Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
24.6.2009 | 09:45
Gönguferðir, Midsommar og hjól
Jæja ... nú er heldur betur komið sumar hér í Svíþjóð ... það er meira svona Sydney-stemmning hér. Skafheiður himinn og yfir 20°C hiti. Reyndar sá ég í Mogganum í morgun að hitinn gæti farið yfir 20°C heima á Fróni um helgina næstu. En hér í Svíþjóð, þarf ekki að tala um veðrið í viðtengingarhætti ...
Annars er það jafnvel merkilegra að meðan ég skrifa þessa færslu, er dóttirin að ganga um gólf ein og óstudd. Göngulagið er nokkuð skrykkjótt og "óstabílt", en það eru búnar að vera ótrúlegar framfarir á mjög stuttum tíma. Það má því segja að hér sé ritaður tímamótapistill á bloggið.
Hún nefnilega uppgötvaði á laugardaginn síðasta að hún getur gengið ein og óstudd ... eða ég ætti kannski að umorða þetta ... hún gleymdi því síðasta laugardag að hún kynni ekki að ganga ein og óstudd.
Auðvitað var þá drengur í spilinu ... já, dóttirin var að eltast við dreng, árinu eldri, á danspallinum í Disagarden í Gamla Uppsala á Midsommarfestivali ...
Á eftir drengnum á danspallinum ...
Sydney chasing a boy on the "dance floor" at midsummerfestival in Gamla Uppsala
Með vinum á Midsommarfestivalinu
Sydney with friends at midsummerfestval in Gamla Uppsala
Annars má nefna það líka að slegið var í ný hjól um helgina. Eftir að hafa þurft að ganga í klukkutíma til að komast á Midsommarfestivalið, og komast svo að því að festivalið var búið, loksins þegar við mættum, ákváðum við að nú væri nóg komið. Við fórum í Biltema á sunnudeginum og fórum út úr búðinni með tvö hjól.
Sydney Houdini hefur svo fengið sitt sæti á öðru hjólinu.
Mæðgurnar á nýja hjólinu
Lauga & Syd riding a new bike
En nú er ungfrúin litla farin að vilja talsvert upp á dekk og því ekki hægt að skrifa mikið meira að svo stöddu ...
En GHPL vill koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri: "otcf uuihgzxaasy7e21deteewta775rer<", ásamt óskum um að myndin hér fyrir neðan verði birt á blogginu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2009 | 22:04
Bekkjarmynd og upprifjun
Ég stal þess þessari stórkostlegu mynd af Facebook-síðu Kristjáns fyrrum bekkjarfélaga og ágætis vinar til margra ára ... þetta er 7. JM í Austurbæjarskóla veturinn 1986 - 1987 ...
Tja, ... hvað á maður eiginlega að segja ... ?? Þarna er maður geysilega flottur í jogging-buxum (sem reyndar sjást ekki ... sem betur fer), með "hjálminn" og lykilinn af útidyrunum heima um hálsinn.
Það sem ég man sérstaklega eftir frá þessari myndatöku, var hversu ánægjulegt það var að komast í aðra röð ... að fá að standa. Það þýddi nefnilega að ég var ekki lengur með þeim minnstu í bekknum, eftir að hafa verið mestan hluta skólagöngu minnar í þeim hópi.
Þessi bekkur var á margan hátt, töluvert mikil snilld ... og ég man að þessi vetur var einn sá besti í Austurbæjarskóla ... það sama verður ekki sagt um þá tvo sem komu á eftir ...
Og svo var það kennarinn ... hann Jón Marteins ... sem reyndar hét líka Jón Kr. Hansen ... (ég hef aldrei skilið þennan "conflict"). Hann var algjör megasnillingur ... og sennilega strangasti kennari í heiminum. Mér er minnistæð setningin sem hann þrumaði oft yfir bekknum, sérstaklega þegar eitthvað vantaði upp á einbeitinguna eða hann var óhress með frammistöðu nemenda: "Reynið einhvern tímann að drullast til að læra eitthvað, andskotans ... "
Í upphafi vetrar, var ég alveg logandi hræddur við Jón Marteins. Var eins og mús undir fjalaketti í tímum hjá honum, sérstaklega eftir að hann sagði mér að "reyna að steinhalda kjafti einhvern tímann" ... sú yfirhalning dugði fyrir lífstíð.
En eftir því sem leið á veturinn, fór mér alltaf að líka betur og betur við hann, hann var hörkugóður kennari ... og um vorið skrifaði hann eitthvað fallegt í einkunnabókina mína ... eitthvað sem ég er löngu búinn að gleyma. En ég man að amma var ánægð með umsögnina ... og það var fyrir öllu!!
Aginn hjá Jóni var slíkur að það mátti heyra saumnál detta í tímum hjá honum ... nemendur sátu eins og barðir rakkar og reyndu "að drullast til að læra einhvern tímann eitthvað, andskotans ..."
En einhvers staðar þurfti orka hinna 26 nemenda JM að brjótast út ... og það var tímum hjá Helga Gíslasyni.
Helgi Gíslason mætti mjög ferskur til leiks í september og kynnti sig: "Komið þið sæl, ég heiti Helgi Gíslason og á að kenna ykkur dönsku og samfélagsfræði. Ég vonast eftir góðu samstarfi við ykkur í vetur!"
Helga Gíslasyni varð ekki að ósk sinni ... eftir að hafa reynt að kaupa bekkinn til fylgislags við sig í fyrsta tíma með því að fara út í fótbolta, í stað þess að læra dönsku, og að sjálfsögðu gegn því loforði að tími nr. 2 myndi verða einstaklega árangursríkur með tilliti til dönskunáms, varð fjandinn laus ... persónulega hef ég aldrei skemmt mér meira í dönsku- og samfélagsfræðitímum. Tímarnir voru einn sirkus frá upphafi til enda ... gjörsamlega stjórnlausir, Helgi eldrauður, öskrandi upp við töflu, allir út um allt, kjaftandi, kastandi skutlum, og fleira í þeim dúr. Í minningunni, eru þessir tímar dálítið eins og kennslustundirnar í bókunum um "Lása litla" eftir Sempré og Goscinny, þar sem nemendur fara iðulega að slást í tímum og gefa hver öðrum á kjaftinn ... ég man þó ekki eftir neinum kjaftshöggum í dönsku- og samfélagsfræðitímum hjá 7. JM, en slagsmál, þá sérstaklega "gannislagur" er vel mögulegt að hafi átt sér stað.
En ég get ekki ímyndað mér annað en blessaður maðurinn hafi þurft að fara í Hveragerði eftir veturinn í allsherjar klössun (það gerði amma að minnsta kosti þegar hún þurfti að fara í klössun á sínum tíma) ... en mikið skelfing var þetta gaman ...
... þegar ég hugsa um það þá hef ég reyndar ekki séð Helga Gíslason eftir þetta ... sagan segir að hann hafi tekið sér frí frá kennslu veturinn eftir ...
Bloggar | Breytt 22.6.2009 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2009 | 16:55
Að ná árangri
"Munurinn milli þeirra sem ná árangri og hinna er hin einstaka staðfesta", sagði frumkvöðulinn og athafnakonan Mary Kay Ash eitt sinn.
Ég hef oft spáð í það, hvað sé að ná árangri ...
Oft hef ég komist að þeirri niðurstöðu að árangur hafi náðst þegar maður nær markmiðum sínum. Með öðrum orðum að það sé samræmi milli þess sem mann langar til að gera og þess sem maður gerir.
Og þó ...
... ég hef oft náð settum markmiðum, en í sjálfu sér finnst mér ég aldrei hafa náð neinum sérstökum árangri, því um leið og ég hef náð einhverju tilteknu markmiði, þá finnst mér það ekkert merkilegt.
T.d. hef ég klárað maraþon-hlaup, ég hef farið í nám til Ástralíu og ég keyrt frá New York, nokkurn veginn þvert yfir Bandaríkin til San Francisco ... fyrirfram voru þetta alveg rosaleg markmið, og ég taldi mig nánast geta dáið sáttur, næði ég þeim í hús. En það varð ekki raunin ... mér finnst ekkert af þessu vera nokkur skapaður hlutur ... það tekur því varla að minnast á það.
Ég hef alltaf verið á móti því að mæla árangur í peningum ... en er það kannski bara hinn eini sanni mælikvarði?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.6.2009 | 13:14
Þakkir ...
Þá held ég að það sé kominn tími til að þakka öllum þeim sem sendu kveðju til dótturinnar á fyrsta alvöru afmælisdegi hennar. Einnig ber sérstaklega að þakka þeim sem sendu gjafir, en stórir sem smáir pakkar hafa streymt hingað til Uppsala.
Stofan er orðin sneisafull af varningi og eftir því sem síðustu fregnir herma, er enn meira á leiðinni. Það er því að verða ljóst að það þarf að kaupa stæði í gám, þegar flutt verður heim aftur til Íslands, hvenær sem það nú verður eiginlega.
Mér hefur fundist það afar athyglisvert að fylgjast með eigin viðbrögðum í tengslum við afmælið ... því hver einasta kveðja og hver einasti pakki hefur hitt viðkvæman streng innra með mér. Mér finnst greinilega ógurlega vænt um það þegar fólki finnst dóttir mín þess verðug að fá kveðju og/eða pakka :D ...
Og hér er ein frá Álandseyjum ... (er ég að verða sköllóttur ... ?#?%?" hafi það???)
This photo is from the Aland Islands ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2009 | 10:47
Á göngu með GHPL
Í morgun skruppum við í göngutúr, ég og Sydney Houdini. Úr því hún er orðin svona stór, þá var ákveðið að skilja BabyBjörn eftir heima og láta hina eins árs gömlu Guðrúnu Helgu ferðast um á tveimur jafnfljótum ...
... það sem meira er, Gudda fékk alveg að ráða ferðinni. Ég, þess í stað, reyndi að leggja gróflega á minnið gönguferil þeirrar stuttu, sem ég svo plottaði á kort frá Google Earth. Sökum þess hversu erfitt var að leggja gönguferilinn á minnið, þar sem hann er nokkuð ómarkviss, að minnsta kosti frá mínum bæjardyrum séð, þá fórum við í tvær gönguferðir.
Fyrri ferðin var athyglisverð, þar sem gengið var fram og aftur um sama svæðið og ólíkir hlutir skoðaðir ... tré, blóm, hjól og niðurfallsrist, svo eitthvað sé nefnt. Einnig var drjúgum tíma varið í að spegla sig í glerinu á útidyrahurðinni. Í þessum göngutúr kom það berlega í ljós hversu auðvelt er að fanga athygli GHPL ... því í hvert sinn sem einhver átti leið framhjá okkur, leit hún í áttina að viðkomandi og breytti í kjölfarið um stefnu. Ekkert vakti þó meiri athygli en köttur sem hljóp framhjá ... til að fylgja honum eftir, ákvað Sydney að fara úr úr "garðinum" og út á götu. En sú stutta fór of hægt yfir til að ná að fylgja kettinum eftir. Lengd göngutúrs samtals rúmlega 250 metrar.
Seinni túrinn fór meira í að fókusera á gangstéttarkantinn, og stíga upp á hann og niður af honum. Þessi túr var mun styttri, Guðrún stoppaði meira og horfði á það sem fyrir augu bar. Hápunkturinn var þegar hundur kom að vitja hennar og hún fékk að "klappa" honum. Þreyta var farin að segja til sín undir lokin sem skýrir af hverju ferilinn er svona undarlega beinn í lokin. Lengd göngutúrs um 100 m.
Mér fannst þetta mjög athyglisverð athugun hjá mér ... enda hef ég aldrei séð neitt um gönguferla eins árs barna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.6.2009 | 12:34
Guðrún Sydney Helga Houdini 1 árs!!
Jæja, Gudda varð nákvæmlega eins árs kl. 9.50 að staðartíma hér í Svíþjóð (kl. 7.50 að íslenskum tíma) ... en þá er klukkan 17.50 í Sydney í Ástralíu ...
Hér er video af því tilefni ...
En af þessu mikla tilefni er ekki úr vegi að taka saman nokkrar beinharðar staðreyndir ... í 28 liðum ...
1. Gudda hefur á einu ári lengst um 28,5 cm eða 62,6% ... eða úr 45,5 cm í 74 cm.
2. Hún hefur þyngst um 4780 gr eða 181,7% ... eða úr 2630 gr í 7410 gr. Til samaburðar má geta þess að faðir hennar hefur þyngst um 5000 gr sem jafngildir um 5,1% ... þess má geta að hann er að vinna í því að léttast aftur.
4. Gudda fór í sína fyrstu flugferð í byrjun október 2008, þá fjögurra mánaða gömul. Þá flaug hún frá Sydney til Cairns. Þess má geta að dóttirin neitaði að fara að fyrirmælum móður sinnar og fékk því hrikalega í eyrun ... og hljóðaði eins og stunginn grís, meira og minna allt aðflugið ...
6. Að Guddu finnst ofsalega gaman að slá taktinn með hristum, þegar pabbi hennar syngur. Uppáhaldslagið er "dúrídaradúrídaradúrídei ... við eru hjá þér Heimaey", úr myndinni Nýtt líf eftir Þráin Bertelson.
7. Fyrsta lagið sem Gudda hlustaði á var "Lofsöngur", þjóðsöngur Íslendinga ... hún var einungis fjögurra daga gömul, þegar hún hlustaði á hann af www.youtube.com, en aðeins 2ja daga gömul þegar faðir hennar söng þjóðsönginn fyrir hana á Royal Prince Alfred Hospital.
8. 10 mánaða gat Gudda setið ein og óstudd, en hún var orðin meira en 11 mánaða þegar hún lærði að setjast upp sjálf. Sá áfangi náðist eftir þriggja daga sleitulausar æfingar, sem stundum reyndu á þolrif þeirrar stuttu.
10. Gudda var "einslæðungur", sem þýðir að aðeins var ein slagæð í naflastreng á meðgöngu. Slíkt skýrir að einhverju leyti hversu smá hún var við fæðingu.
11. Gudda á mjög góða vini af meira en 12 þjóðernum.
12. Gudda fór að standa upp af sjálfsdáðum 11 mánaða gömul og ganga óstudd stuttar vegalengdir 11,5 mánaða. Hinsvegar kann hún ekki enn að detta án þess að stofna eigin velferð í stórhættu ... með öðrum orðum ... hún dettur eins og girðingarstaur.
13. Gudda fékk fyrsta bangsann sinn 1 dags gömul. Sá bangsi var gjöf frá fótboltaliðinu Gladesville Ryde Magic.
14. Fyrstu dúkkuna fékk hún 20. ágúst 2008, það var gjöf frá ömmu á Sauðárkróki.
16. Við eins árs aldur vill Gudda helst bara vera hjá mömmu sinni. Afi hennar á Sauðárkróki er líka alveg í sérstöku uppáhaldi ... jafnvel svo miklu að hann skyggi á móðurina ...
17. Gudda hefur bara einu sinni verið þvegin með sápu og það var þegar hún var 3 daga gömul. Hjúkrunarfræðingur á fæðingardeildinni taldi hana svo yfirmáta skítuga að Gudda fékk allsherjar hreingerningu ...
18. Gudda er óvenjulétt miðað við aldur og lengd ... hún er meira en þremur staðalfrávikum frá meðalþyngd. Fyrir vikið fær hún mikið af rjóma og smjöri með hverri máltíð.
19. Gudda hefur dvalið í 16 borgum/bæjum í 7 löndum í þremur heimsálfum. Til samanburðar má geta þess að faðir hennar og móðir höfðu dvalið í 7 löndum, þegar þau voru 23 ára. Ef meðgangan er talin með hefur Gudda dvalið í 23 borgum/bæjum í 11 löndum.
20. Móðirin kom upp með þá hugmynd að kalla dótturina "Sydney" nokkrum vikum áður en hún fæddist. Tvær ástæður voru fyrir því ... annars vegar getur Sydney gengið bæði á strák og stelpu, en á þeim tíma var kyn dótturinnar ekki vitað og hins vegar var hægt að vera viss um að Ástralirnir gætu borið nafn hennar rétt fram ... en þeir eru ekkert sérstakir í að bera fram íslensk nöfn.
21. Í janúar 2009 fór Gudda að rétta upp hendurnar þegar hún var spurð hversu stór hún væri, þá var hún 7 mánaða gömul.
22. Gudda fór í sína aðra ökuferð um miðjan ágúst 2008, þegar Nick og Rosa buðu henni til Moss Vale.
23. Guddu finnst skemmtilegast að ferðast um í BabyBjörn, og hefur frá 2 mánaða aldri krafist þess að fá að snúa fram til geta fylgst gaumgæfilega með.
24. Gudda tapaði peningum í bankahruninu í október 2008, þegar eign hennar í peningamarkaðssjóði rýrnaði um 30%, eftir að faðir hennar hafði fengið þá flugu í höfuðið að gott væri að ávaxta vel fæðingarsjóð dótturinnar.
25. Eftirfarandi skilaboð voru send út af föðurnum skömmu eftir að Gudda fæddist: "Jæja, nú hefur lífið tekið aðra stefnu ... því Sydney er fædd! Kl. 17.50 að staðartíma og heilsast frábærlega, líkt og móðurinni. Já, svona gengur nú lífið þennan daginn. Kv. B." en á ensku hljóðuðu skilaboðin á þessa leið: "Hi, a healthy and pretty small girl, called Sydney was born today at 5:50 pm. Everything went absolutely fine and everybody is feeling well. Regards, Bobbi".
26. Gudda hefur alltaf harðneitað að liggja á maganum og getur því ekki skriðið ... en á móti kemur að henni finnst hvítlauksbrauð mjög gott, og jafnvel með ís.
27. Gudda hefur orðið "vitni" að tveimur KISS-tónleikum og einum Formúla 1 kappakstri ... reyndar ófædd þá, en lét engu að síður vel finna fyrir sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.6.2009 | 11:53
Einn dagur í afmæli
Jæja, nú eru stórmerkilegir hlutir að gerast ... NÝTT VIDEO!!
Samantekt á helstu viðburðum maímánaðar ... eftir þessu hefur verið beðið lengi ... af sumum allavegana, veit ég ...
Reyndar er það þannig að videoin eru alltaf að lengjast hjá mér, enda svo margt að filma að erfitt er að finna hvað skal "kötta út" og hvað ekki.
Þetta vandamál hefur fylgt mér allt frá því í upphafi 10. áratugar síðustu aldar, þegar ég átti (og á svo sem ennþá) firnagóða JVC "videokameru", það flottasta sem til var þá. Svo þegar kom af því að klippa upptekið efni, reyndist það í meira lagi erfitt að finna út hvað átti að fara í "ruslafötuna" og hvað ekki. Niðurstaðan varð sú að ég á 5 mínútna myndband af mér eða Leifi frænda að reka nagla í spýtu ... og 1000 önnur með sama eða álíka skemmtanagildi.
En allavegana hér er videoið ...
Annars er gott af okkur að frétta ... Gudda er að verða eins árs á morgun ... já, herrar mínir og frúr, það er eitt ár síðan þessi litla skotta birtist fjólublá í framan á Royal Prince Alfred Hospital, Camperdown í Sydney.
Óhætt er að segja að mikið hafi gerst síðan þá ... þar held ég að tveir atburðir standi upp úr sem þeir eftirminnilegustu ... en því miður ekki af góðu ...
Annars vegar það að vera staddur í Cairns í Ástralíu á leiðinni út á Great Barrier Reef þegar hagkerfi heimalandsins hrynur til grunna. Fyrsta frétt í sjónvarpinu var frá Íslandi, myndir af fólki að brenna fána Landsbankans og myndir af Landsbankanum sjálfum ... og meira segja kom móðir undirritaðs í mynd, þar sem hún þrammaði inn í bankann til að athuga með peningana sína ...
En einhvern veginn svona voru viðbrögð síðuhaldara í október 2008 ...
Í öðru lagi var afar eftirminnilegt þegar hin háæruverðuga dóttir ákvað að leggjast í hitakóf og veikindi úti í Hong Kong síðla nóvembermánaðar ... boðið var upp á sjúkrahúsvist gegn rúmlega 600.000 kr. tryggingu. Þá var gott að það var hjúkrunarfræðingur í hópnum ... því undirritaður átti ekki 600.000 kr.
Gudda hresstist fljótlega eftir ... en óvíst er ennþá með hið íslenska hagkerfi ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)