Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Þriðjudagur 18. maí 2010

Í dag voru keypt jakkaföt, skyrta og bindi ... 

Það var engin geðþóttaákvörðun ... heldur af nauðsyn.  Á morgun verður útskriftarveisla og á laugardaginn giftingarveisla.
Gallabuxurnar, þó ágætar séu, duga einfaldlega ekki ...

Myndir af síðuhaldara í múnderingunni munu birtast hér á síðunni ... no worries ;) .

Guddan fór að sjálfsögðu með í búðina.  Hjá henni fór mest orka í að skríða inn á milli jakkanna og buxnanna sem hengu á fatahengjum sem voru staðsett út um alla búð. 

---

Í kvöld skrapp ég í hjólatúr ... hjólaði rúmlega 20 km.  Leiðin lá út í sveit og lengi vel, hafði ég ekki hugmynd um hvar ég var staddur.  Regla sem í heiðri var höfð fólst í því að beygja til vinstri hvenær sem tækifæri gafst.

Með þeim hætti tókst mér að rata heim aftur.

---

Bongóblíða í dag ... þarf svo sem ekkert að nefna það neitt meira ...

--- 

Guðrún fór í 4H Gränby húsdýragarðinn í dag ásamt móður sinni.  Að sögn móðurinnar lék dóttirin við hvurn sinn fingur, hljóp á milli dýranna og kallaði hástöfum á þau.

Þegar hún kom heim spurði ég hana hvað hesturinn hefði sagt.  "Meee", var svarið.

Eftir frekari spurningar komst ég að því að öll dýrin í húsdýragarðinum höfðu sagt "meeee", nema haninn.  Spurningu um hann var ekki sinnt. 

--- 

Annars er mál málanna þessa dagana að klæða sig í skó eða stígvél.  Sú stutta skal allt bera skófatnað, hvar og hvenær sem er, innandyra sem utan.  Helst vill hún verða í bomsum eða vaðstígvélum. 

Græn epli eru í miklu uppáhaldi.

Fóstrurnar á leikskólanum segja hana hlaupa allan daginn, alla daga ... kannski ættu fleiri að taka sér það til fyrirmyndar ... sjá mynd ...


Þessi mynd var tekin í janúar sl.  Ástandið hefur lítið batnað síðan þá. 


Mánudagur 17. maí 2010 - Að vera ánægður

Rosalega erum við þrenningin fegin að vera ekki í Póllandi núna ... stórflóð og óveður.

Svona getur maður stundum verið heppinn ;) ...

---

Allt gott að frétta héðan ... frábært að það sé komið sumar aftur ... 25°C hiti í dag og sól.

Það er svo auðvelt að venjast þessu :)

---

Undanfarnar vikur hef ég mikið verið að spá í mikilvægi þess að vera ánægður og njóta þess að vera til.  Mjög áhugaverð pæling svo ekki sé meira sagt.

Ég hef líka verið að pæla í því að fólki er almennt ekkert kennt að vera ánægt.  Það er eins og ánægja með lífið eigi bara að koma af sjálfu sér.

T.d. ef horft er til uppeldis.  Flestir foreldrar eru einhvern veginn bara í því að sinna praktískum málum er viðkemur börnum þeirra.
Fæða, klæða, láta þau sofa nóg, láta þau snýta sér, sitja kyrr, vera kurteis, kenna þeim að þekkja hest frá kind o.s.frv.

Skólakerfið er í sömu hugleiðingum.  Sitja kyrr, hlusta, rétta um hönd, þylja upp margföldunartöfluna o.s.frv. ... 

Minna fer fyrir kennslu í að vera ánægður með sjálfan sig, ánægður með lífið, hafa gaman af því að vera til, njóta þess að læra, vera óhræddur o.s.frv.

Það lítur út fyrir að þessi færni eigi að koma af sjálfu sér ef barn fær nóg að borða, sefur nóg og finnur til öryggis. 

Nú er ég ekki að gera lítið úr mikilvægi þessara praktískra hluta. Grunnþörfunum, þörfunum um öryggi og þörfunum fyrir félagsleg samskipti þarf auðvitað að sinna.  

Af hverju glímir 95% fólks við brotna sjálfsmynd og minnimáttarkennd?  Af hverju leiðist svona mörgum?

Í þjóðfélagi þar sem þessum þörfum er sinnt í langsamlega flestum tilvikum þarf meira að koma til, til að fullur árangur náist.  Það þarf að kenna sjálfstraust og ánægju.

---

Ég held að þessar pælingar eigi mjög vel við um hvernig stjórnmálin, sérstaklega í Reykjavík eru að þróast þessa dagana.  

Stjórnmálin snúast alltaf bara um praktík, praktík og praktík ... og svo þvaðra menn fram og aftur.
Besti flokkurinn kemur inn með ánægjufaktorinn og vill sinna honum.

Þann 17. maí 2010 er Besti flokkurinn stærsta aflið í Reykjavík ...

Maðurinn er vitsmunavera og þarf meira en bara að láta troða í sig mat og skeina sér.   

---

Sú manneskja sem fékk mig út í þessar vangaveltur, var snillingurinn hún Sigurlaug.

Hún sagði við mig fyrir nokkru:  

"Sérðu glampann í augunum á Guðrúnu núna?"
"Já" svaraði ég.
"Ég vil viðhalda honum ... ég vil sjá þennan glampa ... það er mitt markmið í uppeldi hennar að þessi glampi verði til staðar." 

Mér þótti þetta svo kúl pæling að ég hef ekki stoppað að hugsa um þetta. 

 


Sunnudagur 16. maí 2010 - Póllandsferðin

Eins og áður hefur komið fram á síðunni skruppum við þrenningin til Póllands um síðustu helgi.

Ekki slæm ferð það.

Ég ætla rétt að skikla á stóru ...

---

Við flugum til Kraká, við stuttri viðkomu í Varsjá.  Það fyrsta sem blasti við í flugstöðinni í Kraká var þetta.


Myndin minnti óneitanlega á 101 Reykjavík ... og við nánari skoðun kom í ljós að þetta var 101 Reykjavík.

Allt fram á þennan dag hafði ég einhvern veginn haldið að allt væri svart/hvítt í Póllandi.  Þar fyndust engir litir.  Ég hélt líka að þar væri alltaf þoka og einhvers staðar í þokunni mætti sjá grilla í stór lauflaus tré.
Get staðfest að ekkert af þessu er rétt ... sennilega hefur maður séð einum of margar ljósmyndir úr stríðinu.

Fínt að vera í Kraká ... við skoðuðum gaumgæfilega gamla bæinn sem er á Heimsminjaskrá UNESCO.


Á Rynek Glowny torginu


Á einni merkustu götu Kraká ... Fioranska.


Í Wawel Hill kastalanum


Í elstu götu Krakár - Kanonicza

Svo skoðuðum við gamla gyðingahverfið í Kazimierz ... þar var svona heldur hrörlegt um að litast ... í þetta hverfi náðu nasistarnir í gyðingana á sínum tíma.


Hér er dæmi um herlegheitin ... horft upp götuna Bartosza

Í Póllandi er hægt að fá ýmislegt gott að borða t.d. ís ...

Og svo er Prins Pólóið náttúrulega ættað frá Póllandi ... hér er t.d. græn útgáfa af því ... sem síðuhaldari hefur ekki séð áður.

Skruppum svo í saltnámurnar í Wieliczka.  Stærstu saltnámur í heimi ... rúmlega 300 km af göngum.  Létum okkur nægja að skoða 3 km.  Dýpt 330 metrar.  Eru á Heimsminjaskrá UNESCO.
Guddan sló í gegn hjá hópnum, enda hagaði hún sér eins og sönnum heimsborgara sæmir.  Gekk meira og minna alla leiðina, kallaði lítið og grét ekkert.  Var jafnvel svo áhugasöm að hún tók fram úr leiðsögumanninum og vildi helst fara fram úr öryggisverðinum líka.

Dásamlegt að sjá ... á gervihnattöld ... hvernig Pólverjarnir útbjuggu aðgöngumiðana.  Þrír miðar prentaðir á A4 blað og svo blaðið klippt í þrennt með skærum.  Útbúa þurfti þrjú sett af miðum ... tók smá tíma að fá afgreiðslu ;) .


Fyrir utan "saltnámuhúsið"


Í kirkjunni sem er á 250 - 300 metra dýpi.  Allt þarna er úr saltsteini ... líka ljósakrónurnar.


Elskulegur maður bauðst til að taka mynd af okkur ... Lauga hélt að hann væri prestur, því hann var í fjólublárri skyrtu og hummaði sálma ... gæti vel verið rétt hjá henni.

Svo lá leiðin til Auschwitz og Auschwitz-Birkenau.
Þrúgandi andrúmsloft á þessum stöðum ... óhætt að segja það.  Hef tekið ákvörðun um að fara aldrei þangað aftur ...

Óhuggulegast af öllu fannst mér að horfa inn í glerbúr, þar sem voru 2 tonn af hári og sjá svo á öðrum stað afurðirnar sem búnar voru til úr hárinu.  Augljóslega vandaðar vörur sem þar voru á ferðinni ... kaupendur sjálfsagt aldrei upplýsir um hvaðan hráefnið kom.

Satt best að segja veit ég ekki hvort nokkrum sæmilega skynsömum manni sé hollt að skoða þessar útrýmingarbúðir ... né heldur að vera að velta sér of mikið upp úr þeim atburðum sem þarna áttu sér stað ...

... þetta er að minnsta kosti reynsla sem situr allkirfilega í mér.  Og eins og áður segir ... á þennan stað fer ég aldrei aftur.

Og ég held að ég hendi öllum myndum sem ég tók á þessum stöðum ...  

---

Jæja, en að léttara hjali ... ferðin var senn á enda ...

Guddan ákvað að sýna heljarinnar tilþrif á veitingastað síðasta kvöldið og vakti óskipta athygli.

Á eftir hljóp hún í hringi á eftir ljósi sem kastað var á götuna og snerist þar í hringi.  Úr ljósinu mátti lesa "Taboo Strip Club" ... góð skilaboð það!!

Annars voru það hestar sem drógu vagna sem vöktu mesta athygli hjá þeirri stuttu.  Ef eitthvert vandamál var í gangi mátti alltaf spyrja hana: "Hvar eru hestarnir?" 
Öllu veseni var snarlega hætt og spurningunni iðulega svarað með annarri spurningu: "Esta?" og svo rétti hún út hendurnar þannig að lófarnir vísuðu upp og yppti öxlum.  Hún hafði með öðrum orðum ekki hugmynd um hvar hestarnir voru ...

 

Þá gætti einnig þess misskilnings að þegar hún var beðin um að klappa hestunum, þá klappaði hún saman höndum ...
... þannig fékkst hún alls ekki til að klappa hestunum, en klappaði höndunum oft.

Á leiðinni heim til Uppsala, komum við svo við í Varsjá og skoðuðum gamla bæinn.  Frábær staður ...

 


Laugardagur 15. maí 2010

Alveg búinn að vera einstaklega latur við við þetta blogg allt frá því ég kom frá Póllandi.

Samt er sjálfsagt að geta þess að hér í Uppsala er sumarið komið ... góðar 26°C í dag.  Fer að minna á Sydney.

Deginum að mestu leyti varið í mína ástkæru dóttur og svo í fótbolta ...


Þriðjudagur 11. maí 2010 - Samband komið á aftur

Hér í Uppsala hafa hlutirnir svo sannarlega verið að gerast síðustu dagana og enginn tími gefist til bloggskrifa.

En hvað gerðist?

Þann 29. apríl komu Helga, Dóri og Bjarni Jóhann í heimsókn og dvöldu í nokkra daga.  Var sérleg ánægja meðal heimafólks með heimsóknina.

Komudagurinn var nú bara tekinn rólega ... Guddan og Bjarni Jóhann þurftu smá stund að slípa kunningsskapinn.  Svo vel gekk sú slípun að Bjarni var farinn að aðstoða dömuna við að standa upp áður en leið á löngu.

Daginn eftir var Valborgardagurinn haldinn hátíðlegur í Uppsala.  Sá dagur er nokkurs konar "dimmisjó", en allavegana er fullt af fólki í bænum þennan daginn.
Við vorum þar ... og hittum einnig Örnu, Karvel og strákana þeirra.


Hátíðarhöld fyrir framan aðalbyggingu háskólans

Næsta dag ... þ.e. á Verkalýðsdaginn var skroppið í Gränby Centrum, m.a. til að versla skó á blessaðan drenginn.
Þegar því var lokið tókum við Dóri okkur til og skruppum með stubbana í 4H Gränby, þar sem mátti sjá ýmsa ferfætlinga.  Vakti það jafnt hrifningu, sem og hræðslu.

Og um kvöldið fékk fröken Houdini klippingu ... ánægjan var í minni kantinum ...

Um kvöldið var svo rokkveisla að hætti hússins ... og þar var þessi mynd tekin ...

 

Á sunnudeginum var farið til Stokkhólms.


Í Kungsträdgården

M.a. var skroppið í Skansinn ...

Daginn eftir skruppum við Dóri í heljarinnar hjólatúr ... þar sem ekkert var dregið af og ófærurnar ekki látnar stöðva ferðina.

Að ferðast á hjóli kringum Viltvatten er ekki fyrir neina aumingja ... ;)

Síðasta heila deginum var svo varið í göngur um götur og stræti Uppsalaborgar ...

Þar með lauk þessari heimsókninni ...

Nóg í bili ...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband