Þriðjudagurinn 3. nóvember 2009

Aftur góður dagur ... fyrirlestrarnir tilbúnir ... nú þarf bara að æfa sig og snurfunsa svolítið ...

Hlakka mikið til að flytja boðskapinn á Hvanneyri eftir um hálfan mánuð ... 

Annars er klukkan orðin of margt til að ræða málin af einhverju viti.

En það er óhætt að segja að margir áhugaverðir hlutir bíði manns núna ... veitir ekki af því að spýta í lófana og halda áfram, því betur má ef duga skal!

---

Annars verð ég að láta þess getið að í dag fékk ég tölvupóst, sem varð til þess að ég vöknaði í augum.
Tölvupósturinn var frá fyrrverandi lærisveini mínum hjá fótboltafélaginu Gladesville Ryde Magic.  Þannig var mál með vexti að þegar ég hætti sem þjálfari hjá félaginu, þá sendu margir strákarnir mér tölvupóst og þökkuðu mér fyrir samstarfið.  Mörg bréfin voru sérlega falleg og einlæg, þar sem þeir sögðu að ég hefði hjálpað sér rosalega mikið o.s.frv.

Það voru samt tveir strákar sem sendu mér sérlega hjartnæm bréf, svona vasaklútabréf ... og ég svaraði þeim báðum með löngum og ítarlegum ráðleggingum hvað þeir skyldu leggja áherslu á til að verða góðir fótboltamenn.  Í lokin sagði ég við þá að ég hefði 100% trú á þeim.

Og viti menn ... í dag sendi annar þeirra mér bréf og sagði mér frá framförum sínum, sem voru vægast sagt stórkostlegar.  Endaði hann bréfið á eftirfarandi nótum:

"Mig langaði bara til að segja þér þetta af því að þú hafðir trú á mér.  Ég prentaði út tölvupóstinn sem þú sendir mér í fyrra og ég tek hann með mér hvert sem ég fer og nota hann sem hvatningu þegar ég þarf á því að halda.  Ég mun aldrei gleyma því sem þú hefur gert fyrir mig."

Ég hef aldrei upplifað þessa tilfinningu fyrr sem ég upplifði þarna ... en hún var mergjuð ... 

16 ára strákur með stóra drauma og eitt lítið email frá mér "meikar difference" ... ég er sannfærður, eins og ég hef raunar alltaf verið, að þessi drengur á eftir ná langt.

"Hugsaðu ekki hvað land og þjóð getur gert fyrir þig - hugsaðu hvað þú getur gert fyrir land og þjóð!" - þessi frasi fékk nýja merkingu hjá mér í dag í kjölfar þessa tölvupósts ... 

---

Guddan gerði það gott í morgun á leikskólanum.  Þegar hún átti að kveðja mig, þá gekk hún til mín og vildi láta taka sig upp.  Þegar því var lokið veifaði hún samviskusamlega til leikskólakennarans ... 

... greinilega ofurlítill grundvallarmisskilningur þarna á ferðinni ;) .

Svo tók hún upp á því að pissa bæði á eldhúsgólfið og í stofuteppið ... með mjög stuttu millibili.  Það atvikaðist þannig að hún fékk þriggja mínútna bleyjuhlé.  Ekki lengi að "markera" sér svæði.

Alveg dásamleg!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband