Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Jón Sig er bestur!!

Afskaplega er sérstakt að fylgjast með viðbrögðum margra ráðamanna á Íslandi, nú þegar niðurstaða hefur fengist í íbúakosningunni í Hafnarfirði.  Jón Sigurðsson er sérstakastur.  Allt frá því Jón steig óvænt fram á sjónarsviðið á síðasta ári, við brotthvarf hins ástsæla Halldórs Ásgrímssonar, hef ég haft gaman af honum.  Mér finnst hann tala fallegt og kjarnyrt íslenskt mál, og í því tillitinu er gaman að hlusta á hann þrátt fyrir að ég skilji hann stundum ekki og þegar ég skil hann er ég honum nánast alltaf ósammála.

En ég vissi ekki áður að hann væri svona lítill lýðræðissinni og tapsár í ofanálag.  Honum finnst ekkert eðlilegra en bæjarstjórnin í Hafnarfirði, líti bara á niðurstöður lýðræðislegra kosninga sem leiðbeinandi fyrir hvað skuli gert.  Í hans huga var því bara forvitnilegt að sjá hvaða skoðun íbúar Hafnarfjarðar hefðu á deiliskipulaginu ... honum gæti þá jafnframt fundist athyglisvert að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum þann 12. maí nk.  Hann og Geir munu líta á það sem leiðbeinandi niðurstöðu ... ef hentar.

Undir gagnrýnisraddir þess efnis að framkvæmd kosninga hefði verið aðfinnsluverð, setja þurfi skýrari reglur, kosningin hafi verið alltof seint í ferlinu því Alcan sé búið að kaupa lóð og skipuleggja, búið sé að gera mat á umhverfisáhrifum o.s.frv., er vel hægt að taka.  Að þessu leytinu hafa yfirvöld í Hafnarfirði gert í buxurnar.

Svo er stór spurning hvort bara Hafnfirðingar áttu að kjósa um deiliskipulagið, af hverju ekki allir landsmenn?  Hugsanlega hefði verið hægt að hafa mismunandi vægi atkvæða, þannig að atkvæði Hafnfirðinga hefur vegið þyngra en annarra.  Ég las að Húsvíkingar hefðu fagnað mest niðurstöðunum í Hafnarfirði.  Meiri líkur á álveri þar.

Mér finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt að í veigamiklum málum sem þessum, fái allir landsmenn að tjá skoðun sína.  Flugvöllurinn í Reykjavík, Norðlingaölduveita, Kárahnjúkavirkjun, neðri hluti Þjórsár, virkjanir á Reykjanesskaganum, uppbyggður vegur yfir Kjöl o.s.frv., allt eru þetta framkvæmdir sem hefðu átt eða eiga að fara í kosningu.  En áður en slíkar kosningar fara fram þarf Ríkisstjórn Íslands að setja fram einhverja stefnumörkun um hvað skuli friðað, hvað skuli virkjað, í stað þess að vera eilíflega í þessum bútasaum og slagmálum. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband