16.12.2009 | 23:54
Miðvikudagurinn 16. desember 2009 - síðbúin afmæliskveðja til Stefáns
Þessi dagur hefur heldur betur verið annasamur ... og sér nú ekki fyrir endann á þeim önnum ...
Prófayfirlestur hefur tekið drjúgan hluta dagsins, auk þess sem blessaður jólaundirbúningurinn tekur alltaf sinn toll. Svo eru ýmis önnur mál sem hafa þurft sinn tíma ... en eins og stundum er sagt: "Það er gaman að þessu!"
---
Annars skammast ég mín fyrir hluta af síðari færslu gærdagsins. Hér á ég við hlutann þar sem ég sagðist ætla að skrifa eitthvað fallegt um frænda minn Stefán Jóhann Stefánsson Jeppesen á morgun (þ.e. í dag). Drengurinn átti afmæli fyrir þremur dögum, og hefði nú alveg átt það skilið að ég skrifaði umsvifalaust um sig.
En egóið tók öll völd, eins og gerist alltof oft ... fyrst skyldi skrifað um það að dóttirin klifraði upp í sófann í stofunni ... sú umfjöllun mátti víst ekki bíða morgundagsins ...
Hér kemur Stefán frændi minn ...
---
Gaukurinn fæddist á því herrans ári 1986, skömmu eftir að Reagan og Gorbastjov mættust í Höfða. Síðan þá hef ég fylgst með honum vaxa og verða að boldangsmanni með bíladellu ... óstjórnlega bíladellu.
Haldi fólk að það sé flókið að tala um "spliff, donk og gengju", þá ætti það að ræða um "fækjugreinar, ventilhásingar og driffjaðrir" við Stefán. Hann virðist hafa þetta allt saman á hreinu.
Háværir, kraftmiklir bílar eru hans ær og kýr ...
Þeir eru margir mannkostirnir sem prýða þennan frænda minn en það sem ég hef alltaf kunnað að meta mest er einlægni hans og umhyggja fyrir sínu fólki. Eiginleiki sem alltof fáir státa af.
Ekki verður sagt að hann sé opnasti maður í heiminum, en engu að síður þá lætur hann sitt fólk sig varða og maður finnur það svo glögglega, þegar maður er í návist hans.
Svo hefur hann góðan húmor og ekki leiðist honum að skjóta á síðuhaldara þegar tækifæri gefst. Sagan af því þegar gos spýttist út úr mér yfir allt matarborðið í nýjársdagsboði mömmu fyrir nokkrum árum er atburður sem hvorugur okkar mun gleyma.
Stefán sér líka vandlega til þess að ég muni ekki gleyma þessu verðlaunaverða atviki ... og mér leiðist það nú svo sem ekkert ;) .
Greiðvikinn er drengurinn. Ég man bara varla eftir að hann hafi sagt "nei" þegar ég hef beðið hann um að gera fyrir mig viðvik. "Stefán, skrepptu fyrir mig út í BYKO og blablabla ... " "Ókei" og svo er hann þotinn, kemur aftur eftir smá stund en er þá oftast sendur aftur, því ég hef gleymt að biðja hann um að kaupa eitthvað ... "Ókei!" ... svo er hann þotinn aftur.
Þessi karl er ómissandi þáttur af tilverunni og ég met hann mikils. Hann er bara hann sjálfur og fer sínar eigin leiðir ...
Elsku karlinn ... til hamingju með afmælið um daginn og afsakaðu hversu seint þessi færsla birtist ... þú átt annað skilið ...
---
Hér er mynd af afmælisbarninu ásamt dóttur síðuhaldara ... hún kemur sér inn á flestar myndir sem birtast á þessari síðu ;)
Myndin er frá skírnardeginum 14. desember 2008.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.