Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Mánudagur 20. júní 2011 - Borgarfjörður, brúðkaup og fleira

Þessi færsla er nú meira svona til að halda lífinu í þessari bloggsíðu ... 

Síðustu daga hef ég verið hvorki nálægt tölvu né internettengingu en við slíkar aðstæður er erfitt að koma bloggi frá sér.

Ég hef nefnilega verið í sveitinni minni uppi í Borgarfirði, að slá gras og klippa tré.  Sem er náttúrulega stórkostlegt.

Einnig hef ég verið í brúðkaupi hjá Fjólu og Neil.  Afskaplega velheppnað allt saman og skemmtilegt.

Í tengslum við brúðkaupið hafa félagar okkar frá Ástralíu komið og svolítill tími hefur farið í að sinna þeim.

--- 

Auk þessa er ýmislegt að gerast hérna hjá mér ... hér hefur verið boðið að koma með "input" í kúrs við Háskóla Íslands um sjálfbært skipulag og svo hef ég verið beðinn um að vera aðstoðarleiðbeinandi í mastersverkefni við sálfræðideildina í HÍ.

--- 

Þetta er sumsé allt saman gott og blessað.


Þriðjudagur 14. júní 2011 - Íslandsveran hafin

Nú er maður kominn til Íslands ... 

Vinnan komin á fullt ... safna verkefnum fyrir næstu misseri og hafa gaman.

---

Ættingjarnir koma sterkt inn hjá GHPL ... það er svo sannarlega ekki eins og hún hafi ekki hitt þá í marga mánuði.

Meira eins og hún hefði hitt þá í gær.

---

Tani H kemur sterkt inn líka ... tók flugið í gærkvöldi með vinstri ... 


Sunnudagur 12. júní 2011 - Að vera tekinn í kennslustund

Í dag lék ég minn annan leik fyrir Vaksala SK ... 

... við vorum gjörsamlega teknir í kennslustund af einhverju liði sem ég man ekkert hvað heitir ... 

Ég ætla ekkert að draga neinn sérstakan fram í dagsljósið í þessu samhengi en verð bara að segja að fótboltalið sem þorir ekki spila boltanum, dekkar hörmulega og enginn segir neitt við neinn, er ekki að fara að gera neinar rósir.

Veðrið var hinsvegar afskaplega gott og því eins og stundum áður, voru allar forsendur til að hlutirnir myndu ganga frábærlega ... en svona er þetta bara ...

Jarðaðir ... amen.

---

En til að taka eitthvað jákvætt út úr þessu má segja að þetta hafi verið ágætis hreyfing ... því vissulega tekur það á að vera í stöðugum eltingarleik í 70 mínútur.

---

Meðan þessi ósköp gengu á á fótboltavellinum í Vallentuna ... tóku aðrir heimilismenn á móti gestum, þeim Gunnari, Ingu Sif, Óla Má og Gerðu Maríu.

Mér skilst að það hafi gengið bara nokkuð vel, fyrir utan það hversu óstýrilát heimsætan var ... hlaupandi út um allar trissur, hlýðandi engu.

---

Í kvöld var svo farið á China River þar sem etinn var kínverskur matur á samt Sverri, Dönu og Jónda ... það lukkaðist með ágætum og allir fóru saddir og sælir heim þegar klukkan var eitthvað gengin í 10. 


Föstudagur 10. júní 2011 - Að rústa kerru

Þessi dagur fór í það að gefa eina undirskrift.

Já, afrakstur dagsins er að fara til Stokkhólms og fá neyðarvegabréf fyrir blessaðan drenginn, kvitta fyrir og fara heim.

Ferðin hefði á margan hátt getað verið skemmtilegri en það gaf tóninn þegar ég hrasaði við að stíga inn í lestina hér í Uppsala í morgun.  Það verður ekki sagt um þessa lest sem fer milli Uppsala og Stokkhólms að hún sé í fyrsta flokki hvað aðgengismál varðar, en til að komast upp í hana þarf bæði að troðast inn um tiltölulega þröngar dyr og fara upp ein þrjú eða fjögur þrep til að komast upp á mjög þröngan pall en frá honum er svo gengið inn í farrýmið.

Ég tók því kerruna hennar Guðrúnar með hana innanborðs í fangið, eins og ég hef gert þúsund sinnum áður og ætlaði að stökkva inn í lestina, enda vorum við á síðasta snúningi með að ná henni, en þá vildi ekki betur til að vinstri fóturinn á mér fór beint ofan í bilið milli brautarpallsins og lestarinnar.  Ég datt því inn í lestina og ofan á kerruna, og lagði bæði hana og GHPL saman.

Við nánari athugun kom í ljós að einhver járnstöng hafði bognað og eitthvað fleira látið undan ...

... en allavegana ... kerran var í fremur slæmu "ökuástandi" sem er auðvitað frekar óskemmtilegt þegar maður þarf að rúlla henni í fljótheitum á milli staða.

Annað í þessari ferð var í þessum anda ... þannig að skemmtanagildi dagsins var fremur lítið ... því miður því það voru svo sannarlega allar forsendur fyrir öðru.

Það verður bara að gera betur næst.


Þriðjudagur 7. júní 2011 - Guddan 3ja ára

Í dag rann upp sá mikli gleðidagur sem afmælisdagur Guddunnar er ...

Þrjú ár liðin síðan GHPL leit dagsins ljós í Sydney í Ástralíu. Þá var staðan svona ...

Í dag var öldin önnur ...

 

Þetta var ánægjulegur afmælisdagur ... þar sem ýmislegt var brallað ... teknar upp afmælisgjafir og borðuð afmæliskaka.

Veðrið lék líka á alls oddi ... hitinn fór hátt í 33°C í dag, sól og þægileg gola svona til að kæla mannskapinn svolítið.

---

Á þessum tímamótum má fara yfir nokkrar staðreyndir.

1. Guddan er 95,5 cm á hæð og vegur rúmlega 12 kg.

2. Guddan er með æði fyrir prinsessum og fer Öskubuska þar fremst í flokki.

3. GHPL finnst gaman að leika með strumpa og á eftir daginn fimm slíka.

4. Epli eru uppáhaldsávöxturinn og næst koma appelsínur og rúsínur.

5. GHPL finnst skemmtilegast af öllu að horfa á video.

6. Hún hefur komið til 11 landa.

7. Uppáhaldsbókin síðustu misserin hefur verið Prinsessubókin frá Walt Disney, Benni og Bára eru líka töluvert vinsæl.

8. GHPL notar ekki bleyju og hefur ekki gert það í nokkra mánuði.

9. Guddan blandar sænsku og íslensku saman í einn graut, þannig sjaldnast kemur óbrengluð setning út úr henni.

10. Syd Houdini getur verið ansi frek á köflum en nánast undantekningarlaust er þó hægt að tala hana til og ná góðu samkomulagi.

11. Hún ræðir aldrei um bróður sinn öðruvísi en að tala um "litla barnið".

12. Sverrir, Jóndi og Dana eru bestu vinir GHPL og getur hún ekki nefnt eitt þeirra á nafn öðruvísi en hin tvö nöfnin fylgi í kjölfarið.

13. GHPL hefur mikla tilhneigingu til að detta fram úr rúminu sínu á nóttunni.  Rúmfjöl er því nauðsynleg.

14. Syd var geysilega hrifin af Barbapapa í marga mánuði en hefur nú alveg misst áhugann á þeim fígúrum.

15. GHPL kann að fara kollhnís.

16. Guðrún borðar aldrei hafragrautinn sinn á morgnana hjálparlaust.

17. GHPL kallar móðurbróður sinn "sleikjó" af því að hann gaf henni einu sinni sleikjó.  Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að leiðrétta það ennþá.

18. Houdini er hrædd við hunda en kann vel við ketti.

19. Guddunni finnst ís afskaplega góður.

20. GHPL kann stundum stafrófið en stundum ekki ... algengasti ruglingurinn er að kalla K X.  Það er eins með tölustafina, stundum kann hún að telja upp að 13 en stundum ekki.  Helsta vandamálið er að muna eftir þremur.

21. Guðrún þekkir þjóðfána Möltu.  Svo kallar hún pólska þjóðfánann "mömmu" og fána Mónakó "Gí".  Veit ekki af hverju.

22. Alltaf þegar Ísland ber á góma segir Guðrún alltaf "Ísland ... hitta fólkið".

23. GHPL finnst ákaflega gaman að dansa ... sérstaklega þegar KISS er spilað. 

---

Hér er svo afmælisvideoið ... 

 

 


Mánudagur 6. júní 2011 - Þjóðhátíðardagur Svía

Í dag var skroppið niður í bæ til að taka þátt í hátíðarhöldum.

Alveg svona glimmrandi gott veður og bara fjölmenni í bænum

---

Hápunktur dagskrárinnar hér í Uppsala, var ugglaust, í flestra hugum, atriði Erics Saade á Sankt Erikstorg en pilturinn sá var fulltrúi Svía í Eurovision þetta árið og lenti eftirminnilega í 3ja sæti keppninnar í Düsseldorf.

Við horfðum aðeins á Eric ... en ég gleymdi alveg að draga upp myndavélina bara svona til að grípa "mómentið".  Annars röltuðum við um göturnar, fengum okkur ís og gotterí, sleiktum sólina, lékum okkur, hlustuðum á "sixties" tónlist í Stadsträdgarden og svona sitthvað fleira.

---

Ormarnir mjög skemmtilegir ... hvor á sinn hátt þó ... sá eldri var í sólskinsskapi og sá yngri var mest í því að sofa í vagninum. 

Hann verður fjörugri á næsta þjóðhátíðardegi Svía, ef Guð lofar.

 


Sunnudagur 5. júní 2011 - Vaksala SK vinnur

Í kvöld lék ég minn fyrsta deildarleik í fótbolta síðan í september 1996. 

Mitt lið vann að sjálfsögðu 4 - 3 með tveimur afar glæsilegum mörkum á síðustu 10 mínútunum.  Reyndar var þetta neðsta liðið í deildinni sem við spiluðum við, en ég verð að segja að það var nú ekki að sjá á spilamennsku þeirra.

Í fyrri hálfleik voru þeir miklu betri.  Við vorum í algjöru rugli, endalausar kýlingar fram og aftur.  Ég lék á miðjunni og snerti boltann 6x allan hálfleikinn. Var eiginlega í hlutverki áhorfanda ... það segir nú kannski eitthvað til um gæðin.

Seinni hálfleikurinn var mun betri af okkar hálfu, boltinn fékk að rúlla meira og spilið í gegnum miðjuna fór að ganga betur. 

Ég hélt reyndar að mínum fótboltaferli hefði lokið í september 1996 ... en svona er þetta ... ;)  

---

Okkur var boðið í "bröns" til Dönu og Sverris í dag ... alveg hreint ljómandi fínt ...

Allir glaðir og ánægðir ...

---

Nú er sennilega best að fara að leggja sig enda allþreyttur eftir leikinn ... 


Föstudagur 3. júní 2011 - Að njóta ferðinnar

Það hefur svo sannarlega verið blíða hér í dag ... seinnipartinn var hitinn komin í góðar 26°C. Það er afskaplega góður hiti ... Sydney-veður eins og ég kýs að kalla það.

Dagurinn hjá mér hefur verið þéttsetinn vinnu ... fókusinn fer núna í að rita inngangskaflann í doktorsverkefninu.  Er kominn með tvær síður ... af 100.

Það er jafngott núna að vera vel með á nótunum að njóta ferðarinnar en ekki einblína um of á að ná markmiðinu.

Annars má segja að þetta markmiða-tilgangs-njóta ferðarinnar-líða vel-dæmi sé alltaf af skýrast betur og betur fyrir mér.
Það sem ég held að skaði þó þessa umræðu séu allar þessar einföldu kærileysislegu ráðleggingar sem alls konar snillingar eru að bera á torg.

Að innihaldinu til eru þær eitthvað á þessa leið: Til að vera ánægð(ur) með sjálfan þig, þarftu að vera ánægð(ur) með sjálfan þig.

Að fenginni reynslu þarf töluvert meira til en þetta ... maður þarf einfaldlega að átta sig á öðrum hlutum áður en hægt er að ráðast í margt af því sem þessar kæruleysislegu ráðleggingar fela í sér.

Mikilvægasti hlutinn í þessu öllu saman er að átta sig á hlutverki og framlagi "egósins" ... en eins og ég hef áður sagt er egóið einhver mesti, ef ekki mesti, lífsánægjuspillir sem fyrirfinnst.
En um leið og maður áttar sig á egóinu þá fara hlutirnir að skýrast einn af öðrum.

Og þar sem ég hef náð að átta mig töluvert á eigin egói, reynist mér auðveldara að njóta ferðarinnar við ritun þessa doktorsverkefnis míns. 

En nóg um þetta ...

---

Allir heimilismenn er í banastuði ... allt gengur ljómandi vel ...

Annars er ég að fara horfa á video núna ... slæ botninn í þetta

 


Miðvikudagur 1. júní 2011 - Frí, upptökur o.fl.

Hér er allt í lukkunnar velstandi.  Afskaplega löng helgi framundan sem byrjar á morgun með uppstigningardegi, svo tekur við klemmudagur á föstudaginn, svo kemur náttúrulega helgin og á mánudaginn er þjóðhátíðardagur Svía ... og svo ...

... á þriðjudaginn er komið af afmælisdegi dótturinnar ... en þá verður hún 3ja ára ...

---

Í kvöld var meiningin að skreppa í upptökur ...

... ætlaði að taka upp eitt lag, til að eiga sem kynningarefni ...

Það klikkaði vegna tæknilegra örðugleika. Það var afar svekkjandi ...

Ekki síst vegna þess að ég sleppti að spila leik með nýja fótboltaliðinu mínu í kvöld en upptökurnar áttu að fara fram á sama tíma og leikurinn.

En jæja ... bæði nýr upptökutími og nýr leikur hafa verið "sketsjúleraðir", þannig að allt er á uppleið.

---

Svo ég er tekin til við að skrifa doktorsritgerðina ... er langt kominn með að "outlæna" 100 bls. inngangskafla og byrjaður að fylla inn í.

Skrefin eftir að doktorsverkefninu lýkur eru líka í mótun.  Verst hvað mig langar til að gera margt ... þarf einhvern veginn að tvinna þetta saman ... 

---

Mynd dagsins er úr göngutúrnum sem við fórum í kvöld ... u.þ.b. tveggja tíma rúntur um hverfið ... 


Loksins komst GHPL út í prinsessufötunum, þ.e. kjól og í spariskóm ... ætlaði að dansa við prinsinn úti ...

 


Húsfreyjan brá undir sig betri fætinum ... 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband