Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Þrjár myndir frá 5. júlí

Mér hefur alltaf fundist rosalega gaman að spá í það hvað ég var að gera þennan og þennan daginn fyrir einu ári, tveimur, tíu eða tuttugu ...

Til að hjálpa mér við þá iðju, er myndavélin mikið þarfaþing, sérstaklega ef ég hef verið duglegur að taka myndir ... dagbók gæti einnig hjálpað, en ég er frekar latur við slíkt ... því miður.

Ég fór að spá í daginn 5. júlí ... hvað ég hafi verið að gera í gegnum tíðina á þeim degi ... það kemur nú ekki margt upp í hugann, en ef ég væri á Íslandi gæti ég örugglega flett upp í albúmunum mínum, sem ná allt aftur til ársins '95 eða '96.  Svo gæti ég farið í gamlar myndbandsupptökur og reynt að kafa ofan í þær. 
Ég er hér að tala um ef ég hefði bókstaflega ekkert annað að gera ...

En allavegana, þá man ég að fyrir nákvæmlega tuttugu árum, þ.e. árið 1989 var ég staddur í heilmikilli reisu fyrir austan, nánar tiltekið í Landbroti, í boði Leifs frænda og Sæunnar.  Í förinni voru einnig Hulda systir, Nikki og Steina, Bára mágkona og Stefán.  Ég á í fórum mínum glæsilegar myndir, sem teknar voru þennan dag, frá því við skoðuðum Fjaðrárgil, sem er skammt frá Kirkjubæjarklaustri.  Þessi ferð var frábær í alla staði og afar eftirminnileg.

Árið eftir, var aftur farið austur á land ... gist á Hofi í Öræfum.  Ég á ekki myndir úr þeirri ferð þannig að ég man ekki vel hvað gerðist þann 5. júlí.  Gæti þó hafa verið heimferðardagurinn.

Svo man ég eftir 5. júlí 2003, þegar við Lauga nutum tryggrar leiðsagnar Djó vinkonu okkar á göngu okkar um New York.  Hvaða hluta Manhattan við sáum þann daginn man ég nú ekki alveg, en Brooklyn-brúin hefur örugglega verið meðal efnis.  Þetta var frábær dvöl í NY og markaði upphafið af USA-túrnum 2003, sem stóð yfir í 5 vikur.

Þann 5. júlí 2004 var ég sennilega staddur í Íslensku Óperunni að æfa hlutverk mitt sem "Sérann" í verki Kurts Weil og Bertholds Brecht "Happy end".  Það var náttúrulega alveg rosalega skemmtilegt verkefni og gekk vel.

Svo er komið að 5. júlí 2007, þá hefur tölvuöldin háð innreið sína inn í líf mitt.  Þennan dag var ég staddur í Sydney og átti ég að lesa fyrir enskupróf.  Niðurstaða þess myndi svo ráða því hvort ég fengi að stunda nám við University of Sydney eða ekki. 
Hinsvegar fékk ég heldur daprar fréttir þennan dag frá Íslandi og átti erfitt með að einbeita mér og skruppum við Lauga því í göngutúr.  Þess má geta að ég náði prófinu ... 

IMG_7414 by you.
Lauga á Bondi-ströndinni í Sydney 5. júlí 2007
 
 Þann 5. júlí 2008 var hins vegar annað upp á teningnum.  Þá var Sydney Houdini tæplega mánaðar gömul.  Í blogginu mínu þann dag skrifaði ég m.a. eftirfarandi:  " ... anginn okkar er nú orðinn fjögurra vikna ... sem er náttúrulega heilmikill áfangi fyrir alla aðila ... "
 
IMG_6730 by you.
Lauga og "anginn" á góðri stundu í 636 Bourke Street, þann 5. júlí 2008
 

Svo í dag 5. júlí 2009 er ákveðið að endurtaka leikinn frá því árinu áður, reyndar með ofurlitlum breytingum ... við erum í Uppsala, "anginn" orðinn árinu eldri og tekur það ekki mál að liggja útaf eins og á fyrri myndinni.  Getur heldur ekki látið "propps-ið" í friði og þarf að vera með smekk vegna óhemju slefmyndunar, sennilegast vegna tanntöku.

IMG_1212 by you.
GHPL og Lauga á góðri stundu á Johannesbacksgötunni 5. júlí 2009

 Svo er þetta nú!


Júní 2009 og vinna

Eins og gjarnan á sér stað á þessu bloggi í byrjun mánaðar, þá er hér fyrir neðan tengill inn á youtube.com, nánar tiltekið á myndband af nokkru því sem bar á góma í júnímánuði 2009. 

 

Þetta var á margan hátt mjög áhugaverður mánuður ... og það markverðasta hlýtur að teljast 1. árs afmælið, og það að telpan komst upp á endann og gengur nú eins og hershöfðingi um allt.

Annars er búið að vera alveg meiriháttar veður hérna í meira en 10 daga, þá er ég að tala um 30°C, sól og logn.  Reyndar hefur eitthvað dregið úr þessum notalegheitum síðustu tvo daga en það er svo sem allt í lagi.

Ég hef nú svo sem ekkert nýtt þessa daga neitt sérstaklega vel, því geysilegt vinnuálag hefur verið síðustu misserin ... tvær aðalskipulagstillögur hafa verið í vinnslu, auk doktorsverkefnisins.  Svo þarf náttúrulega eitthvað að sinna mæðgunum þannig að dagarnir hafa verið mjög langir upp á síðkastið.

Doktorsverkefnið er nú komið á þann stað að senn get ég keyrt fyrstu rannsóknina, en mig vantar þó "jáið" frá leiðbeinanda mínum, áður en það gerist.  Það gerist vonandi á þriðjudaginn, en þá er næsti fundur okkar fyrirhugaður.  Ef allt gengur að óskum gæti rannsóknin litið dagsins ljós í lok mánaðarins.  Gagnasöfnun mun fara fram á internetinu og vonast ég til að lesendur þessarar síðu sjái sér fært að taka þátt í henni.  Ef útreikningar mínir eru réttir gæti ég þurft eitthvað á 5. hundrað þátttakendur, þannig að aðstoð allra sem vettlingi geta valdið er mjög vel þegin.

Ég mun herja á ykkur ... óska eftir 15 - 20 mínútum af ævi ykkar í þágu vísindanna.

Skýt inn myndum af dótturinni hér í lokin ...

 

Í bleika baðsloppnum frá Toppu by you.
Í bleika baðsloppnum sem Toppa og Snæfríður gáfu í jólagjöf
In the pink bathrobe from Auntie Anna and Snaefridur
Með regnhattinn á hjólinu by you.
Á hjólinu með regnhatt ... viðbúin öllu
On the bike, prepared for a shower

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband