Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Tunglmyrkvi í Sydney

Núna þegar þetta er ritað er tunglmyrkvi í Sydney ... og fyrir stundu greip Múrenan myndavélina og þaut upp á þak, bara til að geta klófest augnablikið og fært lesendum sínum glóðvolgar fréttir frá fjarlægum heimshlutum!!  Já, fréttastofa Múrenunnar lætur ekki að sér hæða!!

Frekara áhorfi af hálfu Múrenunnar var því frestað tímabundið, til að koma herlegheitunum áleiðis til Íslands ...

 

 

 

 

 

 



Múrenan vonar að lesendur njóti myndanna ...

Gosbrunnurinn á fimmtu hæðinni ...

Múrenan gerði það gott um daginn ... ójá!!! Og nú skal sögð sagan af því ... !!

Þannig vildi til fyrir löngu, löngu áður en Múrenan var samþykkt inn í námið í arkitektadeildinni við Sydney-háskólann, að tveir menn skruppu út í búð ... svona sérstaka gosbrunnabúð.  Já, í Sydney, þykir ekki galinn "business" að stofna og reka slíka búð, sem er uppfull af alls kyns "sprautufírverki" stóru sem smáu, mjóu og breiðu, lögulegu eða ólögulegu í öllum regnboganslitum.  

Jæja, en þessir tveir menn, sum sé fóru í búðina, og fjárfestu í einni lítilli sætri vatnsdælu, einu löngu svörtu röri og einhvers konar "millistykki".  Tilgangurinn með þessum peningaútlátum, var höfðinglegur ... og markaðist af því að búa til mannvænna samfélag úti á svölunum á fimmtu hæð Wilkinson byggingarinnar, en einmitt þar er áðurgreind arkitektadeild til húsa.

Á svölunum á fimmtu hæðinni var fyrir nokkrum árum útbúinn vísir að þakgarði, plöntum af ýmsum toga og trjám var komið þar fyrir, reistir voru veglegir staurar og hálfgegnsætt segl strengt á milli þeirra, í því augnamiði að verja fólk fyrir sterkum sólargeislum ... og ekki er vanþörf á, eftir því sem Múrenan kemst næst.  Út á svalirnar voru líka bornir stólar og borð, að ógleymdum bekkjum ... með öðrum orðum, sköpuð var ljómandi fín aðstaða.  Það getur Múrenan skrifað upp á hiklaust ...

Jæja, en aftur að dælunni, rörinu og millistykkinu.  Eftir innkaupaferðina var dælunni, einhverra hluta vegna komið fyrir inn í skjalaskáp (?!?) og mátti hún dúsa þar mánuðum saman eða allt þar til nýverið, þegar annar mannanna tók á sig rögg og bað Múrenuna, sem þá hafði hafið nám við skólann, um aðstoð.  "Við að gera hvað??" spurði Múrenan í sakleysi sínu.  "Nú að tengja dæluna og koma gosbrunninum af stað!", var svarið.  "Jú, jú", svaraði Múrenan.

Úti á svölunum blasti við risastór leirkrukka, ættuð af markaði einhverjum, sem Múrenan kann engin deili á ...  Hún var í nokkrum brúnum litum, dökkum og ljósum, bara helvíti falleg, að mati Múrenunnar ...

Og svo tók vinnan við ... að tengja dæluna.  Og það var höfuðverkur í meira lagi ... Múrenan tók stjórnina ... "já, við tengjum þetta bara svona og svona og svo gerum við þetta og réttu mér svo þetta stykki og það kemur hér!!  Náðu svo í skiptilykil og spýtubúta niður á verkstæði og gleymdu ekki að biðja um járnsög til að saga handfangið hérna af!!"  Múrenan var komin í ham ... og allt leit þeitta vel út ... nema hvað fjögur óskilgreind plaststykki gengu af ... þrjár framlengingar einhverjar og einn vinkill ...

En þegar líða tók á vinnuna fór dálítill vafi að gera vart við sig innra með Múrenunni ... Hún reyndi að tengja dæluna, svarta rörið og millistykkið, en viti menn, það var ekki hægt.  Ef róin á millistykkinu átti að vera á sínum stað, var alveg vonlaust að skrúfa dæluna á millistykkið ... Múrenan ákvað að sleppa þá bara rónni ...
Úpsss!!!  Það mátti greinilega ekki!!!  Múrenan horfði á leirkrúsina, dæluna, rörið, millistykkið, róna og allt draslið.  Greinilega þurfti lengra millistykki ... Annar mannanna stakk upp á að aftur yrði farið í búðina ... Það var gert. 
Og gosbrunnakaupmaðurinn hló.  "Nei, nei, nei, nei, þið eigið að setja slöngubút á millistykkið og tengja hann svo við dæluna ... Guð minn almáttugur ... þið hefðuð geta rústað dæluna!! Hahahahaha!!"

Allt í einu skildi Múrenan hvert gosbrunnakaupmaðurinn var að fara ... hún þaut út úr búðinni og út í bíl ... kom við í verkfæravöruverslun á leiðinni upp í skóla, festi kaup á slöngubút.  Þegar upp á svalirnar á fimmtu hæðinni var komið, tengdi hún dæluna, slöngubútinn og millistykkið eins og ekkert væri, skrúfaði svarta rörið á millistykkið, fyllti leirkrúsina af vatni og ...

Afraksturinn má sjá á myndinni hér að neðan ...

En þá má spyrja, af hverju fylgdi ekki bévítans slöngubúturinn með, þegar dælan var keypt?!?


Múrenan á leik í Hyundai A-League

Múrenan fór á völlinn í kvöld ásamt spúsunni ... opnunarleikur í fyrstu umferð í áströlsku deildinni, "Hyundai A-League" ... Sydney FC tók á móti Central Coast Mariners á Sydney Football Stadium ...

$18.00 miðinn þannig að verðinu er klárlega stillt í hóf, enda kannski ekki mestu snillingar heimsins að spila hér í Ástralíu ... þó hefur Múrenunni verið sagt að nokkrir séu býsna snjallir en jæja ... Til viðmiðunar fyrir lesendur má geta þess að Harry Kewell hjá Liverpool er besti ástralski fótboltamaðurinn og Juniniho, hinn brasilíski, já hinn sami og lék einhvern tímann með Middlesbourgh í ensku deildinni, ef Múrenuna misminnir ekki, er aðalkarlinn í boltanum hér, nýgenginn til liðs við Sydney FC.  Hér er mynd af honum úr leiknum í kvöld ...

 

Robbie Fowler, fyrrum markamaskína Liverpool var einnig í sigtinu hjá Sydney FC, og hefði örugglega gert svipaða hluti fyrir ástralska boltann og David Beckham fyrir þann bandaríska ... jaaa, og þó ...

Lesendur geta svo sjálfir fundið út hvort ástralska deildin sé eitthvað, sem vert er gefa gaum ... en þess má þó geta að deildin, í núverandi mynd er tiltölulega ný ... sögu hennar má lesa í stuttu máli hér.

Jæja, en Múrenan ákvað að gefa ástralska fótboltanum gaum, mætti galvösk 6 mínútum of seint á völlinn og viti menn, Múrenan var ekki búin að fá sæti þegar framherji Central Coast Mariner, Sasho Petrovski, skoraði.  Undirtektirnar á vellinum voru ekkert sérstakar ... og heitustu stuðningsmenn Sydney FC, sem eru staðsettir á þeim hluta stúkunnar sem kallast "The Cove", púuðu ... stórmannlegt það eða hitt þó heldur!!!  Hér er mynd af The Cove!!

Eftir markið gerist nú svo sem lítið markvert, nema að áðurnefndur Juniniho, tók eina ansi góða rispu, sólaði nokkra og komst inn í markteig en í stað þess að skjóta á %&#% markið, þá sneri hann við nánast á marklínu, gaf eitthvað út í teig og færið rann út í sandinn ... þessi mynd sýnir þegar hann var á hraðri leið inn að markinu og markvörðurinn kominn á hnéin ...

Í hálfleik flutti Múrenan sig ... Spúsan fylgdi á eftir ... Stefnan var sett á hinn enda stúkunnar, það er að segja við mark Central Coast Mariners.  Besti staðurinn til að vera á þegar Sydney FC myndi skora!!!

En það var óskhyggja að hálfu Múrenunnar að Sydney FC myndi skora.  Ekki það að í seinni hálfleik hafi þeir ekki reynt.  Sydneyingar reyndu af öllum mætti að koma tuðrunni yfir marklínuna en það var hægara sagt en gert ... Juniniho og félagar héldu áfram að þvæla boltanum inn í markteig, gefa einhverjar fáránlegar sendingar út í teiginn og allt strandaði á varnarmönnum Mariners.  Að skjóta úr dauðafærum var greinilega ekki skipun dagsins ... miklu frekar sóla tíu og rekja boltann yfir línuna!!!Þeir bulluðu fram og aftur, út og suður, og ekkert gekk ...

Og hér er bjargað nánast á marklínu!!!

 

Múrenan tók að æsa sig yfir þessu ... "hver djöfullinn er þetta eiginlega??"  En það virtist ekki duga ... því Sydney FC tapaði 0-1 fyrir framan 18.457 manns.  Samt var nú mesta böggið í augum Múrenunnar sú staðreynd að völlurinn var ekki nema hálffullur því um 11.500 sæti voru tóm ... Já, Juniniho virðist ekki hafa kapasítet til að fylla Aussie Stadium ... það er næsta víst!!!

Á leiðinni heim fékk Múrenan heldur kaldar kveðjur frá gömlum karli, sem kallaði út úr bílnum sínum, þegar Múrenan gekk yfir Anzac Parade: "Who won??!!! ... Hey sucker!!!  Who won???!!!"  Greinilega stuðningsmaður Mariners þarna á ferðinni!!  Einhvern tímann hefði Múrenan líklega rokið í þennan gaur ... en núna veifaði hún bara til hans ... svona eru tímarnir nú breyttir!!!

 


Í Sydney er frábært að vera - þakkarbréf og fleira

Það er ekkert smá fínt að vera í Sydney!!!  Lífið gjörsamlega leikur við mann!!  Ef þú hefur aldrei komið til Sydney, ættir þú að setja það á listann hjá þér!!!

Rétt í þessu var ég að koma inn ... hljóp 10 km svona rétt fyrir svefninn, og þetta var mitt fyrsta hlaup síðan á sunnudagsmorguninn þegar ég sigraði hálf-maraþonið í Bankstown.  Án þess að það eigi að hljóma fáránlega þá var það léttara en ég hafði búist við og tíminn mjög ásættanlegur.  1:52:12 eða einklukkustundfimmtíuogtværmínúturogtólfsekúndur.  Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu var meiningin að vera undir 2:15:00 en augljóslega var töluvert vanmat í gangi að minni hálfu ... skýrist líklega af ömurlegu gengi í City2Surf-hlaupinu!!
Nú kemur náttúrulega ekkert annað til greina en að taka maraþonið þann 27. september nk., vonandi á undir 4 klukkustundum!!

Þessa dagana er ég á fullu að sækja um skólastyrk, ansi feitan, sem væri alger snilld að fá ... Eins og gjarnan er með svona umsóknir þá tekur þetta alveg ótrúlega langan tíma og afla þarf upplýsinga um alla skapaða hluti.  Og þá er gott að eiga góða að ... Benný reyndist til dæmis alveg ómetanleg í dag og í gær við upplýsingaöflun, sem var ansi erfiður ljár í þúfu fyrir mig vegna hnattrænnar stöðu minnar - opinberlega þakka ég þér fyrir það Benný!!!  Dóri, reyndist líka haukur í horni þegar ég leitaði til hans í fyrr í dag, klukkan 7 í morgun, nákvæmlega ... karl var þá víst á leiðinni í bælið eftir langa nótt við sýnaskoðun suður í Sandgerði.  Hann er sko að reyna að klára doktorsverkefnið sitt ... !!  Ég dúndraði einni spurningu á hann og fékk svar á svipstundu, með aðstoð internetsins.  Kærar þakkir fyrir það, kúturinn!!!
Arnar vinur minn lét heldur ekki sitt eftir liggja um daginn þegar hann sendi mér boð um að koma á Leifgötuna að horfa á enska boltann ... afskaplega þægilegt að vera ekki útilokaður af póstlistanum þrátt fyrir að eiga ekki heimagengt eins og sakir standa.  En um jólin skal ég koma og horfa á boltann ... takk fyrir boðið, hlunkur!!!
Svo má náttúrulega ekki gleyma Öbbu ömmu í Varmahlíð sem sendi okkur prinspóló, brjóstsykur og lýsi ... Kærar þakkir, fyrir það ... Lauga fríkaði út þegar hún opnaði pakkann, því þegar ég kom heim var búið að dreifa súkkulaðinu út um allt rúm ... ég hélt að hún væri orðin brjáluð, konan!!

Svo fá líka allir þeir sem hafa verið að senda okkur tölvupósta eða póstkort bestu kveðjur ... við elskum ykkur líka!!!  Sigrún frænka sendi okkur kveðju á Facebook-vegginn - takk fyrir það.  Hulda systir sendi mér boð um að að bréf væri á leiðinni, handskrifað upp á gamla mátann!!  Ítarlegt og skemmtilegt tölvubréf barst frá Báru mágkonu - frábært að fá það!! 
Sérstaklega má svo þakka Þóru fyrir síðasta tölvupóst ... já, það má þakka opinberlega fyrir hann ... hann var afskaplega fallegur get ég sagt ykkur!!!

Samhliða umsóknarferlinu, þarf náttúrulega að halda áfram með mastersverkefnið ... rannsóknin mín þokast með öðrum orðum áfram, hlutirnir eru alltaf pínulítið að skýrast, þó vissulega eigi maður rosalega langt í land ... enda skiljanlegt ... verkið er rétt nýhafið.
Supervisorinn minn er afskaplega áhugasamur um það og ekki síður aðstoðar-supervisorinn.  Hann er svo ánægður að honum finnst nánast allt sem ég segi vera "brilliant".  "Þetta er alveg rosalega áhugaverð hugmynd", "já, þetta er mjög sniðug nálgun", "frumleg þetta" og svo framvegis ... svo hrúgar hann á mig alls kyns bókum sem gæti verið fyrirhafnarinnar virði að kíkja í, nefnir 100 höfunda sem gætu verið áhugaverðir í þessu sambandi og talar svo í klukkutíma við mig um allt og ekkert.

Samnemendur mínir eru líka snillingar ... ég deili skrifstofu með einhverjum mestu snillingum sem ég hef hitt.  Leilei Xu frá Kína og Chumporn Moorapun frá Taílandi ... rosalega fínir krakkar, alveg meiriháttar.  Svo eru líka nemendur frá Bangladesh, Íran, Indlandi, Malasíu og fleira og fleira ... afskaplega fjölþjóðlegt.  Til dæmis í hádegismatnum í dag, sátum við sex við borð, Ísland, Kanada, Kína, Bangladesh, Íran og Taíland ... þrjár heimsálfur og þrjú trúarbrögð (buddha, kristni og islam). Og við ræddum um mat, matarvenjur, húsakynni, verðlag, peninga og trúmál.  Ótrúlega skemmtilegt.  Fimm bænastundir á dag hjá múslimunum.  Hótelgisting í sveitahéruðum í Kína 100 kr. nóttin.  Íran er eitt öruggasta land í heimi til að ferðast!!!  Út að borða í Bangladesh, rífleg máltíð, 25 kr.  Ísland - hamborgaratilboð 800 kr. eða eitthvað álíka!!  Ástralía ... 700 g af nautahakki, 300 kr.  Ótrúlegt?? Ólíkt??  Já!!!  Skemmtilegt???  Frábært!!

Já og svo er náttúrulega eitt verkefni sem ég er með í gangi núna ... alveg rosalega skemmtilegt.  Ég er að undirbúa fyrirlestur sem verður á ráðstefnu á Íslandi þann 27. september nk ... sama dag og maraþonið.  Reyndar ætla ég nú ekki að flytja hann í eigin persónu og þó aldrei að vita hvað tölvutæknin getur gert í því sambandi.  Fyrirlesturinn er um sálfræðileg áhrif trjáa og hvað þau geta gert fyrir mannskepnuna ... æðislegt viðfangsefni.  Hvet alla til að fara inn á www.rit.is og tékka á ráðstefnunni.  Jafnvel gæti verið sterkt að kaupa sér áskrift af Sumarhúsinu og garðinum og Gróandanum í leiðinni ... frábær blöð, full af áhugaverðu efni og ekki spillir að undirritaður er meðal greinarhöfunda í þessum blöðum!!!

Veðrið ... æði!!  Þrátt fyrir að Ástralir kvarti fyrir kulda og vætu, síðustu vikur, þá verð ég að segja að þetta hefur verið eitt besta sumar sem ég hef upplifað ... þrátt fyrir að það sé vetur hér!!!  Með öðrum orðum, skítavetur í Ástralíu er betri eða að minnsta kosti jafngóður og fínasta sumar á Íslandi!!

Nóg í bili ... kíktu endilega líka á síðuna hennar Laugu, einhvers mesta snillings í heiminum í dag!!!  Slóðin er www.123.is/lauga


Niðurstaða og myndavélar

Endanleg niðurstaða úr City2Surf hlaupinu er komin ... Múrenan á topp 10.000, nánar í 9.087. sæti af 64.173 keppendum!!!  Meiningin var náttúrulega að vera á topp 500 ... en jæja ... 81:10 mínútur dugðu skammt að þessu sinni!!

En fyrir áhugasama, og Múrenan veit að þeir eru einhverjir, þá er hægt að sjá glæsilega mynd sem tekin var af Múrenunni þegar hún nálgast markið.  Því miður er ekki hægt að "copy-paste" myndina hingað inn á síðuna, því hún er til sölu ... já, herrar mínir og frúr ... Múrenan getur keypt mynd af sér, hrikalega mynd, fyrir morðfjár!!  Já, og svo er líka hægt á heimasíðu The Sun Herald, að sjá video-klippu, þegar Múrenan rennur tignarlega í mark ...

Sjón er sögu ríkari - hér er linkurinn.

Ekki láta þér samt bregða í brún þó Múrenan sé ávörpuð með nafninu Malcolm á áðurnefndri heimasíðu.  Múrenan gekk nefnilega undir dulnefni í hlaupinu ... Malcolm Perkins fullu nafni.  Það skýrist af því að Jon sem leigir með Fjólu og félögum á Davies-street, skráði sig til leiks á tímanum hans Malcolms, það er að segja tímanum sem Malcolm fékk í fyrra.  Það gerði hann til að komast í ráshóp 2, en samtals eru ráshóparnir 4 ... en Jon tók bara tímann hans Malcolms frá því í fyrra, þannig að ef hinn raunverulegi Malcolm Perkins hefði líka viljað hlaupa í ár þá var það ekkert mál ... þá væru bara tveir Malcolm Perkins ... en svo gat Jon ekki hlaupið þannig að Múrenan fékk þátttökumiðann hans og hljóp því sem Malcolm Perkins ... !!!  Einfaldara getur þetta nú bara ekki verið ...

En þrátt fyrir kannski ekkert sérstakan árangur um síðustu helgi þá er Múrenan ekki hætt að reyna fyrir sér í hlaupum!!  Núna um helgina tekur Múrenan þátt í Banks Town hálf-maraþoninu.  Að enda á topp 500 ætti að vera nokkuð öruggt í þessu hlaupi því þátttakendur eru sjaldnast, eftir því sem síðustu fréttir Múrenunnar herma, fleiri en 200.  Flestir þátttakendur í þessu hlaupi eru að taka þennan 21 kílómetra á 1,5 - 2 klukkustundum, þannig að Múrenan býst við að vera frekar aftarlega á merinni ... en markmiðið er að skila sér í mark helst á innan við 2 klukkutímum og 15 mínútum.  Hvort það tekst kemur svo bara í ljós!!

Að minnsta kosti er Múrenan búin að undirbúa sig vel ... borða mikið af kolvetnum í dag og var um það bil að verða reddí fyrir hlaupið kl. 7:30 í fyrramálið, þegar James, hlaupafélagi Múrenunnar, benti henni á að hlaupið væri á sunnudagsmorguninn!!  Sú vitneskja riðlaði óneitanlega dálítið undirbúningnum ...

En að allt öðru ... Múrenunni fannst óneitanlega dálítið undarlegt um daginn að ræða myndavélar og skerpu í myndum við Terry aðstoðarleiðbeinandann sinn. 

Ókei, ... til útskýringar ... Terry er prófessor hér í háskólanum í Sydney, mjög virtur fræðimaður og hefur skrifað alveg fullt af vísindagreinum og gert alveg helling af rannsóknum, sem eru innan áhugasviðs Múrenunnar.  Þess vegna er Terry það sem kallað er hér "associate supervisor" Múrenunnar og í ljósi þess hittast Múrenan og Terry í hverri viku til skrafs og ráðagerða ... Terry matar þá Múrenuna af alls kyns upplýsingum, sem gott er fyrir hana að hafa bak við eyrað ... og hún spyr viturmannlegra spurninga á móti!!

Á síðasta fundi Múrenunnar og Terrys bar myndavélar á góma ... þá spurði Terry Múrenuna hvers konar myndavél Múrenan ætti ... "Canon 350" svaraði hún "hún er mjög góð!!"  Já, Terry sagðist vel trúa því en hann ætti í vandræðum með að treysta "digital"-myndavélum ... "þær brengla það sem maður er að taka mynd af ... jafna út "kontrasta" og blablablabla ... " Löng ræða um "fítusa" á myndavélum og skerpu í myndum.  Múrenan reyndi af alefli vera gáfuleg meðan Terry talaði.  Terry lokaði svo langri ræðu með eftirfarandi: "Þess vegna notast ég bara við filmumyndavélar, ennþá ... en ég þarf náttúrulega eitthvað að fara að kynna mér hvað er á borðstólnum ... og fá mér góða vél.  Kannski kíki ég bara á vél eins og þú ert að nota!!"  

Múrenan vissi ekki alveg hvað hún átti að segja ... þetta voru óneitanlega dálítið skrýtnar aðstæður, því ...

Terry er með langt gengna hrörnun í augnbotnum og sér ekki baun!!!

 


Er Múrenan héri??

Jæja, nú ryðst Múrenan aftur fram á ritvöllinn, eftir nokkurt hlé, sem skýrist af þeirri einföldu ástæðu að Múrenan er alltaf að fara að sofa og hefur því ekki haft tíma til að rita eitt einasta snitti inn á vefsíðuna!!

Já, dagarnir hér í Sydney líða svo hratt að Múrenunni finnst hún eiginlega ekki gera neitt annað en vera að fara að sofa ... svo einfalt er það nú bara!!

En að öðru ... eins og áður hefur verið sagt á síðunni er Múrenan orðin hlaupagikkur hinn mesti ... tugir kílómetra er lagðir að baki í hverri viku.  Og það besta er að henni finnst þetta bara helvíti fínt ... hinn óendanlega mikli leiði sem fylgdi útihlaupum í eina tíð hefur vikið fyrir mun jákvæðari hugsunargangi!!  Enda hefur Múrenan tekið sjálfa sig í sálfræðimeðferð að þessu leytinu og breytt viðhorfunum ... ja sko!!

Og í dag var ofurlítið tékk á líkamsástandinu ... því í dag var hið margfræga Sun Herald City2Surf hlaup haldið í 37. skipti.  Múrenan var mætt á ráspól klukkan 9.00 í morgun ásamt 64,712 öðrum þátttakendum en sem fyrr beindist kastljósið að Múrenunni ... þyrlur sveimuðu yfir höfði hennar, myndatökumenn voru alls staðar, lögregla, sjúkralið ... og fleira. 

Í dag ætlaði Múrenan að kenna Sydney-búum hvernig á að ná árangri í 14 kílómetra hlaupi!!  Enda þaut hún eins og eldibrandur af stað, um leið og skotið reið af.  Vandamál Múrenunnar fyrstu 2 - 3 kílómetranna var fyrst og fremst aðrir þátttakendur sem voru að þvælast fyrir.  En af því hafði Múrenan þó ekki áhyggjur.  Þeir myndu smám saman hrynja niður.  Múrenan var einbeitt og örugg.  Þetta yrðu léttustu 14 kílómetrar í sögunni, gott ef hún myndi ekki fara þetta á innan við 70 mínútum.  Það væri svo sem ásættanlegt!!

IMG_9185

Eftir að hafa þrætt krókóttan stíg í gegnum lúsablesana sem ekkert gátu hlaupið, var Múrenan komin á mjög gott tempó eftir um 4 - 5 kílómetra.  Við henni blasti sjálf "Heartbreak Hill" en samkvæmt upplýsingum Múrenunnar er það víst sá staður þar sem flestir "hlaupararnir" gefast.  Þar byrjar liðið að labba ... hahahahahaaa ... Heartbreak Hill!!  Þvílíkt grín!!  Pínulítill brekkuskratti!!

Í öryggisskyni hægði Múrenan þó aðeins á sér í Heartbreak Hill ... hlaupataktíkin var nefnilega sú að reyna að spara sig aðeins í brekkunni og taka svo á sprett þegar hringtorgi á toppi hennar væri náð.  Hlaupa svo eins og með andskotann á hælunum niður Military Road, allt niður í móti og verða fyrstur í mark af þeim sem voru í ráshóp 2 ...

Ósvífinn maður, örugglega blindfullur, var úti í garði við hús eitt sem stóð við Heartbreak Hill og öskraði að "við ættum að drulla okkur áfram ... þeir fyrstu væru komnir í mark!!"  Þá var Múrenan búin að hlaupa í 45 mínútur og átti að minnsta kosti eftir um 6 km.  Múrenan hugsaði honum þegjandi þörfina ... "Fáviti ... "

Jæja, Múrenan þaut fram úr hverjum á fætur öðrum, gamlar kerlingar, feitir karlar, litlir krakkar, allt var þetta skilið eftir í "rykmekki".  Loksins var hæsta punkti Heartbreak Hill náð, Múrenan andaði léttar ... ekki samt að skilja svo að hún hafi verið eitthvað þreytt ... alls ekki ... hún var meira að hugsa um hvað öllum hinum þátttakendunum væri létt að vera komnir upp mesta hallann.

En svo fóru málin að flækjast því þegar þarna var komið sögu blasti við önnur brekka.  "Hvur andskotinn!!" hugsaði Múrenan.  Og eftir að hún var sigruð, birtist önnur.  "Hvur andskotinn!!!"  Og enn önnur!!!  Múrenan var farin að finna til óþæginda ... sólin var eitthvað svo sterk ... já, greinilega var hún ekki alveg vön því að hlaupa í svona hita.  Hún æfir nefnilega á kvöldin en ekki á morgnana ...

Brátt fór Múrenan að veita því athygli hún var hætt að taka fram úr öðrum keppendum ... hún var meira komin í það hlutverk að aðrir tóku fram úr henni!!!  Það var svo sem allt í lagi ... þótt nokkrir karakterar tæku framúr.  Nei, heyrðu mig nú ... sextug kerling tók fram úr og ein fyllibytta líka!!!

Loks voru brekkurnar yfirstaðnar.  Hjúkk!!  Nú var kominn tími til að gefa verulega í.  Það er víst kallað endasprettur!!  En það gerðist ekkert!!!  Sama hvað Múrenan reyndi að gefa í, hún jók ekkert hraðann, þó leiðin lægi niður í móti.  10 kílómetrar að baki ... og nú byrjaði holskeflan ... á næstu 2 kílómetrum tóku fram úr Múrenunni, fleiri gamlar konur, drykkjuboltar, börn, foreldrar með barnakerrur, feitir miðaldra karlar, aldraðir karlar, ungar stelpur, menn á besta aldri, konur á besta aldri og áfram mætti telja ... Múrenan réð ekki neitt við neitt ...

Taktík Múrenunnar hafði alls ekki gengið upp ... hún hafði ofmetið líkamlegt ástand sitt ... tekið of mikið út af "reikningnum" í fyrra hluta hlaupsins, upp hina illvígu Heartbreak Hill.  Þetta er náttúrulega alveg svakaleg brekka, það bara tæmist út af batteríunum hjá manni ... Ástandið nú var niðurlægjandi ... í staðinn fyrir endasprettinn ógurlega, var markmiðið það eitt að komast í mark!!!

"Ég ætla aldrei að hlaupa aftur!!!  Ég ætla aldrei að taka þátt í almenningshlaupi aftur!!  Aldrei, aldrei!!"  

13 kílómetra markinu var náð þegar komið var niður á Bondi Beach - frægustu strönd Ástalíu.  Þar var mannhaf að taka á móti hlaupurunum ... Múrenan virtist nú ekki fá neina sérstaka athygli, ólíkt því sem hún hafði búist við ... en mikið lifandis skelfing var hún fengin því.  Nær dauða en lífi reyndi hún að keyra upp hraðann síðustu 200 metrana ... niðurstaðan vægast sagt slök, að minnsta kosti ef miðað er við fyrri áætlanir ... 14 kílómetrar á 84:10 mínútur.  Þetta skánaði þó aðeins við það að heyra að 5 mínútur dregnar teknar af tímanum ... þannig að líklega er tíminn 79:10 ... það kemur þó í ljós á þriðjudaginn þegar úrslitin, allir 64,713 tímarnir verða kunngjörðir í blaðinu ... í sérhefti!!

Múrenan bíður spennt ... og mun tilkynna formlega frá úrslitum!!

IMG_9180


Pakkinn mikli frá Sauðárkróki

 Á mánudagskvöldið síðasta spurði spúsan Múrenuna: "Hvenær heldur þú að pakkinn komi?"  Múrenan var ekki viss en spáði því að hann kæmi örugglega á fimmtudaginn.  En svo bætti hún við: "Samt býst ég meira við því að hann komi á miðvikudaginn ... ég byggi þessa röksemdarfærslu á þeirri staðreynd að ég er ákaflega lítið spámannlega vaxinn." 

Og þetta reyndist allt saman alveg kórrétt hjá Múrenunni ... því þegar Múrenan og spúsan komu heim á miðvikudagskvöldið beið þeirra afskaplega fallegur, gulur pakki með rauðu ívafi.  Nafn spúsunnar var á kirfilega merkt í línurnar þar sem ætlaðar voru fyrir upplýsingar um viðtakanda pakkans ...

Sendandi var hin eina sanna spúsu-móðir frú Steinunn Hallsdóttir ... á Sauðárkróki!!

Það er óhætt að segja gleði hafi gripið um sig, þegar pakkinn var opnaður, því innihald hans uppfyllti allar óskir og gott betur ... Appolo-lakkrís, Nói-Síríus súkklaði, súkklaðirúsínur og harðfiskur frá Vestmannaeyjum ...

Múrenan tók til óspillra málanna ... reif upp lakkríspokann, súkkulaðirúsínurnar og einn súkkulaðipakkann á augabragði og næstu mínútur mátti heyra lítið annað frá Múrenunni en "tyggjjj ... kjams ... tyggjjjj ... kjams ... "  Það skal tekið fram að spúsan fékk svolítið af góðgætinu en líkt og venjulega passaði Múrenan það vel að hún fengi ekki of mikið ... því of mikið sælgætisát skemmir nefnilega tennur ... þannig að það verður að fara varlega í það. 

Hins vegar hefur Múrenan ákaflega sterkar tennur þannig að óþarfi er að hafa miklar áhyggjur af henni ... hún kann líka að stoppa þegar komið er gott ... ólíkt spúsunni sem étur uppúr heilum lakkríspoka á örfáum mínútum og segir í hvert skipti sem hún stingur mola upp í sig "ég má ekki borða lakkrís!" 

En Steina á heiður skilinn fyrir þetta ... Múrenan þakkar ástsamlega fyrir sig og spúsan gerir það örugglega líka ...

Reyndar stóð nú til að birta myndir með færslunni, myndir af því þegar góðgætið var tekið upp úr kassanum ... en nú eru góð ráð dýr því tölvan sýnir slíkar kúnstir að Múrenan fær ekki við neitt ráðið, ekki einu sinni munnsöfnuðinn sem hún viðhefur um blessaða tölvuna ... " ... en þetta er meira helvítis tölvudraslið!!!"

En aftur takk, takk ...

(30 mínútum síðar)

Múrenan hefur beygt tölvuna til hlýðni þannig að hérna eru myndirnar frá kassamóttökunni!!!  Gjörðu svo vel!!!

IMG_8427

IMG_8428


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband