Mánudagsmetall III - Fyrsti dagurinn í leikskólanum

Þetta var stóri dagurinn ... fyrsti dagur dótturinnar í leikskólanum.

Hún var mjög hress í morgun þegar hún vaknaði, og svaraði engu þegar hún var spurð hvort hún væri spennt.
Eftir hafragrautinn, var hún drifin í peysu og regngalla, því þessa dagana gerir lítið annað en að rigna ... en það er svo sem í lagi mín vegna.

Tilbúin að fara í leikskólann í fyrsta skipti by you.
Fremur óskýr mynd af "leikskólafaranum" árla morguns, þegar við vorum orðin of seint ... eins og alltaf!!

Við fengum góðar móttökur þegar við gengum inn í Alexina Förskola ... var heilsað með pompi og prakt.  Sú stutta beið ekki boðanna, óð inn tók til við að leika sér.  Lítil feimni þar á ferðinni.

Allt gekk þetta nú bara vel ... Guddan var afar örlát á dótið sem hún lék sér með, gaf kubba til hægri og vinstri, stóð síðan upp og hljóp eina salibunu á mottunum lagðar höfðu verið á gólfið ... einmitt í þeim tilgangi að hlaupa á þeim.  Svo settist hún aftur, og gaf fleiri kubba ... og svo koll af kolli.

Það kom þó að þeim tímapunkti að sú litla gerðist heldur stórtæk og ruddist í gegnum kubbaborg sem einn snillingurinn var búinn að byggja með töluverðri fyrirhöfn.  Sá var nú ekki par hrifinn og stjakaði við þeirri stuttu. 

Guddan átti sér einskis ills von, datt beint á botninn og súrnaði gamanið skyndilega.  En það lagaðist þó fljótt, en þá tók ekki betra við. 
Aðdragandi þess var að GHPL varð endilega að fá "eitt dót", sem annar var með (var sumsé að rífa af leikfélaga sínum eins og það heitir víst).  Sá brást ókvæða við og ýtti frökeninni allhastarlega.  Hún ýtti á móti, en var þá slegin í andlitið.  Súrnaði þá gamanið á nýjan leik.

Aftur rjáltaðist sorgin af þeirri stuttu og hún tók einn hlaupatúr yfir allar motturnar ... og nálgðist dyr í hinum enda herbergisins.  Ekki vildi betur til en dyrnar voru opnaðar samtímis.  Ennið rakst í hurðina og Sydney Houdini datt beint á rassinn.  Ekki var hrifiningin mikil og nú var komin kúla á ennið í ofanálag ... nokkra stund tók að settla málið.

Enn og aftur var reynt fyrir sér ... en þá var ýtt í bakið á henni þannig að hún datt framfyrir sig og ennið í gólfið ... á nákvæmlega sama stað og hurðin hafði lent á skömmu áður ...

... og var dömunni allri lokið ... og kom til föðursins sem sat skammt frá og hafði fylgst með öllu saman ...

Frekari tilraunir voru reyndar ... en sú stutta var orðin hvupinn þannig að lítið þurfti til að hún færi að gráta, og var síðasti hluti fyrsta leikskóladagsins allharmþrungin stund.  Reynt var af alefli að taka þátt en hjartað var orðið lítið eftir allar ófarirnar ...

Eftir tveggja tíma dvöl var farið heim ...

Eftir fyrsta skóladaginn by you.
Reynslunni ríkari ... eftir fyrsta skóladaginn

... þar sem Guddan sofnaði úti vagni á mettíma eftir ævintýri morgunsins.

Síðan hún vaknaði hefur hún hinsvegar verið með allra hressasta móti ... fór niður á spítala með mömmu sinni að setja upp eyrnalokkasýningu ... og fékk mikið hól fyrir hversu þæg hún væri ... ekki amalegt það.

Taktar by you.

---

Frá mínum bæjardyrum séð var þessi morgun svolítið erfiður ... það er greinilegt að stelpuskottið á í mér hvert bein og mikið lifandis var það erfitt að fylgjast með öllum þessum óförum og sjá hvernig sjálfstraustið fór þverrandi eftir því sem leið á morguninn.  Sjálfur var ég orðinn hálfmeir af þessari "hörku" ... en þetta er nú víst bara lífið ...

... menn og konur verða að kunna að berja frá sér ef svo ber undir ... og það verður litla stelpan mín að læra, þó það geti verið erfitt ... 

... en auðvitað eru það viðbrigði að fara úr umhverfi þar sem allt snýst um mann, í þennan frumskóg þar sem hver verður að "berjast fyrir tilveru sinni" ...

Sjáum til hvernig gengur á morgun ... þá verður 5 tíma törn ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æ, ég held að þetta taki oft meira á foreldrana en börnin. Mér fannst þetta alltaf frekar erfitt - aðlögun dagmamma / aðlögun leikskóli x 2.

Þetta vandist eiginlega ekki sko.....en gangi ykkur rosalega vel!

Linda Margrét Sigfúsdóttir (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 22:20

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Gott að fá þetta komment Linda ... ég var farinn að halda að ég væri einhver algjör auli :) .

Páll Jakob Líndal, 21.10.2009 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband