Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
16.12.2010 | 21:46
Fimmtudagur 16. desember 2010 - Viðhorf og atferli
Nú er maður náttúrulega orðinn alltof framlágur til að skrifað eitthvað af viti ...
Hef lítið spáð í annað en viðhorf í dag ... hvað mótar viðhorf og hver eru tengsl milli viðhorfa og athafna.
Þetta eru fróðlegar "spekúlasjónir".
---
Það er alveg ótrúlegt hvað samræmi milli viðhorfa og atferlis er oft lítið, og hvað mannskepnan leyfir sér oft að stytta sér leið þegar kemur að því að móta viðhorf.
Þessi stytting á sér þó þær skýringar að heilabúið í okkur ræður ekki við öll þau áreiti sem dynja á skynfærum okkar. Þá er tvennt í stöðunni ... reyna að díla við öll áreitin og brenna yfir á tiltölulega stuttum tíma eða stytta sér leið.
Fólk þyrfti samt að vera meðvitaðra um að það er að stytta sér leið.
---
Svo fannst mér það mjög merkilegt að það er fólki eðlislægt að meta umhverfið með neikvæðum hætti.
Þetta er atriði sem ég hef oft pælt mikið í ... af hverju á maður svona miklu auðveldara með að sjá það sem er slæmt en það sem er gott?
Samkvæmt mínum heimildum á þetta sér þróunarfræðilegar skírskotanir, þannig að þegar maður bjó í náttúrunni, skipti miklu máli að vera góður í því að koma auga á hugsanlegar hættur, einfaldlega til að vera ekki drepinn.
Þannig þróaðist þessi eiginleiki með manninum í þúsundir og jafnvel milljónir ára ...
Hinsvegar ...
... segja vísindamenn að það sé vel hægt að þjálfa sig upp í að meta umhverfið með jákvæðum hætti ... þannig að hér er ekki verið að gefa vilyrði fyrir því að vera neikvæður og leiðinlegur ;) .
---
Og úr því maður er kominn út í þessa sálma.
Á afmælinu mínu skruppum við Lauga í hádeginu og fengum okkur að borða. Afgreiðslumaðurinn var meira en fúll á móti ...
Ég fór að pæla ... ætli það hljóti ekki að vera alveg rosalega leiðinlegt að vera svona svakalega fúll?
Ég meina ... gaurinn er kannski ekki að lifa skemmtilegasta lífi í heimi, en hjálpar það honum eitthvað að vera svona hrikalega fúll? Er lífið bærilegra þannig?
Ætli maður sé einhvern tímann betur settur fúll en glaður? Persónulega hef ég aldrei upplifað það ;) .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2010 | 23:20
Miðvikudagur 15. desember 2010 - Að vera eins og Freddie Mercury
Ég lærði klassískan söng á árabilinu janúar 1999 - febrúar 2006.
Ég þótti svona sæmilegur en það vantaði samt alltaf eitthvað upp á til að ég gæti tekið mér listamannsnafnið "Pálarotti".
Vegna þessa hætti ég þarna árið 2006.
Svo hófst söngnámið aftur 24. nóvember sl. ... og í dag sagði söngkennarinn mér, eftir að ég hafði sungið "I want it all" með Queen í míkrófón, að ég hljómaði bara mjög líkt og sjálfur Freddie Mercury.
"Það er ekkert annað" hugsaði ég en sagði upphátt við kennarann: "Þetta er "kompliment"!"
"Já" svaraði hann.
---
Ég er alveg með báðar fætur kirfilega á jörðinni ... en þessi popp/rokksöngur er nú að ganga betur en ég átti von á ... svona ef ég á að vera alveg hreinskilinn.
Spurning um að fara að líta eftir gulum jakka ... ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2010 | 22:19
Þriðjudagur 14. desember 2010 - Skítug föt
Maður hefur eiginlega ekki við að skrá hjá sér gullkornin sem hrjóta af munni dótturinnar þessa dagana.
---
Um daginn var tekinn upp pakki frá ömmu hennar og afa á Sauðárkróki ... þetta var eiginlega svona aukajólapakki ...
Í pakkanum voru fernar sokkabuxur og samkvæmt litgreiningu dótturinnar voru þær allar gular, þrátt fyrir að flestir aðrir myndu hafa talið þær meira út í bleikt, grátt, svart og hvítt.
Þegar litur buxnanna hafði verið ræddur svolítið, lýsti eigandi þeirra því yfir að þær allar með tölu, þar sem þær lágu rennisléttar og fallega brotnar saman, væru skítugar og vildi ólmur fara með þær í þvottakörfuna.
Amman hafði sumsé sent skítugar sokkabuxur til Svíþjóðar.
Þessar fyrirætlanir með þvottinn voru stoppaðar og buxurnar settar í snyrtilegan bunka í stofusófann.
En Adam var ekki lengi í Paradís, því nokkru síðar hafði eigandinn, þá orðinn berstrípaður eftir að hafa rifið sig í fullkomnu leyfisleysi úr öllum fötunum um hábjartan dag, sest ofan á buxnabunkann í sófanum og pissað í hann.
"Gulu" sokkabuxurnar fóru sumsé rakleiðis í þvottinn og gekk þar með áætlun eigandans fullkomlega eftir.
---
Í dag barst svo aðaljólagjafakassinn frá Sauðárkróki.
Guddan tók virkan þátt þegar tínt var upp úr kassanum, sem innihélt ýmislegt, t.d. ullarnærföt. Tók blessað barnið ullarnærfötin upp, skoðaði þau gaumgæfilega og sagði svo:
"Þau eru skítug."
Aðaljólagjafakassinn borinn inn í stofu ... Sydney í "gulu" sokkabuxunum og afmælisbarn dagsins halda undir sitthvorn endann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2010 | 14:28
Þriðjudagur 14. desember 2010 - Afmæli
Í dag er 14. desember ... og það er afmælisdagur síðuhaldara ...
Allir þeir lesendur sem finna hjá sér þörf fyrir að segja eitthvað fallegt við síðuhaldara á þessu tímamótum eru hvattir til að gera slíkt í athugasemdaboxinu ...
... þetta er svo sannarlega dagurinn til þess ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.12.2010 | 22:44
Mánudagur 13. desember 2010 - Lúsía, IKEA og geitin
Í morgun var Lúsíu-hátíð í skólanum hjá Guddunni en þar sungu öll börn skólans, ásamt kennurum, nokkur vel valin lög.
Við mættum öll á staðinn rétt um 7.30 í morgun eftir að "performer dagsins" hafði verið heldur ósamvinnufús heima fyrir í aðdraganda hátíðarinnar.
Þetta var ljómandi skemmtilegt að vera viðstaddur þessa miklu hátíð og undir lok skipulagðrar dagskrár mátti heyra hæst heilmikinn söng úr munn dótturinnar. Hann var þó ekki samkvæmt dagskránni heldur meira vegna þess að hún hafði komið auga á móður sína í "áhorfendaskaranum" og vildi komast til hennar.
---
Síðastliðinn föstudag skrapp ég til Gävle að hitta leiðbeinanda minn ... því miður gafst mér ekki tími til að taka mynd af hinni frægu Gävle jólageit sem sett er upp í miðbænum þar fyrir hver jól.
Helsta spenna bæjarbúa er svo að sjá hvort kveikt verður í henni en þess má geta að yfirvöld og skemmdavargar heyja mikla baráttu fyrir hver jól. Iðulega hafa skemmdavargarnir þó vinninginn.
Þess má þó geta að geitin skartaði sínu fegursta síðastliðinn föstudag.
Þetta er stolin mynd ...
---
Á laugardaginn var farin einhver sú ævintýralegasta ferð í IKEA sem um getur, þar sem Guddan fór gjörsamlega á kostum og lét eins og hún ætti búðina.
Hlaupin og eltingaleikurinn voru með ólíkindum skemmtileg og klárlega er þetta einn af hápunktum ævinnar hjá dótturinn.
Eftir IKEA-ferðina skruppum við í smábíltúr enda erum við svo heppin þessa dagana að hafa bíl til umráða ... það er sumsé bíllinn þeirra Sverris og Dönu.
Það er nú bara andskotanum verra að það er ekkert að sjá hér nema tré ... sbr. meðfylgjandi mynd ...
Bloggar | Breytt 14.12.2010 kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2010 | 23:10
Fimmtudagur 9. desember 2010 - Merkileg samtöl
Á leiðinni út á flugvöll í morgun átti eftirfarandi samtal sér stað í aftursætinu í Volvonum þeirra Sverris og Dönu:
"Bobbi, Bobbi, Bobbi ... "
"Já"
"Á ég að segja þér?!?!"
"Já"
"Veistu hérna ... hérna ... veistu hvaða mynd kom í búðir í gær? Á DVD?"
"Mmmm ... Avatar?!?"
"Neihei ... veistu ekki hvaða mynd kom í búðir í gær?"
"Nei, ég veit það ekki"
"Veistu það ekki?"
"Nei ... "
"KARATE KID!!! ... númer fjögur!!!"
Það er óhætt að segja að Jóndi 7 ára sonur bíleigandanna hafi puttann á púlsinum þegar kvikmyndir eru annars vegar ;) .
---
"Maður þarf eiginlega að muna að brosa með lifrinni", sagði Lauga við kvöldmatarborðið.
Og við gerðum það bæði samtímis.
"Finnurðu ekki hvernig þú verður einhvern veginn allur léttari?"
"Jú ... þetta er alveg að virka"
"Já ... þetta er nefnilega alveg að virka. Ég las þetta í bókinni ... þarna "Biðja, borða, elska" ... maður gleymir þessu alltof oft ... brosa með lifrinni. Einfalt og áhrifaríkt!"
Lauga dró annað augað í pung og nikkaði kollinum samtímis.
Guðrún kom í sömu mund askvaðandi inn eldhúsið með fjóra bolta í mismunandi stærðum í fanginu.
Ég sneri mér að henni.
"Guðrún ... ætlar þú að brosa með lifrinni?"
Hún ansaði engu en þess í stað gekk rakleiðis til móður sinnar, sleppti boltunum og byrjaði að toga í hana ... hún átti að koma í boltaleik.
"Guðrún ... ætlar þú að brosa með lifrinni?"
"Nei, ég ætla í sund!"
???
---
Eftir matinn tók ég mér dagblað í hönd og settist í sófann.
"Guðrún ... eigum við að skoða saman blaðið?"
Dóttirin steig villtan dans af fögnuði og hún hrópaði hátt og snjallt: "JÁ, JÁ ... VEI, VEI ... SÚKKULAÐI, SÚKKULAÐI!!!"
Svona verður nú misskilningurinn til ...
---
Annars er afmælisdagur föður míns í dag ... óska honum til hamingju ...
Kvikmyndaáhugamaðurinn Jóndi
Sund-, bolta- og súkkulaðiáhugamanneskjan Guðrún með slatta af tómatsósu í andlitinu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.12.2010 | 23:51
Miðvikudagur 8. desember 2010 - Gleymt afmæli og mikilvægi vonarinnar
Ég gleymdi að nefna það í bloggfærslu gærdagsins að Guddan varð 2ja og hálfs árs í gær ... ég sem var búinn að ætla mér að muna það ... taka mynd af henni og setja á bloggið ásamt árnaðaróskum.
Það var ekki einu sinni tekin mynd af henni í gær ... algjör bömmer ...
Set í staðinn tvær myndir af minni ástkæru dóttur sem nú er 2,5 árs + 1 dags gömul.
Tekið í morgun skömmu áður en haldið var í leikskólann.
Og í kvöld sofnaði stubbur áður en tókst að tannbusta ... eða eiginlega bara þegar verið var að tannbursta.
---
Í dag sannfærðist ég enn frekar um það hvað vonin er ótrúlega sterkt afl og hvað getur gerst þegar hún slokknar.
Elizabeth Edwards, fyrrum kona John Edwards, þess sem hugðist bjóða sig fram til forseta Bandaríkjana fyrir nokkrum árum, háði áralanga baráttu við krabbamein.
Í fyrradag var gefin út tilkynning að læknavísindin gætu ekki gert meira fyrir hana.
Hún lést í gær ...
Í bókinni "Tilgangur lífsins" segir Viktor Frankl frá hræðilegri dvöl sinni í útrýmingabúðum nasista í seinna stríði. Auðvitað slær þessi frásögn mann utan undir nánast í hverju orði en mér minnistæðast þegar Frankl talar um mikilvægi vonarinnar.
Í því samhengi segir Frankl frá fanga einum sem var sannfærður um hann og aðrir yrðu heimtir úr helju tiltekinn dag. Í margar vikur hélt hann dauðhaldi í þessa sannfæringu en þegar dagurinn nálgaðist tók vonin að dofna. Tveimur dögum áður en "frelsisdagurinn" rann upp, veiktist hann hastarlega. Daginn eftir missti hann meðvitund og þarnæsta dag, þ.e. á "frelsisdaginn" sjálfan lést hann.
Þetta er nú kannski ekkert mjög uppbygging bloggfærsla ... en þessi frétt af Elizabeth Edwards, sem ég las í morgun, sló mig.
Vonin er alveg ótrúlega sterkt afl ... og það er gott að muna að "vona það BESTA og búast við því BESTA".
---
Annars bara allt gott ... fór í söngtíma í dag og það var svo hrikalega, æðislega gaman að það hálfa hefði dugað.
Í dag fetaði ég í fótspor ekki minni snillings en sjálfs Freddie Mercury með því að syngja "I want it all".
Það er reyndar mjög skrýtið að syngja þetta snilldarlag, þegar bara eru leiknir hljómar á píanó undir ... ;)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2010 | 23:15
Þriðjudagur 7. desember 2010 - Að kaupa ekkert
Seint verður nú sagt um mig að ég sé mikill talsmaður verslunarferða og þess að vera sífellt að kaupa eitthvað. Ég hugsa að það væru fáar verslunarmiðstöðvar og -götur væru í heiminum ef allir höguðu sér eins og ég að þessu leytinu til.
En um daginn var ég, ásamt mæðgunum, í hinni árlegu jólapakkainnkaupaferð, að þessu sinni í Gränby Centrum. Þetta var sumsé ferðin þar sem stubbur tók að æpa "hjálp, hjálp" í allar áttir.
Allavegana þá rákumst við á hóp fólks sem var að mótmæla innkaupum fyrir jólin. Hópurinn þrammaði fram og aftur um verslunarmiðstöðina og bar út boðskapinn.
Mér þótti þetta merkilegt ...
... vegna þess að ég skildi ekki og skil ekki enn boðskapinn ...
Ef maður gefur sér að allir sem voru í verslunarmiðstöðinni hefðu nú bara tekið undir þetta sjónarmið og labbað út ... og það yrði engin jólaverslun yfir höfuð ...
Hvað þá?
Er ekki alltaf verið að tala um mikilvægi þess að viðskipti eigi sér stað, einfaldlega til að samfélögin missi ekki allt lóðrétt niður um sig?
---
Annars hefur þessi dagur farið í greinarskrif og gagnagreiningu ... og nú er það stöff allt saman komið í yfirlestur hjá leiðbeinandanum mínum.
Reyndar fór hluti dagsins í söngæfingar enda er verið að bæta á lagalistann ... það er náttúrulega ekki endalaust hægt að syngja "Bed of Roses" með Bon Jovi.
Svo sá ég einhvern smáhluta af leik Íslands og Svíþjóðar í handbolta sem sýndur var á einhverri sjónvarpsrásinni nú í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2010 | 22:45
Mánudagur 6. desember 2010 - Að vinna og vera glaður
Enn er verið að vinna í þessari blessuðu rannsóknargrein sem ég er búinn að nefna oftar hér á blogginu en ég kæri mig í raun um.
Það er ekki laust við það að farið sé að örla á þreytu á viðfangsefninu.
Vinnan í dag hefur þó skilað talsverðu, því ég gerði mér grein fyrir, nú undir kvöld að ég hafði gert eina skissu í útreikningum. Fyrir það fyrsta tók það mig töluverðan tíma að átta mig á hvers eðlis villan var og eftir að það hafði tekist þurfti ég að endurskrifa nokkurn hluta greinarinnar.
Þegar þessum rannsóknarefnum er sinnt er víst betra að hafa bæði augun opin og ekki er verra að kveikt sé á einhverjum heilastöðvum. Stundum virðist það þó ganga illa :) .
---
Ég hef verið svo niðursokkinn í þetta viðfangefni mitt að ég hef varla séð eða heyrt í mæðgunum, þó svo að þær hafi verið hér yfir og allt um kring eftir að þær mættu á svæðið nú síðdegis.
Lauga þurfti alveg nauðsynlega að sinna verkefni fyrir skólann í kvöld og því voru ekki önnur úrræði en að setja DVD í tölvuna fyrir Gudduna.
Ég hélt satt að segja að þakið ætlaði af húsinu þegar Guddan heyrði hvert stefndi ... svo mikil var gleðin enda slíkt kostaboð ekki á hverjum mánudegi.
---
Þetta er staðan í dag ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2010 | 22:51
Sunnudagur 5. desember 2010 - Að fá ístru
"Ég er mikið búinn að grennast eftir að ég hætti að borða hveitibrauðið og skipti yfir í rúgbrauðið" sagði ég við Laugu við morgunverðarborðið í morgun.
"Já, er það?" spurði hún.
"Já, þú sérð það alveg ef þú horfir hérna" sagði ég afar sannfærarndi, rauk upp af stólnum, reif upp bolinn og benti með vísifingri á síðubitana.
"Mmmhmm ... " Hún kinkaði kolli en sagði svo: "Þarftu ekki að æfa magavöðvana meira?"
"Ha? Jú, kannski ... en það er nú ekki mikið utan á þeim." Ég spennti magavöðvana og kleip í spikið. "Þú sérð það ... "
"Sko ... " Svo varð löng þögn og ég settist aftur. "Mér finnst þú vera að fá ístru."
"Ha?"
"Já, það er bara eins og magavöðvarnir séu að slappast og þetta sígur bara allt fram ... mér finnst bara eins og þetta hafi verið að gerast á síðustu vikum ... eða kannski er ég bara fyrst að taka eftir því núna." Hún smellti höndinni undir kinnina, þar sem hún sat við borðið.
"Nei, nei ... þetta eru bara buxurnar sem ég er í núna sem gera mig bara svona." Ég stóð upp frá borðinu, fór inn í svefnherbergi, úr joggingbuxunum og í gallabuxur. Gekk svo fram í eldhús aftur. "Þú sérð það bara núna ... finnst þér ég með ístru núna??"
"Mmmm ... ég veit það ekki." Aftur löng þögn. "Finnst þér ég leiðinleg að segja þetta?"
"Ha? Nei, nei ... alls ekki ..."
En fari það í fokking röndóttan!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)