Miðvikudagur 9. desember 2009 - 85 ára afmæli

Jæja ...

... þá hefði blessaður karl faðir minn orðið 85 ára í dag ef hann hefði lifað ... fæddur 9. desember 1924.

Pabbi var fyrir marga hluta sakir mjög merkilegur maður.  Hann var sjaldgæflega fróður, nánast eins og gangandi uppflettirit.  Hann virtist vita bókstaflega allt um allt.  Hann var framúrstefnulegur í hugsun og afköst hans voru langt ofan við meðallag.

Hann var geysilega góður sögumaður, gat sagt sögur og brandara, þar sem persónur og gerendur voru nafngreindir og ætt þeirra rakin ef á þurfti að halda, klukkutímum saman.  Geysilega ritfær og hnyttinn í tilsvörum.

Ég hef oft heyrt fólk segja að pabbi hafi verið gáfaðasti og skemmtilegasti maður sem það hafi nokkru sinni kynnst.

Ekki efast ég um að það sé allt saman satt og rétt ...

--- 

... en þegar ég hugsa um hann eru þessir jákvæðu eiginleikar hans ekki það sem kemur upp í huga minn, því sú hlið sem ég upplifði í samskiptum við föður minn var bakhlið þess sem lýst er hér að ofan.

Einrænn og dulur, oft reiður og pirraður ... oftast drukkinn.

Fáir hafa mótað líf mitt með jafnafgerandi hætti og pabbi, þau rúmu 18 ár sem við deildum sama tilverustigi. 
Eftir 16 ára samvist var ég gjörsamlega beygður, sjálfsálit og trú á eigin getu við frostmark.  Þorði ekki að tala, þorði varla að vera til.

Haustið 1990 stóð valið á milli þess að gefast hreinlega upp eða rísa upp.

--- 

Ég kaus hið síðarnefnda, pakkaði saman föggum mínum og fór norður í Menntaskólann á Akureyri.  Það var fyrsta skrefið í uppbyggingunni. 

Sumarið 1992 lést pabbi ... fráfall hans var eins og þruma úr heiðskíru lofti ... en um leið var það léttir.

---

Síðan 1990 hef ég unnið sleitulaust að því að byggja mig upp.  Sálfræðitímar, námskeið, ferðalög, lestur, samvera með vinum og vandamönnum svona til að nefna eitthvað.  Allt hefur þetta hjálpað til að raða hlutunum saman í heildstæða mynd.

Núna 19 árum síðar, er árangur loksins farinn að sjást.  Núna þori ég að vera til, ég þori að tala, ég þori að vera ég sjálfur ... í fyrsta skipti á ævinni.

---

Þegar ég horfi til baka, þá þakka ég almættinu og pabba fyrir áskorunina ... því ég veit að hún hefur gert mig að betri og þroskaðri manni.

Að fenginni þeirri niðurstöðu má pabbi sjálfsagt vel una, þar sem hann situr á einhverjum skýjabólstranum og fylgist með.  Allir foreldrar vilja stuðla að þroska barna sinna og að þau verði betri manneskjur ... og ég veit að pabbi var engin undantekning þar á ...

... það má þó setja spurningarmerki við aðferðafræði hans ... ;)

---

Ég óska elskulegum föður mínum til hamingju með afmælið!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leiðinlegt að heyra að æskan hafi verið svona Bobbi en um leið gaman að heyra hversu vel þú hefur unnið úr þessu og að allt sé á stöðugri uppleið.

Það sem drepur mann ekki - styrkir mann!

Bestu kveðjur til ykkar Laugu og Guðrúnar Helgu.

Linda (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 23:22

2 identicon

Enn og aftur til hamingju með daginn!

Já það hefur mikið breyst á þessum 19 árum síðan að við hittumst fyrst,  en fyrir mér ertu og verður alltaf sami Bobbinn, sem betur fer :)

jón smali (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 00:59

3 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Kærar þakkir fyrir kveðjurnar, kæru vinir!

Páll Jakob Líndal, 10.12.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband