Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Tölvuhreinsunin

Í gær datt Múrenunni það snjallræði í hug að skreppa með fartölvuna í smá yfirhalningu, láta hreinsa eitthvert innantómt rusl sem hefur af einhverjum ástæðum, sem Múrenan kann ekki að skýra, safnast fyrir einhvers staðar í tölvunni ... ekki er hægt að fara út í nánari útlistingar á því, því Múrenan skilur ekki baun í tölvum ...

En jæja, afgreiðslumaðurinn spurði hvort Múrenan vildi setja eitthvert þak á upphæðina, sem verja ætti í þetta "tölvu-make-over", klukkutíminn væri seldur út á 6.000 krónur og vænta mætti að það tæki 5-6 klukkutíma að yfirfara tölvuna.  Þar að auki þyrfti að dytta að hinu og þessu og slíkt myndi að sjálfsögðu leggjast á reikninginn ...

Múrenan hafði fyrirfram gert sér í hugarlund að þetta gæti nú bara ekki kostað meira en 10.000 krónur ... en skyndilega blasti við reikningur upp á hugsanlega ekkert minna en 50.000 ... Múrenan lagði saman 2 og 2 og komst að þeirri niðurstöðu að best væri að setja þakið á 20.000 krónur, enda tölvan sögð "gömul".

Adam var ekki lengi í Paradís, því eftir klukkutíma var hringt og Múrenunni tjáð það að harði diskurinn væri um það bil að "krassa" og það væri ekkert vit í öðru en að kaupa nýja tölvu ... ódýrasta á 80.000 krónur!!! 

Það er óhætt að segja að peningarnir streymi út upp úr vasanum hjá fólki þegar tölvur eru annars vegar ... stórlega ofmetin fyrirbæri!!

Í dag fyrirlítur Múrenan tölvur!!!


Til Reykjavíkur

Jæja, nú er Múrenan komin í bæinn ... það er til Reykjavíkur.  Mjög góðri og árangursríkri dvöl á Djúpavogi er lokið, í bili að minnsta kosti.

Andrés oddviti og kona hans Gréta keyrðu Múrenuna í flug á Egilsstöðum í gærkvöldi.  Öxi var kolófær, Breiðdalsheiði illfær en fjarðaleiðin fær ... Djúpivogur, Breiðdalsvík, Stöðvarfjörður, Fáskrúðsfjörður, Reyðarfjörður, Fagridalur og Egilsstaðir ... 150 km ... 300 km fram og til baka ... eins og frá Reykjavík til Blönduóss.  Hálka og snjór var á veginum alla leiðina, og meðalhraði var því um 70 km/klst ... þetta var margra klukkutíma ferðalag fyrir þau, Andrés og Grétu.  Það er því óhætt að segja að þjónustan við landsmenn sé ærið misjöfn.  Til dæmis tekur það Múrenuna aðeins 5 mínútur, að hámarki, að keyra heiman að frá sér og út á Reykjavíkurflugvöll.

En að öðru ...

Í kvöld blasir við Múrenunni að fara á matarhátíð KISS-klúbbsins ... sem um þessar mundir fagnar 10 ára afmæli sínu.  Þar að auki berast góðar fréttir frá herbúðum meistaranna, þ.e. KISS, því skipulagðir hafa verið tónleikar í ACER Arena í Sydney þann 20. mars nk.  Ekki slæmt það!!!
Fyrir þá sem hafa áhuga á því, þá hét ACER Arena áður Sydney Superdome og er næsta hús við hinn sívinsæla Ólympíuleikvang.  Sagt er að 21.000 tónleikagestir komist fyrir í höllinni samtímis og nú verður spennandi að sjá hvort ekki tekst að fylla húsið umrætt kvöld.

Múrenan verður á staðnum ... svo mikið er víst!!!

Það var gaman að heyra í 11-fréttum RÚV að nafni Múrenunnar Páll H. Guðlaugsson hefur tekið að sér að þjálfa Leikni Fáskrúðsfirði í 3. deildinni.  Múrenan andar léttar enda hafa þjálfaramál Leiknis líklega verið í uppnámi um talsvert skeið.  Gott að RÚV kom þessu að í fréttatímanum og sérstaklega var það fagnaðarefni að fréttin af Leikni kom á undan þeirri sem fjallaði um að íslenskur kvenkyns badmintonspilari hefði komist í aðra umferð sænska meistaramótsins ...

Múrenan óskar svo Binga velfarnaðar í nýju starfi ... og vitnar í ofnotaðan frasa íþróttafréttamanna síðastliðna viku eftir hrakfarir íslenska landsliðsins ... "það verður gott að spyrna sér frá botninum"!!  Handboltalandsliðið spyrnti sér vel frá botninum í gærkvöldi og kannski gerði Bingi það líka í gærkvöldi ... hver veit??  Svo mikið er víst að Múrenan öfundar hvorki liðsmenn handboltalandsliðsins né Binga þessa dagana ...


Öldurót við Írissker

Og af því að Múrenunni hefur verið kynnt forritið Light Room, sem er svona forrit þar sem hægt er að leika sér með ljósmyndir, setur Múrenan eina mynd inn á bloggið af ölduróti við svokallað Írissker sem er rétt við Djúpavog ...

Myndin er tekin af mjög löngu færi út um opinn glugga á ráðhúsi sveitarfélagsins ...

Öldurót


Lundinn

Í kvöld kom Andrés oddviti sigri hrósandi heim með gulan póstsendingarkassa undir hendinni og tilkynnti Múrenunni, þar sem hún sat fyrir framan tölvuna, að nú byðist henni tækifæri.  "Þetta er tækifæri lífs þíns" sagði hann og í sömu mund opnaði hann kassann og rak framan í Múrenuna.
Múrenunni, sem að sjálfsögðu varð yfirspennt við tíðindin, brá heldur en ekki í brún og var hér um bil dottin af stólunum, þegar hún leit ofan í kassann ... því ofan í honum var spriklandi lundakvikindi, sem Andrés bjargaði í morgun, þegar það lá undir vegg íþróttahússins til að skýla sér fyrir veðrinu.

"Viltu gjöra svo vel að fara út með þetta kvikindi!!" fyrirskipaði Múrenan. 
"Ha?!?  Viltu ekki sjá lundagreyið?!?", svaraði Andrés undrandi.
"Nei, alveg ómögulega ... ég er með fuglafóbíu!!", sagði Múrenan.
"Ha?!?  Fuglafóbíu??"  Andrés skildi hvorki upp né niður. "Jæja ... ertu þá hræddur við hann?"

Andrés gat ekki varist hlátri.

Já, kæri lesandi ... það er ekkert grín að vera með fuglafóbíu ... !!  Múrenan bara getur bara ekki snert fugla og þolir bara alls ekki að vera nálægt þeim!!
Svo einfalt er það nú bara!

En Múrenan lét þó tilleiðast að taka nokkrar myndir af lundanum og Andrési, með því skilyrði að Andrés myndi ekki hrekkja hana, til dæmis með því að henda fuglinum í átt að henni ... slíkt hefði sennilega leitt til slita á samstarfi við aðalskipulagsvinnu eða hreinlega til þess að Múrenan hefði fengið hjartaslag, og þá hefði samstarfið einnig farið út um þúfur.

Andrés og lundinn

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Lundi bítur
  
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Eftir að lundinn beit í hönd oddvitans, var ákveðið að láta myndatökunni lokið, enda ekkert sérstaklega gott að vera bitinn af lunda.  Var lundinn settur aftur í gula kassann og honum sagt að fara að sofa ... 

Andrés hefur gefið það hátíðlega út að lundanum verði sleppt lausum fjörunni í fyrramálið ... og Múrenunni sé sérstaklega boðið að vera viðstödd athöfnina ... 

Múrenan ætlar að hugsa sig um í nótt, hvort hún þekkist boðið eða ekki ... 


Aðalskipulag, grein og Fischer

Óhætt er að segja að þessi dagur hafi heldur betur verið árangursríkur ... skipulagsvinnan mokaðist áfram, hreinlega mokaðist áfram.  Klárlega er Djúpavogshreppur á barmi þess að fá besta aðalskipulag á landinu!!
Hvet alla til að lesa  Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 - 2020 þegar það kemur út!!  Og skoða myndirnar ... Andrés oddviti er mikill ljósmyndari og verður skipulagstillagan ríkulega myndskreytt!!

Svo væri náttúrulega hægt að þvæla um fallinn meirihluta í Reykjavík ... en Múrenan ætlar ekki að gera það.  Hinsvegar lýsir Múrenan þungum áhyggjum af því að Daggi skuli vera hættur að vera borgarstjóri.  Ástæða þess er að fyrir nokkrum dögum hún sendi Dagga póst, þar sem hún skoraði á hann og þáverandi borgarstjórnarmeirihluta, að huga vel að gömlum húsum í Reykjavík!!  Áhyggjurnar snúast því um það hvort  Daggi áframsendir póstinn til Óla F. eða ekki??

Og úr því að Múrenan er farin að ræða gömul hús í Reykjavík, þá er rétt að benda góðum lesendum heimasíðunnar á það að í Morgunblaðinu sl. laugardag var grein eftir Múrenuna, sem bar heitið "Er friðun andstaða framfara?"  Alveg rosalega góð grein!!
Raunar er hægt að lesa greinina ef smellt er hérna.

Jæja, en sem sagt Múrenan er í feiknaformi enda fréttir dagsins fjörugar ... vesenið innan Framsóknarflokksins getur nú ekki annað en lýst skammdegið allhressilega upp!!

Svo má náttúrulega spyrja sig, hvernig í ósköpunum stuðningsmannaklúbbur B. Fischers missti af jarðarförinni hans ... ??  Ef eitthvað er að marka hádegisfréttir Stöðvar 2, þá sat klúbburinn á "neyðarfundi" vegna væntanlegrar útfarar, á sama tíma og athöfnin fór fram. 
Múrenan verður að segja að þótt henni hefði fundist fullmikið í lagt að jarðsetja skákhetjuna við hliðina á Jónasi Hallgrímssyni, fannst henni heldur lítið gert úr þessu öllu saman þegar garpurinn var lagður til hinstu hvílu nokkra sentimetra frá gangstétt í Laugardælakirkjugarði í Flóa án þess að varla nokkur maður vissi það ... !!  

Múrenan lætur svo eina mynd fylgja svona til gamans ... snjóstrókur æðir niður hlíðar Krákhamarsfjalls á Melrakkanesi, en Melrakkanes skilur að Hamarsfjörð og Álftafjörð ...

Snjóstrókur


Handbolti og mynd

Múrenan hefur brotið heilann allótæpilega í dag, eftir að hún las þennan pistil á visir.is.  Hann fjallar um að Íslendingar eru orðnir öruggir í milliriðla þó svo heil umferð sé eftir í riðlakeppninni.

Vel má vera að Múrenan þekki reglur EM ekki nægjanlega vel ... en fyrir henni er umrædd lesning gjörsamlega óskiljanleg.
Það svo sem skiptir engu máli héðan af því Ísland hefur tryggt sér sæti í milliriðlum á EM 2008 eftir að Slóvakar steinlágu fyrir Svíum í dag.  Hugsanlega geta blaðamenn visir.is einnig prísað sig sæla, því aldrei reyndi á reiknikúnstir þeirra ...

En hér á Djúpavogi voru menn almennt sáttir við leik dagsins á EM 2008.  Evrópumeistarar Frakka tóku landann svo hraustlega í nefið að Svíaleikurinn í vikunni stendur nánast í skugganum.  Gaman að sjá hvað leynivopnið Hannes Jón er að koma sterkur inn, sem og Bjarni Fritzson, sem fagnaði vel marki sínu á 59. mínútu (skv. textalýsingu mbl.is) ... væntanlega sínu fyrsta á stórmóti.  Gott þegar menn geta glaðst yfir litlum hlutum.

Hérna megin á landinu hefur blásið heldur hressilega, en náttúran skartar engu að síður sínu fegursta.  Því smellir Múrenan einni glæsilegri mynd, sem tekin var við Hamarsfjörð á fjórða tímanum í dag, inn á bloggið, svo þessir fjórir eða fimm sem lesa það geti notið fegurðarinnar.

Hamarsfjörður


Unnið í skipulaginu

Hér á Djúpavogi er unnið hörðum höndum að koma böndum yfir skipulagsmál ... Múrenan hreyfir sig á morgnanna (fer út að hlaupa og í pottinn), áður en törnin hefst og svo hefst bara törnin í Geysishúsinu, en þar eru skrifstofur sveitarfélagsins til húsa.

Seinni partinn í dag leit fréttamaður vefsins www.djupivogur.is við hjá Múrenunni og Andrési oddvita.  Reyndi fréttamaður að fanga stemmninguna og tókst bara vel til.  Ef smellt er hér er hægt að sjá hvernig þetta raunverulega fer fram.  Ekki dónalegt það!!

 

 


Vaknað af værum blundi

Jæja, ætli sé nú ekki best að Múrenan fari að láta vita af sér!!

Hinir dyggu lesendur bloggsíðunnar ættu að kætast, ... svona rosaleg bið eftir nýju bloggi gengur náttúrulega ekki ... það eru 3 traustir persónuleikar búnir að líta við í dag!!  Múrenan hefur sér lítið til málsbóta ... nema það að hún er ekki í Sydney þessa dagana, en eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á ber bloggsíðan heitið Múrenan í Sydney!

Æi, það er líklega best að hætta þessu dæmalausa rugli og fara að segja eitthvað ...

... Múrenan er stödd þessa dagana á Djúpavogi, og dvelur í góðu yfirlæti hjá Andrési oddvita Djúpavogshrepps og Grétu konu hans.  Tilgangur ferðarinnar er að vinna að gerð aðalskipulags, en sú vinna hefur staðið yfir í sveitarfélaginu um allnokkra hríð ... Múrenunni er ætlað að vinna uns aðalskipulagsgerðinni verður, að heita má, lokið!  Það gæti tekið nokkra daga, en Múrenan og Andrés eru með röskari karakterum, þannig að þetta ætti ekki að taka neinn ógurlegan tíma ...

Múrenan lofar annarri færslu á morgun ... ef til vill einhverjum myndum frá Djúpavogi ... en hér skortir nú ekki myndefnið.  Ótrúleg náttúra hvert sem litið er!!

Fyrstu færslu ársins 2008 fer senn að ljúka ... Múrenan vill samt koma á framfæri þakklæti til Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra fyrir frábærlega greinargóð svör í Kastljósinu nú í kvöld ... einnig er það hrein unun að hlusta á hversu fjármálaráðherrann á auðvelt með að koma fyrir sig orði!!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband