Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

"Halldór Bjarni" er mættur til leiks

Húrra, húrra, húrra!!!

Þá kom að því í gær að Dóri og Helga eignuðust afkvæmi ... já, kl. 12.08, birtist "Halldór Bjarni" í öllu sínu veldi eftir að hafa svamlað í legvatni í rúma 9 mánuði.  Nú getur stefnan ekki verið annað en upp á við hjá honum ... mesta þraut lífsgöngunnar að baki.  Og framtíðin blasir við í öllu sínu veldi, aðeins 25 klukkustundir eru liðnar af lífi hans ... alveg rosalega merkilegt!!  Hugsaðu þér lesandi góður, á þriðjudagskvöldið síðasta var hann "ekki til"!!!

Ég er alltaf að átta mig betur og meir á því, hvað börn eru ótrúlega merkilegt fyrirbæri. 
Eftir að ákveðnar athafnir foreldranna hafa farið fram, tekur náttúran bara við og leiðir þetta stórkostlega magnaða ferli, sem lýkur svo 9 mánuðum síðar.  Þá tekur við annað ferli, sem er ekki síður merkilegt ...

Já, já ... ég held að ég sé ekkert að fara meira út í þessa sálma, heimspekilegar vangaveltur fara mér ekkert sérstaklega vel ... það er nú bara svoleiðis.

Hvað sem því líður, þá verður nú ekki hjá því komist að óska nýbökuðum foreldrum innilega til hamingju með árangurinn ... og nú hefst næsta vers hjá þeim sem verður að koma "Halldóri Bjarna" til manns!!

Ef einhver sem les þessa síðu þekkir eitthvað til þeirra skötuhjúa, finnst mér afskaplega vel við hæfi að sá hinn sami, fari inn á heimasíðu þeirra, sem er hér og segi eitthvað fallegt við þau ...


Þessi mynd af "Halldóri Bjarna" var send til Sydney, og er hún örugglega sú fyrsta sem opinbera birtist af honum! 

Hinn nýfæddi piltur, er sagður líkari föður sínum en móður ...
Hér fyrir neðan má sjá foreldrana, ásamt Laugu ... myndin er tekin í febrúar síðastliðnum ...
Dæmi nú hver fyrir sig ...


Eftirstöðvar Eurovision

Þessa dagana glími ég við erfitt vandamál ... sem gæti kallast "eftirstöðvar Eurovision" og lýsir sér með þeim hætti að íslensk Eurovision-lög sækja grimmt á mig.

Það er ekki heilbrigt þegar maður syngur "Eitt lag enn" nánast út í hið óendanlega, svona á milli þess sem gripið er í valdar línur úr "Gleðibankanum" og "All out of luck" ...

... "syndir þínir sem þú aldrei drýgðir, sitj´ í bankanum (dudududu), óútleystur tékki í Gleðibankanuuuuummmm" ...

Lauga er búinn að segja við mig að hún brjálist ef ég hætti ekki að syngja "Gleðibankann" ... en af einhverjum ótrúlegum ástæðum, finnst henni lagið alveg tryllingslega leiðinlegt.  "Hægt og hljótt" er líka á bannlistanum hjá henni. 
Þessi bönn eru mjög sérstök fyrir hana, því yfirleitt er hún með eindæmum umburðarlynd og víðsýn!!

En það er ekki allt búið enn, því stundum skjóta upp kollinum glefsur úr "Open your heart" og "Þú og þeir" eða "Sókrates" eða hvað þetta lag heitir nú eiginlega ...

... "og John Wayne, og Mark Twain og þig og Michael Caine!!!" ... 

Hin sívinsæla "Nína" er líka á efnisskránni hjá mér, sem og "Ég les í lófa þínum".  Það er nú reyndar allt í lagi að hafa þessi tvö síðastnefndu á heilanum, enda snilldarlög bæði tvö ...

... það besta var að í gær, þegar ég hlustaði á Eika töffara Hauks á youtube.com, þá loksins heyrði hvað hann sagði ... ég verð að taka það sérstaklega fram að ég hef alltaf verið ótrúlega lélegur í að greina orðaskil í lagatextum, en það er nú annað mál ...

... "ég ætla að fara alla leið, með ást á móti sorg og neyð, ég fæ aldrei nóg, ég vil fara burt með þér og fljúga yfir lönd og sjó" ... þvílík snilld!!!

Í þessum Eurovision-vandræðum mínum, eru þó ljósir punktar, því hvorki "Sjúbídú" né "Nei eða já" hafa verið að plaga mig.  Ég hef líka alveg látið vera að feta í fótspor Two Tricky sem fluttu lagið "Angel" eða "Birta", eins og það hét á íslensku.  Ég hef einnig verið blessunarlega laus við nærveru Daníels Ágústs og hins yndislega lags Valgeirs Guðjónssonar, "Það sem enginn sér".
Ég man enn eftir Eurovision-kvöldinu árið 1989, þegar Ísland fékk "eggið" (0 stig) ... þá var ég staddur á hóteli í Kaupmannahöfn og hló mig máttlausan.

 Það fór lítið fyrir þjóðrembunni það kvöldið ... fussss ... !!!


Ljóð dagsins

Rétt í þessu, barst mér þessi stutti en gagnorði tölvupóstur frá móður minni.  Ekki geri ég ráð fyrir að hún hafi hugsað hann í bundnu máli ... en mér finnst hann fyllilega standa undir sér sem nútímaljóð með endarími (?!?).

Ég kalla ljóðið Dag barnsins.

Dagur barnsins

Sælar elskurnar.
Í gær var dagur barnsins,
svo ég ætlaði að láta frá mér heyra.
Nú þarf ég að fara,
svo ég get ekki skrifað meira.
Bless M.

Ef þetta er ekki kveðskapur, þá veit ég ekki hvað kveðskapur er!!!

 


Ástralskt Eurovision

Þá er Eurovision búið þetta árið ... útsendingu áströlsku sjónvarpsstöðvarinnar SBS lauk með pompi og prakt rétt fyrir kl. 23.

Og vegna þess að ekki er um beina útsendingu að ræða hér, hefur maður farið varlega í dag ... passað sig vandlega á að fara ekki inn á mbl.is eða visir.is, til að reka ekki augun í úrslitin.  Eurovision er vonlaust fyrirbæri ef maður veit úrslitin fyrirfram ...

Keppnin var snilld ... mörg alveg prýðileg lög ...  þrátt fyrir að íslenska framlagið hafi náttúrulega staðið upp úr!!  Fyrir keppnina hafði ég bara heyrt það einu sinni ... og það var þegar það var valið sem framlag okkar, einhvern tímann í febrúar eða mars.  ... já og allt fjaðrafokið kringum "tóma tunnu" var í hámælum ...

Að þessu sinni horfðum við Lauga á keppnina ásamt tveimur Áströlum og stelpu frá Ísrael.  Crighton félagi okkar bauð til Eurovision veislu, og gerði vel við gesti í mat og drykk.

Annars leið dagurinn við skriftir ... við höfðum reyndar skipulagt að gera allt annað ... meiningin var að fara niður á Circular Quay í dag á sýninguna Sustainable Sydney 2030, fara svo á World Press Photo Exhibition og enda á ítölskum dögum á Stanley Street, áður en haldið yrði í Eurovision-gillið hjá Crighton.  En stundum fara hlutirnir á annan veg en ætlað er ...

Bókarkaflinn sem ég er að skrifa, beið meðhöndlunar ... já skyldan kallaði og við henni varð að bregðast!!


Tekið við viðurkenningu

Jæja, þar kom að því ... loksins ...

Já, loksins, fær maður viðurkenningu fyrir vel unnin störf ...

Í kvöld tók ég á móti Jean & Andrew Wong Research Scholarship, veittur er til afburðanemenda á sviði rannsókna í Faculty of Architecture, Design & Planning í University of Sydney.
Hófið var haldið í þeirri álmu aðalbyggingarinnar háskólans sem heitir MacLaurin Hall og hófst stundvíslega upp úr kl. 5.30 í kvöld.

Um klukkutíma tók að úthluta öllum þeim styrkjum og viðurkenningum sem í boði voru, þannig að maður baðaði sig heldur stutt í sviðsljósinu að þessu sinni.  En ég er sáttur ... fékk ágæta summu í vasann eða 7.000 dollara.  Sannarlega betra en ekkert á þessum víðsjárverðu tímum í íslenskum efnahagsmálum.

Lauga mætti að sjálfsögðu líka ... með myndavélina í farteskinu ...

Og nú ætla ég bara að láta ljós mitt skína og birta myndasúpu, já ... eða fjórar myndir frá þessu öllu saman ...
Hugsið ykkur hvað tæknin er ótrúleg ... þetta var bara að gerast fyrir nokkrum klukkutímum og nú eru myndirnar af athöfninni komnar til Íslands ... já, þetta er alveg ótrúlegt ...


Mættur til leiks í MacLaurin Hall


Og þarna er maður uppstilltur fyrir myndatöku ásamt þeim Richard Hyde prófessor og hinum nepalska Amit Bhattarai, en við deildum styrknum á milli okkar


Sáttur með viðurkenninguna


Kominn heim og búinn að lesa á skjalið

Ég hef aldrei fengið viðurkenningu fyrir námsárangur fyrr, þannig að það er ný og skemmtileg reynsla, sem má vel venjast. 

En ég verð þó að nefna það hér að ég hef fengið verðlaun eða viðurkenningu, sem ég held að fáir geti leikið eftir ... en það var fyrir að vera langafabarn langafa míns ... (!)
Já, góðir hálsar ... þegar ég útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri árið 1994, með ömurlegum vitnisburði, móður minni til sárra vonbrigða, átti ég síst af öllu von á að vera leystur út með gjöf á útskriftardeginum.

En kraftaverkin gerast, því þegar Tryggvi Gíslason skólameistari afhenti mér einkunnarspjaldið, rétti hann mér líka innpakkaða í sellófan með rauðri slaufu, "Sögu Menntaskólans á Akureyri 1880 - 1980" í þremur bindum, með þeim orðum að ég væri barnabarnabarn Stefáns Stefánssonar fyrrum skólameistara og ætti þetta því skilið.  Ég er ekki frá því að það hafi farið kliður um þéttsetna Íþróttahöllina í kjölfarið ...

Ég var nærri dottinn niður af sviðinu af undrun ... var samt alveg sáttur og tók við gjöfinni ... 

Stuttu síðar var stórvinur minn Steinþór Heiðarsson kallaður upp á svið og Tryggvi tilkynnti að hann væri dúx skólans þetta árið.  Stúdentseinkunn hans var minnsta kosti þremur heilum hærri en mín ... og hvað fékk Steini?
Jú, hann fékk "Sögu Menntaskólans á Akureyri 1880 - 1980" í þremur bindum!!!  En fékk hann líka gull- eða silfuruglu, sem er heiðursmerki skólans ...

... ég er ennþá 14 árum síðar að velta fyrir mér af hverju ég fékk ekki líka uglu ... !!!


Að hlaupa ... ekki

Í huga Múrenunnar í Sydney er það óþolandi þegar einhver setur sér markmið og gerir svo ekkert í því að reyna að ná því ... það kallar Múrenan "að gera í brækurnar".

Það er eitt, að setja sér markmið, djöflast svo eins og óður þeirri von að ná markmiðinu og ná því ekki ... það er allt saman gott og blessað ... það þýðir bara að tímaramminn sem ætlaður var til afreka var of stuttur ...

Hinsvegar er það allt annað að setja sér markmið, og halda svo að hlutirnir gerist af sjálfum sér ... það er beðið og beðið og ekkert gerist ...  svo  kemur að skuldadögum og þá er einhver ömurleg útskýring á framtaksleysinu borin á borð!!
Þetta síðarnefnda henti Múrenuna síðasta sunnudag, en þann dag hafði ætlunin verið að hlaupa hálfmaraþon hér í Sydney ... þann 31. mars sl. voru greiddir 75 dollarar og allt átti að fara að gerast. 
Eftir að greiðsla hafði farið fram, hljóp Múrenan ekki eitt einasta skref, gerði bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut í því að æfa sig ... og á sunnudaginn svaf hún hlaupið af sér og gaf sjálfri sér og öðrum viðstöddum þá arfaslöppu skýringu að hún hefði bara ekki haft tíma (?!!) til að æfa fyrir þetta!!!

Þetta er ólýðandi ... þess vegna hófst undirbúningur í gærkvöldi fyrir Sydney-maraþonið, sem verður í september ... hlaupnir voru 5 km.  Nú verður ekkert gefið eftir!!! 


Laugardagurinn 17. maí

Hefur einhver sem les þessa síðu smakkað Inca Kola - the Golden kola? 

Þetta er alveg stórmerkilegur drykkur ... gulur á lit, eins og sjá má á myndinni hér að ofan.  Á uppruna sinn að rekja til Perú, en þar er hann feykivinsæll!!
Satt að segja er ég ekki að skilja æðið fyrir þessum drykk, því hann bragðast eins og slæm "mixtúra" ...

Við Lauga fórum ásamt Rósu og Nick á perúskan veitingastað í kvöld ... alveg prýðilegur matur þar ... mjög mikið öðruvísi, en góður enga að síður.
Þessi "dinner" var í framhaldi af ferð okkar á "bowling"-stað, nánar tiltekið AMF Bowling Club í Randvick.

Alltaf stuð að "bowla" ... ég byrjaði feikilega vel, setti niður 5 fellur í röð eða eitthvað álíka.  Var kominn með 100 stig eftir 5 umferðir.  Þá fór heldur að halla undan fæti en ég vann þó leikinn með 135 stigum, sem þýðir að ég fékk 35 stig í seinni 5 umferðunum.
Merkilegt hvað maður er alltaf góður í að "bowla" alveg þangað til maður ætlar að fara að vanda sig ... þá fer allt í handaskol og raunveruleg geta kemur í ljós!!

Annars vaknaði ég fyrir 7 í morgun, og tók að undirbúa mig fyrir leik dagsins, sem var gegn Blacktown Spartans.  Ég var mættur niður á "Central" rétt fyrir 8 til að taka lestina til Blacktown, sem tekur um eina klukkustund.
Blásið var til leiks kl. 10.15 ... og þvílíkur leikur ...
Sjaldan hef ég séð aðra eins misnotkun á dauðafærum eins og hjá þessu blessu Blacktown-liði, þeir bókstaflega óðu í færum ...
Mínir menn komust þó yfir 1-0 þvert gegn gangi leiksins, en Blacktown komu loks blöðrunni í netið 5 mínútum síðar.  Svo í síðari hálfleik ... hvert færið á fætur öðru rann út í sandinn hjá Blacktown ... þeim tókst að brenna af á marklínu ... ótrúlegt. Loks kom þó að því að þeir skoruðu.

En þá kom að þætti Millsy, en hann er einn liðsmanna minna ... sá lét sig ekki muna um að skora tvö mörk fyrir okkur á 3 mínútna kafla og við unnum leikinn 3-2.  Þetta eru sennilega ósanngjörnustu úrslit sem ég hef nokkurn tímann séð ... en það er ekkert spurt að því!!  Hér eru mörkin í dag ef einhver hefur áhuga á þeim.

Þegar ég kom heim, var Dísa í heimsókn hjá Laugu, en Dísa er íslensk stelpa(!), sem hefur dvalist hér í Sydney síðan í nóvember.  Hún er að fara heim á morgun og verður að eigin sögn mætt á eyjuna fögru í norðri um miðjan dag á mánudaginn.
Hún var sum sé að láta sjá sig áður en hún hverfur á braut.   Við skruppum á Wood & Stone og fengum okkur pasta af því tilefni ... það verður því einum Íslendingnum færra hér í Sydney á morgun ...

Annars er ekki laust við að maður öfundi hana svolítið núna að vera að fara heim í íslenska sumarið.  Ég neita því ekki að ég sakna þess alveg rosalega ... birtan, fuglarnir, íslenska náttúran, kyrrðin upp í Borgarfirði ...
Í mínum huga hér í Ástralíu er alltaf gott veður á Íslandi á sumrin!! 

 


Á leið til Mexikó

Jæja, þá hefur þessi dagur runnið sitt skeið á enda.  Þetta hefur verið ákaflega fínn dagur ... þá sérstaklega fyrir þær sakir að ég held að ég hafi endanlega losnað við fyrirlesturinn minn sem verður fluttur í Mexikó eftir um hálfan mánuð.  Málið er því alfarið í höndum Dr. Marni Barnes ...

Eftir massífa tiltekt á borðinu mínu fram að hádegi var loksins hægt að fara að snúa sér aftur að þessu blessaða doktorsverkefni, sem hefur verið á ís um dálítið langt skeið ...
En það sem hefur þó unnist í öllum þessum skrifum er miklu, miklu, miklu betri skilningur á viðfangsefninu og ég hef betur áttað mig á þeim rökum sem réttlæta það að ég geri þessa rannsókn.  Það er nefnilega svo í þessum vísindaheimi, að maður gerir víst ekki bara eitthvað ... það er að segja ef maður ætlar að láta taka eitthvað mark á sér ... allt þarf að vera vel rökstutt.  Í mínu tilfelli er slíkur rökstuðningur svo sem ekkert sérlega flókinn því tilgangur rannsóknar minnar blasir við öllum þeim sem vilja hafa augun opin.

Svo las ég og punktaði hjá mér af miklum móð allan seinnipart dagsins ... reyndar með smávægilegum hléum.  Sem dæmi átti ég langt samtal við Chumporn félaga minn um hans rannsókn.  Blessaður drengurinn er mjög taugaveiklaður yfir þessu verkefni sínu, og ég er svo sem ekkert hissa á því ... sem stendur er það svo flókið að það er nánast óframkvæmanlegt!  Ég lagði það því til við hann, og hef svo sem gert það áður, að einfalda þetta allt saman.  "Droppa" svona 70% af þeim hugmyndum sem hann er með og þá ætti viðfangsefnið að vera orðið passlegt ...

Svo er nú farið að styttast allverulega í að sá litli eða sú litla komi í heiminn ... svolítið skrýtið að tala um að einhver komi í heiminn, þegar hann fæðist ... hvar er þessi einstaklingur þá núna í augnablikinu ef hann er ekki í heiminum??  Er mögulegt að fara úr heiminum, ef maður skríður ofan í poka og bundið er fyrir?

Jæja, nóg í bili ...  


Jarðskjálftinn í Sichuan

Í gær reið svakalegur jarðskjálfti yfir Kína, 7,9 stig á Richter og gríðarlegur fjöldi fólks liggur í valnum og þúsundir eru týndar, gafnar undir rústum ...

... þegar ég sá þessa frétt í gær, þá satt að segja kippti ég mér ekkert sérstaklega upp við þessi tíðindi, því eins og Andrés oddviti í Djúpavogshrepps sagði í góðri færslu á blogginu sínu um daginn, það er ekki sama hvar menn deyja.  Fréttaflutningur er slíkur að hörmungar og blóðsúthellingar í fjarlægum löndum eru daglegt brauð og maður hálfpartinn gleymir því að bak við þessa ógæfu er fólk af holdi og blóði, rétt eins og ég sjálfur, fjölskylda mín og vinir.

Vinir??  Sagði ég vinir??  Já, ég gerði það ... en það var ekki fyrr en í dag(!) að ég áttaði mig á því að ég á vini frá Sichuan-héraði í Kína!!  Og meira að segja deilir einn slíkur með mér skrifstofu í skólanum!!  Það hefur verið reynt að ná tali af honum en hann hefur ekkert svarað ... en ég þykist vita fyrir víst að hann sjálfur er hér í Sydney núna.  Hins vegar eru kona hans og barn í Sichuan.  Foreldrar, ömmur og afar, frændur og frænkur ... allt þetta fólk er í Sichuan ... og býr rétt hjá upptökum skjálftans!!  Hugsaðu þér, lesandi góður, skelfinguna sem hefur gripið um sig hjá þessum vini mínum, þegar hann heyrði tíðindin.  Á sumum svæðum hrundu allt að 80% bygginganna ... 

Mér finnst það stundum alveg ótrúlegt hvað maður er sjálfhverfur ... hvað maður lætur sig hlutina litlu varða ... alveg þar til þeir snerta mann með beinum hætti.  Maður er kaldur eins og ís ... rétt tímir að gefa einhverja hungurlús í bauk til styktar fólki sem er við dauðans dyr og telur sig þar með hafa kvittað sig út.  Ég var mig ekki lítið góður þegar ég gaukaði nokkrum krónum til UNICEF til hjálpar fórnarlömbum fellibyljarins í Búrma ... ég forðaðist að hugsa um það meira, því ég sá eftir peningnum!!

Hugsunarháttur minn er stundum yfirþyrmandi og óhugnarlegur ...

Ekki það að ég ætli að fara að taka vandamál heimsins inn á mig, það er ekki á færi nokkurs manns að gera það og er beinlínis ekki hollt.  En það má á milli sjá!!!  Það er langur vegur frá því að vera nánast sama og yfir í taka allt inn á sig og geta ekki á sér heilum tekið ... sumt fólk gerir það af heilum hug ... ég hinsvegar ... þykist sýna samúð, það er holur hjómur í þessu hjá mér! 

En hvað sem því líður, þá er svo mikið víst að ég þarf taka mig allsvakalega saman í andlitinu ... mér finnst þetta ekki ná nokkurri átt, hvernig ég haga mér!!!

Og takið hvað hefur gerst hérna ... sjálfhverfan tók aftur völdin, færslan átti að vera um jarðskjálftann í Sichuan, heiti færslunnar er "Jarðskjálftinn í Sichuan", meirihluti hennar er hins vegar um sjálfan mig!!  Ég er með allt niður um mig ... á langt í land!!


Micromanagement ...

Vááá ... hvað það var gott að ljúka við uppkastið af EDRA-fyrirlestrinum seint í gærkvöldi, senda það í yfirlestur, fara heim og spjalla við Laugu til klukkan 2.30 í nótt, fara svo að sofa og vakna í morgun áhyggjulaus!!

Við Lauga ætluðum að fara í ferjusiglingu um Sydney-höfnina í dag, en aldrei þessu vant var ég svo assgoti latur að ég lét tækifærið renna úr höndunum á okkur ...
Þess í stað ræddum við Lauga um alveg rosalega áhugaverða hluti eins og "micromanagement", "double bind" og kaupmála milli hjóna.

Því miður veit ég ekkert hvað "micromanagement", er kallað á íslensku, en þetta er alveg ótrúlega merkilegur stjórnunarstíll sem mjög margir nota.  Fórnarlömb hans er þó miklu fleiri.
Í mjög stuttu máli kallast það "micromanagement" þegar stjórnendur anda ofan í hálsmálið á starfmönnum sínum daginn út og inn, eru mjög smámunasamir og ósveigjanlegir, tregir til breytinga og telja að þeir viti allt mest og best ... sem sagt mjög óþolandi fyrir þá sem fyrir því verða ...

Ástæða þess að við vorum að tala um þetta er að ég hef upp á síðkastið verið fórnarlamb svona stjórnunarhátta ... og það í tengslum við þessa fótboltaþjálfun sem ég er að fást við ... já, góðir lesendur í stað þess að fá reynslu í að þjálfa fótbolta, þá er ég að fá miklu meiri reynslu í að takast á við erfiðan yfirmann. 
Ég hef litið á þetta sem stórkostlegt tækifæri til að bæta samskiptatækni mína og í dag var lukkan með mér þegar ég loksins fann út fyrirbærið "micromanagement".  Skyndilega opnast Sesam og spilin lágu á borðinu beint fyrir framan mig.   Það er bara svo æðislegt þegar svoleiðis hendir mann ... þegar svona "Eureka!" á sér stað.
Við Lauga fórum því seinni partinn niður í bókaverslunina Borders, sem er í Sky Garden-mollinu við Pitt Street og ég keypti mér æðislega bók, sem heitir "My Way or the Highway - The Micromanagement Survival Guide".  Málið er nefnilega að ég ætla að nýta mér tækifærið út í ystu æsar, og fá eins mikla reynslu í samskiptum og ég get, út úr þessum núningi sem er á milli mín og þjálfarans.  Það er hægt að lesa um "micromanagement" hér.

Og svona til að loka færslunni ... þá er "double bind" merkilegt hugtak sem komið er frá mannfræðingnum Gregory Bateson, og fjallar um aðstæður í samskiptum, þar sem skilaboð eru mjög óræð og mótsagnakennd.  Þetta hugtak er talið tengjast "mircomanagement" í sumum tilfellum. 
En ég ætla svo sem ekkert að fara neitt meira út í það ... en hægt er að lesa meira hérna.

Ég ætla svo einhvern tímann seinna að skrifa um kaupmála ...  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband