Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
30.11.2011 | 23:37
Miðvikudagur 30. nóvember 2011 - Undirbúningur flutninga í algleymingi
Við Lauga rétt mundum eftir því í dag að nafni er 7 mánaða í dag. Nákvæmlega ekkert gert með það enda allt á fullu í það að undirbúa flutningana á morgun. Þrífa og pakka niður er "beisklí" það sem búið er að gera í dag.
Mjög skemmtilegt :) .
Þetta er farið að taka á sig mynd hjá okkur. Í fyrramálið mæta svo gallvaskir félagar okkar og málið tekið föstum tökum. Sjálfur stíg ég upp í flugvél kl. 13.20 og held til Íslands í nokkurra daga vinnuferð.
En þessi færsla verður sú síðasta úr þessari íbúð sem við höfum dvalið í síðan 23. mars 2009. Þá mættum við með tvær ferðatöskur og einn barnavagn.
Þann 23. mars 2009 leit þetta svona út.
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá enda erum við nú að flytja sjö svarta ruslapoka, þrjár ferðatöskur, átta plastpoka fulla af bókum, já og sitthvað fleira.
Þann 30. nóvember 2011 leit þetta svona út.
En þetta verður síðasta færslan úr þessum híbýlum ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2011 | 23:11
Þriðjudagur 29. nóvember 2011 - Að láta moka sér út
Ég var sennilega heldur fljótur á mér í gær þegar ég fullyrti um að veturinn væri kominn ... snjófölina tók nefnilega upp í dag. Nokkuð sannfærandi meira að segja.
Annars hefur þessi dagur verið svolítið sérstakur. Aldrei fyrr hef ég búið á stað þar sem húsgögnin eru hreinsuð út ... bara rétt sisona.
Það gerðist í dag.
Við flytjum á fimmtudaginn og í dag kom eigandi íbúðarinnar sem við höfum leigt af síðastliðin 2,5 ár og tók mestan hluta af dótinu sínu. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að ætla bara að taka skápa, varð niðurstaðan sú að eldhúsborð, eldhússtólar, stofusófi, stofustóll og sófaborð var fjarlægt en skáparnir standa enn ásamt fullt af dóti sem á bara að ná í á laugardaginn þegar við erum flutt.
Samt var alls ekki sjéns að bíða bara með þessa flutninga fram á laugardag.
Ekki nóg með það, heldur þurfti Lauga að vera heima í allan dag til að hafa auga með því sem hér fór fram. Einfaldlega til þess að dótið okkar yrði nú ekki fjarlægt í öllum hamaganginum enda var því rutt fram og aftur eftir því sem ástæða þótti til. Þrátt fyrir það tókst að hafa af okkur þrjú reiðhjóladekk en þeim á bara skila þegar það hentar þeim sem tóku þau.
Það verð ég að segja að þetta eru nú eitthvert "egósentrískasta" framferði sem ég hef orðið vitni af.
---
Í kvöld skrapp ég svo á hljómsveitaræfingu. Hún var frábærlega góð og hressandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2011 | 22:24
Mánudagur 28. nóvember 2011 - Veðurfréttir
Nú lítur út fyrir að vetur sé skollinn á hér í Uppsala ...
Snjórinn er nú kannski ekkert yfirþyrmandi ... en málið er nú bara þannig að þegar snjó hefur fest að hausti þá fer hann ekki fyrr en í apríl.
Í gær var hinsvegar ekta íslenskt haustveður ... dálítið hlýtt, svolítið hvass og úrkoma ... þetta eru því óvenjumiklar veðurfarslegar sveiflur hér í Upplandi. Annars var nú óveður bæði sunnan og norðan við okkur þannig að engin ástæða er til að kvarta.
Ég hef haft af því spurnir að Íslendingar séu ekki hressir með yfirvofandi kuldakast ... þann 28. nóvember í fyrra fórum við niður í bæ hér í Uppsala að fylgjast með árlegri flugeldasýningu dagblaðsins UNT ... þá voru -12°C ... með vindkælingu -20°C.
28. nóvember 2010 - GHPL á leiðinni í bæinn ... og vildi alls ekki hafa vettlinga ...
Og þessi dagur var upptakturinn fyrir veturinn þar sem hitastigið fór mörgum sinnum niður fyrir -20°C og ég fullyrði að vikum saman hélst hitinn neðan við -15°C.
Þannig að einhver einn eða tveir sólarhringar með tveggja staða mínustölur drepur engann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2011 | 22:08
Sunnudagur 27. nóvember 2011 - Jólasveinaleit og pökkun
Það var jólasveinaleit hér í Uppsala í dag ... tveir jólasveinar með móður sína Grýlu í eftirdragi voru svo sannarlega áttavilltir því þeir héldu að þeir væru komnir til Íslands ...
... en það var svo sannarlega ekki rétt ...
---
Undirritaður brá sér í gervi jólasveins en segja verður að undirbúningurinn hefði átt að vera og verður að vera betri ... alvegt hafði láðst að rifja upp helstu jólasöngva og þegar átti á fara að syngja og tralla, var ekki um auðugan garð að gresja ...
Þannig að næst þegar síðuhaldari verður jólasveinn þá verður það tekið fastari tökum.
---
Guddan var mjög lukkuleg með að hitta jólasveinana í dag. Sagðist hafa spjallað við þá (sem er haugalygi) og þegið mandarínur og sælgæti (sem er satt).
Hið rétta varðandi spjallið er að hún hljóp undan jólasveininum eins og hræddur héri.
---
Í morgun fór fram allsherjar pökkun hjá okkur Laugu og er nú mestur hluti dótsins okkar kominn í poka, tilbúinn til flutnings.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2011 | 23:28
Föstudagur 25. nóvember 2011 - PJPL í sparifötunum
Ég held að menn verði nú ekki mikið flottari en þetta ...
... PJPL á leið í útskriftarveislu í kvöld en Inga Sif vinkona okkar varði doktorsritgerð sína í dag ...
Drengurinn stóð sig eins og hetja í afskaplega góðri veislu.
Á meðan lifði GHPL í vellystingum hjá uppáhöldunum sínum ... Sverri, Jónda og Dönu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.11.2011 | 22:50
Fimmtudagur 24. nóvember 2011 - Flæði, Ronja og Eric Carr
Ég er búinn að sitja við skriftir í bókstaflega allan dag ... og dagurinn hefur gjörsamlega þotið áfram.
Í jákvæðari sálfræði er fyrirbærið þegar maður gjörsamlega gleymir sér í viðfangsefni sínu, kallað flæði. Eftir því sem ég fæ best skilið næst flæði þegar viðfangsefnið er krefjandi en þó í fullu samræmi við getu einstaklingsins. Sá sem á heiðurinn að þessari speki heitir Mihaly Csikszentmihalyi bandarískur háskólaprófessor af ungverskum ættum.
---
Hjá Laugu var dagurinn af allt öðru sniði, þar sem hún var á stöðugum þönum frá klukkan 11 í morgun til klukkan 19 í kvöld. Og Þristurinn með.
Svo voru tímamót í danskennslu hjá GHPL þar sem hún í fyrsta skiptið fór ein (lestist: án Laugu) inn í kennslustofuna og tók fullan þátt. Ástæða þessara sinnaskipta er að nú hefur Guddan eignast vinkonu í dansinum. Sú heitir hvorki meira né minna en Ronja.
---
Það má einnig geta þess að í dag eru 20 ár síðan sá mikli söngvari Freddie Mercury lést. Já, tíminn er fljótur að líða.
En svo einkennilega vill tíl að í dag eru líka 20 ár síðan trommuleikari KISS Eric Carr lést. Ég man enn það augnablik þegar ég rak augun í frétt af dauða Eric, en birtist hún mér eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það segir nú kannski mest um fréttaflutninginn á þessum árum því Eric hafði barist við sjaldgæfa tegund af hjartakrabbameini í heilt ár áður en hann dó.
Það er fremur kaldhæðnislegt til þess að vita að Eric Carr hafi verið fyrstur meðlima KISS til að kveðja þennan heim en hann var, að sögn kunnugra, stakur reglumaður og í mjög líkamlega góðu formi. Það verður nú ekki sagt um fyrirrennara hans, trymbilsins Peter Criss, sem gafst upp á verunni í KISS árið 1979 eftir að dóp og áfengisdrykkja höfðu tekið öll völd. Það verður heldur ekki sagt um gítarleikarann Ace Frehley sem auk þess að drekka ótæplega, stofnaði sér og samborgurum sínum margoft í lífsháska með óhefluðu háttarlagi sínu. Báðir þessir menn lifa enn ...
En svona er þetta bara ... hér er Eric Carr árið 1982 í banastuði ... allir eldri en 5 ára og með einhvern vott af beini í nefinu þekkja þennan rokkslaga ... sem upphaflega gerði síðuhaldara að KISS-aðdáanda, sennilega til eilífðarnóns ... ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2011 | 23:22
Miðvikudagur 23. nóvember 2011 - Standup, kjólar og Kárahnjúkavirkjun
Helstu fréttir héðan eru þær að sonur minn er farinn að standa upp einn og óstuddur í rúminu sínu ... þeir dagar að maður geti bara hent honum inn í rúm og málið er afgreidd eru liðnir.
GHPL er í miklu "nei-stuði" þessa dagana ... kannski ekkert nýtt ... en það er hér um bil nákvæmlega sama hvað maður segir svarið er ávallt og eilíflega "nei". Það er samt ekki svo að hún fáist ekki til að gera hlutina ef maður fylgir fast á eftir. Þetta er einhvern veginn meira í nösunum á henni.
Sokkabuxur og kjóll eru aðalmálið og þegar stungið er upp á buxum fær maður eitt stórt "NEI" í andlitið. En málið er að sjálfsögðu ekki það einfalt að hægt sé að færa stúlkunni hvaða kjól og hvaða sokkabuxur sem er. Ónei ... það eru bara tveir kjólar og tvennar sokkabuxur sem koma til greina. Þessi þvermóðska í dótturinni fer brátt að verða til vandræða, því kjólarnir eru orðnir svo stuttir að þeir eru meira að verða eins og blússur og sokkabuxurnar svo snjáðar að þær eru orðnar gagnsæjar.
En dóttirin gefur sig bara ekki með þetta.
Í dag og síðustu daga hef ég mikið verið að spá í streitu, enda verið að taka sama efni um það merkilega fyrirbæri, sem af náttúrunnar hendi er varnarmekanismi til að auka lífslíkur fólks en hefur svo ærlega snúist upp í andhverfu sína að hún er orðin ein helsta heilsufarsógn nútímasamfélaga.
Já, og svo annað ... ég hef svolítið verið að fylgjast með umræðunni um Kárahnjúkavirkjun. Um arðsemi virkjunarinnar eða öllu heldur ekki arðsemi virkjunarinnar. Ég verð bara að segja það fyrir mig að þessi framkvæmd er örugglega sú brjálaðasta sem átt hefur stað á Íslandi og þó víðar væri leitað.
Og nú blasir ískaldur veruleikinn við ... eftir að búið er rústa stærsta óraskaða víðerni Evrópu er niðurstaðan sú að þetta er ömurleg fjárfesting. Málið snerist, eins og raunar hefur alltaf verið vitað, ekki um neitt annað en vinsældir arfaslakra stjórnmálamanna, undir þeim formerkjum að halda þyrfti hjólum atvinnulífsins gangandi ... þvílíkir sökkerar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2011 | 23:30
Mánudagur 21. nóvember 2011 - Allir undir borðum
Var á frábærri hljómsveitaræfingu í kvöld. Hrikalega gaman ... af hverju er maður ekki bara tónlistarmaður í stað þess að vera í þessu sálfræðidæmi ... ?!?
Gæti alveg vanist því að vera bara að vesenast í einhverju músikdæmi.
Jæja ...
---
Ég ræddi um að GHPL væri að taka stökk þessa dagana. PJPL er líka að taka stökk þessa dagana og dagurinn í dag er dagurinn sem hann fór að hreyfa sig eitthvað af viti um stofugólfið. Af viti segi ég? Það var nú reyndar ekkert af viti sem hann hreyfði sig því hann reyndi sér undir allt sam hann gat komið sér undir.
Hann tók sumsé systur sína til fyrirmyndar með því að vera að hnoðast undir borðum (sjá í þessu samhengi færslu gærdagsins).
Í kvöldmatnum sagðist Guðrún ekki ætla að borða neitt, greip þess í stað smjördolluna og fór með hana inn í stofu þar sem hún settist til að fara að horfa á sjónvarpið. Svo var smjörhnífnum dýpt á kaf í smjörið og vænn smjörhlunkur fór þvínæst upp í þá stuttu.
Svo var bakað í kaffitímanum ... já og öllum bestu vinunum raðað upp á borðbrúnina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2011 | 23:01
Sunnudagur 20. nóvember 2011 - Íbúð fundin!!
Jæja, þar kom að því ... loksins fengum við íbúð hér í Uppsala. Loksins!!
Það bara mjög fína, hér um bil tvölfalt stærri en sú sem við búum í núna eða tæplega 90 m2. Þannig að maður getur núna bara slegið um sig ...
Áður en við fengum þessa vorum við reyndar komin með annað húsnæði. 25 m2 á tveimur hæðum. Ég verð bara að segja það fyrir mig að mér fannst nú húsakosturinn vera að stefna í að verða ansi þröngur.
Tilfellið er bara að það er ótrúlega erfitt að fá húsnæði hér í Uppsala.
Það eru að vísu tveir mínusar við þetta. Sá fyrri er að við höfum húsnæðið bara í 7 mánuði og hinn er að staðsetningin er í hinum enda bæjarins miðað við núverandi staðsetningu, sem þýðir dálítil ferðalög með GHPL á leikskólann. En skítt með þetta!
Við erum afar sátt við þetta.
---
Þristurinn er kvefaður þessa dagana. Ofan á þau ósköp kemur svo tanntaka. Já, PJPL er að fá þriðju tönnina þessa dagana, þá fyrstu í efri góm.
Gengur mikið á af þessum sökum. T.d. var lítill svefnfriður gefinn í nótt. Hann var því svæfður með klóróformi í kvöld.
---
GHPL fer töluvert mikinn þessa dagana. Mér finnst vera eitthvað stökk núna í gangi hjá henni. Svona vitsmunalegt stökk. Hún er allt í einu farin að skilja svo miklu meira en hún gerði bara fyrir nokkrum dögum.
Hún er líka farin að taka upp á ýmsu sem ekki hefur sést áður. Eitt af því að vera alltaf að skríða undir borð. Það má varla sjást borð öðruvísi en undir það sé skriðið. Undir borðum er svo ýmislegt brallað, s.s. að láta Strumpa éta epli eða skrifa á gólfið, nú eða slökkva á rafmagnsmillistykkjum eins og hún gerði í dag þegar Lauga var að tala við ömmuna á Sauðárkróki. Allt í einu slokknaði bara á öllum heila "sýsteminu". GHPL hafði þá verið að prófa að slökkva appelsínugula ljósið.
---
Læt þetta duga í bili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2011 | 23:37
Laugardagur 19. nóvember 2011 - Bullið á landsfundi
Ég slysaðist inn á útsendingu frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar ég var að kíkja á fréttirnar á mbl.is síðdegis í dag
Af einhverri óskiljanlegri ástæðu lagði ég við hlustir í smástund. Meðal efnis voru einhverjar mínúturæður frá landsfundarfulltrúum þegar þeir sögðu skoðun sína á því hvort ætti að senda einhverja tillögu frá framtíðarnefnd flokksins í frekari vinnslu eða greiða um hana atkvæði á fundinum. Þar töluðu menn hver um annan þveran.
Jæja, svo þegar þessum "umræðum" lauk, gekk í púltið Hanna nokkur Birna Kristjánsdóttir frambjóðandi í formannssæti. Hún talaði í dágóða stund og ég hlustaði.
Ég veit eiginlega ekki hvað á að segja um þessa ræðu hennar. Það er bara eins og Hanna Birna, já og aðrir sjálfstæðismenn séu bara alveg búnir að gleyma því hverjir stjórnuðu landinu á árunum 1991 - 2008.
Hún talaði eins og öll þjóðin stæði alveg á öndinni yfir því að fá Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Fólk gæti bara varla beðið. Hún nefndi einnig að margir segðu að flokkurinn væri í sókn en sjálf sæi hún það ekki því allar skoðanakannanir síðastliðna 15 mánuði sýndu 36% fylgi. Því miður láðist henni alveg að nefna hvert svarhlutfallið var í þessum könnunum. Var það 50%, 60% eða 70%? Það hlýtur að skipta höfuðmáli þegar rætt er um þessi 36%.
Svo ræddi hún um að hvað ríkisstjórnin væri ömurleg og aðeins 14% þjóðarinnar treystu henni til góðra verka. Það verður þó að segja Hönnu Birnu til hróss að hún tók það fram að traustið til stjórnarandstöðunnar væri nú svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir. Eða 13%.
Mér er það hulin ráðgáta hvernig Hanna Birna fær það reikningsdæmi til að ganga upp að þjóðin sé að bíða eftir að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda en aðeins 13% treysti honum þó til þess (já og gleymum því ekki að Framsóknarflokkurinn og Hreyfingin eiga sjálfsagt nokkrar kommur í þessum 13%).
Eftir þessa þversagnarkenndu ræðu Hönnu Birnu steig formaðurinn í ræðustól. Hann var ekki búinn að tala lengi þegar reiknikúnstirnar byrjuðu.
Árið 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 33% á landsvísu og árið 2007 fékk hann 36% á landsvísu. Stórglæsilegt? Já vissulega. Svo bætti formaðurinn við að hann hefði haft það á stefnuskrá sinni sem formaður að endurreisa fylgi flokksins eftir háðuglega útreið árið 2009. Og já, þá kom rúsínan í pylsuendanum ... hann sagði að nú þegar væri því takmarki náð?!?
Það var á þessum tímapunkti í ræðu formannsins sem ég slökkti. Ég gat ekki hlustað á meira rugl.
Hvernig hann fær það út að búið sé að ná takmarkinu á nýjan leik? Hefur verið kosið aftur til alþingis á Íslandi síðan 2009? Svarið við því er nei.
Hvernig getur hann þá sagt að búið sé að ná aftur sama kjörfylgi og árið 2007? Sennilega með því að líta til sömu skoðanakannana og Hanna Birna vísaði til. Þessara sem segja Sjálfstæðisflokkinn með 36% fylgi.
Í gamni kíkti ég á Þjóðarpúls Gallup frá 8. nóvember sl. Viti menn, Sjálfstæðisflokkurinn er með 36% en þó aðeins meðal þeirra sem tóku afstöðu sem voru 61,5%. Það er eitthvað um 25% kjörfylgi sem er litlu betra en niðurstöður kosninga 2009 sýndu. Það er nú öll sóknin og allur árangurinn.
Svo ákvað ég að hlusta aðeins á ræðu Davíðs Oddssonar. Mér, eins og mörgum öðrum, finnst Davíð Oddsson dálítið skemmtilegur. Á því var engin breyting í dag, ólíkt hrútleiðinlegum ræðum þeirra sem standa í formannsslagnum.
Á máli Davíðs mátti skilja það að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert haft með hrunið að gera og björgun Íslands frá því að fara ekki lóðrétt til helvítis hefði fyrst og fremst verið vegna fumlausra vinnubragða og skynsamlegra ákvarðana Sjálfstæðisflokksins. Frá því að sú neyðarbjörgun, sem heppnaðist fullkomlega að mati DO, fór fram, hefði ekkert verið gert af viti af hálfu ríkisstjórnarinnar og mikilvæg tækifæri farið í súginn.
Þessi stjórnmálaflokkar eru eins og trúarhópar. Þarna í Laugardalshöll sitja 1000 manns eða fleiri og það virðist bara vera hægt að segja blákalt hvaða bull sem er. Höfuðið er á kafi ofan í sandinum og veruleikinn skrumskældur. Öllu þessu lýkur svo með dúndrandi lófataki og fólk klappar á bak og óskar hvort öðru til hamingju með að hvað allir á samkundunni og flokknum séu frábærir og hvað það sé nú frábært að vera hluti af þessari æðislegu fjölskyldu ... og blabla ...
... og Sjálfstæðisflokkurinn er lagt frá því eini flokkurinn sem svona er komið fyrir ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)