Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Sunnudagur 13. febrúar 2011 - Hæðir og lægðir hjá Guddunni

Það var gaman að fylgjast með Guddunni í dag ... virkilega ...

Greinilega búin að herðast mikið frá því sem áður var :) .  Ég hef ekki séð hana svona áður ... 

Málið var að í dag hittum við Gunnar og Ingu Sif og börn þeirra Óla Má og Gerðu á kaffihúsi í Gränby Centrum. Lauga og Gunnar vinna saman og hittast því oft en við höfum ekki hittst öll svo mánuðum skiptir.

Óli Már og Guddan eru nokkurn veginn jafngömul ... og síðast þegar við hittumst þá mátti blessaður drengurinn bara ekkert gera öðruvísi en stubbur færi að gráta og góla. Maður var stundum alveg gáttaður á þessum bjálfagangi ...

... en í dag var öldin önnur ... nú var ekkert grátið heldur mættust stálin stinn, hvorugt gaf þumlung eftir, það var tekist á um dótið sem var meðferðis, það var svolítið slegist en allt endaði þetta með því að þau urðu perluvinir. Þau hlupu saman um ganga verslunarmiðstöðvarinnar, inn í búðir, út í sýningarglugga, stoppuðu rúllustigana o.fl.

Svona eiga "götustrákar" að vera!! 

---

Guddan var samt ekki alveg jafn upplitsdjörf þegar hún var keyrð niður af farþega á snjóþotu í Årsta-brekkunni. Það var mildi að ekki fór verr en áreksturinn var samt nógu harður til þess að Guddan þeyttist upp í loftið og snerist þar hálfhring uns hún lenti á kafi ofan í snjónum. 

Óneitanlega kostuleg sjón.

---

Það er lítið um myndir þessa dagana ... batteríið í myndavélinni er búið og ég finn ekki hleðslutækið ...

... þetta hlýtur samt að fara að koma ... trúi ekki öðru. 


Föstudagur 11. febrúar 2011 - Sýndarveruleiki, Margrét Pála og Kristján

Það var bara hríðarkóf í morgun ... mjög slæmt verður á uppsalskan mælikvarða en svona lala á íslenskan.

En dagurinn er búinn að vera góður og "effektífur".  Hef verið að sullast í að hanna sýndarveruleikann sem ég hyggst nota í næstu rannsókn hjá mér.  Hef verið svo lánsamur að fá í lið með mér danska þrívíddarsnillinga ... alvöru menn ...

Þetta er mjög spennandi verkefni svo ekki sé meira sagt ...

---

Meðan á þessari tölvuvinnu stóð hlustaði ég m.a. á pistlana hennar Margrétar Pálu Hjallastefnustjóra sem eru á Rás 2 á þriðjudögum.  

Það er ákaflega margt forvitnilegt sem kemur fram hjá henni, auk þess sem hún er bara svo bráðskemmtileg ... talar oft skemmtilega íslensku og er röggsöm í málflutningi, svo ekki sé minnst á innihaldið.

Ég er sammála sumu sem hún segir en öðru ekki og iðulega eftir að hafa hlustað á hana vakna upp margar spurningar ... ég væri meira en til í gott spjall við hana við tækifæri.

Hvet alla sem hafa áhuga á uppeldis- og menntamálum að hlusta á Margréti ... þó ekki sé nema til þess að vera ósammála því sem hún er að segja. Öll umræða er af hinu góða. 

---

Hlustaði líka á viðtal við Kristján Jóhannsson í Færibandinu hjá Bubba. Feykilega skemmtilegt viðtal.

Ég hef alltaf haft gaman af Kristjáni enda er aldrei lognmolla kringum þennan karl.  En mikið djöfull er maðurinn búinn að berjast og djöfull er hann búinn að afreka mikið.  Mönnum getur fundist allt mögulegt um hann, hvort hann sé montinn eða ekki, hvort hann syngi vel eða ekki o.s.frv.

Það er hinsvegar óumdeilt að Kristján á stórglæsilegan feril söngferil. Og ég skil ekki af hverju sumir kappkosta að gera lítið úr ferli hans.  Man t.d. eftir ómaklegri úttekt DV fyrir nokkrum árum þar sem niðurstaðan var sú að feril Kristjáns væri stórlega orðum ofaukinn og í raun ekkert sérstakur.

Þegar söngvari er búinn að syngja oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á La Scala, Metropolitan, óperunni í Chicago, í Veróna o.s.frv. o.s.frv. þá þarf ekkert að ræða þessa hluti. 

Það sem gerir þetta viðtal sérlega skemmtilegt er hvað Kristján er einlægur.  Sérstaklega snerti það mig þegar hann ræddi um fráfall konu sinnar á gamlársdegi snemma á 9. áratugnum. Daginn áður hafði hann sungið fyrir hjá Metropolitan-óperunni í New York en flaug svo umsvifalaust til Bonn í Þýskalandi til að hitta konu sína, sem var þar undir læknishöndum. En hún lést áður en hann náði til hennar.

Hann lýsti hvernig hann, eftir að hafa dvalist í líkhúsinu hjá konu sinni allan daginn, gekk brotinn maður um götur Bonn um kvöldið og drakk bjór til að lina sársaukann. 

Að lokum bugaðist hann ... hann hringdi heim til Íslands ... til mömmu ...

Mér fannst þessi endir svo hjartnæmur að ég vöknaði um augun ...

Þessar mæður ... það er alveg sama hvað maður er og hvar maður er ... það er alltaf gott að leita í móðurfaðminn ;) . 

 

Læt þetta duga í bili ... 


Fimmtudagur 10. febrúar 2011 - Vor í lofti?

"Mér er sama hvað hver segir ... það er vor í lofti", sagði hinn eini sanni Sverrir í fyrradag, á leiðinni út í bíl eftir að við höfðum sporðrennt sitthvorum Subway-bátnum.

Og ég gerði það sem ég hefði ekki átt að gera ... ég tók mark á honum ... 

"Já, ég held það bara ... " svaraði ég. "Systir mín er líka fimmtug í dag" bætti ég svo við, eins og það kæmi málinu eitthvað við. 

Sverrir var líka fljótur að grípa það á lofti. "Hvað kemr það málinu eiginlega við?!?

"Tja ... veit ekki ... vildi bara nefna það.

--- 

Í gær datt hitastigið niður í tæpar -14°C. Lauga kom heim úr vinnunni eldrauð í framan. "Djöfull er orðið kalt".

Í dag hefur snjóað endalaust. "Það er næstum vonlaust að hjóla núna það er svo mikill snjór" sagði ég vil Laugu í kvöld eftir að ég hafði skroppið út í búð. "Já, ég veit" svaraði hún.

 

"Mér er sama hvað hver segir ... það er vor í lofti". 

My a**!!! 

---

Sverrir virðist vera álíka spámannlega vaxinn og Leifur frændi.

Á árum áður átti Leifur það til að slengja fram veðurspá fyrirvaralaust. Alverst var þegar hann spáði sól og blíðu, því þá var allra veðra von.

Dæmi um það var hinn 17. júní árið 1988. Dagur sem rennur mér seint úr minni en þá vorum við Leifur ásamt fleira fólki uppi í Borgarfirði.

Daginn áður höfðum við náð í tvo hesta úr tamningu hjá Skúla á Svignaskarði og hugðumst nota þjóðhátíðardaginn til að stunda útreiðar. Á leiðinni heim frá Svignaskarði spáði Leifur þessu líka fína veðri ... "sól og blíða á morgun" sagði hann ákveðinn.

Árla morguns var hins vegar skollið á slíkt fárvirði að elstu menn mundu vart annað eins. Suðaustan rok og ausandi rigning.

"Jæja" sagði Leifur þegar hann leit út um gluggann. Svo mörg voru þau orð.

Reiðhestarnir stóðu og hímdu úti í veðurofsanum og ekki var annað í stöðunni en að koma þeim á hús.

Frá og með þessum degi hef ég alltaf beðið fyrir mér þegar Leifur setur sig í stellingar veðurspámannsins ... sem betur fer er hann að mestu hættur því ... 

---

Guddan er járnhress ... enda svo gaman á leikskólanum að sennilega myndi það hálfa duga.

Ólétta húsfreyjunnar er farin að taka sinn toll, sem helst lýsir sér í miklum og síendurteknum andvörpum við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.

Sjálfur hef ég verið að skrifa grein sem meiningin er að birtist í næsta hefti Múlaþings ... 


Þriðjudagur 8. febrúar 2011 - Refsing, vinna og 50 ára afmæli

Í kvöldmatnum var brotið blað ... 

Guddan neitaði að borða hrísgrjónagraut og í mótmælaskyni tók hún sig til og sneri fullri skálinni á hvolf og fór allt út um allt eins og vænta mátti ...

Einkunnin fyrir þetta framtak var mjög bág og var Syd, í fyrsta skipti á ævinni, sett inn í herbergi í refsingarskyni.

Refsingin stóð mjög stutt yfir og var náð í mjög sorgmæddan stubb innan við mínútu eftir að hann hafði verið settur inn í herbergið.

Fullkomnar sættir náðust skömmu síðar og var GHPL hin hressasta þegar hún tók aftur til við að borða grautinn. Talaði með kúffullan munninn ... svo mikið að maturinn átti til að detta útúr henni.  

---

Dagurinn hefur annars liðið bæði hratt og vel. Núna er undirbúningur fyrir þriðju og síðustu rannsóknina í doktorsverkefninu mínu á fleygiferð.

Þrír nemendur við Uppsalaháskóla hafa verið dregnir inn í verkefnið sem aðstoðarmenn, þannig að nú verða hlutirnir að ganga smurt ... síðuhaldari er kominn í skrúfstykkið, sem herðist jafnt og þétt. 

---

Svo er afmælisdagur Toppu systur í dag ... hún er hvorki meira né minna en 50 ára í dag ... segi það og skrifa!!

Frábær systir sem ég á!!


Þarna eru þær ... afmælisbarn dagsins, Bína og Guddan ... 


Mánudagur 7. febrúar 2011 - Búdapest-för að baki

Jæja ... þá er maður skriðinn aftur í hús eftir stórgóða ferð til Búdapest.

Við skruppum þangað í menningar- og skemmtiferð með Sverri og Dönu ... sem reyndust þegar upp var staðið hinir frábærustu ferðafélagar.

... og hvað var gert?

Kastali.

Þinghús.

Virki.

Stærsti heiti pottur í Evrópu ... í Széchenyi furdö

Miðbær.

Matsölustaðir.

Matvörubúðir.

Markaður.

Það verður ekki af þessari borg tekið að hún er glæsileg ... og almenningssamgöngurnar algjörlega til fyrirmyndar, þó svo farartækin væru langt frá því að vera af nýjustu gerð.

En sumsé ... frábær ferð í alla staði ... verst hvað myndavélin okkar er hörmulega léleg ... og því er myndefnið af skornum skammti ...

 
Í Fiske bastiljonen ...

Í kvöld ákvað ég svo að telja saman löndin sem ég hef komið til og sá að Ungverjaland er 27. eða 28. landið sem ég heimsæki (það fer eftir því hvort Álandseyjar eru taldar með eða ekki).

 

Það er sumsé slatti ennþá sem hægt er að heimsækja ... og ég er með nóg að plönum í kollinum ...

Austurlönd nær og Afríka er það sem heillar mest núna.  Nánar tiltekið ... Sýrland, Jórdanía og Íran ... og Karíó - Cape Town ... 


Miðvikudagur 2. febrúar 2011 - Neitun og offita

Ég er sannfærður um að ekkert barn hefur, miðað við aldur, sagt jafnoft "nei" og Guðrún.

Það er nánast sama hverju maður spyr hana að ... svarið er iðulega "nei".

Fyrir réttu ári skrifaði ég færslu hér á síðuna sem fjallaði einmitt um það þegar GHPL var að byrja að segja "nei" ... síðan þá hafa nei-in verið sögð.

Þar með er ein "uppeldiskenningin" mín fallin. Hún gekk út á það að börn vendu sig á að segja "nei" vegna þess að foreldrar þeirra væru alltaf að segja "nei" við þau.  T.d. þegar er verið að banna að gera hitt og þetta ... "nei, nei, nei ... ég sagði nei, ekki gera þetta ... nei, hættu, nei ... (o.s.frv)". 

Málið er nefnilega að við Lauga höfum lagt okkur sérstaklega fram við að segja ekki "nei" við stubb. Finna frekar einhver önnur orð en allra helst reyna að fá hana til að fókusera á eitthvað annað en það sem við viljum ekki að hún sé að gera.  

Niðurstaðan ... mesti "nei-ari" í heimi. 

Samt segir nú máltækið að "börn læri það sem fyrir þeim er haft" og því erum við ekki af baki dottin ... þessu verður haldið áfram ... og einn góðan veðurdag mun allt snúast við og mesti "já-ari" í heimi stígur fram. 

---

"Bissí"-dagur.  Skrapp meðal annars til læknis ... í heilsutékk.

Fróðleg heimsókn í marga staði. T.d. fékk ég að vita að ég hef hækkað um 1 cm síðan ég mældi mig síðast ... er nú kominn í 184 cm. Það er af sem áður var þegar ég var minnstur í bekknum ... seisei ...

Í annan stað fékk ég að vita að ég væri andskoti þungur ... sem ég vissi reyndar ...

Og í þriðja lagi fékk ég að vita að ég glími við "offitu" enda er BMI-talan hjá mér yfir 30. Ég gat nú samt ekki varist brosi, því ég held að fæstir sem hafa séð mig nýlega myndu kvitta undir að ég glími við offitu.

Hvað getur maður samt sagt þegar tekin er svona mynd af manni? 

 

---

En þessi BMI niðurstaða kom lítið óvart enda hef ég tekið allhressilega til í mataræðinu hjá mér síðustu vikurnar.

Svo þarf að fara að bæta við hreyfinguna ... 70 mínútna fótbolti 2x í viku er greinilega ekki nóg.  


Þriðjudagur 1. febrúar 2011 - Fyrsta innkaupaferðin

Þegar ég náði í Gudduna á leikskólann í dag, vildi hún endilega fara í búðina ... þ.e. í matvörubúðina.

Það er eitthvað rosalegt sport að fara þangað ... en barnið erfir það hvorki frá mér né Laugu ... því hjá okkur mælist hamingjan í öfugu hlutfalli við fjölda búðarferða.

... en jæja ...

Ég lét það eftir blessuðu barninu enda forvitinn að sjá hvað hún hyggðist gera í búðinni ... hvað gerir 2,5 ára gamalt barn í matvörubúð?

Ég spurði hana hvað hún ætlaði að gera í búðinni.

"Appelsínur, epli, tómatar" var svarið. 

"Já en þetta er allt saman til heima".

Það skipti engu máli. 

---

Stubbur gekk vasklega til verks í búðinni.  Byrjaði á því að ná sér í innkaupakerru við hæfi. Ók svo að skápnum þar sem nýbakaðar kökur er að finna. Þar átti að fá sér grænan marsipan-staut.

Svo var það grænmetið. Einn tómatur.

Því næst kælivörurnar. Hrísmjólk með hindberjum og 2 lítrar af Bravo-appelsínusafa. 

Í kjölfarið var gullfiskabúrið heimsótt.

Eftir að hafa horft á fiskana í smástund datt fókusinn alveg út, kannaðist sú stutta ekkert við að vera kaupa neitt og tók ekki í mál að ýta kerrunni meira.

Strikið var tekið á sælgætisbarinn, þar sem óskað var eftir "smarties". Því var hafnað. Þá var lagst í gólfið.

Brá ég þá á það ráð að bjóða henni að "borga konunni" eins og það er kallað. Það var samþykkt og borgaði Syd konunni með 100 kr. seðli og tók hróðug við afgangnum.

Raðað var í pokann og gengið frá kerrunni.

---

Þetta var sumsé fyrsta innkaupaferð dótturinnar ... þar sem hún er í "ökumannssætinu" ... 

 

Er ekki alveg að skilja þetta með þennan tómat ... Guðrún hefur aldrei nokkurn tímann fengist svo mikið til að snerta tómat með tungubroddinum?!?! 

---

Annars vorum við Lauga í skemmtilegum umræðum í kvöld um kærleikann og skilyrðislausa ást. Það er svo sannarlega "valid" umræðuefni.

Ég spurði Laugu: "Hvað er eiginlega skilyrðislaus ást?"  

Hún svaraði því í löngu máli, við köstuðum svo boltanum fram og aftur dágóða stund ... og skildum svo spurningar eftir í loftinu ...

Á tímabili hélt ég að ég væri að skilja þetta ... en núna held ég að ég skilji þetta ekki ... en samt er ég einhvern veginn nær því að skilja þetta en áður ...

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband