Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Pælingar I

Eins og alltaf eru margar pælingar í gangi í hausnum á mér ...

... ég er tala um pælingar, sem eru annars eðlis en þær sem fjalla um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IceSave eða það hvort ríkisstjórnin er að standa sig eða ekki ... hef satt að segja lítið nennt að pæla í því, frá því ég tók þátt í Búsáhaldabyltingunni.

Eitt af því sem ég er að pæla mikið í eru uppeldismál ...

... og ein pælingin er, hversu miklu máli skiptir það fyrir börn að hafa rútínu á hlutunum?

Fara að sofa á sama tíma, borða á sama tíma, sitja á sama stað við matarborðið, láta sama tíma líða milli máltíða, koma upp einhverju "ritúali" þegar fara á að sofa o.s.frv. 

Hversu miklu máli skiptir þetta í raun?  Af hverju þarf tilveran hjá börnum að vera nelgd niður?  Í þágu hvers er það?  Barnsins, segja sjálfsagt flestir ...
Sjálfur hef ég oft heyrt að þetta hafi með öryggi barnsins að gera ... að geta gengið að hlutum vísum ... tjaaaaaa ...

En er það í þágu barnsins?  Ég veit það hreinlega ekki sjálfur ... og ég er hreint ekki viss um það, í sannleika sagt. 

Hvers vegna ætti það að vera börnum í óhag að upplifa eitthvað af þeirri "dýnamík" sem lífið hefur upp á að bjóða?  Í raun er tilveran andstæða rútínu, því heimurinn er síbreytilegur.  Hvað tapast við að leyfa ekki barninu að upplifa þennan breytileika?

Sveigjanleiki kannski?  Öryggi þegar barnið eldist og áttar sig á að tilveran er mun flóknari en leit út í fyrstu?  Í þessu samhengi finnst mér mjög fróðlegt að spá í hvað margir fullorðnir eru afskaplega óöruggir og þjakaðir af minnimáttarkennd ... er eitthvað samhengi þarna á milli?

Allir sem hafa einhvern tímann lesið kenningar Darwins, vita að sveigjanleiki er lífsnauðsynlegur, þeir sem hafa snefil af slíku eru mun líklegri að komast af en hinir ... að kenna börnum sveigjanlega hlýtur þá að vera af hinu góða ... eða hvað??

Í öllum þeim fjölda bóka sem ég hef lesið um hvatningarsálfræði, er fólk hvatt til að vera sveigjanlegt þegar þörf er á.  Annað er bara ávísun á vesen ... þrjóskupúkar og þráhundar eru sjaldnast efstir á vinsældarlistanum, hvorki hjá sjálfum sér né öðrum ...

Ég spyr aftur ... er rútína svona mikilvæg börnum, eins og af er látið?  Eða er það hagur foreldranna sem öllu ræður?  Raunar held ég að það sé tilfellið í mörgum tilvikum, svona ef ég á að vera alveg hreinskilinn ...

bfrn14l by you.
 


Þriðjudagurinn 6. október 2009

Þessi dagur er búinn að vera ansi góður og gagnlegur ... kannski ólíkt því sem hann var fyrir einu ári ... kannski þó ekki fyrir mig persónulega, heldur svona meira fyrir íslensku þjóðina í heild sinni ...

En fyrir einu ári nákvæmlega fór Guðrún í sína fyrstu flugferð, þegar hún flaug upp til Cairns í norðurhluta Ástralíu ...

Fyrsta flugferðin ... til Cairns by you.

Mestum hluta þessa dags hefur verið varið í vinnu við Aðalskipulag Djúpavogshrepps, sem brátt er að verða tilbúið til staðfestingar.  Geysilega gott og útpælt plagg þar á ferðinni, sem heimamenn í Djúpavogshreppi geta verið bæði ánægðir með og stoltir af.

Annars bað Lauga okkur Guddu um að hitta sig í hádeginu á markaði, sem er á Vaksalatorgi ... þar tók sú stutta heldur betur við sér þegar við blöstu uppblásnar blöðrur með allskyns skemmtilegum myndum á ... og dúkkurnar, sem stóðu í röðum á borði skammt frá, vöktu einlæga gleði ... því miður gleymdist myndavélin heima ...

Svo vann ég mér það til afreka að fara út að skokka á svona sæmilega eðlilegum tíma ... og þvílíkur munur ... segi ekki annað ... á meðan sváfu mæðgurnar!  Stefnan er sett á hálft maraþon þann 20. okt nk.

Og svo er það nokkuð fréttnæmt og ástæða til að láta það fylgja að í kvöld er bara slagveðursrigning, ég held bara sú fyrsta síðan við komum hingað ... þá er ég að meina rigning og rok á sama tíma ...

Lýk þessu með mynd sem tekin var í morgun, þegar dóttirin lagði sig ...  mér fannst stellingin dálítið kynleg ... skyldi þetta í alvörunni verða þægilegt??!

Sofið í vagninum by you.


Mánudagsmetall II

Þetta er nú orðinn alllangur dagur ... líkt og síðustu dagar hafa verið.  Allt upp undir 17 - 18 klukkutímar.

Jæja, en fyrirlestrarskrif hafa fyllt þennan daginn og gengu þau ljómandi vel, er nú kominn með fyrsta draftið af fyrri fyrirlestrinum ... það átti reyndar að klárast á sama tíma fyrir viku ...

... hef stuðst við Brian Tracy í því skyni að auka hæfni mína sem fyrirlesari, enda er það eitt af markmiðum mínum að verða öflugur og ekki síður áhugaverður fyrirlesari ... alltaf pláss fyrir slíka menn ...

Já og svo eignaðist ég í dag, minn fyrsta tölvuleik síðan ég veit ekki hvenær ... ætli ég verði ekki að fara aftur til 9. áratugs síðustu aldar til að finna sambærilegan dag ... Tugþraut Daley Thompson fyrir Sinclair Spectrum 48K.

daley1 by you.

Leikur dagsins var Crysis ... rétt er að taka það fram að ég hyggst ekki fara að demba mér í tölvuleikjaspilerí, enda tel ég fáa hluti fánýtari en slíka iðju ...

... kaupin voru í þágu doktorsverkefnisins ... take it or leave it ...

Crysis_Box_Wiki

Lauga fór í dag að hitta forsvarsmenn barnaheimilisins, sem Gudda á að byrja á eftir tvær vikur ... þar sem GSyd var óheimill aðgangur að þessum fundi, varð ég að sitja heima og hafa umsjón með henni ... það var nú frekar fyrirhafnarlítil aðgerð, enda svaf stúlkan allan tímann ...

Annars er dóttirin að stefna í að verða knattspyrnusnillingur ... enda fátt gáfulegra en að veðja á frama í kvennaknattspyrnu, sbr. árangur íslenska landsliðsins á síðustu misserum ...

Hér eru myndir af æfingum dagsins ... þegar hún kom inn vildi hún fá "ís", en það er annað vitræna orðið sem hún tekur sér í munn ... hitt er "datt" ... restin er bara óskiljanlegt bull ...

Á harðahlaupum II by you.

Á harðahlaupum by you.

Og svo er ein auka fyrir þá sem nenna að lesa og skoða alla færsluna ... svona stóð Guðrún lengi hreyfingarlaus og horfði á heiminn ...

Horft á heiminn by you.

 


Sunnudagur og bolti

Mikið er gaman að spila fótbolta ... ég var eiginlega búinn að gleyma því, en það hefur rifjast upp fyrir mér í sumar og haust.  Fyrir nokkrum árum hét ég því að ég myndi ekki snerta bolta aftur ... sennilega afleiðing af of miklu fótboltaspileríi með röngu hugarfari ...

ist2_1449729-flying-soccer-player by you.

En það var sumsé landsleikur í dag ... Ísland - Svíþjóð í rigningu og kulda ... úrslit 10 - 9 ;)

Svo hef ég verið að vinna í aðalskipulagi Eyja- og Miklaholtshrepps í dag.  Fín vinna!

Mægðurnar hafa verið svona sæmilega hressar í dag ... skuppu víst út meðan ég sýndi takta á fótboltavellinum ...

Sú ferð endaði með gráti, þegar Lauga klæddi GSyd í lúffur ... þá var sú stutta búin að þráast mikið við og hendurnar orðnar rauðbláar af kulda ...

... það átti samt ekki að gefa sig ... og því var hún borin inn í íbúð án frekari málalenginga, þrátt fyrir áköf mótmæli ...

Úti í rigningunni by you.
Þessi mynd er reyndar tekin 17. ágúst sl. ... þá var Syd ekki með neinar lúffur heldur ...

Svo harðneitaði blessað barnið að borða allt sem var á boðstólnum í kvöld nema Royal karamellubúðing ... það var víst hægt að renna honum niður án þess að þurfa að reyna mikið á sig ...

... uppeldið er alveg að fara út um gluggann á fyrstu metrunum ...

1069img964 by you.
Þetta er nú reyndar vanillu, eins og glögglega má sjá ... en það er næsti bær við karamelluna ...


Laugardagurinn stutti

Þá er nú enn einn blessaður dagurinn að kveldi kominn ... það er nú meira hvað þeir líða hratt.  Mér finnst ég hreinlega alltaf vera að fara að sofa ...

Þessi dagur hefur runnið ljúflega ... að sjálfsögðu hef ég verið að vinna svolítið, eins og alltaf.  Meðal þess sem ég gerði var að vinna áfram með framtíðarhugmyndir mínar.  Ég hafði m.a. samband við Hugmyndaráðuneytið og Hugmyndahús háskólanna í dag, og viðraði hugmyndir mínar við þessi tvö "batterí".  Spennandi að sjá hvernig mun til takast ...

Svo ætla ég að skella mér í ferðalag eftir viku.  Meiningin er að fara vestur yfir Atlantshafið, nánar tiltekið til New York og vera þar í þrjá daga.  Lauga nennir ekki að fara með og því fer GHPL heldur ekki með ...

Með þessari ferð er ég að uppfylla eitt markmiðið mitt, og á því að minnsta kosti 98 eftir áður en yfir lýkur.  Það er nefnilega svo að í sumar setti ég mér 100 markmið. 
Tvö er nánast að komast í höfn og 22 eru nú þegar í vinnslu.  En það bætist líka við hinn endann ...

Þetta markmið mitt er ekki af verri endanum ... en það er að sjá KISS spila í Madison Square Garden.  Það er búið að vera draumur hjá mér í mörg ár ... flugmiðar, hótel og miðar á tónleika ... allt er þetta komið í hús.  Það er búið að taka tímann sinn að safna fyrir þessu.

Af öðru heimilisfólki er allt gott að frétta þennan daginn ... Lauga er að vinna að mjög athyglisverðri hugmynd, sem gæti orðið að spennandi verkefni einhvern tímann ... segi ekki meira.

Sydney-Gudda hefur verið góð og skemmtileg eins og hún á ættir til.  Hápunkturinn hjá henni var að fara út að sulla í pollunum, sem urðu til í rigningunni í dag ... það er nefnilega farið að hausta hér í Svíþjóð ...

Lýk færslunni á myndbandi sem ég bjó til fyrir löngu en átti alltaf eftir að kynna ... það er nefnilega ferðin til Álandseyja sem farin var í lok maí.  Á þeim tíma átti fröken Guðrún erfiðara með að halda jafnvægi á tveimur jafnfljótum en núna ... sjón er sögu ríkari ...


Föstudagurinn 2. október 2009

Jæja ... hér í Uppsala gengur lífið sinn vanagang ... sem er mjög góður vanagangur :)

Lauga er alveg í rosalegu stuði ... vinnan gengur svo vel að það er nánast fáránlegt :D .
Hún er búin að finna sína hillu í lífinu ... og er núna með 1000 hugmyndir í kollinum ... alveg feykilega gaman að því! 

Í dag hvíldi ég mig á fyrirlestrarskrifum og fór að kíkja á hluti sem þurfa að vera í lagi fyrir framhaldsrannsókn mína sem mun hefjast vonandi sem fyrst.  Það er alltof mikið að gera hjá mér ...

Fann t.d. leiðbeiningabók fyrir V-Ray sem er forrit sem býr til flottar myndir úr SketchUp ... ekki dónalegt það ...
Fann líka plug-in sem gæti hjálpað mér að búa til gagnvirkan sýndarveruleika ... það kemur í ljós á næstu dögum hvort það gangi eftir. 
Svo eru svona 1000 hugmyndir í gangi í hausnum á mér ... aftur fæ ég á tilfinninguna að það sé of mikið að gera hjá mér ...

Guðrún hefur verið mjög viðræðugóð í dag ... eins og hún er reyndar oftast.  Lét sig samt ekki muna um að fúlsa við jarðaberi með vanillurjóma, fleygja því í gólfið, banda út báðum höndum og öskra á föður sinn ... tjaaaa ... 

Önnur stórafrek voru nú ekki unnin í dag, önnur en að halda bara áfram að vaxa og dafna ... hún á svo sem ekkert að vera að gera neitt annað ...

Verið að lesa stóra bók by you.

Verið úti í horni by you.
Það er alveg merkilegt hvað frökenin er hrifinn af þessum kústi og fægiskóflunni.  Hún vílar ekki fyrir sér að leggja í miklar ógöngur til þess eins að ná í þessi verkfæri ...

Bless, bless by you.
Þessi mynd var tekin í Helskini í byrjun mánaðarins.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband