Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
15.4.2008 | 14:05
Daglegt líf í Sydney
Þessi dagur byrjaði líkt og aðrir dagar, á því að ég vaknaði upp úr kl. 7. Eftir kjarngóðan morgunverð og gott spjall við Laugu, tók ég hjálminn minn niður af skápnum, spennti á mig bakpokann, stökk á hjólhestinn og hélt á vit ævintýranna.
Fyrsta málið á dagskrá í dag var að lesa yfir grein eina, sem fjallaði um augnhreyfingar fólks þegar það horfir á ljósmyndir af náttúrunni annars vegar og af borgarumhverfi hins vegar. Niðurstöðurnar voru kýrskýrar, fólk hreyfir augun meira þegar það horfir á myndir af borgarumhverfi, sem gefur til kynna að slík iðja krefjist meiri athygli en áhorf náttúrumynda og það leiðir til aukinnar andlegrar þreytu, sem síðar skilar sér í streitu ... já, já og svo framvegis ...
Eftir lesturinn hélt ég á fund. Fjögurra manna fundur þar sem kenningar um "restoration" voru til umfjöllunar. Í dag reyndum við að finna einhvern flöt á því hvort hægt væri að sameina kenningar Kaplan-hjónanna og Rogers Ulrich, en báðar eru þessar kenningar eru gríðarlega mikið notaðar til að skýra hvers vegna mismunandi umhverfi hefur misjöfn áhrif á fólk. Ekki gekk nú að samþætta þær á fundinum, enda sennilega meira en klukkutíma verk að umbylta öllum fræða-literatúrnum! Ég fékk samt það verkefni að útbúa flæðirit, þar sem báðum kenningunum er hnoðað saman.
Matur. Hakk og pasta ... alveg listilega og lystilega gott. Ég og hin hollenska Karin, spjölluðum yfir matnum, fórum með gamanmál og ræddum sálfræðikenningar.
Að loknu borðhaldinu, hélt ég á annan fund. Í þetta skiptið var það með prófessornum mínum. Ræddum við umsókn sem ég hef verið að undirbúa síðan á föstudaginn, þar sem sóttst er eftir peningum til að komast á IAPS-ráðstefnu í Róm í júlí næstkomandi, en IAPS stendur fyrir International Association of People-environment Studies. Ég sendi grein í desember síðastliðnum til IAPS í þeirri von að geta komið henni að á ráðstefnunni og var hún samþykkt. Þannig að eins og mál standa, á ég að halda fyrirlestur í Róm í sumar um áhrif borgarumhverfis á sálarlíf fólks. Skortur á peningum gæti þó komið í veg fyrir að svo verði ... þess vegna er verið að möndla umsóknina.
Jæja, eftir fundinn svo hélt ég áfram að græja umsóknina og þegar það var allt saman komið í strand, sneri ég mér að því að koma blessuðu hjólinu mínu í viðgerð. Það þarf aðeins að herða það upp og fixa gírana, og þá mun ég hjóla eins og fálki um stræti og torg Sydney-borgar.
Aftur fór ég svo í skólann. Nú lá fyrir að ljúka við einn abstrakt, sem ég ætla að senda á ráðstefnu sem verður á Ítalíu í sumar. Ég hef nú ekki hug á því að fara á þá ráðstefnu, enda er hægt að sækja um svokallaðan "virtual" aðgang að henni og borga fyrir það ekki nema $300 eða um 20.000 kr. Þann pening hef ég náttúrulega í rassvasanum nú þegar og veit bara ekkert hvað ég á að gera við. Ráðstefnugjald er því kærkomið tækifæri til að spandera aurunum ... eða ... ??
Mamma var komin á Skype-línuna hjá mér upp úr klukkan 8 að íslenskum tíma ... hún var bara hress og sagði mér margar sögur af öllu mögulegu, uns hún tók að krefja mig um fréttir. Þær stóðu ekki á sér og réttum klukkutíma síðar slitum við samtalinu. Þá var Lauga komin upp á skrifstofu til mín, eftir margra klukkutíma bæjarferð, þar sem verslað var efni sem nota skal til frekari afreka á hönnunarsviðinu ... eyrnalokkasviðinu (kíktu á www.123.is/lauga ef þú hefur ekki hugmynd um hvað ég er að tala).
Ég aðstoðaði hana við að búa til nafnspjöld og að því loknu héldum við heim á leið, komum við í bókabúðinni og keyptum þar þrjár bækur fyrir samtals 800 kr.
Áttum svo saman langt og skemmtilegt spjall fram eftir kvöldi, þar sem við ræddum lífsins gagn og nauðsynjar ...
Já, svona var nú dagurinn 15. apríl 2008 hér í Sydney!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2008 | 23:26
Ritstörf
Þessa dagana er ég að vinna að ritun kafla, ásamt Sigrúnu Helgadóttur náttúrufræðingi og kennara, um áhrif náttúrunnar á andlegt og líkamlegt atgervi fólks. Meiningin er að kaflinn verði hluti bókar, sem verið er að setja saman til heiðurs Arnþóri Garðarssyni líffræðingi, sem varð sjötugur ekki fyrir svo margt löngu.
Ég lít svo á að um hálfgert frumkvöðlastarf sé hér að ræða, því eftir því sem ég best veit hefur afskaplega lítið verið ritað um þessi mál á Íslandi. Vissulega hafa verið skrifaðir pistlar um að það hljóti bara að vera betra að vera uppi á fjöllum en að standa gapandi við Reykjanesbrautina og hlusta á umferðarniðinn, en ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem "vísindalega" er tekið á málinu.
Ef einhver veit betur ... vinsamlegast látið mig vita ...
... því það sem blasir við mér, er mjög praktískur vandi, en það er að þýða sum hugtök umhverfissálfræðinnar yfir á íslensku. En ef einhver er nú þegar búin(n) að því, gæti töluverð vinna sparast.
En svona til upplýsingar fyrir þá sem áhuga hafa, þá virðist náttúran hafa, og ótal rannsóknir styðja það, mjög jákvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu fólks. Hins vegar vita menn ekki af hverju þessi áhrif eru svona sterk, en tvær helstu kenningar dagsins í dag, gera ráð fyrir að skýringuna megi finna í því að einu sinni héngu forfeður okkar í trjánum. Með öðrum orðum, það eru þróunarfræðilegar skýringar á þessu öllu saman.
En ég held að allir unnendur náttúrunnar, geti farið að spenna beltin og gera sig klára fyrir að lesa spennandi kafla, það er að segja, eftir að bókin er komin út, því hann gæti verið mjög áhugaverð lesning, þó ég segi sjálfur frá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 00:17
Fótboltadraumur???
Það er stundum ótrúlegt hvað lífið er óútreiknanlegt ... það er í rauninni alveg dásamlegt hvað hlutirnir geta tekið á sig skrýtnar myndir og allt í einu er maður kominn í einhverja stöðu sem maður hefði aldrei nokkurn tímann, getað ímyndað sér að maður myndi lenda í ...
... og í þessu tilfelli er ég að tala um feril minn sem fótboltaþjálfari hér í Ástralíu.
Eftir fremur "frústrerandi" fótboltaferil, sem lauk með mjög eftirminnilegum hætti á Gróttuvellinum á Seltjarnarnesi þann 21. september 1996, hef ég varla snert fótbolta, ef undan eru skildir nokkrir tímar í innanhúsfótbolta og nokkrar æfingar með HK árið 1997, sem voru hundleiðinlegar.
Svo kemur maður hingað til Ástralíu, þar sem fótbolti er nú ekkert sérstaklega hátt skrifaður, hittir þar mann frá Kanada, landi þar sem fótbolti þekkist varla og segir honum, vegna þess að hann spyr, að maður hafi jú, verið á kafi í fótbolta. Eftir brösugt samtal um fótbolta, er hann allt í einu kominn með þá hugmynd, að ég hafi verið rosalega gildur þáttur í sögu íslenskrar knattspyrnu á síðasta áratugi síðustu aldar ... sem er náttúrulega algjört kjaftæði.
Ekki það að "potentialið" og áhuginn til að gera góða hluti, hafi alveg verið til staðar, vandinn hins vegar alltaf "mentalitetið", það er eigin gagnrýni og átök í heilabúinu sem stóðu öllum árangri fyrir þrifum. Ég er til dæmis viss um að það hafi ekki margir æft æfingarnar hans Wiel Coervers (þ.e. upp úr bókinni Knattspyrnuskóli KSÍ) klukkustundum saman á hverjum degi úti í garði í niðamyrkri um hávetur ... en ég gerði það. Svo þegar kom að því að sýna töfrana á æfingum og leikjum, þá bara "fúnkeraði" ekkert, eins og það átti að gera ... og maður missti brækurnar niður um sig, svona í óeiginlegri merkingu, varð brjálaður o.s.frv. Svo var manni bara skipt út af ... og "hvíldur" í næsta leik.
Jæja, en nóg um það ... kanadíski maðurinn, sem samkvæmt allri statistík á ekki vita hvað fótbolti er, biður hina fyrrum knattspyrnustjörnu um að aðstoða sig við þjálfun fótboltaliðsins Gladesville Ryde Magic FC í aldursflokki U-14.
Ég er sum sé fenginn til liðsins sem reynslubolti, til að ausa úr skálum visku minnar um fótbolta.
Í fyrstu vissi ég lítið um það hvað ég ætti eiginlega að segja við þessa blessuðu drengi, ... en síðan hefur annað komið á daginn ... ég veit bara allan fjandann um fótbolta, svona þegar á reynir. Og það sem meira er ... þetta þjálfarastarf er bara alveg rosalega skemmtilegt.
Þegar þetta er skrifað hafa þrjár umferðir farið fram í deildakeppninni hér í Nýja-Suður Wales, og hefur Gladesville Ryde Magic U-14 unnið alla sína leiki og er efst í deildinni með 9 stig og markahlutfallið 10-3.
Í gær var virkilega gaman að horfa á liðið þegar það sundurspilaði Hakoah og sigraði 5-1.
Það glænýjasta í fótboltamálum er síðan það að næstu tvo fimmtudaga verð ég með fótboltaskóla, ásamt þeim kanadíska, fyrir stráka á aldrinum 13-15 ára. Þessar tvær vikur er frí í grunnskólum og hefð hér í landi að krakkar fari á námskeið og/eða í útilegur.
Námskeiðið okkar er sum sé eitt af því sem í boði verður hér í Sydney ... eftirspurnin hefur sprengt öll mörk og hafa 17 strákar skráð sig.
... og ég sem ætlaði aldrei að koma nálægt fótbolta aftur!!! Hvað þá að verða þjálfari!!!
En þetta hefur kennst mér þá lexíu að enginn veit ævina sína fyrr en öll er!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2008 | 07:22
Andhverfu-ofsóknarbrjálæði
Það er alveg stórmerkileg bók, sem ég er, þessa dagana að grípa í ... þetta er bók sem margir hafa sjálfsagt heyrt um.
Þetta er bókin "Hámarksárangur" og er eftir Brian Tracy.
Fyrir um 10 árum keypti ég mér þessa bók og byrjaði að lesa hana, en gafst fljótlega upp, því mér fannst ekkert vit vera í henni. Um jólin síðustu, þegar ég var á Íslandi rak ég augun í bókina uppi í hillu og ákvað að kippa henni með mér til Sydney.
Hvort það er vísbending um vitsmunalega framför eða afturför, þá er allt annað upp á teningnum núna, þegar ég les hana, því skoðanir mínar og þankagangur ríma ótrúlega vel við hugmyndir Tracys. Þetta steinliggur allt saman.
En það er líka margt í bókinni sem er nýtt fyrir mér ... til dæmis það þegar Tracy nefnir mann, sem ég man ekki hvað heitir í augnablikinu, enda skiptir það engu máli, sem hefur komið sér upp "andhverfu-ofsóknarbrjálæði" ... ég skrifa það aftur "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"!!
Hvernig er hægt að koma sér upp "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"??
Hvað er "andhverfu-ofsóknarbrjálæði" fyrir það fyrsta??
Flestir vita hvað ofsóknarbrjálæði er ... en það er þegar einhver heldur að allur heimurinn sé leynt og ljóst að vinna gegn sér.
Andhverft ofsóknarbrjálæði er andstæða þess ... eða það að einhver heldur að heimurinn sé leynt og ljóst að vinna með sér.
"Andhverfu-ofsóknarbrjálæði" er því algjör snilld og síðustu vikur hef ég verið alveg brjálæðislega "stökk" í því og unnið hart að koma mér upp einu slíku!
Og niðurstaðan er að ég hef verið ótrúlega jákvæður og tek öllu sem hendir mig fagnandi ... þetta er bara spurning um afstöðu, hugarfar eða hvað maður á eiginlega að kalla það.
Til dæmis, þegar dekkið á hjólinu mínu sprakk um daginn, þurfti ég að ganga 8 km til að koma því heim og ég varð himinlifandi!!
Í stað þess að hugsa: "Dauði og djöfull, helvítis dekkið sprungið ... er þetta ekki alveg týpískt og ég úti helvítis rassgati. Andskotinn, ég hef sko engan tíma fyrir þetta ... ég er óheppnasti maður í heimi o.s.frv. ..." þá hugsaði ég "rosalega er ég heppinn að geta gengið, og það fá að ganga núna er algjörlega það besta sem hefði getað komið fyrir núna!! Þvílík heppni!!" Svo rölti ég bara heim með hjólið "undir hendinni", skoðaði mannlífið, hugsaði um doktorsverkefnið mitt, svaraði nokkrum spurningum í huganum sem ég hef ekki haft tíma til að hugsa um og fleira og fleira ...
Þannig að ef þú ert í stuði, þá ættirðu að prófa "andhverfu-ofsóknarbrjálæði"... þetta er skemmtilegt og kostar ekki krónu!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2008 | 23:51
Melbourne - Dagur 3 (kemur mjög fljótlega)
Það er allt vitlaust að verða hjá Múrenunni þessa dagana ... hún sér vart út úr augum!!
En það er bara í góðu lagi ... Múrenan getur fullvissað lesendur sína um að, frásögn frá þriðja og síðasta deginum í Melbourne, verður komin fyrr en lesendur grunar!! Er það ekki það sem lesendur vilja?? Hvernig endaði ferðin?? Hvernig var upplifunin að vera loksins kominn á slóðir silfurverðlaunahafans frá Ólympíuleikunum 1956 (?), ... já, það er verið að tala um sjálfan Vilhjálm Einarsson, sem Íslendingar eru ennþá að fagna eftir afrekið, þótt liðin séu 52 ár síðan!!
Merkilegt í þessu sambandi hvað það virðist skipta miklu máli hvort íslenskir keppendur á ólympíuleikum fái silfur eða brons ... Múrenan er ekki viss um Bjarni Friðriksson og Vala Flosadóttir hafi fengið og muni fá annan eins klappkór og Vilhjálmur ... ekki það að Vilhjálmur verðskuldar það sjálfsagt, hann er náttúrulega lifandi goðsögn!! En meira um þetta síðar ...
En eins og áður segir, það er allt vitlaust að verða, Múrenan búin að taka að sér svo mörg verkefni að flestir sem þekkja hana, ættu að átta sig á að hún er við hestaheilsu og að sumir hlutir breytast seint!! Og ef allt er vitlaust að gera, hlýtur að liggja í augum uppi að það ætti að vera hægt að segja frá einhverju ... það er bara massífur tímaskortur sem hamlar öllum skrifum ...
Rock and roll halleluja!!
Og til að gleðja lesendur, lætur Múrenan eina mynd frá því í maí í fyrra fylgja með ... á myndinni fagnar Múrenan stórtapi Framsóknarflokksins í síðustu alþingiskosningunum. Á skjánum er Sigmundur Ernir í beinni í Sydney!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)