Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Mánudagur 10. september 2012 - Nokkrir molar

Núna eru eiginlega doktorsverkefnis-skrif búin að taka yfir allt hjá mér, að minnsta kosti þann tíma sem ég kýs að verja fyrir framan tölvuna. Slíkt skýrir örugglega mjög stopular færslur.

En núna finnst ég bara verða að koma nokkrum línum á "blað".

GHPL er búin að eiga marga góða spretti nýverið - t.d. sagði hún í dag að hún hefði keypt "svartlauk" en átti þá að sjálfsögðu við hinn velþekkta hvítlauk.

Hún tók líka upp á því í morgun þegar við settumst í strætóinn að setjast við hlið eldri konu sem þar var. Þær urðu hinir mestu mátar, sátu og héldust hönd í hönd meðan vagninn ók sem leið lá frá Gottsunda niður á Stora Torget. Kostuleg að fylgjast með þessu.

Svo hefur hún komið mér laglega á óvart með því að rifja upp löngu liðin atvik. Um daginn ókum við framhjá Slottsbacken og þá rifjaði GHPL upp söguna af því þegar bróðir hennar missti skóinn sinn þegar verið var að hlaupa í strætóinn. Hún sjálf kom auga á skómissinn og lét vita þannig að skórinn tapaðist ekki. Þetta gerðist svona um það bil fyrir 5 mánuðum.

Eftirfarandi samtal fór fram fyrir ekki fyrir löngu, þar sem við sátum í strætó og ókum framhjá Vaksalatorgi.
"Ég dansaði einu sinni í þessu húsi" sagði GHPL og benti á Vaksalaskólann.
"Nú? Hvenær?"
"Ég dansaði þarna" endurtók hún og benti áfram.
"Dansaðir þú?"
"Já."
"Hvenær fórstu þarna inn?"
"Í gær. Dansa með krökkunum."
"Í gær? Fórstu þarna með leikskólanum?"
"Nei. Dansa."
"Ha?"
"Það var könguló í djúsnum."
"Nú?" (þögn) "Já, þú ert að meina Hrekkjavöku-ballið?"
"Já."
"Þegar við fórum að dansa og Sverrir, Dana og Jóndi voru líka?"
"Já." 
"Manstu það?"
"Já."

Þetta hrekkjavökuball var haldið í 29. október í fyrra.


Á Hrekkjavökuballi 

Þessi börn eru ótrúleg og ég verð bara að viðurkenna að mér hafði ekki dottið í hug að þau myndu svona langt aftur á þessum aldri. 

Svo í vikunni rifjaði hún upp þegar ég henti til hennar og Laugu fernu af eplasafa niður af svölunum á Johannesbäcksgötunni. Alveg örugglega hátt í ár síðan það gerðist. 


GHPL borðar steiktan lauk út á skyr - hún sagði að það væri mjög gott og því til staðfestingar kláraði hún allt af disknum ... þá hlýtur það að hafa bragðast ágætlega. 

Svo er það gaukurinn ... núna er aðalmálið að flengjast um með bleika dúkkukerru. 

Hann er yfirleitt afarhress en þó hefur hann aðeins tekið upp á því síðastliðna daga að vera afspyrnugeðstirður um kvöldmatarleytið.
Sjálfsagt er karlpúta orðin dauðþreytt þá en þetta er alveg kostulegt ... verður svolítið eins og gamall fúll karl. 


Hérna situr hann og borðar popp í Stadsträdgården og fylgist með móður sinni gera þetta ...

... og systur sinni gera þetta ...

Þessar myndir voru teknar á Menningarnótt í Uppsala núna um helgina ...

... svo var líka aðeins tekið á því í garðinum ... ég veit ekki hvað varð um hluta af hárinu á mér á þessari mynd.
Ef þessi "hárlubbi" er staðreynd - þá lýgur spegillinn hressilega að mér :) ...

 

 


Sunnudagur 2. september 2012 - Eitthvað að gerast

Jæja ... hérna hafa hlutirnir verið að gerast frá því síðast var bloggað.

Þar ber helst að nefna leikskólaævintýrið hjá nafna mínum, sem gengur mjög vel. Hann fær þá einkunn núna að hann sé allur að eflast og styrkjast. Og að auki glaður og hress.

Guddan fær líka ágætis einkunn. Hún er núna búin að kynnast nýrri stelpu á leikskólanum. Sú á ættir að rekja til Gambíu og talar ekki stakt orð í sænsku, bara eitthvað "húgúlúgú"-mál. GHPL talar sænsku og íslensku á móti.
Að sögn viðstaddra ná þær alveg frábærlega saman og spjalla saman með þeim hætti sem ekki nokkur lifandi manneskja skilur nema þær tvær. Það verður að segjast hreint dásamlegt hvað börn geta stundum fundið út úr hlutunum. 

Sjálfur er maður á kafi í að skrifa doktorsverkefnið. Það mjakast og jafnvel svo að maður hefur það á tilfinningunni að þetta muni einhvern tímann klárast. Tilfinning sem ég hef svo sannarlega ekki haft á hverjum degi síðustu árin ;) .

En stundum stendur maður upp af stólnum ... eins og t.d. í kvöld þegar ég lék með Vaksala SK gegn Rosersberg. Það þarf nú ekki að orðlengja það mikið ... við stútuðum leikum 7-0. Mótherjar okkar sáu aldrei til sólar og ekki var nú verra að síðuhaldari opnaði loksins markareikninginn sinn. Það var kominn tími til. Hefði svo með réttu átt að fá tvær vítaspyrnur en dómarinn taldi þó í bæði skiptin að að brotið hefði verið svona 1 cm utan við teig.
Þetta var gaman. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband