Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Mánudagur 18. apríl 2011 - "Gogga-ævintýrið"

Þessi dagur hefur verið svolítið öfugsnúinn. Málið var nefnilega að ég, ásamt Sverri vini mínum og "Gogganum", dvaldi fram eftir nóttu á slysadeildinni.

Forsaga þess máls var á þá leið að í fótboltanum í gærkvöldi varð mér það á að hlaupa "Goggann" niður en "Gogginn" er afrískur félagi okkar og dyggur liðsmaður fótboltafélagsins 20 mínútna. Það skipti engum togum að við höggið steyptist "Gogginn" beint á höfuðið, rotaðist í stutta stund og fékk "myndarlegan" skurð á augabrúnina.

Innan vébanda 20 mínútna er að finna harðsnúið lið lækna en í gær var enginn þeirra mættur. Fyrstu viðbrögð voru því afar fálmkennd og hringlandi rugluð ...

Sjálfsagt væri ekki vanþörf á að maður tæki eins og eitt skyndihjálparnámskeið ...

Með "Gogganum" hálfvankaðan og blóðugan var ekki annað í stöðunni að en drífa hann á slysó, þar sem einmitt einn læknirinn úr liði 20 mínútna tók á móti og gerði að sárum "Goggans".

Ferlið tók nokkra klukkutíma og ég var ekki sofnaður fyrr en um 04.30 í nótt. 

Það er samt algjört aukaatriði. Aðalmálið er að "Gogginn" var í morgun orðinn hress en þarf nú að hvíla í nokkra daga áður en fótboltasparkið getur byrjað aftur.

---

Það sem er umhugsunarefni í þessu öllu saman, var að í gær áður en ég fór í boltann fékk ég "skilaboð" einhvers staðar frá, um að annaðhvort myndi ég meiðast eða orsaka meiðsl í fótboltanum.

En svona "skilaboð" man ég ekki eftir að hafa fengið fyrr ... og því datt mér ekki í hug að sleppa boltanum ;) .

---

Í gær, áður en "skilaboðin" bárust og "Gogga-ævintýrið" hófst, vorum við Lauga og Guddan ásamt fleirum í góðri veislu hjá Jónínu Hreins samstarfskonu Laugu á augndeildinni.  Veðrið var frábært og maturinn æðislegur ... og óhætt að segja að vel hafi tekist til í alla staði.

---

Svo er náttúrulega afar gaman að segja frá því að "samstarfsfólki" Guddunnar á leikskólanum, ungu sem "öldnu" finnst hún ákaflega skemmtileg.

Jafnvel svo að það var sérstaklega tekið fram við Laugu þegar hún náði í stubb í dag.

Þetta er auðvitað engin ný tíðindi fyrir okkur foreldrana ;) . Hún á nú ekki langt að sækja það að vera skemmtieg.


Laugardagur 16. apríl 2011 - Ættfræði og samband

Ég held, svei mér þá, að það sé bara að koma vor hér í Uppsala. Hitinn datt eitthvað upp fyrir 15°C og sól með köflum.

Lauga og Guddan skruppu í picknick út í garð í dag ásamt gestum sem hingað komu.  Sjálfur leit ég út í ofurlitla stund en annars var ég í óðaönn að sinna vinnu.

Reyndar tók ég smá útúrdúr frá vinnunni, til að svara tölvupósti frá Kanada. Þar var afkomandi Jakobs Líndal verslunarmanns á ferðinni en Jakob þessi var einn af þeim fjölmörgu sem fluttu vestur um haf í lok 19. aldar.  Afkomandinn hafði rekist á heimasíðuna mína og ákvað að senda mér línu til að grennslast fyrir um Líndals-nafnið.

Ég lagðist því ofurlitla rannsóknarvinnu en satt að segja er ég skammarlega illa að mér þegar kemur að ættfræðinni. En ég fann eitthvað út úr þessu og gat sagt með nokkurri vissu að viðkomandi væri ekki skyldur mér og ráðlagði honum að setja sig í samband við afkomendur Jónatans Jósafatssonar frá Miðhópi í Vestur-Húnavatnssýslu. Ekki lítið afrek það ...

Svo tók ég eina nemendaritgerð til yfirlestrar ... skil núna betur að ég fái skjölin mín öll útkrotuð frá leiðbeinandanum mínum.  Skjalið sem ég fór yfir var nánast rautt eftir yfirlesturinn ... hmmm ...

---

Gaman að segja frá því að Lauga vildi setja svona "sambands-status" á facebook.  Ég samþykkti að við værum "in relationship", sem er svo sem ekkert að samþykkja enda búin að vera saman síðan 1996 ...

... þrátt fyrir það hafa viðbrögðin við þessu "múvi" okkar verið nokkuð góð ... :) 


Fimmtudagur 14. apríl 2011 - GHPL stígur á stokk

Mæðgurnar settu saman innkaupalista síðastliðinn sunnudag. Fróðlegt að sjá hvernig upptalningin, svona um miðbik, tekur 90° beygju ...
En listinn var eftirfarandi (það sem Lauga taldi upp er merkt með (SGG) en það sem Guddan valdi er merkt með (GHPL)):

Mjólk (SGG)
Djús (GHPL)
Ávextir - epli (GHPL), perur (GHPL) og bananar (SGG) 
Rjómi (SGG)
Niðursoðnar perur (SGG)
Súkkulaði (í tertu) (SGG)
Bók (GHPL)
Fíllinn (GHPL)
Blómið (GHPL)
Dóra (GHPL)

--- 

Það er óhætt að segja að Syd Houdini hafi tekið miklum framförum meðan ég skrapp til Íslands.  Hún segir hún alveg hiklaust "ó je" með miklum tilfæringum ef maður biður hana um að gefa "fæv".  Það gerði hún einmitt ekki áður en ég fór til Íslands.

--- 

Guddan var í fríi í skólanum í dag vegna viðgerða á skólahúsnæðinu.  Þess vegna sátum við út á svölum í morgun og ræddum málin.  Eftir að hafa bókstaflega malað eins og kvörn í dágóða stund, og algjörlega án þess að ég skildi upp né niður í því sem hún var að segja, þá fékk hún þá flugu í höfuðið að ég ætti eitthvað bágt.

"Allt í lagi?"
"Já, já ... allt í lagi ... " 
"Já ... "
Smá þögn.
"Allt í lagi?"
"Já, já ... "
"Mmmm ... "
 (kinkar kolli)

Svona gekk þetta í smástund ... svo byrjaði önnur sena ...

"Ná í dúkkuna, bangsa ... (eitthvað óskiljanlegt) ... kem aftur ... "
Svo hljóp hún inn og náði í dúkkuna.
"Ná í bangsa ... (eitthvað óskiljanlegt) ... kem aftur ... kem aftur ... "
"Ok ... ég bíð ... "
Hljóp inn og náði á bangsann.
"Ná í dúkkuna ... (eitthvað óskiljanlegt) ... kem aftur ... "

Að lokum var eitt og annað komið út á svalirnar ... t.d. Herbalife-dunkurinn og Herbalife-próteinið sem mamma vildi endilega að ég tæki með mér.  Og hverri ferð fylgdu sannfærandi loforð um endurkomu ...

---

Um daginn var GHPL að lita. Hún greip hvítan vaxlit og tók til óspilltra málanna.  Eins og vænta mátti skilaði hvítur litur á hvítt blað fremur takmörkuðum árangri.

Guddan lyfti litnum af blaðinu og leit framan á oddinn ... "æi ... tómur ... "

Hún teygði sig eftir græna litnum. Málið var afgreitt.


Miðvikudagur 13. apríl 2011 - Nokkur komment um kvikmyndagerð

Svíþjóð heilsaði mér með pompi og prakt í hádeginu í dag ... Sverrir mættur út á flugvöll á ná í mig ... það var afar fallegt af honum :) .

Aldrei þessu vant þá ákvað ég að hafa það extra "næs" í flugvélinni.  Keypti mér t.d. eggjaköku með beikoni, pylsu og kartöfluteningum á 1500 kr.  Fullkomið rán þar á ferðinni ... ;) . 
Meðan ég át herlegheitin þá horfði ég á myndina "Gauragang".  

Þrátt fyrir einbeitta vilja og jákvætt viðhorf, verð ég að viðurkenna að mér fannst hún ekkert sérstaklega góð. Nokkrar villur í henni spilltu líka fyrir. 

Sem dæmi ... myndin á að gerast kringum áramótin 1979/1980.  Þrátt fyrir þetta notar aðalsöguhetjan í myndinni þá peninga sem teknir voru upp eftir myntbreytinguna sem var í upphafi árs 1981.  Og ekki nóg með það ... hann hringir í tíkallasíma og notar til þess tíukrónupeninga sem voru ekki teknir í gagnið fyrr en árið 1984, þegar blái 10 krónu seðillinn með Arngrími lærða vék fyrir loðnu-tíkallinum.

Að auki ekur ein persóna myndarinnar á gamalli ryðgaðri Lödu.  Út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja en heppilegra hefði verið ef einhver hefði haft vit á því að sjá til þess að týpan væri frá 8. áratugnum.  Sú týpa sem sést í myndinni var ekki framleidd fyrr en kringum árið 1985.

Þá fannst mér orðanotkun unglinganna í myndinni miklu nær því sem er í gangi í dag en var áður fyrr.  Því miður man ég samt ekkert dæmi til að styðja mál mitt ... þyrfti að horfa aftur myndina.  En orðfærið var bara þannig að maður beið bara eftir að einhver tæki upp gemsann sinn og sendi sms.

Ljóst er að ofurlítil rannsóknarvinna hefði nú gert gæfumuninn þarna ... ;) .

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn mættu líka vanda sig svolítið meira í klippingunum ... sérstaklega þegar fólk fer á milli staða.  T.d. í Gauragangi, þá var aðalsöguhetjan að hlaupa einhvers staðar í Vesturbænum held ég og svo einni sekúndu síðar var hún komin niður að Tjörninni.  Ég sá líka einhvern íslenskan glæpaþátt á sunnudagskvöldið sem á að gerast á Akureyri.  Þar þeyttust menn bæjarhlutanna á milli á innan við sekúndu.

Auðvitað spilar það inn í að maður þekkir staðhætti í Reykjavík og á Akureyri mjög vel.  Sjálfsagt væri þetta í góðu lagi ef slíkt væri ekki raunin en mér finnst samt að það mætti spá meira í þetta, einmitt vegna þess að mjög margir sem sjá þessar myndir eru kunnugir staðháttum.

Jæja ... ég held bara að þetta sé fyrsta færslan mín á þessari bloggsíðu sem fjallar um kvikmyndir ... það var þá kominn tími til.


Þriðjudagur 12. apríl 2011 - Leibbi frændi yfirgefur sviðið ...

Jæja, þá hefur Leibbi frændi sagt "bless".

Magnaður karakter hann frændi minn óhætt að segja það.  Vakti athygli fólks hvar sem hann kom.  Þeir sem hittu Leibba frænda gleymdu því aldrei ... hann var svo skemmtilega öðruvísi.

Ég ætla skrifa meira um Leibba frænda síðar ... 

... en svo mikið er víst að einn minn mesti og besti bandamaður og mikill áhrifavaldur er nú horfinn af sjónarsviðinu.

Ég þakka honum kærlega fyrir samveruna, athugasemdirnar, leiðsögnina, mismælin, hláturinn, spurningarnar, göngutúrana, ... já bara allt.  Ég er lukkunnar pamfíll ...

--- 

Nýr kapítuli hófst í gærkvöldi ... blessuð sé minning Leibba frænda ... 

 

 


Mánudagur 11. apríl 2011 - Niðurstöðurnar kynntar - fyrirlestur og útvarpsviðtöl

Þessi dagur er búinn að vera alveg frábær :) .

Tvö útvarpsviðtöl ásamt Auði Ottesen ... annað í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 og hitt í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Svo var fyrirlesturinn sjálfur á Hringsal Barnaspítala Hringsins.  Mjög góðar undirtektir og skemmtilegar umræður sköpuðust eftir fyrirlesturinn.

Þannig að niðurstöður rannsóknar á biðstofu dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á LSH við Hringbraut eru komnar allhressilega út í loftið.

Nú er bara að taka til við að undirbúa næsta skref rannsóknarinnar í samvinnu við LSH og raunar alla þá sem áhuga hafa á bættu umhverfi sjúkrastofnana.

En þetta er skemmtilegt :)  


Miðvikudagur 6. apríl 2011 - Betri biðstofur

Þá er maður kominn til Íslands eins og stundum áður.

Margt sem liggur fyrir að þessu sinni.  Í gær var mjög vel heppnaður fundur á Landspítalanum í tengslum við verkefnið sem ég, ásamt félögum mínum í samtökunum Umhverfi og vellíðan, höfum verið að vinna að á biðstofu dag- og göngudeildar krabbameinslækninga á LSH.

Niðurstöðurnar eru áhugaverðar og verða þær kynntar á opnum fundi í Hringsal Barnaspítala Hringsins næstkomandi mánudag kl. 13 og það eru allir velkomnir.

Nú er maður á kafi í að undirbúa fyrirlestur sem halda á í Sandgerði á morgun.  Hlakka mikið til þess verkefnis :) .


Sunndagur 3. apríl 2011 - Guddan stýrir

Í morgun lágu þær mæðgur makindalega í stofusófanum, þar sem sú eldri gaf þeirri yngri jógúrt. Svo kom að því að stubbur neitaði að innbyrða meira og Lauga spurði hvort hún mætti klára upp úr skálinni.

Það var nú meira en auðsótt mál, þannig að Lauga tók til óspilltra málanna.  Í þann mund sem hún renndi niður síðustu dropunum, kom dóttirin aðvífandi og leit ofan í tóma skálina.

"Dugleg!!" sagði hún við móðurina og klappaði henni á vinalega kollinn. "Viltu meira?" bætti hún svo. 
"Nei takk ... en vilt þú meira?"
"Nei."

Svo tók hún skálina, verkaði betur upp úr henni með skeiðinni og lét móðurina klára almennilega upp úr skálinni.  Þegar því var lokið ... "Dugleg!!

---

Við skruppum niður í bæ í dag ... bara svona til að njóta vorblíðunnar og gera eitthvað annað en að vinna.


Hlaupið í göngugötunni ...


Farið yfir Íslandsbrúna


Talað við endurnar á tjörninni

Við komum við á kaffihúsi ... þar sem Guddunni var boðið upp að velja sér eitthvað.

Hún stóð fyrir framan afgreiðsluborðið, studdi fingrinum tilviljanakennt á glerið sem aðskildi hana frá brauðunum og kökunum.  Samfara bendingnum romsaði hún út úr sér einhverju sem gjörsamlega ómögulegt var að skilja.

Lauga horfði á þessar aðfarir og hlustaði á ræðuna, skildi ekkert og spurði því hvort hún vildi fá eitthvað að borða.

Guddan leit þá reiðilega af bakkelsinu á móður sína, studdi höndum á mjaðmir og sagði grútpirruð: "MAMMA!!!  HLUSTAÐU!!!"


Föstudagur 1. apríl 2011 - 1. apríl

Þessi dagur byrjaði á því að ég ætlaði að draga stólinn minn undan skrifborðinu og þá var hann fastur. 

Tókst að losa hann, fékk mér sætið, tók utan um tölvumúsina ... sem þá var umvafin plastfilmu og öll löðrandi í sólberjasultu.

Fór fram á klósett ... helst til að komast að því að búið var að vefja plastfilmu utan um kranann, þannig að vatnið frussaðist út um allt.

Settist fyrir framan tölvuna og beina leið inn á internetið ... þ.e.a.s. ef ekki hefði verið búið að slökkva á internet-"rádernum" ...

Spúsan greinilega vel undirbúinn fyrir 1. apríl ...

Reyndi að hefna mín með því að biðja spúsuna um að færa mér vatn að drekka ... en var þá búinn að losa um stútinn á eldhúskrananum ...

Mistókst gjörsamlega ... ekki það að hún hefði ekki verið til í að færa mér vatnið ... hún skrúfaði bara svo lítið frá að það kom engin almennileg gusa ... 

Svona gerðust kaupin á Eyrinni í dag ...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband