Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
8.1.2010 | 22:48
Föstudagur 8. janúar 2010
Þetta er búið að vera geysilega árangursríkur dagur ... vel skipulagður og agaður.
Mér sýnist að nýja kerfið mitt sé bara að ganga alveg æðislega vel upp, en það kerfi gengur út frá tveimur forsendum:
- Hafa skýr markmið en um leið njóta vinnunnar. Spá í hvorutveggja, það er mikilvægt að hafa það í huga. Sjálfur hef ég einblínt um of á markmiðin og að ljúka þeim, án þess að gera nokkra kröfu um að ég njóti þess að vinna að þeim. Niðurstaðan er gríðarleg óþolinmæði meðan unnið er að verkefnunum og oftar en ekki stress vegna hinnar miklu óþolinmæði. Þetta mætti vel kalla sjálfskaparvíti :) .
Ég er held ég alveg úrvalsdæmi um það sem í bókinni Meiri hamingja eftir Tal Ben-Shahar er kallað lífsgæðakapphlaupari. En það er einmitt sá sem nýtur ekki ferðarinnar, það eina sem skiptir máli er að ná markmiðinu með góðu eða illu, til þess eins að takast á við næsta markmið.
- Vera agaður og fylgja fyrirfram ákveðinni dagskrá. Á hverju kvöldi skrifa ég dagskrá fyrir morgundaginn. Hún hefur átt það til að riðlast mjög, þar sem ég hef verið of linur við sjálfan mig og ekki nennt að fylgja henni eftir.
Ég hef búið til svona dagskrá áður og fylgt henni með mjög góðum árangri. Svo hætti ég að fylgja henni og það er bara svo miklu verra. Það er náttúrulega stórundarlegt að búa til dagskrá yfir hvernig góður dagur myndi líta út og fara svo ekkert eftir henni. Það er full ástæða að taka á þessu máli og það hef ég verið að gera síðustu daga.
************************
2. dagur í líkamsrækt
Hljóp aftur 2,7 km. Var dálítið krefjandi vegna kulda, en með vindkælingu var hitastigið kringum -20°C. Andskoti kalt.
Góðar maga- og bakæfingar gerðar á eftir, auk þess sem teygt var vel á.
Á morgun fer ég í Friskis & Svettis að lyfta ...
***********************
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2010 | 23:05
Fimmtudagur 7. janúar 2010
Guddan tók sig á í dag ... í dag tilkynnti hún hvað kýrin "segir" og hvað kindin "segir". Þannig að færslan frá í gær er orðin úrelt að einhverju leyti.
---
Mér fannst fyndið þegar Valgerður Jóhannsdóttir kallaði forsetann "útrásardindil" í Kastjósinu í kvöld. Sjálfsagt hefur þetta orð oft verið notað áður um blessaðan manninn, en mér finnst það bara eitthvað passa svo vel núna.
Annars verður það að segjast eins og er að karlfauskurinn stóð sig afar vel í viðtalinu við BBC. Það hefði nú verið ágætt ef hann hefði risið upp á afturlappirnar fyrir svona 14 - 15 mánuðum og sýnt frammistöðu sem þessa, í stað þess að læðast með veggjum.
En fólk sýnir oft á sér glæsilegar hliðar þegar það er í nauðvörn ... og Óli hefur nú alltaf haft munninn fyrir neðan nefið. En hann fékk plús í kladdann í dag.
---
Svo er nýbreytni hér á blogginu hjá mér, því núna ætla ég að opinbera líkamsræktardagbókina mína.
************************
1. dagur í líkamsrækt árið 2010:
Hlaupnir 2,7 km, gerðar 30 magaæfingar og teygjur.
Á morgun liggur fyrir að fara aftur út að hlaupa. Aftur verða það 2,7 km. Magaæfingar, bakæfingar og teygjur.
*************************
Ein mynd í lokin af Guddunni með ís ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2010 | 22:10
Miðvikudagur 6. janúar 2010 - þrettándinn
Jæja, ekki er maður neitt sérlega mikið af jafna sig af glórulausri ákvörðun forseta lýðveldisins í gær ... því meira sem ég hugsa um þetta því verri fyrst mér ákvörðunin vera.
---
Ég stend við spádóminn frá því í gær ... þó svo ekkert bendi til þess á þessari stundu að hann muni rætast.
Lauga lagði til að ég myndi í framtíðinni spá öfugt við það sem ég vonaði að gerðist ... það myndi örugglega gefa miklu betri raun ... að minnsta kosti fyrir mig sjálfan.
Þegar ég sagðist viss um að IceSave-samningurinn yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e.a.s. ef áðurnefndur spádómur minn rætist ekki áður, bað hún mig í guðanna bænum að láta það vera að spá, nema ég ætlaði að setja allt á annan endann.
En það virðist nú vera að mesti móðurinn sé að renna af andstæðingum samningsins, alltént ef eitthvað er að marka skoðanakannanir ... samtímis falla stoðir "hins velígrundaða rökstuðnings" forsetans hver af annarri.
Nóg um þetta ...
---
Það er einn aðili hér á heimilinu sem hefur litlar áhyggjur af IceSave og það er Sydney Houdini ... hún hefur miklu meiri áhyggjur af því að fá ekki að horfa nóg á Dodda. Í gær fékk hún sendingu frá Íslandi, nánar tiltekið frá Öbbu móðursystur sinni.
Og hvað var í pakkanum? Doddi - DVD diskur nr. 2!
Um dálítið langt skeið hefur dóttirin einungis viljað láta lesa bók um Dodda fyrir sig, áður en farið er að sofa. Kannski ekki til frásagnar nema fyrir það að hún vill bara láta lesa tilteknar blaðsíður úr bókinni. Af um 20 síðum eru ekki nema 6 - 8 síður sem hljóta náð fyrir augum þeirrar stuttu. Svo blaðar hún ákveðið yfir þær blaðsíður sem ekki á að lesa. Þegar bókin er á enda komin, er skundað á byrjunarreit á nýjan leik og farið fram á að nákvæmlega sömu blaðsíður verði lesnar aftur og aftur og aftur ...
Það er ekki alveg gott að átta sig á því hvað er að gerast í toppstykkinu ...
---
Hún sagði fínt orð í dag, eftir að hafa nýlokið við að sporðrenna vínberi: "Vínbe".
---
Það er líka fróðlegt að fara yfir hvað dýrin "segja". Hún er alveg með á hreinu hvað ljón, tígrisdýr og fílar "segja", en lítið gengur að fá uppgefið hvaða hljóð bæði hundar og kettir gefa frá sér.
Svo kemur að hestinum og hann "segir" "gobiígobb", en það myndi nú tæplega teljast rétt svar á prófi ... en jæja ...
Því næst kemur kindinni. Hún "segir" "mmmmm ... " án þess að "eeee-ið" fylgi í kjölfarið. Kindin "segir" bara "mmmmm ...". Gott og vel.
Þá er röðin komin að kúnni. Hún "segir" líka "mmmmm ... " án frekari málalenginga.
Kýr og kindur "segja" sem sagt það sama!
Það er búið að reyna að leiðrétta þetta í marga mánuði ... en það er bara ekki möguleiki að fá leiðréttinguna viðurkennda.
---
Annars gleymdist að í dag er þrettándinn ... heimagerðir hamborgarar voru í matinn. Kemur sjálfsagt ekki á óvart eftir að matseðill nýjársdags var opinberaður fyrir nokkrum dögum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2010 | 22:38
Þriðjudagur 5. janúar 2010 - Spádómar
Ég hef aldrei verið spámannlega vaxinn ... og það varð engin breyting þar á í dag. Þvert ofan á allar spár mínar um að forsetinn myndi undirrita IceSave-lögin, ákvað hann að gera það ekki.
En ég spyr bara ... hvað er þessi blessaði forseti okkar að hugsa??
---
Yfir morgunmatnum spáði ég í það, bara svona í einrúmi, að forsetinn ætlaði að segja af sér á blaðamannafundinum í morgun. Ég byggði það á þeirri staðreynd að fjölmiðlum var ekki kynnt efni fundarins þegar tilkynning var send út í gær.
Það þarf varla að ræða það að ég reyndist ekki sannspár í það skiptið.
---
En þrátt fyrir augljóst getuleysi mitt þegar spádómar eru annars vegar þá er ég hvergi hættur. Ég ætla að leggja fram nýja spá og hún er svona:
Það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla. Lögin verða afturkölluð og ný IceSave-lota byrjar, þegar og ef Bretar og Hollendingar eru tilbúnir til þess.
Þessa spá byggi ég á því að:
1. Ef þjóðin fellir samninginn þá samsvarar það því að spóla aftur um nokkra mánuði.
2. Ef þjóðin samþykkir samninginn, þá getur það komið okkur í erfiða stöðu síðar meir, t.d. ef til stæði að endurskoða samninganna að nokkrum árum liðnum. Ég þarf svo sem ekkert að úttala mig meira um þetta, enda aðrir betur til þess fallnir.
Ef spá mín gengur eftir hlyti það að teljast ásættanleg niðurstaða fyrir andstæðinga IceSave-laganna, því þeir væru þá búnir að ná sínu fram og heilmikill tími og peningar myndu sparast, auk þess sem tjónið yrði væntanlega minna.
Ég skal hundur heita ef þessi spádómur rætist ekki.
---
Það er hinsvegar spurning um hvort talsmenn beins lýðræðis yrðu sáttir við niðurstöðuna ef spá mín reyndist rétt.
En þar er bara verið að tala um allt annan hlut.
Persónulega er ég afar hlynntur beinu lýðræði í meira mæli en er nú. Að því sögðu er ég ekki hlynntur því að þetta mál fari í þann farveg, því hvernig sem færi yrði niðurstaðan sennilega verri fyrir Ísland heldur en ef Alþingi og forseti myndu einungis kvitta fyrir samþykkt. Þessi röksemdarfærsla er byggð á því að Alþingi hefur lagt á það mikla áherslu að ekki sé fyrir hendi lagaleg skylda af hálfu Íslands að greiða skuldina. Með meira en hálfa þjóðina samþykka lögunum gæti þessi mikla áhersla Alþingis útvatnast verulega.
---
Mér þætti gaman að vita hvað vakir fyrir mönnum sem telja stöðu Íslands svo sterka um þessar mundir að Bretar og Hollendingar séu líklegir til að semja við okkur á enn rýmilegri forsendum en nú hefur verið gert?
Er ekki kominn tími til að vakna?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2010 | 21:49
Mánudagur 4. janúar 2010
Ég held að mál dagsins hér í Uppsala, sem og víðar, sé hvort forseti vor staðfesti IceSave-lögin eða ekki. Jæja, það er nú kannski ofsagt að Uppsalabúar, svona almennt séð, bíði með öndina í hálsinum ... en allavegana ég og Lauga bíðum ...
Og ég spái því að hann skrifi undir ... tel ekki að honum sé stætt á öðru, sé litið til þeirra afleiðinga sem synjun getur haft í för með sér ...
Tek undir með Eiríki Bergmann í Kastljósinu að það er gjörsamlega út í hött að einn maður geti gripið fram fyrir hendur Alþingis sem er löglega kjörið.
Þegar karlanginn hafnaði því að skrifa undir fjölmiðlalögin á sínum tíma, átti ég ekki til orð. Ekki vegna þess að ég teljist eða hafi talist stuðningsmaður Davíðs Oddssonar eða þeirra aðferða sem hann var oft þekktur fyrir, heldur einungis vegna þess að mér finnst þetta ekki vera í verkahring forsetans að skera úr um hvort lög skuli samþykkt eða ekki. Það er og á að vera verkefni þingsins.
Þetta gönuhlaup forsetans í þá átt að gera forsetaembættið að pólitískri stöðu er að mínu mati bara leikur að eldinum, og endar sjálfsagt með því að forsetaembættið verður lagt niður. Yrðu það málalyktir þætti mér það mjög miður, enda hafa forsetar Íslands allt frá því ég man eftir mér, þó að undanskildum margrómuðum fíflagangi ÓRG síðastliðin ár, verið landinu til mikils sóma.
... annars ætla ekki að æra óstöðugan með að ræða þetta meira.
---
Sydney Houdini gerir það gott.
Sýndi listir sínar með því að ganga út á hlið í kvöld. Eitthvað nýtt þar á ferðinni.
Og þegar eigandi íbúðarinnar, hin tyrkneska Heval, kom í heimsókn til okkar í dag, skreið Syd umsvifalaust í fang hennar strax við komu hennar, kom sér þar hagalega fyrir, þverneitaði að yfirgefa staðinn þrátt fyrir hvatningu um það og grét úr sér augun þegar Heval fór. Þetta gerðist þrátt fyrir að blessað barnið hafi aldrei á ævinni séð Heval áður.
Eðlilegt?
GHPL krafðist þess í gær að fá að fara í "gömlu" lakkskóna sína, sem eru nú taldir vera of litlir. Ekki kom annað til greina en að reyna til þrautar að komast í skóna. Með töluverðum átökum tókst að koma henni í annan skóinn og var þá búist við einhverju kveini.
Hvert á allar slíkar spár ... varð Guddan himinsæl gekk fram og aftur um íbúðina íklædd lakkskó á öðrum fæti.
Eðlilegt?
Ég er sannfærður um að þetta var síðasta ferðin hjá frökeninni í þessum skó ... því hvað sem hver segir, þá er þessi skór of lítill!!
Ég skrifaði um daginn að Benjamin Franklin sá ágæti maður, hefði eitt sinn látið hafa eftir sér eftirfarandi: "Early to bed and early to rise, makes one man healthy, wealthy and wise".
Lauga hefur tekið Franklin á orðinu og er sofnuð núna og ég er að fara að sofa sjálfur. Við ætlum svo að vakna kl. 5 í fyrramálið og hefja þá daginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2010 | 00:08
Sunnudagur 3. janúar 2010
Ágætis dagur í dag ...
Guddan borðar eintómt smjör af mikilli lyst ... sýndi og sannaði í dag að ekkert jafnast á við væna smjörklípu í litla lófann ...
Í kvöldmat var enn einu sinni hangikjöt og uppstúf ... fer nú að styttast í að rúllan klárist ... ;)
---
Er að lesa góðar bækur þessa dagana ... Meiri hamingju eftir Tal Ben-Shahar, Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert (reyndar lauk við hana í fyrradag) og The Psychology of Cycling eftir einhvern sem ég man ekki hvað heitir.
Allt saman mjög athyglisverðar bækur ... hver á sinn hátt ...
Las í dag að Meiri hamingja hefði selst vel fyrir jólin. Því miður féll sá mikli snillingur Karl Ágúst Úlfsson, þýðandi bókarinnar, í þá gildru í viðtali við Vísi.is, ásamt hinum eina sanna Gillz, sem átti einnig söluháa bók fyrir jólin, að telja að "þjóðin sé í stuði fyrir svolítið léttmeti eftir þungavigtarumræður um ESB og Icesave í þjóðfélaginu". Og þess vegna hafi þessar tvær bækur selst vel.
Það má vel vera að Mannasiðabók Gillz sé léttmeti og eflaust er hún það ... en sjálfum finnst mér alsendis óviðeigandi að tala um bókina Meiri hamingju í sömu andránni, því ég tel að sú lesning og sú vinna sem meiri hamingja krefst sé síður en svo léttmeti.
Á bls. 95 í bókinni er t.d. spurningin: "Hvað er það sem þig langar virkilega mikið að gera?" Þessi spurning kemur í kjölfar krefjandi lesningar um "sjálfsamkvæm markmið", en skv. bókinni eru slík markmið "þau sem við keppum að af djúpri persónulegri sannfæringu og/eða af miklum áhuga. Samkvæmt Kennon Sheldon og Andrew Elliot eru þessi markmið "samgróin sjálfinu" og "eiga beinlínis upptök sín í sjálfsvali"" (bls. 90).
Hvað langar þig virkilega til að gera, lesandi góður, ef þú lítur til djúprar persónulegrar sannfæringar þinnar og/eða mikins áhuga þíns?
Í mínum huga er þetta ekki neitt sem ég get svarað fyrirhafnarlaust, þrátt fyrir að vera mikið búinn að spá og spekúlera í því hvað ég vil fá út úr þessu lífi.
Ég er með 110 markmið, skrifuð á lítil spjöld sem ég les yfir á hverjum degi ... ég held að markmiðin endurspegli það sem ég vil virkilega gera. Hvort þau eru í samræmi við djúpa persónulega sannfæringu hef ég ekki hugmynd um ...
Enda láta Kennon Sheldon og Linda Houser-Marko "þess getið að það sé "erfitt verkefni" að velja sér sjálfkvæm markmið, sem bæði krefjist "hæfileika til sjálfsskilnings og getu til að standast félagslegan þrýsting sem gæti stundum ýtt manni í óheppilega átt"" (bls. 92).
En ég er að vinna að því að komast að því hvort markmið mín eru sjálfsamkvæm eða ekki ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2010 | 22:16
Laugardagur 2. janúar 2010
Þessi dagur hefur runnið sitt skeið nánast á enda, hratt og örugglega ...
Satt að segja hefur mér reynst erfitt að ná taki á honum ... vaknaði fremur seint í morgun og hef verið að eltast við klukkuna síðan þá ... og lítið gert af viti.
---
Í tilefni dagsins set ég inn eina mynd úr myndasafni mínu ... hún er frá uppsetningu Happy End í Íslensku óperunni, árið 2004.
Þarna erum við, Þórunn aðstoðarleikstjóri í góðum gír ... og við erum mjög kúl ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2010 | 23:53
Föstudagur 1. janúar 2010 - 113 ára afmæli ömmu og nýjársdagur
Gleðilegt ár!!
Amma blessunin hefði orðið 113 ára í dag ... til hamingju elsku amma ...
Einn allra mikilvægasti pósturinn í mínu lífi. Ég varð þess gæfu aðnjótandi að hafa hana inn á heimilinu allt frá blautu barnsbeini til 15 ára aldurs ... og það var mér algjörlega ómetanlegt.
Amma var alveg frábær, stórbrotinn persónuleiki, eldklár, ótrúlega vinamörg, ræktarsemin ógurleg og hún vildi bókstaflega allt fyrir alla gera.
Þrátt fyrir að meira en 20 ár séu liðin síðan hún kvaddi þetta tilvistarstig, þá líður varla sá dagur að ég hugsi ekki til hennar.
Þennan dag, nýjársdag, á hverju ári er það fyrsta sem kemur upp í kollinn að nú sé afmælisdagur ömmu runninn upp, svo hugsar maður um að það sé nýjársdagur.
Við fjölskyldan hugsum öll á þessa vegu. Við minnumst ömmu og höldum upp á afmæli hennar með einhverjum hætti ...
Stebbi bróðir, blómasali á Akureyri, bauð sínu fólki upp á hreindýrasteik og rautt. Mamma blés til hangikjötsveislu syðra og sjálfur sendi ég ömmu góða strauma frá Uppsölum.
---
Skammarlegt ... er ekki með eina einustu mynd af ömmu í tölvunni hjá mér. Verð að redda mér með því að setja kápumynd af 1. bindi ævisögu hennar, sem kom út árið 1985.
Myndin á kápunni er eftir Kristínu Jónsdóttur, mágkonu ömmu, konu Valtýs Stefánssonar.
---
Guddan náði algjörlega botninum í matarvali í dag þegar hún kaus að borða kaldan Mc-ostborgara frá því í gær, í stað humars. Kaldur McDonald´s á nýjársdag ... ég veit ekki hvert þetta uppeldi er eiginlega að fara.
Sjálfur náði ég persónulegum botni í matarvali, þegar ég ákvað að fá mér "frozen pizza" í kvöldmat.
Lauga var sú eina sem stóð í lappirnar. Var uppáklædd og stórglæsileg í allan dag ... og át humar að hætti hússins í kvöld.
---
Annars fórum við í mjög góðan göngutúr í dag ... ofsalega gaman að labba og spjalla saman ... í snjókomu og logni.
---
Voru í gærkvöldi í frábæru boði hjá Örnu og Karvel. Þar voru einnig foreldrar Örnu, þau Helga og Rúna og Saga systir. Svo voru náttúrulega blessuð börnin á sveimi og puntuðu heil ósköp. Virkilega skemmtilegur félagsskapur og veitingarnar æðislega góðar ...
Uppsalabúar er mjög temmilegir í flugeldasprengingum ... það voru smá smellir upp úr miðnætti, en þá vorum við í miðju áramótaskaupi og því vant við látin.
Samdóma álit að áramótaskaupið hefði verið sérlega vel heppnað þetta árið.
Svo tók við mjög lágstemmd flugeldauppskot af okkar hálfu ... en þeim mun skemmtilegri. Því næst var skálað. Þá voru allir Uppsalabúar sofnaðir ...
Þegar "flugeldaskothríðinni" lauk, var Sydney Houdini löngu búin að krefjast þess að fara inn og það var löngu búið að uppfylla þá ósk ... þannig að mæðgurnar eru ekki á myndinni.
Í áramótapartýinu gekk GHPL milli allra gesta, skreið í fang þeirra, lét fara vel um sig og fékk að smakka á ísnum hjá öllum.
Að fara að sofa kom illa til greina. Reyndar má geta þess að hún, eins og reyndasta partýljón, lagði sig vel og lengi um miðjan daginn og kom sterk inn um kvöldið. Vakti hún í striklotu frá kl. 17 til kl. 1 yfir miðnættið. Sofnaði í smástund og vaknaði aftur rúmri klukkustund síðar og var með í partýinu til kl. 3 um nóttina.
Þar með hafði hún, eins og hálfs árs, vakað lengur í nýjársnótt en faðir hennar gerði þegar hann var 12 ára, enda var sá maður með eindæmum kvöldsvæfur langt fram eftir aldri.
---
Verð að sýna eina mynd af þeim mæðgum skömmu áður en farið var í áramótapartýið ...
Ég ætla að stela frasa frá Eiríki Jónssyni sem bloggar, oft mjög glæsilega, á DV.is og aðlaga frasann mínum raunveruleika:
Sá sem á svona konur þarf ekki að strengja áramótaheit. Bara halda áfram.
Bloggar | Breytt 2.1.2010 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)