Föstudagur 1. janúar 2010 - 113 ára afmæli ömmu og nýjársdagur

Gleðilegt ár!!

Amma blessunin hefði orðið 113 ára í dag ... til hamingju elsku amma ...

Einn allra mikilvægasti pósturinn í mínu lífi.  Ég varð þess gæfu aðnjótandi að hafa hana inn á heimilinu allt frá blautu barnsbeini til 15 ára aldurs ... og það var mér algjörlega ómetanlegt.

Amma var alveg frábær, stórbrotinn persónuleiki, eldklár, ótrúlega vinamörg, ræktarsemin ógurleg og hún vildi bókstaflega allt fyrir alla gera. 
Þrátt fyrir að meira en 20 ár séu liðin síðan hún kvaddi þetta tilvistarstig, þá líður varla sá dagur að ég hugsi ekki til hennar.

Þennan dag, nýjársdag, á hverju ári er það fyrsta sem kemur upp í kollinn að nú sé afmælisdagur ömmu runninn upp, svo hugsar maður um að það sé nýjársdagur.  
Við fjölskyldan hugsum öll á þessa vegu.  Við minnumst ömmu og höldum upp á afmæli hennar með einhverjum hætti ...  
Stebbi bróðir, blómasali á Akureyri, bauð sínu fólki upp á hreindýrasteik og rautt.  Mamma blés til hangikjötsveislu syðra og sjálfur sendi ég ömmu góða strauma frá Uppsölum. 

---

Skammarlegt ... er ekki með eina einustu mynd af ömmu í tölvunni hjá mér.  Verð að redda mér með því að setja kápumynd af 1. bindi ævisögu hennar, sem kom út árið 1985.

Myndin á kápunni er eftir Kristínu Jónsdóttur, mágkonu ömmu, konu Valtýs Stefánssonar.

Ævisaga ömmu 

---

Guddan náði algjörlega botninum í matarvali í dag þegar hún kaus að borða kaldan Mc-ostborgara frá því í gær, í stað humars.  Kaldur McDonald´s á nýjársdag ... ég veit ekki hvert þetta uppeldi er eiginlega að fara.

Sjálfur náði ég persónulegum botni í matarvali, þegar ég ákvað að fá mér "frozen pizza" í kvöldmat.

Lauga var sú eina sem stóð í lappirnar.  Var uppáklædd og stórglæsileg í allan dag ... og át humar að hætti hússins í kvöld.

---

Annars fórum við í mjög góðan göngutúr í dag ... ofsalega gaman að labba og spjalla saman ... í snjókomu og logni.

---

Voru í gærkvöldi í frábæru boði hjá Örnu og Karvel.  Þar voru einnig foreldrar Örnu, þau Helga og Rúna og Saga systir.  Svo voru náttúrulega blessuð börnin á sveimi og puntuðu heil ósköp.  Virkilega skemmtilegur félagsskapur og veitingarnar æðislega góðar ...

Uppsalabúar er mjög temmilegir í flugeldasprengingum ... það voru smá smellir upp úr miðnætti, en þá vorum við í miðju áramótaskaupi og því vant við látin.
Samdóma álit að áramótaskaupið hefði verið sérlega vel heppnað þetta árið.

Svo tók við mjög lágstemmd flugeldauppskot af okkar hálfu ... en þeim mun skemmtilegri.  Því næst var skálað.  Þá voru allir Uppsalabúar sofnaðir ...

Þegar "flugeldaskothríðinni" lauk, var Sydney Houdini löngu búin að krefjast þess að fara inn og það var löngu búið að uppfylla þá ósk ... þannig að mæðgurnar eru ekki á myndinni.

Í áramótapartýinu gekk GHPL milli allra gesta, skreið í fang þeirra, lét fara vel um sig og fékk að smakka á ísnum hjá öllum.

Að fara að sofa kom illa til greina.  Reyndar má geta þess að hún, eins og reyndasta partýljón, lagði sig vel og lengi um miðjan daginn og kom sterk inn um kvöldið.  Vakti hún í striklotu frá kl. 17 til kl. 1 yfir miðnættið.  Sofnaði í smástund og vaknaði aftur rúmri klukkustund síðar og var með í partýinu til kl. 3 um nóttina.
Þar með hafði hún, eins og hálfs árs, vakað lengur í nýjársnótt en faðir hennar gerði þegar hann var 12 ára, enda var sá maður með eindæmum kvöldsvæfur langt fram eftir aldri.

---

Verð að sýna eina mynd af þeim mæðgum skömmu áður en farið var í áramótapartýið ...

Ég ætla að stela frasa frá Eiríki Jónssyni sem bloggar, oft mjög glæsilega, á DV.is og aðlaga frasann mínum raunveruleika:

Sá sem á svona konur þarf ekki að strengja áramótaheit. Bara halda áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gledilegt ár Bobbi minn, takk fyrir þau gomlu :)

Skiladu endilega kvedju frá mér.

Erna St. (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 00:22

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Gleðilegt ár Erna mín og takk sömuleiðis fyrir liðið.

Páll Jakob Líndal, 2.1.2010 kl. 19:41

3 identicon

Gleðilegt ár Bobbi.

Gaman að heyra að þið hafið verið hjá Örnu og Karvel. Eitt af markmiðum mínum er að ná að heimsækja ykkur öll til Uppsala áður en þið flytjið aftur heim til Íslands. Við mæðgur fórum sumarið 2008 og lifum enn á því. Það var svo skemmtileg ferð í alla staði.

Bið að heilsa Lauga og Guðrúnu Helgu.

Linda (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 00:20

4 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Hæ, Linda

Gleðilegt ár og takk fyrir gamalt.

Við hlökkum til að fá ykkur til Uppsala ... þannig að bara drífa sig!

Páll Jakob Líndal, 3.1.2010 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband