28.12.2009 | 22:37
Mánudagur 28. desember 2009
Sydney Houdini tók upp á því í kvöldmatnum að leggja andlitið ofan í matardiskinn til að hvíla sig. Sem hefði nú svo sem verið í lagi ef ekki hefði verið matur á disknum og stúlkan ekki nýkomin úr baði.
Hún reisti höfuðið frá disknum þegar hún var vinsamlegast beðin um að gera það og ákvað þá að strjúka smjörklístruðum höndunum um höfuð sér og þar með ónýtti hún hárþvottinn sem hafði átt sér stað nokkrum augnablikum áður.
Annars er hún búin að vera í feiknastuði í dag ... broshýr og talandi ...
Það hefur mikið gerst er lýtur að málfari, því nokkur orð hafa bæst við síðustu daga ... svo sem "voffi", "vínber" og "vinargreiði" ...
Svo heldur klifurbröltið áfram ... sólbekkurinn er vinsæll, en telpan er hætt við stofuborðið og eldhúsborðið. Er það fyrst og fremst vegna þess að henni leyfist það ekki.
Sjálfur hef ég verið að reyna að finna út úr tölvumálum tengdum næstu rannsókn hjá mér. Það er hvorki létt verk né löðurmannlegt ... en samt hefur viðfangsefnið þokast ögn á síðustu klukkutímunum. Betur má ef duga skal.
Lauga hefur verið eitthvað skrýtin í allan dag, að eigin sögn ... og í kvöld lagðist hún fyrir með mesta höfuðverk sem hún man eftir að hafa fengið, einnig að eigin sögn.
Eftir misheppnaða ferð í apótek að kaupa höfuðverkjarpillur, fundust nokkrar í sjúkraskápnum og mikið var það nú gott!
---
Þá má geta þess að Guddan er komin með nýja uppáhaldsbók. Sú bók heitir "Tíu vísur" og var gjöf frá Þórhildi föðursystur hennar.
Ekkert kemst annað að þessi dægrin en gamlar og góðar íslenskar vísur. Af vísunum tíu eru tvær í algjöru uppáhaldi, þ.e. "Dansi, dansi dúkkan mín" og "Krummi krunkar úti". Til að allt sé eftir settum reglum vill daman að annað hvort eða bæði foreldrin syngi vísurnar á meðan hún sjálf bendir á myndirnar sem fylgja vísunum.
Í gær vorum við svo í afskaplega góðu kaffiboði hjá Gunnari og Ingu Sif. Virkilega góðar veitingar og skemmtilegur félagsskapur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.