunum ... sérstaklega þegar fólk fer á milli staða. T.d. í Gauragangi, þá var aðalsöguhetjan að hlaupa einhvers staðar í Vesturbænum held ég og svo einni sekúndu síðar var hún komin niður að Tjörninni. Ég sá líka einhvern íslenskan glæpaþátt á sunnudagskvöldið sem á að gerast á Akureyri. Þar þeyttust menn bæjarhlutanna á milli á innan við sekúndu.
Auðvitað spilar það inn í að maður þekkir staðhætti í Reykjavík og á Akureyri mjög vel. Sjálfsagt væri þetta í góðu lagi ef slíkt væri ekki raunin en mér finnst samt að það mætti spá meira í þetta, einmitt vegna þess að mjög margir sem sjá þessar myndir eru kunnugir staðháttum.
Jæja ... ég held bara að þetta sé fyrsta færslan mín á þessari bloggsíðu sem fjallar um kvikmyndir ... það var þá kominn tími til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2011 | 22:41
Þriðjudagur 12. apríl 2011 - Leibbi frændi yfirgefur sviðið ...
Jæja, þá hefur Leibbi frændi sagt "bless".
Magnaður karakter hann frændi minn óhætt að segja það. Vakti athygli fólks hvar sem hann kom. Þeir sem hittu Leibba frænda gleymdu því aldrei ... hann var svo skemmtilega öðruvísi.
Ég ætla skrifa meira um Leibba frænda síðar ...
... en svo mikið er víst að einn minn mesti og besti bandamaður og mikill áhrifavaldur er nú horfinn af sjónarsviðinu.
Ég þakka honum kærlega fyrir samveruna, athugasemdirnar, leiðsögnina, mismælin, hláturinn, spurningarnar, göngutúrana, ... já bara allt. Ég er lukkunnar pamfíll ...
---
Nýr kapítuli hófst í gærkvöldi ... blessuð sé minning Leibba frænda ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þessi dagur er búinn að vera alveg frábær :) .
Tvö útvarpsviðtöl ásamt Auði Ottesen ... annað í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 og hitt í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.
Svo var fyrirlesturinn sjálfur á Hringsal Barnaspítala Hringsins. Mjög góðar undirtektir og skemmtilegar umræður sköpuðust eftir fyrirlesturinn.
Þannig að niðurstöður rannsóknar á biðstofu dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á LSH við Hringbraut eru komnar allhressilega út í loftið.
Nú er bara að taka til við að undirbúa næsta skref rannsóknarinnar í samvinnu við LSH og raunar alla þá sem áhuga hafa á bættu umhverfi sjúkrastofnana.
En þetta er skemmtilegt :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.4.2011 | 15:06
Miðvikudagur 6. apríl 2011 - Betri biðstofur
Þá er maður kominn til Íslands eins og stundum áður.
Margt sem liggur fyrir að þessu sinni. Í gær var mjög vel heppnaður fundur á Landspítalanum í tengslum við verkefnið sem ég, ásamt félögum mínum í samtökunum Umhverfi og vellíðan, höfum verið að vinna að á biðstofu dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á LSH.
Niðurstöðurnar eru áhugaverðar og verða þær kynntar á opnum fundi í Hringsal Barnaspítala Hringsins næstkomandi mánudag kl. 13 og það eru allir velkomnir.
Nú er maður á kafi í að undirbúa fyrirlestur sem halda á í Sandgerði á morgun. Hlakka mikið til þess verkefnis :) .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)