Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
12.9.2008 | 13:43
Splitt, islam og dóttirin
Ég man ekki hvort ég var búinn að nefna það að þessa dagana er ég að vinna að því að skrifa niður meira en 100 markmið, sem mig langar til að ná í þessu lífi. Sum af þeim eru nokkuð viðamikil og munu taka tíma, önnur eru viðaminni, eins og gengur og gerist.
En það er gaman frá því að segja að eitt markmið mitt er að komast í splitt. Já, allt frá því ég sá Kjartan Sturluson, þáverandi markvörð Fylkis í fótbolta og núverandi landsliðsmarkvörð, renna sér í splitt á einhverju innanhúsmóti fyrir mörgum árum, hef ég hugsa um hversu mikil snilld það væri að geta framkvæmt eins og eitt splitt.
Síðastliðna mánuði hef ég verið að vinna að þessu verkefni. Ég hef teygt kvölds og morgna og nú er svo komið að mig vantar að koma mjöðmunum niður um 20 cm, til að ná splittinu, það er að segja þegar hægri fóturinn er settur fram og sá vinstri aftur. Sé hins vegar sá vinstri settur fram og sá hægri aftur, horfir málið talsvert öðruvísi við.
Þetta er eitthvað sem ég held að allir ættu að stefna að ... svona heilsunnar vegna. Því mér líður alltaf alveg fantavel eftir teygjurnar. Maður finnur hvernig blóðið rennur um vöðvana og það slökun gerir vart við sig.
Í gær var hinn magnþrungi 11. september, eins og flestir hafa sjálfsagt áttað sig á. Þennan dag fyrir 7 árum, voru Kanarnir gripnir í bólinu í beinni útsendingu. Það var svo sannarlega ótrúlegt!
Af þessu tilefni áttum við Azman, félagi minn í skólanum, gott samtal. Hann sagði mér meðal annars að eftir þennan atburð hefði hann skammað sín fyrir að vera múslimi, og sér fyndist ótrúlegt að menn skyldu framkvæma slíkt í nafni islam. Meira að segja hefur hann hætt að nota millinafnið Bin, eftir þennan atburð. Það kom reyndar ekki af góðu, því hann sagði að hann hefði oft, á ferðalögum milli landa, verið stoppaður af flugvallaryfirvöldum, þar sem hann væri talinn tengdur hinum eina sanna Osama Bin Laden.
"Slíkt er náttúrulega ekkert annað en dæmalaus vanþekking", sagði Azman við mig, "því Bin Laden þýðir ekkert annað sonur Laden, ... með öðrum orðum að Osama sé sonur Laden. Þess vegna hafa mjög margir karlmenn Bin sem millinafn." Azman hristi hausinn. "Þetta er ein af afleiðingum 11. september ... maður nefnir ekki millinafn sitt, nema maður sé að leita eftir vandræðum."
Orð Azmans leiddu huga minn að öllu því fólki sem hefur horn í síðu múslima og telja þá alla með tölu stórhættulega. Satt að segja finnst mér það bera vott um geysilega einfeldni að alhæfa með slíkum hætti. Miklu nær væri að halda sig við að fordæma þá einstaklinga sem standa fyrir voðaatburðum eins og þeim sem áttu sér stað fyrir 7 árum. En að dæma heilt trúarsamfélag, út frá gjörðum vitstola manna er á engan hátt réttlætanlegt, og er ekki það sem þessi heimur þarf. Svo sannarlega ekki ... heimurinn þarf meira umburðarlyndi og að fólk beri virðingu hvert fyrir öðru óháð trú, kyni og kynþætti.
Þeir eru nokkrir múslimarnir sem ég hef kynnst hér í Sydney og undantekningarlaust eru þeir fyrirmyndarfólk. Ekkert verri eða betri en megnið af því fólki sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. Flestir þeirra taka þó trúna alvarlega, biðjast fyrir nokkrum sinnum á dag og virða þær skyldur, sem lagðar eru á herðar þeirra meðan á Ramadan stendur.
En nóg af þessu ...
Af dótturinni er það að frétta að hún hefur lært að segja fyrsta orðið ... og er það orðið "NEI". Óhætt er að segja að ekki sé farið sparlega með þetta eina orð sem er í orðaforðanum og sé hún spurð að einhverju, er hægt að ganga örugglega út frá hvert svarið verður.
Það segir sig náttúrulega alveg sjálft, þegar manneskjan kann bara eitt orð ... en jæja ...
Ég vona samt að þetta verði ekki það sem koma skal. Þá verður að grípa til örþrifaráða, því ekki er hægt að láta barnið venja sig á að neita öllu því sem það er spurt um eða beðið að gera. Þær verða ekki margar sendiferðir, sem þá verða farnar.
Með Stínu vinkonu ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2008 | 23:20
Að þykja vænt um ...
Ég er að lesa bókina Secret þessa dagana, ákvað að demba mér á eitt stykki fyrir heila 7 dollara. Það er nokkuð gaman að bókinni og hlutirnir settir í nokkuð forvitnilegt samhengi, þó svo að ég verði að segja að ég skilji nú ekki alveg hvernig allt gengur upp.
Það sem helst stendur upp úr að mínu mati ... eins og mál standa nú ... er kraftur ástarinnar, en samkvæmt bókinni er enginn kraftur meiri en sá kraftur.
Ég hef verið að hugsa þetta. Þetta væri frábært að vera fær um að umvefja hugsanir, allt og alla með ást.
Eins og ég skil þetta þá snýst þetta einfaldlega um það að þykja vænt um lífið, vænt um sjálfan sig, þykja vænt um fólk, stóra sem smáa, háa og lága. Þykja vænt um fleiri en maka sinn og börn, foreldra, frændgarð og vini. Þykja vænt um allt það fólk sem maður hittir á hverjum degi.
Málið snýst þó ekkert um að stökkva upp um hálsinn á öllum, kyssa þá og knúsa. Þetta snýst frekar um að hugsa um fólk undir þessum formerkjum.
Ég hef verið að prófa þetta og þetta er erfitt. Mér finnst til dæmis erfitt að hugsa um að mér þyki vænt um fótboltaþjálfarann sem gerði mér lífið leitt í sumar. Ég hef samt verið að reyna, því hvernig allt fór mun alveg örugglega leiða mig inn á nýjar og spennandi brautir.
Þegar ég var í Versló fyrir mörgum árum, var ég í bekk með dreng, sem áleit mig greinilega eitthvað fyrir sér. Sú hegðun sem hann sýndi, myndi líklegast flokkast undir einelti nú á dögum.
Sjálfur var ég svo aumur að ég gat ekki varið mig með neinu móti, og mín helsta hugsun í þá daga var að rífa úr honum barkann við fyrsta tækifæri eða eitthvað álíka. En viti menn ...
... afleiðing þessa var sú að ég fór norður á Akureyri í skóla. Yfirgaf þessar ömurlegu aðstæður ... og hvað?
Að fara norður var vendipunktur í mínu lífi. Það var upprisa mín. Þar loksins fór ég að lifa lífinu, vera ég sjálfur, hitta fólk og njóta þess að vera til.
Í dag þykir mér vænt um þennan náunga sem olli mér erfiðleikum fyrir næstum 20 árum. Ég á honum mikið að þakka.
En allavegana, væntumþykja kallar fram jákvæðar hugsanir, og þegar við hugsum jákvætt líður okkur vel.
Þar með er ekki sagt að við þurfum að vera sammála öllum og láta allt yfir okkur ganga. En ef okkur þykir vænt um aðra verðum við umburðarlyndari. Átök og erjur verða fátíðari.
Jæja, lengra er ég nú ekki kominn í þessum pælingum mínum ...
"Slútta" þessari færslu með mynd frá einum höfuðsnillingnum sem ég kynntist á skólaárunum á Akureyri ... ég er að tala um Jón Þór.
Vinátta okkar hefði aldrei orðið, ef bekkjarfélagi minn í Versló hefði hagað sér skikkanlega ...
En "innihald" myndarinnar hefur ekkert að gera með innihald færslunnar, þvert á móti, held ég. Þarna er maður bófi í Chicago á bannárunum, með byssu í hönd ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2008 | 05:54
Fínn frasi
Heyrði góðan frasa í dag:
"Að vera sleipur á svellinu" ...
Það er mjög athyglisverð nálgun verð ég að segja ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.9.2008 | 22:23
3ja mánaða afmæli
Þá er Guðrún orðin 3 mánaða ...
Það er svolítið erfitt að segja fyrir um hvort mér finnst það vera mikið eða lítið ... því mér finnst dóttirin hafa verið til nánast alla mína ævi, en á sama tíma tíma er rosalega stutt síðan hún fæddist ... ?!?
Jæja, allavegana þá var haldið upp á afmælið með pompi og prakt. 18 vinir voru viðstaddir, allt frá dúkkunni Stínu, yfir í Úrið og bleika bangsann. Sjón er sögu ríkari ...
Afmælið byrjað ...
Í dag var að auki feðradagur hér í Ástralíu ... kannski var hann líka alls staðar annars staðar í heiminum ... ég veit það ekki ...
En í tilefni dagsins færði dóttirin föður sínum fyrstu gjöfina, og lítið kort sem stóð í: "Til pabba. Frá Guðrúnu."
Ég veit ekki hvað er eiginlega að koma yfir mig, en auðvitað fékk ég þvílíkan kökk í hálsinn að ég mátti vart mæla svo mínútum skipti ...
Í dag sýndi dóttirin einnig hvers hún er megnug, þegar hún sat teinrétt í lófanum á mér án nokkurs stuðnings ... lék svo sannarlega listir sínar fyrir áhorfendur!!!
Henni er greinilega svo eðlislægt að sýna listir sínar að hún kippir sér ekki einu sinni upp við það!
Þess má svo að lokum geta að stórvinur minn Jón Þór á afmæli í dag ... karl orðinn 34 ára!! Enn einu sinni er hann búinn að ná mér!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2008 | 23:45
Ræðulist
Á fimmtudaginn og föstudaginn tók ég þátt í mjög skemmtilegu og krefjandi námskeiði, sem bar heitið "High Impact Presentations" og er haldið á vegum Dale Carnegie hér í Sydney.
Námskeiðið, eins og enska heitið gefur til kynna, var ræðunámskeið, en ræðulist er eitthvað sem hefur alltaf heillað mig. Hver kann ekki að meta góðar og velfluttar ræður?
Þegar kemur að því að matreiða upplýsingar ofan í fólk eða sannfæra það um af hverju þetta sé betra en hitt, er mjög mikilvægt að kunna einhverjar aðferðir sem prófaðar og aðlagaðar hafa verið áratugum saman. Það eru nefnilega 96 ár síðan Dale Carnegie hélt sitt fyrsta ræðunámskeið og síðan þá hafa námskeiðin verið í stöðugri þróun.
Fyrirkomulagið er þannig að hver þátttakandi heldur 7 ræður blaðalaust á tveimur dögum og til að geta sem best áttað sig á styrkleikum og veikleikum sínum er þær allar teknar upp á video. Eftir hverja ræðu er farið afsíðis og horft á flutninginn ásamt þjálfara, reynt að rýna í hvað er gott og hvað mætti bæta.
Fyrir mig var þetta námskeið tími uppgötvana, því margt af því sem ég hélt að væru veikleikar mínir reyndust vera styrkleikar. Sem dæmi hélt ég að ég iðaði of mikið þegar ég héldi ræðu, væri of ákafur og talaði of hratt. Ekkert af þessu reyndist vera vandamál. Raunar sögðu báðir þjálfararnir að þetta væru styrkleikar mínir. Það sem ég sá aftur á móti á videoinu var að ég má bæta í litróf raddarinnar meðan ég tala og nota brosið meira. Þeir hlutir hélt ég fyrirfram að væru í pottþéttu lagi ...
Það var samdóma álit allra sem voru á námskeiðinu að þeim fannst þeir betri ræðumenn en þeir áttu von á. Videoið sýndi svart á hvítu að menn voru ekki eins asnalegir, slappir og hallærislegir, og þeir héldu.
Svo virðist nefnilega vera að upplifun okkar á eigin ræðum, er algjörlega allt önnur en þeirra sem hlusta. Ef maður er maður sjálfur, talar hæfilega hratt og skýrt, og spilar sig öruggan, þá kemur maður nær undantekningarlaust vel út sem ræðumaður og fólki líður vel að hlusta.
Hinsvegar er talsvert mikið erfiðara að vera góður ræðumaður, ræðumaður sem lætur viðfangsefnið lifna við og er dálítið skemmtilegur, án þess þó að reyta af sér brandara í tíma og ótíma.
Það var góður punktur hjá þjálfaranum þegar hann fór yfir hvernig færni fólks þroskast. Það eru þrjú stig sem þarf að komast í gegnum áður en hægt er að ná fjórða og efsta stiginu. Stigin eru eftirfarandi:
1. Unconscious imcompetence: Maður getur ekki gert hlutina og veit ekki af því.
2. Conscious imcompetence: Maður getur ekki gert hlutina og maður áttar sig á vanmætti sínum gagnvart viðfangsefninu.
3. Conscious competence: Maður getur gert hlutina og veit að ef maður passar sig að gera allt rétt þá verður allt í lagi.
4. Unconscious competence: Maður getur gert hlutina og gerir þá meira og minna óaðvitandi.
Mér finnst forvitnilegt að setja þetta í samhengi við sönginn, sem ég stundaði af miklum móð fyrir nokkrum árum.
Fyrsta stigið var þannig að ég mætti í fyrsta söngtímann og hélt að ég væri rosalega góður, af því einhver hafði sagt: "Mikið hefur þú kraftmikla rödd". Ég með öðrum orðum vissi ekki að ég kynni ekkert. Þetta stig er oft mjög varasamt ...
Annað stigið rann mjög fljótlega upp fyrir mér. Ég áttaði mig á því að ég kynni ekkert að syngja.
Upp á þriðja stig komst ég nú varla og þó, kannski í algjörum undantekningar tilfellum, þá kannski tókst að gera allt rétt og það sem maður gerði var í lagi.
Fjórða stigið hef ég aldrei séð ... því miður!
Jæja, nóg af kjaftæði um þetta ...
Til staðfestingar á því að ég fór á námskeiðið ... !!!
Dóttirin hefur það bara skínandi gott þessa dagana, að minnsta kosti ef marka má atferli hennar. Annars lærði ég það í sálfræðinni að það getur verið varasamt að nota samanburðarfræði til að geta sér til um ástæður hegðunar.
Til dæmis ... ef köttur kemur að lokuðum dyrum og tekur við að reyna að stökkva upp á hurðarhúninn, myndu flestir telja að hann væri að reyna að opna dyrnar ... en hvernig getum við verið 100% viss um það?? Kötturinn getur ekki talað og þó hann gæti það, er þá víst að hann myndi segja satt???
Ok, ... allavegana tel ég að dótturinni líði vel, framfarirnar eru ógurlegar þessa dagana, þar sem hún brosir margfalt það sem hún brosti fyrir nokkrum dögum. Hún er líka að verða mun pattaralegri en áður og andlitið er orðið býsna kringuleitt.
Svo verður náttúrulega að geta þess að henni barst stór og mikill pakki frá móðursysturinni og frændum í Grundarfirði. Glæsilegur vetrargalli, sem henni verður smellt í þegar komið verður heim til Íslands í desember. Einnig var frábær bangsi í pakkanum, sem hægt er festa á úlnliðinn eins og úr og hefur hann frá sér hljóð þegar hann er hristur ... hefur bangsinn hlotið hið frumlega nafn "Úrið".
Þá er ótalinn fiskurinn "Medel", sem var keyptur í gær. Medel er fiskur fullur af vatni og ætlast er til að fröken Sydney nagi hann, þegar áhugi er á slíku. Það var ótrúlegt að sjá hversu gríðarlega athygli Medel fékk hjá frökeninni, augun ætluðu bókstaflega út úr hausnum!
Sydney og Medel
Að lokum má nefna að Guðrún Helga Sydney Houdini, er að daðra við það sem vel mætti kalla hámark viðkvæmninnar.
Má ekki vel segja að hámark viðkvæmninnar sé að gefa frá sér hljóð, helst hátt og snjallt og krossbregða svo við allan hávaðann??
Hér eru nokkrar fleiri myndir ... lesendur hafa víst beðið óþreyjufullir eftir slíku, er marka má tölvupóst sem borist hefur hingað til Sydney.
Hendur og fætur eru að uppgötvast þessa dagana ...
Lifi byltingin ... eða eitthvað?!?
Fröken Guðrún á leið út í göngutúr ...
Fremur lítil stemmning í gangi ...
Í göngutúr ...
Mikil þreyta eftir göngutúr!
Mikil spenna í "geimstöðinni"!!!
... en á meðan sat móðirin og las bók frammi í eldhúsi ...
Eftir vinnuna í "geimstöðinni", var haldið niður á "skrifstofu", þar sem frökenin lagði sig!
Bloggar | Breytt 7.9.2008 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2008 | 23:56
Fótbolti
Síðustu dagar hafa verið annasamir hér í Sydney ... svo annasamir að mér hefur eiginlega ekki komið til hugar að skrifa eitt einasta blogg ...
... en það er gaman þegar mikið er að gera.
Eitt af því sem á daga mína hefur drifið er fótbolti ... já, fótbolti er aftur kominn á dagskrána, en undir öðrum formerkjum en áður hér í Ástralíu, því núna er ég sjálfur að spila fótbolta.
Á miðvikudagskvöldið var fyrsti leikur í ógurlegu innanhúsfótboltamóti, sem haldið er í Rockdale. Mun mótið standa yfir í næstu mánuði ... afar spennandi að sjá hvernig það fer.
Liðið mitt lá þó í valnum í fyrsta leik, töpuðum 1-6 ... algjör óþarfi að mínu mati, en augljóst er að slípa þarf nokkra vankanta af leik liðisins.
Sjálfur spilaði ég eins og byrjandi, ég held að ég hafi gefið 2 eða 3 mörk. Þriggja ára fjarvist frá innanhúsbolta hefur sennilega haft sín áhrif. Ég varð aðeins betri eftir því sem á leið leikinn, svona þegar mesta ryðið var farið að slípast örlítið af.
Það dugði þó ekki til ...
Ég hef samt fulla trú á því að þetta komi allt saman hjá mér og liðinu ...
Verð samt að segja að það var gaman að komast í bolta aftur ... það er alveg merkilegt hvað þessi helvítis bolti togar alltaf í mann, þó maður sé löngu búinn og margoft búinn að ákveða hætta þessu déskotans sparki. En það getur verið "trikkí" að hætta einhverju sem maður er búinn að stunda, og oft af mjög miklu kappi, í næstum 30 ár!!
Læt þetta duga í bili ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2008 | 22:39
2. september 2008
Í dag komst ég að því að það er eitthvað til sem heitir þrívíddarprentari. Já, dömur mínar og herrar, það má vel vera að allir þeir sem lesa þessa færslu viti að þrívíddarprentarar eru til og hafa verið til um nokkurt skeið, en ég hef ekki vitað það.
Það var magnað að sjá eina af afurðum prentarans, 20 cm háa frelsisstyttu úr gifsi ...
... hingað til hef ég bara haldið að væru til prentarar sem prenta út í tvívídd ... það er að segja á venjuleg blöð. En maður lærir alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi ...
... það var alveg rétt sem vörðurinn á Central-brautarstöðinni sagði við mig um daginn þegar ég lýsti undrun minni á farmiðafyrirkomulagi á stöðinni og sagðist aldrei hafa heyrt um svoleiðis lagað fyrr, en þá sagði hann armæðulega: "Jú, jú, maður lærir alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi".
Undirbúningur fyrir Sydney-hálfmaraþonið er í fullum gangi þessa dagana ... maður er að taka 10 km tvisvar í viku milli 8 og 9 á morgnanna og lengri vegalengdir um helgar. Ekki reikna ég með að ég setji heimsmet að þessu sinni, en ef ég myndi skila mér í mark á innan við 2 tímum, þá væri það bara ásættanlegt. Undir 1:50 klst væri mjög ásættanlegt.
En aðalatriðið nú er bara að fara í þetta blessaða hlaup og klára það ...
Þessi færsla er nú frekar þunnur þrettándi ... því ég hef eiginlega ekki tíma til að skrifa hana, hvað þá að setja inn einhverjar myndir. En koma tímar koma ráð.
Dóttirin og móðir hennar eru í miklu stuði þessa dagana, ... mér fannst ég rosalega fyndinn þegar ég skrifaði í pósti til Auðar vinkonu minnar að dóttirin yxi eins og haugarfi. Auður er nefnilega garðyrkjufræðingur, og reyndar ritstjóri líka, og ég er viss um að henni þótti þetta fyndið.
Móðir dóttur minnar vex líka eins og haugarfi ... líkamsþróttur hennar vex dag frá degi, enda er hún komin með hjóladellu. Svo er hún líka með alls konar aðrar dellur, svo sem massífa nudddellu og nálastungudellu ... vill ólm kynna sér betur þessi fræði ... sem er náttúrulega frábært!
Reyni að bjarga þessu með einni mynd til málamynda, þó svo ég hafi sagt hér að ofan að ég hefði ekki tíma til að setja inn myndir ... en ég hef það svo sterklega á tilfinningunni að ef ég skýt inn einni mynd af mæðgunum, þá geti ég reddað málunum auðveldlega.
Það stenst þær enginn ... ég er viss um það ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)