20.12.2009 | 23:00
Sunnudagurinn 20. desember 2009
Jæja, þá stígur maður fram á sjónarsviðið á nýjan leik ... ég hreinlega gleymdi að blogga í gær ...
En helgin hefur ekki verið alveg samkvæmt dagskrá því Guddan tók upp á því aðfararnótt laugardagsins að fá 39°C hita svona upp úr þurru ...
... hálfur stíll í rassinn og hún svaf eins og ljós til morguns ...
Helgin hefur sum sé verið undirlögð af hitavellu dótturinnar og lítið hægt að hreyfa sig. Ég sem var búinn að ákveða að fara í bæinn og upplifa jólastemmninguna um helgina ... ;)
Doddi er búinn að fá að rúlla nokkrum sinnum í tölvunni til að dóttirin haldi sem mest kyrru fyrir og það hefur virkað vel. Hún hefur verið eins og ljós, þrátt fyrir heilsuleysið.
Svo hefur hún fengið svolítið meira af stílum og þá hressist hún heil ósköp. Byrjar þá að tala mikið og rífast svolítið ... svo þegar verkun stílsins tekur að réna, þá minnkar málæðið í réttu hlutfalli.
---
Sjálfur hef ég unnið alla helgina í doktorsverkefninu mínu og hef þurft að glíma við þá óþæginlegu tilfinningu að mér finnst verkefnið ekkert ganga, að ég hökkti bara í sama farinu viku eftir viku og ekkert þokist.
Ég held samt að ég sé að komast yfir þennan hjalla eftir að ég sendi leiðbeinanda mínum bréf í kvöld og fékk gott bréf til baka frá honum ... það var hressandi.
Það var líka hressandi að fá þetta í tölvupósti frá Brian Tracy vini mínum: "Before you begin a thing, remind yourself that difficulties and delays quite impossible to foresee are ahead... You can only see one thing clearly, and that is your goal. Form a mental vision of that and cling to it through thick and thin."
Þetta var einhvern veginn nákvæmlega það sem ég þurfti að fá í dag.
---
Lauga hefur verið í stuði um helgina, búin að lesa mikið í bókinni "Chicken Soup for the Soul" eftir Jack Canfield og segja mér frá sem hún er að lesa. Þessi bók er mjög góð lesning fyrir alla.
Svo bjó hún til pizzu í gær, hún er algjör snillingur í því ... bestu pizzurnar í bænum, svo mikið er víst.
Þess á milli hefur hún hugsað svo fallega um dótturina að það er unun á að horfa. Alveg toppmóðir ... Sydney Houdini á vonandi eftir að átta sig á því einhvern daginn, hversu ljónheppin hún er að eiga þessa móður.
---
Lýk þessu með myndum af þeim mæðgum. Myndin er tekin í morgun þegar þær horfðu saman á Dodda.
Svona alveg í blálokin set ég þessa mynd sem tekin var á föstudaginn. Mér er sagt að þá um kvöldið hafi frostið farið í -20°C.
Það kvöld skruppum við þrenningin út í búð og á leiðinni þangað voru við að ræða um að nú væri orðið ansi kalt. Þá sagði ég mjög gáfulega að nú væri svona 5 - 6°C frost og sagði að þunnu jogging-buxurnar mínar væru kannski ekki alveg það heppilegasta ef það yrði mikið kaldara.
En klárlega voru þessar -20°C mun hlýrri en -15°C sem ég upplifði á Akureyri einhvern tímann á menntaskólaárunum ... þá var nefnilega kalt!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.